Jól

Árleg trúarhátíð kristinna til minningar um fæðingu Jesú

Jól eru ein af trúarhátíðum kristinna. Auk þess halda heiðnir og trúlausir upp á jól í tilefni rísandi sólar og hefða. Í dagatali nútímans er hinn eiginlegi jóladagur 25. desember en víða stendur hátíðin yfir frá 24. desember til 6. janúar.

„Fæðing Jesú“ eftir Albrecht Dürer (1503)

Hátíð á þessum tíma árs á sér upphaflega heiðinn uppruna og eru heimildir til aftur fyrir kristni um miðsvetrarhátíðir á þessum tíma og að kirkjan hafi tekið þær hátíðir yfir þegar þjóðir sem héldu miðsvetrarhátíðir tóku upp kristni.

Hin kristna hátíð er haldin í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir, sem getið er um í gamla testamenti Biblíunnar, spáðu fyrir að myndi koma. Jól eru haldin um allan hinn kristna heim og víða annars staðar, jafnvel þar sem kristni er í miklum minnihluta.

Hátíðin er þó ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag þann 25. desember. Þó byrjar sumstaðar bæði helgi dagsins klukkan 18 á aðfangadag jóla og einnig haldið upp á 26. desember, annan í jólum, Stefánsdag. Í austurkirkjunni eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar eða þann 6. janúar sem er eldri dagur fyrir þessa hátíð en 25. desember. Þeir sem miða við 25. desember halda aftur á móti upp á þann dag sem hinn þrettánda dag jóla. Á Íslandi sem og á hinum Norðurlöndunum er þetta eina kirkjulega hátíðin sem eitthvað verulega er haldið upp á.

Kristinn uppruni

breyta

Í Biblíunni stendur hvergi hvenær Kristur fæddist. Fyrstu kristnu söfnuðirnir fyrir botni Miðjarðarhafs töldu fæðinguna ekki eins mikils virði og skírnina og þó sérstaklega dauðastundina þegar menn fæddust til hins eilífa lífs, enda er dauðdagi Jesú Krists tímasettur í Biblíunni mjög nákvæmlega.

Um tveim öldum eftir áætlaða fæðingu Krists tóku kristnir menn samt að velta fæðingardegi hans fyrir sér. Fyrsti fæðingardagurinn sem menn komu sér saman um, var 6. janúar samkvæmt rómversku tímatali (júlíanska tímatalinu). Þarna, eins og með marga aðra daga kirkjunnar, tóku þeir yfir eldri tyllidag en 6. janúar hafði tengst flóðunum í Níl frá fornu fari. Hann var nefndur Opinberunarhátíð (Epiphania) en sagt var að Jesús hefði opinberast á fjóra vegu: við fæðinguna, tilbeiðslu vitringanna, skírnina í ánni Jórdan og brúðkaupið í Kana þegar hann framdi fyrsta kraftaverkið. Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar þann 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar. Formlega var ákveðið með það fyrirkomulag árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi.

Þegar kristni var gerð að ríkistrú í Rómarveldi, seint á 4. öld, var ákveðið að gera eldri skammdegishátíð, sólhvarfadaginn, að fæðingardegi Jesú Krists, en kristnir voru þegar farnir að halda uppá þessa hátíð. Á sólhvarfadaginn, sem hét formlega „fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar“ (l. dies natalis Solis invicti), var fagnað endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Sólhvörfin færðust til í júlíanska tímatalinu en á þessum tíma (4. öld) bar þau upp á 25. desember. Kirkjan tengdi þessar hátíðir saman með því að segja að Jesú Kristur væri hin eina sanna sól sem hefði sigrað dauðann og hefði hann sjálfur sagst vera ljós heimsins.

Sambærileg sólhvarfahátíð var þann 24. júní sem lengsta dag ársins. Rómarkirkjan ákvað að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á þessum fornu sólstöðuhátíðum á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli, en samkvæmt Nýja testamentinu, Lúkasarguðspjalli 1:26 og 1:36, átti Jóhannes skírari að hafa fæðst sex mánuðum á undan Jesú. Jól, fæðingarhátíð Krists, er því við vetrarsólstöður en Jónsmessa við sumarsólstöður. Það var samt ekki stjarnfræðilega nákvæmt vegna framangreindrar skekkju í júlíanska tímatalinu, heldur munaði þremur dögum og því eru jól og Jónsmessa, sem komu í stað hinna eldri sólstöðuhátíða, þremur dögum frá stjarnfræðilegum vetrar-og sumarsólstöðum.

Heiðinn uppruni

breyta

Í Norður-Evrópu höfðu sólstöðuhátíðirnar ætíð haft enn meira gildi en sunnar í álfunni, væntanlega vegna þess hve mikill munur er á lengsta og stysta degi ársins þar. Voru til dæmis á þessum dögum mikil blót á Norðurlöndunum. Þegar Ólafur konungur Tryggvason var búin að kristna Norðmenn virðist hann hafa viljað bæta landmönnum upp hin fornu blót með því að setja niður ársfjórðungslegar hátíðir í stað hinna ársfjórðungslegu blóta með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni né öðrum blótum þótt að þeir skiptu um trú.

Í einu fornriti segir svo:

„... feldi blót og blótdrykkjur og lét í stað koma í vild við lýðinn hátíðardrykkjur jól og páskar, Jónsmessu munngát og haustöl að Mikjálsmessu.“

Forn Norsk lög geta þess einnig að hver bóndi í Frostaþingi skyldi eiga tiltekið magn af öli um jól sem og á Jónsmessu.

Orðsifjar

breyta

Ekki er vitað hver uppruni orðsins jól er en um mikinn hluta Norður-Evrópu, það er hinn gamla germanska heim, eru til nær eins eða mjög svipuð orð þótt ekki sé hægt að fullyrða hvaðan orðið upprunalega kom né hver nákvæm merking þess er. Má nefna að ennþá nota Færeyingar sama orð og Íslendingar, það er jól en Danir, Norðmenn og Svíar jul, Finnar virðast hafa tekið upp orðið og þá orðið joulu hjá þeim. Í fornensku var það éole sem borið var fram jól og síðar yule. Því hefur verið leitt að því líkum þar sem menning þessara þjóða var um margt svo lík að orðið hafi verið notað um sömu eða sambærilega miðsvetrarhátíð á þessum tíma sem þá hafi tengst vetrarsólstöðum og hátíðirnar verið til að fagna hækkandi sól.

Elsta heimild um orðið er úr slitrum af gotnesku handriti en þar stendur „Naubaimbair: fruma Jiuleis“ sem þýðist, „Nóvember: fyrsti jólamánuðurinn.“ Því hafa sumir haldið því fram að gamla norræna mánaðarnafni Ýlir sé af sömu rót og jól en samkvæmt gamla dagatalinu endaði hann um 12. desember og Mörsugur tók við sem væri þá þriðji mánuður jóla og náði til um það bil 12. janúar en talið er að jólablót hafi verið haldin í kringum þann dag og hafi fylgt tungli en ekki stjarnfræðilegum vetrarsólhvörfum. Síðar eftir tímatalsbreytinguna færðist mörsugur sem og jólin til og hefst hann nú kringum vetrarsólstöður eða á tímabilinu 20. til 27. desember, eða á þeim tíma sem núverandi jól eru haldin. En um nafn mánaðarins Ýlir er aðeins til ein heimild til forna er hún í Bókarbót frá 12. öld sem varðveitt er í handriti frá um 1220 svo ekki er auðvelt að staðfesta þá kenningu. Önnur kenning er sú að eitt heiti Óðins var jólfaðr eða faðir jólanna og eins jólnir.

Þó er nokkuð víst að jól hafi verið blót, þótt uppruni og merking orðsins sé óljós. Má nefna að í Ólafssögu Helga, þar sem hún segir frá Sigurði föður Ásbjarnar Selsbana: „Hann var því vanur meðan heiðni var at hafa þrenn blót: eitt at veturnóttum, annat at miðjumvetri, þriðja at sumri. En síðan Sigurðr tók við kristni, hjelt hann teknum hætti um veislurnar. En hafði þá um haustið vinaboð, en um veturinn jólaveislu, ok bauð þá enn til sín mörgum manni...". Af þessu má lesa að í það minnsta í frumkristni á Norðurlöndum var litlu breytt um hefðir þótt þeir ættu að heita kristnir og fólk hafi áfram haldið sín blót. Kanski er það þess vegna sem orðið jól hefur lifað af í Skandinavíu, að blótin sem áður voru haldin á þessum tíma breyttust ekki svo mikið en það er aðeins ein kenning sem engar sannanir né heimildir eru fyrir.

Jól á suðurhveli

breyta

Á suðurhveli eru árstíðirnar öfugar við norðurhvel sem gerir það að verkum að þegar er vetur á norðurhveli þá er sumar á suðurhveli. Þetta gerir það að verkum að á suðurhveli eru jólin haldin um hásumar ólíkt norðurhveli þar sem jól eru haldin um hávetur. Það hefur verið stór hluti af dægurmenningu að tengja jólin við veturinn en á suðurhveli eru jólin sumarhátíð[1]. Flest jólalög eru með tilvísun í veturinn en þó eru til jólalög sem fjalla um sumarið á suðurhveli.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.

Tenglar

breyta

* „Hvaðan kemur orðið "jól"?“. Vísindavefurinn.

Jólin utan Íslands


breyta Kristnar hátíðir

Aðventa | Jól | Pálmasunnudagur | Dymbilvika | Páskar | Uppstigningardagur | Hvítasunnudagur | Allraheilagramessa

  1. „Er sumar í Ástralíu þegar við höldum upp á jólin?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. september 2024.