Millistríðsárin
Þessi grein inniheldur engar heimildir. Vinsamlegast hjálpaðu til við að bæta þessa grein með því að bæta við tilvísunum í áreiðanlegar heimildir. Efni sem ekki styðst við heimildir gæti verið fjarlægt. |
Millistríðsárin er heiti á tímabili í mannkynssögunni sem nær frá lokum fyrri heimsstyrjaldar 11. nóvember 1918 að upphafi síðari heimsstyrjaldar 1. september 1939. Á þessu tímabili urðu miklar félagslegar, efnahagslegar, tæknilegar, hernaðarlegar og stjórnarfarslegar breytingar víða um heim.
Meðal tækninýjunga sem urðu almenningseign á þessum tíma voru rafljós, síminn, útvarpið og bíllinn. 3. áratugurinn var kallaður organdi áratugurinn og einkenndist af vexti millistéttar, miklum félagslegum og efnahagslegum hreyfanleika, rafvæðingu og vélvæðingu með orkuframleiðslu úr jarðefnaeldsneyti. Þessu vaxtartímabili lauk snögglega þegar heimskreppan hófst árið 1929. Í kjölfarið kom óðaverðbólga, atvinnuleysi og fátækt, sérstaklega í iðnvæddum löndum. Róttækar stjórnmálastefnur, kommúnismi og fasismi, nutu vaxandi fylgis á þessum tíma og í nokkrum ríkjum var komið á alræði þar sem stofnanir lýðræðis voru aftengdar og afnumdar.
Herir iðnvæddra ríkja vélvæddust ört á þessum tíma og þróun flugvéla til notkunar í hernaði tók kipp. Útþenslustefna alræðisstjórna í Þýskalandi, Ítalíu og Japan leiddi svo til upphafs nýrrar heimsstyrjaldar og endaloka millistríðsáranna.