Austurríki

Land í Mið-Evrópu
(Endurbeint frá Austuríki)

Austurríki (þýska: Österreich) er landlukt land í Mið-Evrópu í Austur-Ölpunum. Hálendi Alpafjallanna einkennir landslag Austurríkis en í norðri og suðri eru Bæheimsskógur og Pannóníska sléttan. Landið er sambandslýðveldi níu sambandsríkja. Höfuðborg þess er Vín. Austurríki á landamæri að Þýskalandi í norðvestri, Tékklandi í norðri, Slóvakíu í norðaustri, Ungverjalandi í austri, Slóveníu og Ítalíu í suðri, og Sviss og Liechtenstein í vestri. Landið er tæplega 84 þúsund ferkílómetrar að stærð og þar búa um 9 milljónir.[1]

Lýðveldið Austurríki
Republik Österreich
Fáni Austurríkis Skjaldarmerki Austurríkis
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Land der Berge, Land am Strome
Staðsetning Austurríkis
Höfuðborg Vín
Opinbert tungumál þýska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Alexander Van der Bellen
Kanslari Karl Nehammer
Sjálfstæði
 • Ríkisstofnun 27. júlí 1955 
Evrópusambandsaðild 1. janúar 1995
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
113. sæti
83.879 km²
0,84
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
97. sæti
8.935.112
106/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 461,432 millj. dala (42. sæti)
 • Á mann 51.936 dalir (15. sæti)
VÞL (2019) 0.922 (18. sæti)
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .at
Landsnúmer +43

Landið varð til undir lok fyrsta árþúsundsins úr landsvæðunum Pannóníumörk og Ungversku mörk innan Heilaga rómverska ríkisins. Upphaflega var landið markgreifadæmi sem heyrði undir Bæjaraland. Árið 1156 var landið gert að hertogadæmi og árið 1453 að erkihertogadæmi. Á 16. öld varð Vínarborg höfuðborg keisaradæmisins og Austurríki varð þannig heimaland Habsborgara (sem upprunalega voru frá Sviss). Eftir upplausn Heilaga rómverska ríkisins 1806 gerðist Austurríki sjálft keisaradæmi. Þetta ríki varð stórveldi í Evrópu og leiðandi innan Þýska sambandsins. Eftir ósigur í stríði Prússlands og Austurríkis 1866 var sambandið leyst upp og Austurríki-Ungverjaland varð til.

Eftir morðið á Franz Ferdinand erkihertoga árið 1914, lýsti Frans Jósef keisari Serbíu stríði á hendur sem þróaðist síðan út í fyrri heimsstyrjöld. Ósigur keisaradæmisins og upplausn í kjölfarið varð til þess að Austurríki varð lýðveldi árið 1919. Á millistríðsárunum fór andstaða við þingræði vaxandi og lyktaði með valdatöku fasista undir stjórn Engelbert Dollfuss 1934. Ári áður en síðari heimsstyrjöld braust út var landið innlimað í Þriðja ríkið. Eftir frelsun Austurríkis 1945 tók við langt hernámstímabil bandamanna. Landið fékk aftur sjálfstæði árið 1955.

Austurríki býr við þingræði og fulltrúalýðræði með forseta sem kosinn er í almennum kosningum og kanslara sem stjórnarleiðtoga. Helstu borgir landsins fyrir utan Vín eru Graz, Linz, Salzburg og Innsbruck. Austurríki hefur lengi verið eitt af ríkustu löndum heims miðað við landsframleiðslu á mann og var í 18. sæti lífsgæðavísitölunnar árið 2019.

Austurríki hefur verið aðili að Sameinuðu þjóðunum frá 1955 og Evrópusambandinu frá 1995. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Samtök olíuframleiðsluríkja eru með höfuðstöðvar í Vín. Austurríki er stofnaðili að Efnahags- og framfarastofnuninni og Interpol. Landið undirritaði Schengen-samkomulagið 1995 og tók upp evruna 1999.

Austurríki hefur í gegnum aldirnar verið nefnt nokkrum nöfnum. Allt til 8. aldar hét það Marchia Orientalis, þ.e. Austurmörk (Ostmark).[2] Landið var í austur frá hinu forna Frankaríki Karlamagnúsar. Orðið „mörk“ var gjarnan notað yfir landsvæði á jaðri ríkis (sbr. Mark Brandenburg, Danmörk og svo framvegis).

Í í skjali Ottós 2. keisara frá 976 nefnir hann héraðið Ostarichi, sem bókstaflega merkir „ríkið í austri“ (Austurríki), enda var það í austur frá þýska ríkinu.[3][4] Þetta er heitið sem festist í norðurgermönskum málum (til dæmis íslensku og dönsku). Þaðan kemur einnig franska heitið en í bjagaðri mynd (Autriche). Úr Ostarichi varð til þýska heitið Österreich, enda hefur það sömu merkingu.

Á latínu fékk landið nafnið Austria frá 12. öld, en latína var diplómata- og fræðimál Evrópu allt til siðaskipta. Ýmis mál hafa tekið upp þetta heiti, svo sem enska, ítalska, spænska og gríska.

Nokkur önnur heiti hafa verið notuð en þau voru öll skammlíf. Þar má nefna Ostland (Austurland), Osterland og fleiri.

Saga Austurríkis

breyta

Landnám

breyta

Til forna lögðu Rómverjar undir sig langmestan hluta Austurríkis. Aðeins nyrsti hlutinn, norðan Dónár, tilheyrði Germönum. Við endalok Rómaveldis óðu Vestgotar, Austgotar og Alemannar yfir landið en enginn þessara þjóðflokka settist þar að. Á sjöttu öld fluttu Bæverjar til landsins úr norðri en Alemannar settust að vestast í Vorarlberg. Eftir það fluttu Slavar einnig í einhverjum mæli til landsins úr austri. Árið 600 stofnuðu Slavar fyrsta sjálfstæða slavaríkið í Evrópu (Karantanía) en það náði inn í suðurhluta núverandi Austurríkis (Kärnten og Steiermark). Þetta ríki liðaðist sundur á 8. öld og varð loks hluti hins mikla Frankaríkis. Á tímum Karlamagnúsar hófst landnám Germana á þessum slóðum, en Ungverjar eyðilögðu það jafnharðan. Eftir að Ottó I keisari vann lokasigur á Ungverjum árið 955, hófst nýtt landnám Bæverja sem komu nú frá Bæjaralandi í vestri. Árið 976 hlaut Leopold frá Bæjaralandi, af ættinni Babenberg, allt svæðið að léni frá Ottó III keisara. Það var þá kallað Ostarichi, sem seinna breyttist í Österreich. Austurríki féll því undir stjórn Bæjaralands en bæði löndin voru greifadæmi í hinu heilaga rómverska keisaradæmi.

Uppgangur Habsborgara

breyta

Á tímum Babenberg-ættarinnar var landið rutt og þar myndaðist heildstætt samfélag. Babenberg-ættin réð einnig Bæjaralandi og voru bæði greifadæmin undir sömu stjórn. En 1156 aðskildi Friðrik Barbarossa keisari bæði löndin og breytti Austurríki í hertogadæmi. Með þessum gjörningi hófst saga Austurríkis sem eigið landsvæði innan hins heilaga rómverska keisaradæmis, enda var það þá laustengt sambandsveldi margra hertogadæma. Fyrsti hertoginn hét Hinrik, með viðurnefnið Jasormimgott. Hann gerði borgina Vín að aðsetri sínu, en síðan þá hefur Vín verið höfuðstaður Austurríkis. Á tíma Hinriks hertoga varð Steiermark hluti af Austurríki en einnig landsvæði sem í dag eru hluti af Slóveníu. Þegar Friðrik II hertogi féll í orrustu 1246, dó Babenberg-ættin út. Þá hófst valdabarátta um héraðið, sem var nokkurn veginn stjórnlaust næsta áratuginn. Ottókar II, konungur Bæheims, náði völdum 1256 en hann féll í orrustu 1278 gegn Rúdolf af Habsborg. Þar með náði Habsborgarættin völdum í Austurríki sem ríkjandi hertogar og héldu þeim í 640 ár, allt til 1918.

Erkihertogadæmið

breyta

Árið 1335 féll Kärnten í hendur Habsborgara og 1363 Týról. Þar með var Austurríki orðið að stóru hertogadæmi og náði vel út yfir núverandi landmæri. Þetta þótti þá vera allstórt svæði og 1379 var hertogadæminu skipt upp í þrjá hluta.

  • Neðra-Austurríki (Ober – og Niederösterreich)
  • Innra-Austurríki (Steiermark, Kärnten, Krain, Istría og Tríest)
  • Austurríki nær (Týról og Vorarlberg, ásamt löndum í Elsass og Württemberg)

Þetta leiddi til mikilla erja á allri 15. öldinni, enda voru erfingjarnir margir og löndin góð. Austurríki sameinaðist ekki aftur fyrr en 1493 er Friðrik V. hertogi erfði alla hlutana. Friðrik var kjörinn keisari hins heilaga rómverska keisaradæmis á miðri 15. öld. Nokkrir hertogar Habsborgara höfðu áður verið kjörnir konungar og keisarar hins heilaga rómverska keisaradæmiss en með Friðrik, sem kallaðist Friðrik III, myndaðist nær óbrotin lína Habsborgara sem konungar og keisarar hins heilaga rómverska keisaradæmis, allt til upplausnar þess 1806. Friðrik hóf Austurríki upp sem erkihertogadæmi innan ríkisins strax árið eftir kjör sitt sem konungur. Þannig stóð erkihertogadæmið Austurríki jafnfætis við kjörfurstadæmin, með þeirri undantekningu að erkihertoginn hafði ekki kjörgengi í konungskjöri. Sem erkihertogadæmi varð Austurríki hins vegar sjálfstætt ríki í ríkinu.

Stórveldi

breyta

1477 kvæntist hertoginn Maximilian Maríu frá Búrgund. Maximilian varð síðan keisari 1493 og erfði Habsborg því Búrgúnd. Eftir að sonur hans, Filippus, kvæntist Jóhönnu af Kastilíu og Aragon, 1496, eignaðist Habsborgarveldið Spán og þar með nýju löndin í Ameríku en einnig Napólíríkið, Sikiley og Sardiníu. Þegar Karl V. varð keisari 1519 stóð Habsborg á hátindi veldis síns. Austurríki var hluti af stórveldi. Karl V. hafði þó ekki mikinn áhuga á að hafa ríkið áfram á einni hendi. Strax 1521 skildi hann Austurríki frá og gaf það bróður sínum, Ferdinand I. Síðar gaf hann syni sínum Spán (ásamt Niðurlöndum og Ameríku). 1526 töpuðu Ungverjar orrustu við Ósmanna (Tyrki) og erfði Ferdinand þá Ungverjaland og Bæheim, ásamt Mæri, Sílesíu og Lausitz. Hins vegar varð Ferdinand í staðinn að fást við Tyrki. Árið 1538 var konungsríkinu Ungverjalandi skipt í þrennt:

  • Meginhluti landsins hélst undir krúnu Austurríkis
  • Austurhluti landsins féll í hendur Tyrkjum
  • Siebenbürgen (í Rúmeníu) stjórnuðu ungverskir aðalsmenn, utan áhrifasvæðis Austurríkis

Árið 1556 sagði Karl V. af sér og settist í helgan stein. Þar með skiptist Habsborg í tvær nýjar ættir, spænsku ættin og austurrísku ættina. Allir keisarar hins heilaga rómverska keisaradæmis eftir þetta voru af austurrísku ættinni.

Siðaskipti og Tyrkjaógnin

breyta
 
Tyrkir sitja um Vín 1529

Þegar siðaskiptin hófust snemma á 16. öld fór nýja trúin eins og eldur í sinu um gjörvallt Austurríki. Aðallinn og keisarinn viðhéldu kaþólskunni en ekki kom til átaka eða uppþota í ríkinu. Ef til vill átti óttinn við Tyrki einhvern þátt í því að þjappa íbúum Austurríkis saman. 1529 voru Tyrkir komnir að borgarmörkum Vínar.

Þann 27. september hófu þeir umsátur um borgina undir forystu soldánsins Súlíman I. Íbúar Vínar voru skelfingu lostnir. Margir íbúar Vínar flúðu en á hinn bóginn tókst nokkur þúsund hermönnum hins heilaga rómverska keisaradæmis og Spánar að komast til borgarinnar áður en umsáturshringurinn lokaðist. Tyrkir voru hins vegar með nær 250 þúsund manna lið. Eftir nokkra bardaga ákvað Súlíman að hætta umsátrinu sökum versnandi veðurs en vetur var í nánd og birgðaflutningar erfiðir. Þann 14. október hurfu Tyrkir úr landi. Þeir birtust aftur 1532 en þá hafði Karli V. tekist að safna miklu liði. Súlíman réðist því ekki á Vín, heldur rændi og ruplaði í Steiermark og hvarf á braut á ný.

Árið 1600 hóf kaþólska kirkjan gagnsiðbótina í Austurríki, heldur seinna en víða annars staðar í þýska ríkinu. Gagnsiðbótin var hins vegar mjög grimmileg og árangurinn eftir því. Á skömmum tíma tókst að snúa meirihluta íbúa Austurríkis til kaþólsku á ný. Þar af leiðandi tók landið þátt í 30 ára stríðinu og barðist með Bæjurum gegn siðaskiptamönnum og gegn Svíum.

Síðara umsátur Tyrkja

breyta
 
Orrustan um Vín

1683 birtust Tyrkir aftur við borgardyr Vínar. Að þessu sinni undir forystu stórvesírsins Kara Mústafa. 14. júlí var umsáturshringur lagður um borgina. Meðan Vín var þannig einangruð frá umheiminum, lögðu Tyrkir nágrenni borgarinnar í rúst, sem og Neðra-Austurríki. Mörgum borgum var eytt og íbúar þeirra stráfelldir. Þrátt fyrir ákafar árásir á Vín náðu Tyrkir ekki að komast inn fyrir borgarmúrana. Í ágúst hafði Leopold I. keisari safnað nægu liði til að þramma til Vínar. Með í för voru hermenn frá Bæjaralandi, Frankalandi, Saxlandi, Sváfalandi og Feneyjum. Einnig mætti pólskur her til Vínar. Sobieski konungur var aðalherstjórnandi kristna hersins.

Þann 12. september hófst stórorrusta við Tyrki í Kahlenberg við Vín. Meðan sú orrusta stóð yfir gerði herinn í Vínarborg útrás og réðst á Tyrki. Eftir tólf tíma bardaga létu Tyrkir undan síga og flúðu af vettvangi. Vín var þannig bjargað, en reyndar er talið að þessi sigur á Tyrkjum hafi bjargað Austurríki öllu. Í kjölfarið voru háðar tvær styrjaldir við Tyrki á Balkanskaga. Hin fyrri fór fram 1683-1699 en í henni var Evgen prins af Savoy mjög sigursæll. Austurríki vann þá lönd á Balkanskaga þar sem í dag eru hlutar Slóveníu og Króatíu.

Spænska og austurríska erfðastríðin

breyta
 
María Teresa. Málverk eftir Martin van Meytens.

Árið 1701 hófst spænska erfðastríðið. Ýmsir gerðu tilkall til spænsku krúnunnar við andlát Karls II. konungs, en hann var síðasti erfingi spænsku Habsborgaranna. Jósef I. keisari gerði tilkall til krúnunnar fyrir hönd Austurríkis, en eftir mikla bardaga hlaut Filippus V. frá Frakklandi hnossið. Stríðinu lauk með friðarsáttmálanum í Utrecht 1713. Eftir fleiri Tyrkjastríð 1714-18 lagði Austurríki undir sig landsvæði í norðurhluta Bosníu og Serbíu og nokkur fleiri.

Habsborgaraveldið náði því mestri útbreiðslu sinni eftir að Spánn var skilinn frá. Árið 1711 tók Karl VI. við sem keisari hins heilaga rómverska keisaradæmis. Honum var strax ljóst að hann yrði síðasti Habsborgarinn í karllegg og hafði áhyggjur af framtíð Austurríkis og hins heilaga rómverska keisaradæmis. Því bjó hann til nýja stjórnarskrá fyrir keisaradæmið, en í henni kvað svo á að keisaraembættið mætti erfast til dætra í Austurríki. Karl lést 1740. Sökum þess að engin önnur lönd innan hins heilaga rómverska keisaradæmis, né heldur kjörfurstarnir, viðurkenndu stjórnarskrá Karls VI um erfðir kvenna, braust út stríð um krúnu Austurríkis og hins heilaga rómverska keisaradæmis.

Friðrik mikli Prússakonungur réðst inn í Sílesíu og hertók landsvæðið. Hann gerði bandalag við kjörfurstann af Bæjaralandi, sem í kjölfarið var kjörinn keisari hins heilaga rómverska keisaradæmis sem Karl VII. Prússar, Bæjarar og Frakkar börðust gegn Austurríki en Englendingar og Hollendingar veittu Austurríkismönnum mikinn stuðning. Karl VII. lést 1745 og þá var leiðin greið fyrir elstu dóttur Karls VI., Maríu Teresu. Hún var krýnd sem erkihertogaynja af Habsborg og drottning Ungverjalands, en eiginmaður hennar, Frans I., var krýndur sem keisari ríkisins. Enn var þó barist í stríðinu til 1748. Sjö ára stríðið 1756-63 breytti engu um Sílesíu eða önnur landamæri Austurríkis.

Evrópumál

breyta

Jósef II. tók við af móður sinni sem erkihertogi af Austurríki 1780. Hann var mjög framfarasinnaður og vildi allt fyrir fólkið gera. 1785 stakk hann upp á því að fá að skipta á austurrísku Niðurlöndum (þ.e. Belgíu) fyrir Bæjaraland, þannig að Bæjaraland og Austurríki myndu sameinast í eitt ríki, en hið heilaga rómverska keisaradæmi hlyti Niðurlönd. Kjörfurstarnir höfnuðu hins vegar tillögunni. Á hinn bóginn tók Jósef þátt í skiptingu Póllands 1772, 1793 og 1795 (ásamt Prússlandi og Rússlandi). Þar fékk Austurríki stóran hluta landsins, allt norður til Varsjár en Pólland þurrkaðist út af landakortinu. Franska byltingin skók Evrópu 1789. Strax árið 1794 hertók franskur byltingarher Niðurlönd Habsborgara (þ.e. Belgíu).

Napoleonsstríðin

breyta

Austurríki tók þátt í bandalaginu gegn Napóleon þegar árið 1799 til að stemma stigu við yfirgangi Frakklands. Þrátt fyrir það stóðu Austurríkismenn einir gegn Napóleon í orrustunni við Marengo og við Hohenlinden árið 1800 og biður ósigur í bæði skiptin. Við það unnu Frakkar lönd við Rínarfljót. Eftir sigur Frakka í þríkeisaraorrustunni miklu við Leipzig 1805 komust þeir til Vínarborgar og tóku borgina. Við það tækifæri missti Austurríki lönd sín á Ítalíu (til dæmis Feneyjar). Frakkar yfirgáfu borgina hins vegar skjótt aftur. Þegar hið heilaga rómverska keisaradæmi var lagt niður 1806 eftir þrýsting frá Napoleon, var Frans II. ríkjandi keisari. Strax á sama ári lýsti hann yfir stofnun keisaradæmis í Austurríki. Segja má að þetta hafi verið stofndagur Austurríkis sem óháðs og frjáls ríkis, þrátt fyrir að nær allir keisarar hins heilaga rómverska keisaradæmis hafi verið af ætt Habsborgara og oftast setið í Vín síðan á 15. öld. Nýja keisaradæmið stóð til 1918.

Aftur var myndað bandalag gegn Napóleon. Austurríki tók hins vegar ekki þátt í neinum orrustum fyrr en 1809. Á því ári biðu þeir ósigur fyrir Napóleon í orrustunum við Abensberg, Eggmühl og Regensburg. Austurríski herinn flúði til Bæheims og Napóleon þrammaði til Vínar. Frakkar skutu á borgina og hertóku hana í einni svipan í maí. Við svo búið sneri austurríski herinn aftur frá Bæheimi. Í orrustunni við Aspern (nálægt Vín) sigruðu Austurríkismenn og hröktu Frakka burt úr landinu á næstu mánuðum. Þetta var fyrsti stóri ósigur Napóleons á ferli sínum. Fyrir vikið hélt Austurríki sjálfstæði sínu. 1813 dró til þjóðarorrustunnar miklu við Leipzig. Þar mættust Frakkar og Bandamenn (Austurríki, Prússland, Rússland og Svíþjóð). Orrustan stóð yfir í þrjá heila daga og lauk með ósigri Napóleons. Þetta var síðasta orrusta Austurríkismanna gegn honum. Þeir komu ekki við sögu við lokaósigur Napóleons í orrustunni við Waterloo.

Vínarfundurinn

breyta
 
Metternich fursti

Eftir fall Napóleons var nauðsynlegt að skipa ríkjum og landamærum í Evrópu upp á nýtt. Haldin var viðamikil ráðstefna í Vín að boði Frans I. keisara, en fundarstjóri var utanríkisráðherra landsins, Metternich fursti. Ráðstefnan hófst 18. september 1814 og kallast Vínarfundurinn (þ. Wiener Kongress). Allir helstu leiðtogar í Evrópu sóttu ráðstefnuna, sér í lagi frá Rússlandi, Bretlandi, Austurríki, Prússlandi, Frakklandi, Kirkjuríkinu og mörgum öðrum smærri ríkjum. Vín var næsta árið pólitísk þungamiðja Evrópu. Viðræður og samningar gengu hægt. Á vormánuðum 1815 strauk Napóleon úr útlegð frá Elbu og safnaði liði á ný. Komst þá skriður á samninga og lauk ráðstefnunni 9. júní. Aðeins níu dögum síðar, 18. júní, var Napóleon sigraður á ný í stórorrustunni við Waterloo. Fyrir Austurríki hafði ráðstefnan mikil áhrif. Landið missti Niðurlönd og eignir við ofanvert Rínarfljót. Á hinn bóginn fékk Austurríki að halda Galisíu (suðurhluti Póllands). Landið fékk auk þess Illyríu og Salzburg. Austurríki varð eftir sem áður stórveldi í Evrópu. Eitt það síðasta sem Vínarfundurinn gerði var að stofna þýska sambandið úr leifum þýskra furstadæma, hertogadæma og konungsríkja. Austurríki varð leiðandi afl í þessu nýja ríkinu en stóð samt fyrir utan það sem eigið keisaraveldi. Austurríki stóð til að mynda utan við tollabandalag nýja ríkisins. Bismarck leysti þetta þýska samband upp árið 1866.

Byltingar

breyta

Samhliða aukinni iðnvæðingu og fjölgun í röðum nýrrar verkamannastéttar jukust stjórnmálaleg átök í Austurríki. Þetta var einnig tími þjóðernishyggju. Um miðja 19. öldina voru mótmælin í hámarki en sökum þess að Austurríki var fjölþjóðaríki, náðu mótmælendur ekki að skipuleggja sig eins vel og víða annars staðar. Á byltingarárinu 1848 kom til víðtækra mótmælaaðgerða, en þær voru allar barðar niður. Á hinn bóginn sá keisari að friða þurfti lýðinn. Því var Metternich fursti rekinn úr embætti, enda var hann mjög íhaldssamur á gamla kerfið og mikill harðlínumaður.

Þann 22. júlí fundaði fyrsta austurríska þingið í nútíma-formi í Vín. Ekkert þinghús var til staðar og því var fundað í reiðskóla til að byrja með. Þótt tekist hefði að friða íbúa móðurlandsins í bili, braust út bylting í öðrum hlutum ríkisins. Á Norður-Ítalíu barði herinn niður byltingu. Í Ungverjalandi var vilji til að losna frá Austurríki og dreginn saman mikill her. Austurríski herinn neitaði hins vegar að fara austur og því lýstu Ungverjar sig úr sambandi við keisarann. Íbúar Vínar studdu yfirmenn hersins og gerð var aðför að keisara og ríkisstjórn, sem yfirgáfu borgina og flúðu til borgarinnar Olomouc í Mæri (Tékklandi). Þar sagði Ferdinand I. keisari af sér en frændi hans, Frans Jósef, tók við sem nýr keisari. Keisarasinnar söfnuðu liði og hófu gagnbyltingu. 1. nóvember hertóku þeir Vín í miklum bardögum þar sem 2000 manns týndu lífi. 24 leiðtogar byltingarmanna voru teknir af lífi. Þar með var endir bundinn á byltinguna. Aðeins með aðstoð Rússa tókst að vinna Ungverjaland á ný. Eftir þetta tók Frans Jósef I. keisari sér nánast einræðisvald.

Ítalía og þýska stríðið

breyta

Árið 1859 hófu Ítalir, undir forystu Garibaldis, að sameina sjálfstæð lönd og greifadæmi á Ítalíuskaga. Þeir sigruðu Austurríki í orrustunni við Solferino og Magenta. Við tapið missti Austurríki nokkur lönd, svo sem Langbarðaland. Ítalía varð svo sjáfstætt konungsríki 1861. Einnig varð mikill órói í þýska sambandinu. Austurríki var ávallt leiðandi afl í því, þar til Bismarck komst til valda í Prússlandi. Þegar Bismarck hertók Slésvík og Holtsetaland, deildi hann yfirráðum þessara héraða með Austurríki. Prússland réði yfir Slésvík en Austurríki yfir Holtsetalandi. Þegar Bismarck síðan hertók Holtsetaland 1866 sagði Austurríki Prússlandi stríð á hendur. 3. júlí það ár var barist við Königgrätz í Bæheimi. Við hlið Austurríkis börðust Saxar, Bæjarar og nokkur önnur þýsk héruð, sem einnig vildu stöðva framgang Prússlands. Prússar sigruðu hins vegar í orrustunni og urðu leiðandi afl í Þýskalandi. Þýska sambandið var lagt niður. Aðeins fimm árum síðar varð Prússland keisaraveldi og hafði þá sameinað mestan hluta Þýskalands. Austurríki var ekki með í því keisaraveldi. Þar með hafði Austurríki misst bæði lönd, völd og virðingu, þrátt fyrir að vera enn eigið keisararíki. Frans Jósef I. var niðurlægður. Ári síðar stofnaði hann austurríska-ungverska sambandsríkið og var krýndur konungur Ungverjalands 8. júní 1867. Eftir það var Ungverjaland ekki lengur hluti af keisaradæminu. Hins vegar tilheyrðu Bæheimur, Mæri, Galisía, vesturhluti Rúmeníu, Slóvenía og Króatía keisaradæminu.

Serbíukrísan

breyta
 
Morðið á krónprinsinum Frans Ferdinand og eiginkonu hans

1878 hertók Austurríki alla Bosníu og Hersegóvínu, en þau lönd höfðu tilheyrt Tyrkjum. 1908 voru þau innlimuð Austurríki. Meðan Frans Jósef keisari reyndi að meðhöndla þegna sína hvarvetna í ríkinu á grundvelli jafnréttis, leyndi ríkisarfinn, Frans Ferdinand, ekki skoðunum sínum um að Slavar og Ungverjar væru annars flokks þegnar. 1914 heimsóttu hann og eiginkona hans borgina Sarajevó í Bosníu. Mörgum þjóðernissinnum þar í borg, sem vildu sameina Suður-Slava í eitt ríki, fannst heimsókn þessi ögrun og þegar Frans Ferdinand og kona hans óku gegnum Sarajevó þann 28. júní skaut Gavrilo Princip, serbneskur þjóðernissinni, þau til bana Austurríkismenn urðu æfir. Stjórnin kenndi ríkisstjórn Serbíu um verknaðinn. 23. júlí setti Austurríki stjórn Serbíu úrslitakosti sem þeir síðarnefndu gátu ekki uppfyllt að öllu leyti. Eftir að keisari Þýskalands hafði staðfest stuðning við Austurríki, lýsti Austurríki stríði á hendur Serbum 28. júlí. Þar með hófst heimsstyrjöldin fyrri.

Heimstyrjöld

breyta
 
Karl I var síðasti keisari Austurríkis

Austurríki reið ekki feitum hesti frá hernaði sínum í styrjöldinni. Þeir börðust aðallega í Galisíu (núverandi Póllandi), við landamærin að Ítalíu og á Balkanskaga. Rússar náðu að hrekja Austurríkismenn og Þjóðverja burt úr Galisíu. Á Balkanskaga voru Serbar mjög aðgangsharðir og hröktu Austurríkismenn burt. Það var einungis á landamærum Ítalíu sem Austurríkismönnum tókst að halda stöðu sinni. Árið 1916 lést Frans Jósef I. keisari og við tók Karl I. Hann kallaði saman ríkisráðið, sem tjáði honum hugmyndir sínar um framtíð Austurríkis. Ungverjaland og Balkanskagi voru ekki hluti af þeim hugmyndum og því ljóst fyrir stríðslok að Austurríki myndi brátt líða undir lok sem fjölþjóðaríki. Karl hvatti því hinar ýmsu þjóðir ríkisins til að mynda eigin stjórn, sem myndi lúta stjórninni í Vín. Þjóðirnar settu sér sínar eigin stjórnir, en hugðust hins vegar lýsa yfir sjálfstæði. Í stríðslok lágu Þýskaland og Austurríki efnahagslega í rústum. Því tók þjóðarráð Austurríkis til bragðs að mynda nýja stjórn, í október 1918, án aðkomu Karls I. keisara. 11. nóvember leysti Karl því keisara- og konungdæmið Austurríki-Ungverjaland upp og 12. nóvember var lýðveldið Austurríki formlega stofnað. Karl sagði hins vegar ekki af sér sem keisari. Því voru honum gefin þau tilmæli að segja af sér eða yfirgefa landið ella. Í mars 1919 yfirgaf Karl landið og í apríl voru gömlu Habsborgarlögin numin úr gildi. Í uppgjöri stríðsins missti Austurríki öll sín slavnesku landsvæði. Galisía varð að hluta Póllands. Bæheimur og Mæri að vesturhluta Tékkóslóvakíu. Slóvenía, Illyría og Bosnía og Hersegóvína urðu að vesturhluta Júgóslavíu. Suðurhluta Týról hertók Ítalía. Ungverjaland varð sjálfstætt ríki. Þar með varð Austurríki minna en það er í dag (Burgenland var enn hluti Ungverjalands) og hafði aldrei verið minna í sögu Habsborgarveldisins.

Fyrsta lýðveldið

breyta

Við stofnun lýðveldisins trúðu fáir á bjarta framtíð landsins. Margir lærðir menn töldu að móðurlandið eitt sér væri of lítið til að brauðfæða íbúana. Auk þess var landið efnahagslega í rúst. Upp kom sú hugmynd að Austurríki sameinaðist Weimar-lýðveldinu en Bandamenn lögðu blátt bann við öllu slíku. Salzburg sótti formlega um inngöngu í Þýskaland, óháð stjórninni í Vín, en Weimar-lýðveldið hafnaði því. Vorarlberg sótti um inngöngu í Sviss og við atkvæðagreiðslu vildu 80% íbúanna verða að kantónu í Sviss. Bæði Svisslendingar og Bandamenn höfnuðu því hins vegar. Í syðstu sýslum Kärnten greiddu íbúarnir einnig atkvæði um sameiningu við Slóveníu (og/eða Júgóslavíu), en niðurstaðan var sú að vera áfram í Austurríki. 1921 var ákveðið að stofna nýtt ríki í vestasta hluta Ungverjalands. Við atkvæðagreiðslu vildi mikill meirihluti íbúanna hins vegar sameiningu við Austurríki og því varð svo. Svæðið hlaut heitið Burgenland og er fámennasta sambandsland Austurríkis.

Til að rétta af fjárhag landsins var gamla krónan lögð niður árið 1924 og tekinn upp skildingur (Schilling). Sú litla efnahagsuppsveifla sem orðið hafði varð þó að engu 1929 þegar heimskreppan skall á. Austurríki lifði á lánum. Til að mynda lánaði Þjóðabandalagið landinu 300 milljónir skildinga gegn því að landið sameinaðist ekki Weimar-lýðveldinu næstu 20 árin. 1933 var þriðjungur Austurríkismanna atvinnulaus. 1932 komst kristilegi sósíalistinn Engelbert Dollfuss til valda sem kanslari lýðveldisins. Hann varð fyrir áhrifum af fasískum fyrirmyndum á Ítalíu og varð nánast einvaldur. Þann 4. mars leysti hann upp þingið, 7. mars var tekin upp ritskoðun og bann við hópamyndun sett á í landinu. 10. maí voru allar kosningar afnumdar og í framhaldi af því allir stjórnmálaflokkar bannaðir. Í febrúar gerðu íbúar landsins allsherjaruppreisn, þar sem sýnt þótti að Dollfuss kanslari myndi ekki slaka á klónni. Uppreisnin var hins vegar barin niður af mikilli hörku. 1934 var gerð önnur tilraun til byltingar. Í henni varð Dollfuss fyrir skoti og lést af sárum sínum 25. júlí.

Innlimunin

breyta
 
Hitler (í fremsta bílnum) lætur hylla sig í Vín 15. mars 1938

Eftirmaður hans, Kurt Schuschnigg, átti við ramman reip að draga. Mikil óánægja var í Austurríki og þurfti Schuschnigg á aðstoð frá Mussolini og síðar frá Þýskalandi Hitlers að halda. Hitler, sem var sjálfur fæddur í Austurríki, vann að því bak við tjöldin að sameina ríkin, þrátt fyrir bann Þjóðabandalagsins. Schuschnigg kanslari reyndi að forðast slíkar tilraunir og tilkynnti óvænta þjóðarakvæðagreiðslu um frjálst og óháð Austurríki. Atkvæðagreiðslan átti að fara fram 13. mars 1938. 11. mars þrýsti Hitler með hótunum á Miklas forseta að leysa Schuschnigg frá embætti og skipa nasistann Arthur Seyss-Inquart nýjan kanslara. Strax daginn eftir þrammaði þýski herinn inn fyrir landamæri Austurríkis og hertók allar höfuðborgir sambandslandanna. Þann dag tilkynnti Hitler að Þýskaland og Austurríki hefðu sameinast. Ríkisstjórnin var leyst upp. Hitler var nýi valdhafinn í Austurríki og sótti hann Vín heim 15. mars til að láta hylla sig. Samtímis þessu var þegar byrjað að ofsækja gyðinga hvarvetna í landinu og flytja burt. Heimsstyrjöldin síðari hófst í nóvember 1939. Hundruð þúsunda Austurríkismanna voru kallaðir í þýska herinn og urðu þeir að berjast með nasistum. Fyrstu loftárásir á landið voru þó ekki fyrr en í ágúst 1943, sökum fjarlægðar frá flugvöllum bandamanna. Sovétmenn komust til Vínar og eftir harða bardaga við nasista féll borgin 23. apríl 1945. Þar með lauk landið þátttöku sinni í stríðinu. Aðrir bandamenn hernámu Austurríki ekki fyrr en í maíbyrjun.

Hernám og annað lýðveldið

breyta

Eftir stríð skiptu bandamenn Austurríki upp í fjögur hernámssvæði, eins og gert var með Þýskaland.

  • Frakkland: Vorarlberg og vesturhluti Týról
  • Bretland: Austurhluti Týról, Kärnten og Steiermark
  • Bandaríkin: Salzburg og suðurhluti Efra-Austurríkis
  • Sovétríkin: Norðurhluti Efra-Austurríkis, Neðra-Austurríki og Burgenland
 
Austurríki skipt upp í fjögur hernámssvæði

Vín var skipt í fjögur svæði, rétt eins og Berlín. Miðborgin var undir stjórn allra fjögurra herja bandamanna. Aldrei kom til greina að sameina Þýskaland og Austurríki, enda bæði bandamenn og Austurríkismenn ákveðið á móti öllu slíku. Hernámið stóð yfir í tíu ár. 15. maí 1955 hlaut Austurríki sjálfstæði sitt á ný og yfirgáfu þá allir erlendir hermenn landið. Austurríki varð að lýðveldi á ný. Á sama ári lýsti landið yfir hlutleysi. Í framhaldi af því varð mikill efnahagsuppgangur í landinu. Það gekk í Sameinuðu þjóðirnar í desember 1955 og í Evrópuráðið 1956. Margir flóttamenn flúðu til Austurríkis frá Ungverjalandi eftir misheppnaða byltingu þar 1956 og frá Tékklandi eftir vorið í Prag 1968. Þegar járntjaldið féll 1990 opnuðust landamæri landsins til Tékklands, Ungverjalands og Slóveníu. Austurríki var því ekki lengur á jaðarsvæði í Evrópu. Meðan stríðið í Júgóslavíu stóð yfir tók Austurríki við fjölda flóttamanna. Austurríki gekk í Evrópusambandið 1995, en áður hafði það verið stofnmeðlimur að EFTA 1960. Þann 1. janúar 2002 tók evran gildi þar í landi.

Landafræði

breyta

Austurríki er 83.879 km2 að stærð og er því meðalstórt ríki í Evrópu. Það á land að átta öðrum ríkjum: 784 km að Þýskalandi sem liggja að hluta um Bodenvatn, 430 km að Ítalíu, 366 km að Ungverjalandi sem liggja að hluta um Neusiedler See, 362 km að Tékklandi, 330 km að Slóveníu, 164 km að Sviss, 91 km að Slóvakíu og 35 km að Liechtenstein.

 
Alpafjöll og Bæheimsskógur eru dökk á myndinni. Á milli sér í Dónárdalinn mikla og Vínarundirlendið í austri.

Gróflega má skipta Austurríki í fimm landfræðilega hluta: Alpafjöll þekja rúmlega 60% landsins, frá vesturlandamærunum og nær alla leið austur til Vínarborgar. Bæheimsskógur og hæðalandið norðan þeirra liggur að Bæheimi í Tékklandi. Dónárdalurinn mikli nær frá Salzburg og austur eftir landinu. Í austri er Vínarundirlendið og Pannóníska sléttan í suðaustri liggur að Ungverjalandi og Slóveníu. Auk Alpafjalla er Dóná mjög áberandi í landslagi Austurríkis en fljótið rennur í gegnum landið norðanvert frá vestri til austurs

 
Grossglockner er hæsti tindur Austurríkis.

Austurríki er mikið fjallaland. Tveir fjallgarðar eru í landinu. Sá stærri er Alpafjöll en þau liggja nánast eftir endilöngu landinu frá vestri til austurs og ná nærri því til Vínar. Í þeim eru öll hæstu fjöll landsins. Ölpunum í Austurríki er skipt í marga minni fjallgarða. Minni fjallgarðurinn er Bæheimsskógur í norðurhluta landsins, við landamærin að Tékklandi. Hæstu fjöll Austurríkis eru Grossglockner (3.798 m) og Kleinglockner (3.770 m) í Hohe Tauern-fjallgarðinum, Wildspitze (3.772 m) og Weisskugel (3.739 m) í Ötztal-Ölpunum.

Í Austurríki eru tvö lítil svæði, Kleinwalsertal í Vorarlberg og Jungholz í Týról, sem ekki verður með góðu móti komist til frá Austurríki vegna hárra fjalla. Þótt bæði svæðin tilheyri Austurríki eru þau eingöngu aðgengileg frá Þýskalandi.

 
Fjólublátt = Vatnasvið Dónár. Appelsínugult = Vatnasvið Rínar. Grænt = Vatnasvið Saxelfar.

Langstærsti hluti Austurríkis tengist vatnasviði Dónár (um 95%). Vestast í Vorarlberg renna nokkrar ár í Rín. Allra nyrst, við tékknesku landamærin, renna tvær litlar ár til norðurs og tengjast vatnasviði Saxelfar. Stærstu ár Austurríkis fyrir utan Dóná miðað við lengd innanlands eru Inn, Mur, Enns, Salzach, Gurk, Traun og Drau, sem allar eru á vatnasviði Dónár.

Mikið er af vötnum í Austurríki. Tvö þeirra mynda landamæri við önnur ríki: Neusiedler See við Ungverjaland, og Bodenvatn við Þýskaland og Sviss. Önnur stærstu stöðuvötn í Austurríki eru Attersee, Traunsee og Wörthersee. Stærsta uppistöðulón Austurríkis heitir Stauraum Altenwörth og er aðeins 11 km2 að stærð. Það er í Dóná rétt vestan við Vín.

Stjórnmál

breyta

Austurríki er sambandslýðveldi níu sambandsríkja. Austurríska þingið er í tveimur deildum, þjóðarráðinu (Nationalrat) og sambandsráðinu (Bundesrat). Hið fyrrnefnda mynda 183 þingmenn sem kosnir eru í almennum kosningum. Kjörtímabilið er fimm ár. Í sambandsráðinu eru fulltrúar sambandsríkjanna, sem einnig eru þingmenn í hverju sambandsríki fyrir sig. Æðsti yfirmaður þingsins er kanslarinn, sem forseti landsins velur. Kjörtímabil forsetans er sex ár. Forsetinn tilnefnir alla ráðherra en það er kanslarinn sem endanlega velur þá. Hvert sambandsland er með eigið þing (Landtag). Á hverju þingi eru sextán þingmenn sem kosnir eru í almennum kosningum og velja þeir ráðherrana í hverju sambandslandi fyrir sig.

Í Austurríki er herskylda fyrir alla karlmenn og stendur hún yfir í sex mánuði. Í hernum eru að staðaldri 35 þúsund manns en 25 þúsund til viðbótar eru tiltækir. Konur eru ekki herskyldar en engu að síður velkomar. Markmið hersins er að tryggja varnir ríkisins en einnig að aðstoða við hjálparstarf ef náttúruhamfarir valda skaða eða neyðaraðstæður koma upp. Eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk hefur Austurríki ekki tekið þátt í neinum hernaðarátökum. Þó hefur landið sent hermenn til starfa erlendis síðan 1960. Í öllum slíkum tilvikum er um litlar herdeildir að ræða. Stærsta verkefni austurríska hersins var KFOR-verkefnið í Kosóvó 1999 en 436 manns voru sendir þangað.

Sambandslönd

breyta
 
Sambandslönd Austurríkis.

Austurríki er skipt í níu sambandslönd (Bundesland):

Sambandsland Höfuðstaður Flatarmál (km²) Mannfjöldi
Burgenland Eisenstadt 3.961,80 284.897
Efra Austurríki Linz 11.979,91 1.412.640
Kärnten Klagenfurt 9.538,01 558.271
Neðra Austurríki Sankt Pölten 19.186,26 611.981
Salzburg Salzburg 7.156,03 531.721
Steiermark Graz 16.401,04 1.210.614
Tirol Innsbruck 12.640,17 710.048
Vorarlberg Bregenz 2.601,12 372.001
Vín Vín 414,65 1.712.142

Efnahagslíf

breyta
 
Hlutfallsleg skipting útflutningsvara árið 2019.

Austurríki situr oftast hátt á listum yfir lönd eftir landsframleiðslu á mann[5] þar sem landið býr við iðnvætt atvinnulíf og þróað markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Síðustu ár hefur einkavæðing dregið úr ríkisrekstri svo hann er nú svipaður og í öðrum Evrópulöndum. Verkalýðsfélög hafa mikil áhrif á atvinnustefnu og ákvarðanir um stækkun hagkerfisins. Fyrir utan háþróaðan iðnað er ferðaþjónusta mikilvægasta atvinnugreinin.

Helsta viðskiptaland Austurríkis hefur lengi verið Þýskaland, og landið er viðkvæmt fyrir sveiflum í hagkerfi Þýskalands. Síðan Austurríki gerðist aðildarríki Evrópusambandsins hefur það tengst öðrum Evrópulöndum nánari böndum og orðið minna háð Þýskalandi. Aðildin að Evrópusambandinu hefur líka laðað að erlenda fjárfestingu vegna aðgangsins að innri markaði sambandsins og nálægðar við uppgangsmarkaði í Evrópusambandinu. Hagvöxtur náði 3,3% árið 2006.[6] Um 67% af innflutningi Austurríkis er frá öðrum Evrópusambandsríkjum.[7]

 
Austurríki er hluti af evrusvæðinu (dökkblár) og innri markaði Evrópusambandsins.

Þann 16. nóvember 2010 tilkynnti Austurríki að landið hygðist halda eftir sínum hlut í stuðningi Evrópusambandsins við Grikkland, vegna versnandi skuldastöðu Grikkja og meintri vangetu þeirra til að standa við skattheimtu sem hafði verið lofað.[8]

Alþjóðlega fjármálakreppan 2007-2008 hafði ýmis önnur neikvæð áhrif á hagkerfi Austurríkis. Ríkisstjórnin keypti Hypo Alpe-Adria-Bank International fyrir 1 evru eftir skuldavandræði bankans, og þurrkuðu þar með út 1,63 milljarðs dollara eignarhlut bæverska ríkisbankans BayernLB. Staða HGAA var enn óleyst í febrúar 2014[9] og Werner Faymann kanslari varaði við því að gjaldþrot bankans yrði sambærilegt við gjaldþrot Creditanstalt árið 1931.[10]

Frá falli kommúnismans hafa austurrísk fyrirtæki átt mikil viðskipti við lönd í Austur-Evrópu. Milli 1995 og 2010 hafa 4.868 samrunar metnir á samtals 163 milljarða evra með þátttöku austurrískra fyrirtækja verið tilkynntir.[11] Stærstu viðskipti austurrískra fyrirtækja[12] hafa verið: kaup HypoVereinsbank á Bank Austria fyrir 7,8 milljarða evra árið 2000, kaup Volkswagen Group á Porsche Holding Salzburg fyrir 3,6 milljarða árið 2009,[13] og kaup Erste Group á Banca Comercială Română fyrir 3,7 milljarða evra árið 2005.[14]

Ferðaþjónusta stendur undir nær 9% af vergri landsframleiðslu í Austurríki.[15] Árið 2007 var Austurríki í 9. sæti yfir eyðslu erlendra ferðamanna, með 18,9 milljarða dala í tekjur.[16] Landið var í 12. sæti yfir heimsóknir, með 20,8 milljón ferðamenn.[16]

Gjaldmiðill

breyta

Gjaldmiðill Austurríkis er evra. Á árunum 1925-1938 og aftur 1945-1998 hét gjaldmiðillinn skildingur (Schilling). Í einum Schilling voru 100 Groschen. Á árunum 1938-1945 var landið hluti af Þýskalandi og var þýska ríkismarkið þá gjaldmiðill. Skildingurinn átti uppruna sinn í ríki Karlamagnúsar en ýmis lönd hafa notað gjaldmiðil með þessu nafni í gegnum aldirnar, svo sem England (shilling), Þýskaland og Danmörk (Skilling). Árið 1999 tók Austurríki upp evruna, en skildingurinn var í notkun til 28. febrúar 2002.

Íbúar

breyta

Í Austurríki búa um 8,8 milljónir manna á tæplega 84 þúsund km2 svæði. Íbúaþéttleiki landsins er því 100 íbúar á km2. Mikil fjölgun fólks var merkjanleg á tímum iðnbyltingarinnar, þrátt fyrir talsverðar Ameríkuferðir en íbúum fækkaði hratt meðan heimsstyrjaldirnar tvær á 20. öld stóðu yfir. Eftir stríð hefur Austurríkismönnum fjölgað hægt og er fjölgunin í dag ekki nema um 30 þúsund á ári. Fjölgunin er til komin vegna innflutnings erlendra borgara, þar sem fæðingar- og dánartíðni í landinu stenst nokkurn veginn á. Flestir þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir eru frá löndum fyrrverandi Júgóslavíu. Útlendingar í Austurríki eru rúmlega 800 þúsund talsins, þ.e. tæp 10% af íbúafjölda landsins. Í Vín er hlutfallið 20%.

Borgir

breyta

Vín er langstærsta borg landsins með tæplega 1,7 milljónir íbúa. Stórborgarsvæðið er með 2,4 milljón íbúa sem er rúmlega fjórðungur allra íbúa Austurríkis. Stærstu borgir landsins eru:

Röð Borg Íbúar Sambandsland
1 Vín 1.687.271 Vín
2 Graz 253.994 Steiermark
3 Linz 189.122 Efra Austurríki
4 Salzburg 147.732 Salzburg
5 Innsbruck 118.035 Tírol
6 Klagenfurt 93.478 Kärnten
7 Villach 58.949 Kärnten
8 Wels 58.542 Efra Austurríki
9 St. Pölten 51.548 Neðra Austurríki
10 Dornbirn 44.867 Vorarlberg
11 Wiener Neustadt 40.564 Neðra Austurríki
12 Steyr 38.402 Efra Austurríki
13 Feldkirch 30.673 Vorarlberg
14 Bregenz 27.309 Vorarlberg

Tungumál

breyta
 
Við ungversku landamærin eru bæjarheitin rituð á tveimur málum

Í Austurríki er þýska opinbert tungumál. Hér er hins vegar um suðurþýska mállýsku að ræða þannig að framburður og orðaforði eru ekki að öllu leyti eins og í háþýsku. Austurríska mállýskan líkist helst bæversku en hefur þó breyst meira. Við inngöngu Austurríkis í Evrópusambandið var samið um að landið fengi að halda sínum sérstaka orðaforða. Önnur viðurkennd tungumál í Austurríki eru ungverska, slóvenska, burgenlandkróatíska, tékkneska, slóvakíska og rómaní (sígaunar).

Tæplega 75% Austurríkismanna eru kaþólskir. Aðeins 4,6% tilheyra evangelískum kirkjum. Um 340 þúsund manns eru Múhameðstrúar en það eru 4,3% landsmanna. Gyðingar eru 8-10 þúsund. Langflestir þeirra búa í Vín. Tíu þúsund manns eru búddistar. Þeir sem ekki tilheyra neinum trúflokki eru 12% af íbúum landsins.

Menning

breyta

Tónlist

breyta
 
Mozart var eitt þekktasta tónskáld Austurríkis

Margir af þekktustu tónskáldum og tónlistarmönnum klassíska tímans komu frá Austurríki. Þeirra helstu eru Wolfgang Amadeus Mozart, Joseph Haydn, Franz Schubert, Anton Bruckner og Franz Liszt, sem var Ungverji sem fæddist í Burgenland. Auk þeirra fluttu ýmsir aðrir til Vínar til að starfa þar, svo sem Ludwig van Beethoven (fæddist í Bonn).

Sérstakur undirflokkur klassískrar tónlistar nefnast Vínarvalsar og eru þeir heimsþekktir. Helstu valsatónskáldin eru Johann Strauss (bæði faðir og sonur) og Josef Lanner. Fjölmörg óperutónskáld eru frá Austurríki. Þeirra helstu eru Karl Millöcker, Nico Dostal, Franz Suppé, Franz Lehár og Ralph Benatzky. Fáar þekktar hljómsveitir nútímatónlistar eru frá Austurríki. Einn helsti dægurlagasöngvari landsins er Udo Jürgens, sem sigraði í Eurovision 1966.

Aðrir listamenn

breyta

Þekktir austurrískir rithöfundar eru Franz Grillparzer (oft nefndur þjóðskáld Austurríkis), Franz Kafka, Bertha von Suttner (fyrsta konan til að hljóta friðarverðlaun Nóbels), Rainer Maria Rilke, Egon Erwin Kisch, Johannes Mario Simmel og Elfriede Jelinek (Nóbelsverðlaun). Þekktir leikarar og leikkonur frá Austurríki eru meðal annars Romy Schneider, Curd Jürgens, Maximilian Schell, Klaus Maria Brandauer og Arnold Schwarzenegger.

Vísindi

breyta

Þrír Austurríkismenn hafa hlotið Nóbelsverðlaunin í efnafræði, fjórir í eðlisfræði og sex í læknisfræði. Þeirra þekktastir eru kjarneðlisfræðingurinn Wolfgang Pauli og atferlisfræðingurinn Konrad Lorenz. Einn þekktasti sálfræðingur heims var Austurríkismaðurinn Sigmund Freud.

Íþróttir

breyta
 
Niki Lauda er þrefaldur heimsmeistari í Formúlu 1

Þjóðaríþrótt Austurríkismanna eru skíðaíþróttir (Alpagreinar). Skíðamenn eins og Toni Sailer, Franz Klammer og Hermann Maier eru margfaldir heimsbikar- og Ólympíumeistarar. Innsbruck er Ólympíuborg, en þar hafa vetrarleikarnir verið haldnir tvisvar (1964 og 1976). Í ruðningi þykir austurríska deildin meðal þeirra bestu í heimi. Í handbolta hefur kvennaliðið Hypo Niederösterreich átta sinnum unnið Evrópudeildina. Í Formúlu 1 hafa þrír Austurríkismenn getið sér gott orð: Niki Lauda (þrefaldur heimsmeistari), Jochen Rindt og Gerhard Berger.

Helgidagar

breyta

Auk neðangreindra helgidaga eru til nokkrir í viðbót sem eingöngu gilda í einu eða tveimur sambandslöndum.

Dags. Helgidagur Ath.
1. janúar Nýársdagur
6. janúar Vitringarnir þrír
19. mars Dagur heilags Jósefs Aðeins í fjórum sambandslöndum
Breytilegt Föstudagurinn langi Ekki fyrir kaþólsku kirkjuna
Breytilegt Páskar Tveir dagar
1. maí Verkalýðsdagurinn
Breytilegt Uppstigningardagur
Breytilegt Hvítasunna Tveir dagar
Breytilegt Fronleichnam
15. ágúst Himnaför Maríu
26. október Þjóðhátíðardagur
1. nóvember Allraheilagramessa
8. desember Getnaður Maríu
24. desember Aðfangadagur
25. desember Jóladagur
26. desember Dagur heilags Stefáns
31. desember Gamlársdagur

Tilvísanir

breyta
  1. Hanes, D.M. (1. september 1994). „Studies of granular flow down an inclined chute. Quarterly technical progress report: Year four, Quarter two, 13 March--12 June 1994“. doi:10.2172/10182964.
  2. Online Etymological Dictionary, "Austria"
  3. „University of Klagenfurt“. Afrit af uppruna á 13. maí 2011. Sótt 2. október 2009.
  4. Bischof, Günter; Pelinka, Anton, ritstjórar (1997). Austrian Historical Memory and National Identity. New Brunswick: Transaction Publishers. bls. 20–21. ISBN 978-1-56000-902-3. Afrit af uppruna á 14. júní 2018. Sótt 14. júní 2018.
  5. „Austria“. International Monetary Fund. Afrit af uppruna á 25. nóvember 2012. Sótt 17. apríl 2012.
  6. Real GDP Growth – Expenditure Side Geymt 6 nóvember 2018 í Wayback Machine, frá Oesterreichische Nationalbank
  7. „OEC – Austria (AUT) Exports, Imports, and Trade Partners“. atlas.media.mit.edu. Afrit af uppruna á 13. mars 2016. Sótt 12. mars 2016.
  8. Mark (16. nóvember 2010). „Mark's Market Analysis“. Marksmarketanalysis.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2011. Sótt 24. júlí 2011.
  9. Groendahl, Boris (15. febrúar 2014). „Hypo Alpe Debt Cut Four Steps as Insolvency Not Ruled Out“. Bloomberg.com. Afrit af uppruna á 24. október 2014. Sótt 5. mars 2017.
  10. Groendahl, Boris (17. febrúar 2014). „Faymann Evokes 1931 Austria Creditanstalt Crash on Hypo Alpe“. Bloomberg.com. Afrit af uppruna á 24. október 2014. Sótt 5. mars 2017.
  11. „Statistics on Mergers & Acquisitions (M&A) – M&A Courses | Company Valuation Courses | Mergers & Acquisitions Courses“. Imaa-institute.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júlí 2011. Sótt 24. júlí 2011.
  12. „Statistics on Mergers & Acquisitions (M&A) – M&A Courses | Company Valuation Courses | Mergers & Acquisitions Courses“. Imaa-institute.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júlí 2011. Sótt 24. júlí 2011.
  13. Ramsey, Jonathon. „Volkswagen takes 49.9 percent stake in Porsche AG“. Autoblog.com. Afrit af uppruna á 10. ágúst 2011. Sótt 24. júlí 2011.
  14. [1] Geymt 9 ágúst 2011 í Wayback Machine
  15. „TOURISMUS IN ÖSTERREICH 2007“ (PDF) (þýska). BMWA, WKO, Statistik Austria. maí 2008. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 18. desember 2008. Sótt 18. nóvember 2008.
  16. 16,0 16,1 „UNTWO World Tourism Barometer, Vol.6 No.2“ (PDF). UNTWO. júní 2008. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. október 2008. Sótt 18. nóvember 2008.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta