Bertha von Suttner
Bertha Felicitas Sophie Freifrau von Suttner (9. júní 1843 – 21. júní 1914) var austurrísk-bæheimskur friðarsinni og rithöfundur. Árið 1905 varð hún önnur konan til þess að vinna Nóbelsverðlaun (á eftir Marie Curie árið 1903) þegar hún hlaut friðarverðlaun Nóbels. Hún var jafnframt fyrsti Nóbelsverðlaunahafinn frá Austurríki. Bertha von Suttner hafði verið einkaritari og vinkona Alfreds Nobel og hafði hvatt hann til þess að stofna til friðarverðlaunanna áður en hann lést.
Bertha von Suttner | |
---|---|
Fædd | 9. júní 1843 |
Dáin | 21. júní 1914 (71 árs) |
Þjóðerni | Austurrísk |
Störf | Aðgerðasinni, rithöfundur, þýðandi, blaðamaður |
Maki | Arthur Gundaccar von Suttner (g. 1876) |
Foreldrar | Franz Joseph Kinsky og Sophie Wilhelmine Koerner |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1905) |
Undirskrift | |
Æviágrip
breytaBertha von Suttner fæddist þann 9. júní árið 1843 í Prag. Faðir hennar var Kinsky greifi, hershöfðingi í her austurríska keisaradæmisins[1] en hann lést áður en hún fæddist.[2] Bertha trúlofaðist snemma samaldra sínum, Adolf fursta af Wittgenstein. Hann lést á siglingu á leið til Ameríku áður en þau gátu gifst.[1] Bertha ólst upp við nokkuð fátæklegar aðstæður þrátt fyrir ætterni sitt og fékk árið 1873 stöðu sem kennari fjögurra dætra Suttners nokkurs baróns í Vínarborg. Þar felldi hún hug saman við barónssoninn Arthur Gundaccar von Suttner og trúlofaðist honum síðan í óþökk fjölskyldu sinnar.[3]
Bertha vann í stuttan tíma sem einkaritari og húsþerna Alfreds Nobel í París árið 1876. Vinskapur tókst með Berthu og Nobel en Bertha gat ekki gleymt heitmanni sínum og veðsetti brátt skartgripi sína til þess að geta snúið aftur til Austurríkis og gifst Arthuri.[3]
Eftir að Bertha og Arthur giftust árið 1876 fluttu þau til Kákasus til þess að forðast árekstra við ættingja sína. Arthur varð þar húsasmíðameistari en Bertha vann fyrir sér sem list- og tónlistarkennari. Hjónin hófu einnig bæði ritstörf til þess að afla sér aukatekna. Þegar stríð braust út á milli Rússlands og Tyrklands í Kákasus árið 1877 vakti Arthur athygli fyrir líflegar frásagnir sínar af styrjöldinni og varð brátt vinsæll rithöfundur.[3] Bertha naut sömuleiðis velgengni sem höfundur skáldsagna fyrir konur og hjónin högnuðust svo mjög á skáldskap sínum að þau gátu brátt snúið heim til Austurríkis árið 1885 og lifað í samræmi við þjóðfélagsstöðu sína sem barónshjón.[1]
Störf sem friðarsinni
breytaEftir heimkomuna varð Bertha afar áhugasöm um heimspekibókmenntir og varð um leið hugfangin af verkfræðilegum framförum. Árið 1889 gaf hún út skáldsöguna Niður með vopnin (þýska: Die Waffen nieder!) þar sem hún lýsti austurrískri aðalskonu sem lítur stríð rómantískum augum sem ung stúlka en lærir með aldrinum að hata stríð þegar hún þarf að þola ýmsa persónulega harmleiki í stríðum 19. aldarinnar og missir m. a. eiginmann sinn og son.[1] Bókin naut mikilla vinsælda og Lev Tolstoj líkti henni m. a. við bókina Kofa Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stowe, sem hafði aukið andstöðu gegn þrælahaldi á 19. öld.[3] Hann vonaði að bók Suttners myndi að sama skapi greiða veg friðarhyggjunnar og baráttunnar gegn styrjöldum.[4]
Bertha von Suttner varð áberandi foringi í hreyfingum friðarsinna í Evrópu og vakti m. a. athygli hins gamla vinnuveitanda síns, Alfreds Nobel. Suttner bauð honum á þing friðarsamtaka í Bern til þess að sannfæra hann um að styrkja þau. Talið er að bréfaskipti Suttners og Nobels hafi átt sinn þátt í að sannfæra hann um að hafa friðarverðlaun meðal verðlaunanna úr sjóðnum sem hann setti á fót í erfðaskrá sinni.[5]
Frá 1892 til 1899 var Suttner ritstjóri tímarits friðarsinna, Die Waffen nieder!, sem nefnt var eftir bókinni hennar. Árið 1897 afhenti hún Frans Jósef Austurríkiskeisara undirskriftalista þar sem skorað var á stjórnvöld að stofna sérstakan Alþjóðadómstól. Hún tók þátt í friðarráðstefnu í Haag árið 1899 með fjárstuðningi frá Theodor Herzl og dagblaði hans, Die Welt.[6]
Suttner lést úr krabbameini í júní árið 1914, aðeins fáeinum vikum áður en fyrri heimsstyrjöldin hófst.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Berta von Suttner og friðarverðlaun Nobels“. Lesbók Morgunblaðsins. 29. september 1940. Sótt 16. júní 2019.
- ↑ „Konan sem fékk Nóbel til þess að stofna friðarverðlaunin“. Sunnudagsblaðið. 21. mars 1965. Sótt 16. júní 2019.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Harland Manchester (1. febrúar 1960). „Konan að baki friðarverðlaunum Nobels“. Vísir. Sótt 17. júní 2019.
- ↑ Harland Manchester (1. janúar 1970). „Bertha von Suttner og friðarverðlaun Nóbels“. Heimilisblaðið. Sótt 17. júní 2019.
- ↑ „Bertha von Suttner: Friðarverðlaunin 1905“. Dagfari. 1. nóvember 2007. Sótt 17. júní 2019.
- ↑ Alan T. Levenson. „Theodor Herzl and bertha von Suttner: Criticism, collaboration and utopianism“. Journal of Israeli History. Routledge, 1994: 213–222. .