Varsjá

Höfuðborg Póllands

Varsjá (pólska: Warszawa, latína: Varsovia) er höfuðborg Póllands og jafnframt stærsta borg landsins. Borgin liggur við ána Visla og er um það bil 260 km frá Eystrasalti og 300 km frá Karpatafjöllunum. Árið 2021 var íbúafjöldinn tæplega 1,9 milljón manns og 3,1 milljón á stórborgarsvæðinu, þannig er Varsjá 6. fjölmennasta borg Evrópusambandsins. Flatarmál borgarinnar er 517,24 ferkílómetrar en stórborgarsvæðið nær yfir 6.100,43 ferkílómetra. Varsjá er í héraðinu Masóvía og er stærsta borg þess.

Varsjá
Warszawa (pólska)
Svipmyndir
Svipmyndir
Fáni Varsjár
Skjaldarmerki Varsjár
Varsjá er staðsett í Póllandi
Varsjá
Varsjá
Hnit: 52°13′48″N 21°00′40″A / 52.23000°N 21.01111°A / 52.23000; 21.01111
Land Pólland
HéraðMasóvía
Stofnun13. öld
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriRafał Trzaskowski
Flatarmál
 • Samtals517,24 km2
Mannfjöldi
 (2023)
 • Samtals1.863.056
 • Þéttleiki3.601/km2
TímabeltiUTC+1 (CET)
 • SumartímiUTC+2 (CEST)
Póstnúmer
00-001 til 04-999
Svæðisnúmer+48 22
Vefsíðaen.um.warszawa.pl

Varsjá er talin heimsborg og er vinsæl ferðamannaborg og mikilvæg fjármálamiðstöð í Mið-Evrópu. [heimild vantar] Hún er einnig þekkt sem „föníxborgin“ af því að hún hefur staðist mörg stríð í gegnum söguna. Helsta þessara stríða var seinni heimsstyrjöldin þar sem 80 % af byggingum í borginni voru eyðilagðar en borgin var endurbyggð vandlega eftir það. Þann 9. nóvember 1940 var borginni gefið hæsta heiðursmerki Póllands, Virtuti Militari, vegna umsátursins um Varsjá (1939).

Borgin er nafni fjölda ríkja, samninga og atburða, meðal þeirra eru Varsjáríkjabandalagið, Varsjárbandalagið, hertogadæmið Varsjá, Varsjársáttmálinn, Varsjársamningurinn, uppreisnin í Varsjá og uppreisnin í Varsjárgettóinu. Óopinber söngur borgarinnar er Warszawianka.


Orðsifjar breyta

Á pólsku þýðir orðið Warszawa (einnig stafað Warszewa eða Warszowa) „í eigu Warsz“. Warsz er stytting á slavnesku karlmannanafni Warcisław (nafn borgarinnar Wrocław á líka rætur að rekja til þessa mannanafns). Samkvæmt þjóðsögu var Warsz fiskimaður giftur konu sem hét Sawa. Sawa var hafmeyja sem bjó í ánni Visla nálægt borginni, sem Warsz varð ástfanginn af. Í rauninni var Warsz aðalsmaður sem var uppi á 12. eða 13. öld sem átti þorp sem á svæðinu þar sem hverfið Mariensztat liggur í dag. Opinbera heiti borgarinnar á pólsku er miasto stołeczne Warszawa (höfuðborgin Varsjá).

Á íslensku var borgin stundum nefnd Varsjáfa,[1] Varsjáva[2] eða Varsjáv.[3]

Saga breyta

Upphaf breyta

 
Maríukirkjan í Varsjá sem byggð var árið 1411

Fyrstu byggðirnar á staðnum sem í dag er kallaður Varsjá voru Bródno (9. – 10. öld) og Jazdów (12. – 13. öld). Eftir að árás var gerð á Jazdów var sest að á svæðinu þar sem fiskiþorpið Warszowa var. Bolesław 2. Masóvíuprins stofnaði byggðina Varsjá um árið 1300. Í byrjun 14. aldar varð byggðin valdastóll Masóvíuhertoganna og var svo gerð að höfuðbæ Masóvíu árið 1413. Á þeim tíma var efnahagur Varsjár byggður á handiðnum og verslun. Þegar hertogaættin dó út var Masóvía fellt aftur inn í konungsríkið Pólland árið 1526.

16. – 18. öld breyta

Pólska þingið (p. Sejm) var fyrst haft í Varsjá árið 1529 og var þar til frambúðar frá árinu 1569. Árið 1573 var Varsjárríkjabandalagið myndað sem veitti íbúum Pólsk-litháíska samveldisins trúarfrelsi formlega. Vegna góðrar staðsetningar á milli Krakár og Vilníusar varð Varsjá höfuðborg samveldisins en Sigmundur 3. konungur flutti pólsku hirðina frá Kraká til Varsjár árið 1596.

Árin eftir það stækkaði borgin út í úthverfin. Nokkur sjálfstæð einkahverfi í eigu aðalsmanna voru stofnuð en þeim var stjórnað með sérlögum. Á tímabilinu 1655–1658 var borgin undir umsátri þrisvar en hún var tekin og rænd af heröflum frá Svíþjóð, Brandenborg og Transylvaníu. Árið 1700 braust Norðurlandaófriðurinn mikli út og nokkrar árásir voru gerðar á Varsjá. Borgin var líka neydd til að borga framlagsfé til stríðsins.

Stanisław August Poniatowski konungur endurnýjaði Konunglega kastalann og gerði Varsjá að menningar- og listamiðstöð. Gælunafnið París austursins var haft um borgina eftir það.

19. og 20. aldir breyta

Varsjá var áfram höfuðborg Pólsk-litháíska samveldisins til ársins 1795 þegar það varð hluti af konungsríkinu Prússlandi. Þá varð Varsjá höfuðborg héraðsins Suður-Prusslands. Borgin var frelsuð af hermönnum Napóleons árið 1806 og var gerð svo að höfuðborg hertogadæmisins Varsjár. Í kjölfar Vínarráðstefnunnar árið 1815 varð Varsjá höfuðborg konungsríkisins Póllands, sem var þingbundin konungsstjórn í konungssambandi við Rússneska heimsveldið. Konungslegi háskólinn í Varsjá var stofnaður árið 1816.

 
Þýskt loftskip varpar sprengjum á Varsjá árið 1914

Vegna fjölda brota á pólsku stjórnarskrárinni fyrir hendi Rússlands braust Nóvemberuppreisnin út árið 1830. Pólsk-rússneska stríðinu 1831 lauk þó með ósigri Pólverja og sjálfstæði konungsríkisins var afnumið. Þann 27. febrúar 1861 skaut rússneskt herlið á mannfjölda sem var að mótmæla stjórn Rússlands yfir Póllandi en fimm menn fórust í kjölfar skotárásarinnar. Pólska ríkisstjórnin var í felum í Varsjá meðan á Janúaruppreisninni stóð árin 1863–64.

Varsjá blómstraði í lok 19. aldar undir stjórn Sokrates Starynkiewicz (1875–92), sem var rússneskur hershöfðingi skipaður í embætti af Alexander 3. Á tímum Starynkiewicz byggði William Lindley enskur verkfræðingur ásamt syni sínum William Heerlein Lindley fyrsta vatnsveitu- og frárennsliskerfið í Varsjá. Auk þess voru sporvagnakerfið, gaskerfið og götulýsingarkerfið endurbætt og stækkuð.

Samkvæmt manntali rússneska heimsveldisins árið 1897 bjuggu 626.000 manns í Varsjá og borgin var á sínum tíma þriðja stærsta í heimsveldinu á eftir Sankta Pétursborg og Moskvu.

Varsjá var undir þýsku hernámi frá 4. ágúst 1915 til 1918. Eftir hernámið varð hún höfuðborg nýlega sjálfstæðs Póllands árið 1918. Undir stríði Sovétríkjanna og Póllands árið 1920 var orrustan um Varsjá háð í úthverfunum, þar sem Pólverjarnir sigruðu Rauða herinn. Þannig stöðvaði Pólland aleitt framrás Rauða hersins.

Seinni heimsstyrjöldin breyta

 
Um einn áttundi hluti bygginga í Varsjá var eyðilagður í seinni heimsstyrjöldinni.

Í seinni heimsstyrjöldinni var miðsvæði Póllands, ásamt Varsjá, undir stjórn Allsherjarríkisstjórnarinnar (þ. Generalgouvernement), sem var þýsk nasistastjórn. Öllum háskólum var lokað strax og allir gyðingar í borginni, nokkur hundruð þúsund manns eða 30 % af öllum íbúafjöldanum, voru fluttir inn í Varsjárgettóið. Seinna varð borgin miðstöð andspyrnunnar gegn nasistastjórn í Evrópu. Sem hluti af Lokalausninni skipaði Hitler að gettóið yrði eyðilagt þann 19. apríl 1943 en svo byrjaði uppreisn í gettóinu gegn honum. Þó að uppreisnarmennirnir voru ofurliði bornir og lítið vopnaðir stóðst gettóið í yfir einn mánuð. Þegar bardaganum lauk voru eftirlifendur strádrepnir og mjög fáir komust undan og tókust að fela sig.

Fyrir júlí 1944 var Rauði herinn löngu kominn inn á pólska yfirráðasvæðið og var farinn á eftir Þjóðverjunum í átt að Varsjá. Pólska ríkisstjórnin var í útlegð í London og vissi að Stalín var á móti sjálfstæðu Póllandi. Ríkisstjórnin skipaði svo Heimahernum (p. Armia Krajowa) að reyna að hrifsa stjórn á Varsjá af Þjóðverjunum áður en Rauði herinn komst þar. Af þessum sökum byrjaði Varsjáruppreisnin þann 1. ágúst 1944 þegar Rauði herinn nálgaðist borgina. Baráttunni, sem átti að standa yfir í 48 klukkustundir, lauk eftir 63 daga. Stalín skipaði þá hermönnunum sínum að bíða fyrir utan Varsjá. Að lokum neyddist heimaherinn og baráttumennirnir sem voru að hjálpa honum til að gefast upp. Þeir voru teknir í stríðsfangabúðir og allir óbreyttir borgarar voru reknir út úr borginni. Gert er ráð fyrir að 150.000 til 200.000 pólskir óbreyttir borgarar hafi dáið þá.

Þjóðverjarnir tortímdu borginni. Hitler hunsaði skilyrði uppgjafarsamningsins, skipaði að borgin yrði eyðilögð og svo að öll bókasöfn og minjasöfn væru annaðhvort tekin til Þýskalands eða brennd. Minnismerki og stjórnarráðsbyggingar voru sprengdar í loft upp af þýsku sérliði sem hét Verbrennungs- und Vernichtungskommando („Brennslu- og eyðileggingarsveitin“). Um það bil 85 % af borginni var eyðilögð ásamt gamla bænum og Konunglega kastalanum.

Þann 17. janúar 1945 fóru sovéskir hermenn inn í rústir borgarinnar og frelsaði úthverfin frá þýsku hernámi. Borgin var fljótt tekin af sovéska hernum sem sótti þá fram til Łódź á meðan þýskir hermenn söfnuðust saman á ný vestri.

Í dag breyta

 
Messa með Jóhannesi Páli 2. árið 1979

Árið 1945 eftir að sprengjuárásum, uppreisnum, bardaga og eyðileggingu var lokið lá mestöll borgin í rústum. Eftir stríðið kom kommúnistastjórn mörgum byggingarverkefnum í gang til þess að takast á við skort á húsnæði. Stór staðsteypt hús voru byggð ásamt öðrum byggingum sem voru algengar í borgum Austurblokkarinnar, svo sem Menningar- og vísindahöllin. Borgin endurheimti hlutverk sitt sem höfuðborg Póllands og miðstöð pólskrar menningar og stjórnmála. Margar gamlar götur, byggingar og kirkjur voru endurreistar í upprunalegri mynd. Árið 1980 var gamli bærinn skráður á heimsminjaskrá UNESCO.

Jóhannes Páll 2. páfi heimsótti heimaborg sína árin 1979 og 1983 og hvatti til stuðnings fyrir verðandi hreyfinguna Samstöðu og stuðlaði að andkommúnistahreyfingum. Árið 1979, eftir minna en eitt ár að hann varð páfi, hélt Jóhannes Páll 2. messu á Sigurtorginu og endaði predikun sína með ákalli á að „endurnýja andlit Póllands“. Þessi orð voru þýðingarmikil fyrir Pólverja og þeir skildu þau sem hvatningu til lýðræðis.

Árið 1995 var neðanjarðarlestakerfi Varsjár opnað. Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og þar hefur verið mikill efnahagslegur vöxtur frá þessum tíma. Opnunarleikur Evrópumeistaramóts UEFA 2012 var haldinn í Varsjá.

Landafræði breyta

 
Gervihnattarmynd af Varsjá

Varsjá liggur í miðausturhluta Póllands um það bil 300 km frá Karpatafjöllunum, 260 km frá Eystrasalti og 520 km fyrir austan Berlín í Þýskalandi. Áin Visla rennur í gegnum borgina. Borgin liggur beint í miðri Masóvíusléttunni og er að meðaltali 100 m yfir sjávarmáli. Hæsti punkturinn í vesturhluta borgarinnar er 115,7 yfir sjávarmáli í hverfinu Wola og hæsti punkturinn í austurhlutanum er 122,1 km yfir sjávarmáli í hverfinu Wesoła. Lægsti punkturinn er á austurbakka árinnar en hann er 75,6 m yfir sjávarmáli. Í borginni eru nokkrir hólar en þeir eru að mestu leyti manngerðir, t.d. Varsjáruppreisnarhóll (121 m) og Szczęśliwice-hóll (138 m, hæsti staðurinn í allri Varsjá).

Loftslag breyta

Í Varsjá er temprað loftslag (Köppen: Dfb) með köldum vetrum og mildum sumrum. Meðalhiti í janúar er −3 °C og 19,3 °C í júlí. Hitastigið getur náð allt að 30 °C á sumrin. Ársmeðalúrkoma er 495 millimetrar og en blautasti mánuður ársins er júlí. Á vorin er mikill blómi og sólskin en á haustin er annaðhvort sólskinsveður eða þoka en þá er oftast svalt en ekki kalt.

Hverfi breyta

Til ársins 1994 voru sjö hverfi í Varsjá: Śródmieście, Praga Północ, Praga Południe, Żoliborz, Wola, Ochota og Mokotów. Þeim var svo fjölgað og á tímabilinu 1994–2002 voru þau 11: Centrum, Białołęka, Targówek, Rembertów, Wawer, Wilanów, Ursynów, Włochy, Ursus, Bemowo og Bielany. Árið 2002 var bærinn Wesoła gerður að hverfi.

Varsjá er powiat (sýsla) og skiptist í 18 borgarhluta sem heita dzielnica en í hverjum borgarhluta er sér sjórnsýsla. Í hverjum borgarhluta eru nokkur hverfi með engri réttarstöðu eða stjórnsýslu. Það eru líka tvö söguleg hverfi í borginni: gamli bærinn (p. Stare Miasto) og nýi bærinn (p. Nowe Miasto) í borgarhlutanum Śródmieście.

Hverfi Íbúafjöldi Flatarmál
Mokotów 225.571 35,4 km²
Praga Południe 182.588 22,4 km²
Ursynów 148.876 48,6 km²
Wola 137.692 19,26 km²
Bielany 133.778 32,3 km²
Śródmieście 126,143 15,57 km²
Targówek 123.214 24,37 km²
Bemowo 113.066 24,95 km²
Ochota 89.383 9,7 km²
Białołęka 89.234 73,04 km²
Praga Północ 71.675 11,4 km²
Wawer 69.898 79,71 km²
Ursus 50.355 9,35 km²
Żoliborz 48.060 8,5 km²
Włochy 39.690 28,63 km²
Rembertów 23.320 19,3 km²
Wesoła 22.757 22,6 km²
Wilanów 19.146 36,73 km²
Samtals 1.714.446 521,81 km²

Borgarmynd breyta

Yfirlit breyta

Saga Varsjár og Póllands endurspeglast í fjölbreyttri blöndu byggingarstíla sem er að finna í borginni. Á seinni heimsstyrjöldinni var mestöll borgin tortímd í sprengjuárásum og fyrirhugaðri eyðileggingu. Eftir að borgin var frelsuð hófst endurbygging eins og í öðrum borgum í alþýðulýðveldinu Póllandi. Flestar gamlar byggingar voru endurreistar í upprunalegri mynd. Samt sem áður voru nokkrar byggingar frá 19. öld sem hægt var að endurbyggja rifnar niður á sjötta og sjöunda áratugnum. Stórar íbúðablokkir voru reistar í byggingarstíl sem var algengur í Austurblokkarlöndum á þeim tíma.

Mikið er fjárfest í opinberum svæðum í Varsjá og þannig hafa alný torg verið byggð ásamt nýjum görðum og minnismerkjum. Í dag er mikið af samtímabyggingum í borginni.

 
Margar háar samtímabyggingar er að finna í Varsjá í dag

Byggingarlist breyta

Í Varsjá er mikið af marglitum kirkjum, höllum og höfðingjasetrum í næst öllum evrópskum byggingarstílum frá hverju sögutímabili. Mest áberandi eru byggingar í gotneskum stíl, endurreisnarstíl, barokkstíl og nýklassískum stíl og margar þeirra eru innan göngufæris frá miðborginni.

 
Łazienki-höll

Helstu byggingarnar í gotneskum stíl eru stórar kirkjur og virki, ásamt húsum sem byggð voru fyrir miðstéttina. Dæmi um svona byggingar eru Jónsdómkirkja (14. öld), sem er dæmigert eintak um svokallaða „Masóvíugotneska stílinn“, Maríukirkja (1411), raðhús byggt fyrir Burbach-fjölskylduna (14. öld) og Konunglegi kastalinn Curia Maior (1407–1410). Nokkrar athyglisverðar byggingar í endurreisnarstílnum eru hús Baryczko-fjölskyldunnar (1562), bygging sem heitir „Svertinginn“ (17. öld) og Salwator-fjölbýlishúsið (1632). Ásamt dæmum um manierismastílinn eru Konunglegi kastalinn (1596–1619) og Jesúítakirkja (1609–1626) í gamla bænum.

 
Tækniháskólinn í Varsjá

Í lok 17. aldar var byggt mikið af kirkjum og húsum fyrir aðalsmenn. Helstu dæmin frá þessu tímabili eru Krasiński-höll (1677–1683), Wilanów-höll (1677–1696) og Kazimierz-kirkja (1688–1692). Meðal byggingar í rókokóstílnum eru Czapski-höll (1712–1721), Höll fjögurra vinda (1730) og Wizytki-kirkja (1728–1761). Byggingar í Varsjá í nýklassískum stíl einkennast af rúmfræðilegum formum og áhrifum frá rómverskum byggingum. Bestu dæmin um nýklassískan stíl eru Łazienki-höll (endurbyggð 1775–1795), Królikarnia (1782–1786), Karmelítakirkja (1761–1783) og Kirkja heilagrar þrenningar (1777–1782). Á tímum konungsríkisins Póllands var mikill efnahagslegur vöxtur og aukinn áhugi á arkitektúr í kjölfarið. Áhuginn á nýklassíska stílnum var töluverður og sést í byggingum á borð við Mikla leikhús (1825–1833) og byggingarnar á Bankatorginu (1825–1828).

Margar byggingar í borgarastéttarstílnum voru ekki endurreistar af kommúnistastjórninni eftir stríðið en sumar þeirra voru endurbyggðar í þjóðfélagslegum raunsæisstíl (svo sem hús fílharmóníusveitar Varsjár). Sum dæmi um byggingar frá 19. öld er samt að finna í borginni, eins og tækniháskólinn í Varsjá (1899–1902). Margar byggingar frá þessu tímabili austan megin við Vislu voru gerðar upp en eru í slæmu ástandi í dag. Borgarstjórn Varsjár hefur ákveðið að endurbyggja Saxahöllina og Brühl-höllina sem voru ásamt helstu byggingum í borginni fyrir stríðið.

 
Dæmi um þjóðfélagslegt raunsæi í Varsjá

Nokkur dæmi um samtímabyggingar eru Menningar- og vísindahöllin (1952–1955), sem er skýjakljúfur byggður í þjóðfélagslegum raunsæisstílnum, og Stjórnarskrártorg, þar sem fleiri byggingar í þessum stíl er að finna. Í miðju hverfinu Praga austan megin við ána eru mörg niðurnídd hús við hliðina á nýjum íbúðablokkum og verslunarmiðstöðvum.

Byggingar í nútímastílnum, á borð við Metropolitan Office Building á Piłsudski-torgi, sem var hönnuð af breskum arkitekt Norman Foster, Bókasafn háskólans í Varsjá (BUW) eftir arkitektana Marek Budzyński og Zbigniew Badowski, skrifstofuhúsið Rondo 1, sem var hannað af Skidmore, Owings and Merrill, og Złote Tarasy sem er með nokkrum hvolfþökum sem skarast, er að finna víðs vegar um borgina.

Varsjá er meðal hæstu borganna í Evrópu, 18 af 21 hæstu byggingu í Póllandi eru í Varsjá.

Plöntulíf og dýralíf breyta

 
Páfuglar búa í Łazienki-garðinum ásamt nokkrum öðrum dýrategundum

Um 40 % af flatarmáli Varsjár er grænt, það er að segja almenningsgarðar, grasbrúnir og tré á götum, landverndarsvæði og litlir skógar í útjaðri borgarinnar. Almenningsgarðar í borginni eru 82 samtals og ná yfir 8 % af flatarmáli borgarinnar. Hinir elstu þeirra Saxagarðurinn og garðarnir við hallirnir Krasiński, Łazienki og Królikarnia.

Saxagarðurinn er 15,5 ha að flatarmáli og var áður fyrr konunglegur garður. Í garðinum eru yfir 100 trjátegundir og breiddar göngubrautir með bökkum. Gröf óþekkta hermannsins er í austurhluta garðsins. Garðurinn við Krasiński-höll var gerður upp af landslagsartitektinum Franciszek Szanior á 19. öld en í miðjum garðinum er enn að finna tré frá þessum tíma svo sem musteristré, svört valhnotutré og hesliviði. Þar eru líka margir bekkir, blóm, andatjörn og leikvelli en hann er mjög vinsæll meðal Varsjárbúa. Minnismerki um uppreisnina í Varsjárgettóinu er líka í garðinum.

Garðurinn við Łazienki-höll er 76 ha að flatarmáli en skipulag garðsins og plönturnar þar endurspegla sérkennilegu sögu hans. Í garðinum eru nokkur samkomuhús, höggmyndir, brýr og tjarnir en það sem aðskilur hann frá öðrum almenningsgörðum í Varsjá er páfuglar og fasanar sem flækjast frjálsir um garðinn. Einnig eru vatnakarfar í tjörnunum. Garðurinn við Wilanów-höll er 43 ha og var opnaður í lok 17. aldar. Hann var skipulagður í frönskum stíl og minnir á barokkstíl hallarinnar. Austurhluti garðsins er næstur höllinni og er á tveimur hæðum.

Heimildir breyta

  1. „Skírnir, 44. árgangur 1870, Megintexti - Timarit.is“. Sótt 22. mái 2012.
  2. „Timarit.is - Leita“. Sótt 22. mái 2012.
  3. „Timarit.is - Leita“. Sótt 22. mái 2012.