Seinni heimsstyrjöldin

styrjöld frá 1939 til 1945
(Endurbeint frá Heimstyrjöldin síðari)

Seinni heimsstyrjöldin eða heimsstyrjöldin síðari var útbreidd styrjöld, sem hófst í Evrópu en breiddist síðan út til annarra heimsálfa og stóð í rúm sex ár. Meirihluti þjóða heims kom að henni með einhverjum hætti og var barist á vígvöllum víða um heim. Talið er að um 62 milljónir manna hafi fallið (sem á þeim tíma var 2,5% alls mannkyns) og að mun fleiri hafi særst og er hún mannskæðasta styrjöld mannkynssögunnar.

Seinni heimsstyrjöldin

Réttsælis frá efra horni til vinstri: Kínverskar herdeildir í orrustunni um Wanjialing, ástralskar fallbyssur í fyrstu orrustunni við El Alamein, þýskar sprengjuflugvélar á austurvígstöðvunum í desember 1943, bandarísk herskip við innrásina í Lingayenflóa, Wilhelm Keitel að undirrita uppgjöf Þjóðverja, sovéskir hermenn í orrustunni um Stalíngrad.
Dagsetning1. september 19392. september 1945 (6 ár og 1 dagur)
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur bandamanna

Stríðsaðilar
Bandamenn Öxulveldin
Leiðtogar
  • Þýskaland Adolf Hitler
  • Japan Hirohito
  • Japan Hideki Tojo
  • Ítalía Benito Mussolini
  • Mannfall og tjón
    Hermenn látnir: Rúmlega 16.000.000
    Almennir borgarar látnir: Rúmlega 45.000.000
    Alls látnir: Rúmlega 61.000.000
    Hermenn látnir: Rúmlega 8.000.000
    Almennir borgarar látnir: Rúmlega 4.000.000
    Alls látnir: Rúmlega 12.000.000

    Stríðið var háð á milli tveggja ríkjahópa. Annars vegar var um að ræða bandalag Bandaríkjanna, Breska heimsveldisins, Kína, Sovétríkjanna (eftir 1941) auk útlægrar ríkisstjórnar Frakklands og fjölda annarra ríkja sem gekk undir nafninu Bandamenn; hins vegar var bandalag Ítalíu, Japans og Þýskalands auk fleiri ríkja, sem gekk undir nafninu Öxulveldin eða Möndulveldin.

    Mest var barist í Evrópu og Austur-Asíu og á Kyrrahafi en einnig í Norður-Afríku.

    Venjulega er sagt að upphaf stríðsins hafi verið í Evrópu í kjölfar innrásar Þjóðverja í Pólland þann 1. september 1939 en Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum tveimur dögum síðar. Átökin í Evrópu breiddust út á Atlantshaf og til Norður-Afríku. Stríð hafði brotist út fyrr í Asíu og er þá ýmist miðað við innrás Japana í Kína árið 1937 eða jafnvel innrás þeirra í Mansjúríu 1931 en þegar þeir réðust á flota Bandaríkjamanna í Perluhöfn á Hawaii fléttuðust saman stríðið í Asíu og stríðið í Evrópu og Bandaríkin drógust einnig inn í átökin í Afríku og Evrópu. Í Evrópu lauk stríðinu með uppgjöf Þjóðverja 8. maí 1945 en stríðið hélt áfram í Asíu þar til Japanir gáfust upp 15. ágúst 1945 eftir að Bandaríkin höfðu varpað tveimur kjarnorkusprengjum á borgirnar Hiroshima 6. ágúst og Nagasaki 9. ágúst. Japanir gáfust formlega upp þann 2. september sama ár.

    Seinni heimsstyrjöldin hafði gríðarleg áhrif á alþjóðastjórnmál. Valdajafnvægi breyttist en til urðu tvö stórveldi, Bandaríkin og Sovétríkin. Máttur eldri stórvelda fór þverrandi en stríðið skildi eftir sig sviðna jörð víðast hvar í Evrópu auk þess sem jafnvel sigurvegarar sátu eftir með gríðarháar stríðsskuldir. Þá má segja að seinni heimsstyrjöldin hafi markað endalok heimsveldsisstefnunnar sem Evrópuríkin höfðu fylgt frá 19. öld. Evrópa skiptist í tvennt, Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu, sem áhrifasvæði stórveldanna; tvö hernaðarbandalög voru stofnuð, NATO og Varsjárbandalagið og kalda stríðið hófst. Sameinuðu þjóðirnar voru einnig stofnaðar í kjölfar stríðsins.

    Forsaga

    breyta
     
    Benito Mussolini og Adolf Hitler.

    Fyrri heimsstyrjöldin hafði gjörbreytt pólitísku landslagi í Evrópu, Asíu og Afríku með ósigri Þýskalands, Austurríki-Ungverjalands og Ottómanveldisins; Austurríki-Ungverjaland liðaðist í sundur og Ottómanveldið leið undir lok. Enn fremur varð bylting í Rússlandi haustið 1917, bolsévikar hrifsuðu völdin og stofnuðu Sovétríkin. Mörg ný ríki urðu til með óleystum landamæradeilum og hergagnaframleiðsla jókst. Þjóðernishyggja færðist í aukana og ólga og reiði kraumaði undir í þeim löndum sem biðu ósigur. Fasískar hreyfingar komust til valda á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Þýskalandi í þeim efnahagslega óstöðugleika og kreppu sem einkenndi 3. og 4. áratuginn. Á Ítalíu kraumaði ólga undir niðri en á árunum 1922 til 1925 komust fasistar til valda með Benito Mussolini í broddi fylkingar. Í Þýskalandi lék Versalasamningurinn stórt hlutverk, sérstaklega grein 231 (svokölluð sektarklausa) og það þrátt fyrir að samningnum væri ekki fylgt stíft eftir vegna ótta við annað stríð. En Þýskaland missti einnig 13% af landsvæðum sínum, öllum nýlendum sínum, þurfti að greiða gríðarlega háar stríðsskaðabætur og mátti ekki hafa nema mjög takmarkaðan her.

    Á 4. áratugnum var Japan stjórnað af hernaðarklíku sem hafði það að markmiði að gera landið að heimsveldi. Árið 1931 réðust Japanir inn í Mansjúríu en japönsk yfirvöld urðu æ herskárri og sú hugmyndafræði var útbreidd að Japan hefði ákveðinn rétt til áhrifa í Asíu. Kína gat ekki veitt Japönum mótspyrnu og leitaði til Þjóðabandalagsins, sem fordæmdi innrás Japana. En Japan sagði sig þá úr Þjóðabandalaginu. Til smávægilegra átaka kom milli Japans og Kína en þeim lauk með Tanggu-sáttmálanum árið 1933.

    Bretar og Frakkar reyndu þó að gera ekkert til að styggja stjórnvöld í Þýskalandi, þar sem Adolf Hitler og Nasistaflokkur hans hafði komist til valda árið 1933. Þessi ótti auk þeirrar undanlátsemi sem Hitler var sýnd er þvert á móti talin hafa átt þátt í því að Nasistaflokkurinn varð jafn valdamikill og raunin varð. Hitler virti Versalasamningana að vettugi og hóf uppbyggingu á herafla Þjóðverja í trássi við samningana. Bretar og Frakkar höfðu áhyggjur af þróun mála í Þýskalandi og samþykktu ásamt Ítalíu Stresa-samkomulagið 14. apríl 1935 en það kvað á um sjálfstæði Austurríkis. Frakkar létu eftir Ítölum að seilast til valda í Eþíópíu þar sem Ítala hafði lengi langað í meiri ítök. Sovétmenn höfðu á hinn bóginn áhyggjur af markmiðum Þjóðverja að ná aftur fyrrum landsvæðum sínum í austri og undirrituðu gagnkvæman varnarsamning við Frakkland en samningurinn átti eftir að hljóta samþykki Þjóðabandalagsins. Í Bandaríkjunum var fylgst náið með þróun mála í bæði Evrópu og Asíu en í ágúst árið 1935 lýstu Bandaríkin yfir hlutleysi sínu.

     
    „Nasistarnir hafa tekið völdin í Austurríki“, fyrirsögn í sænska dagblaðinu Östergötlands Dagblad þann 12. mars 1938.

    Í október árið 1935 gerðu Ítalir innrás í Eþíópíu. Þýskaland var eina stóra Evrópuríkið sem studdi innrásina en í kjölfarið dró Ítalía til baka stuðning sinn við Stresa-samkomulagið. Í mars næsta ár skipaði Hitler hersveitum sínum að halda inn í Rínar-héruð, þar sem Þjóðverjar máttu ekki hafa hersveitir samkvæmt Versalasamningunum. En viðbrögð annarra Evrópuríkja voru lítil sem engin.

    Í júlí 1936 braust út borgarastyjöld á Spáni milli fasískra þjóðernissinna annars vegar og kommúnista hins vegar. Hitler og Mussolini lýstu báðir yfir stuðningi við fasista með Francisco Franco í broddi fylkingar en Sovétríkin studdu sveitir kommúnista. Bæði Þjóðverjar og Sovétmenn nýttu sér stríðið á Spáni til þess að prufa ný hertól. Snemma árs 1939 höfðu fasistar sigrað. Í október 1936 gerði Þýskaland og Ítalía með sér bandalag. Mánuði síðar mynduðu Þjóðverjar og Japanir bandalag gegn komintern og Ítalía bættist í hópinn ári síðar. Árið 1938 innlimuðu Þjóðverjar Austurríki í Þriðja ríkið.

    Árið 1937 réðist Japan inn í Kína til að auka við magrar náttúruauðlindir sínar. Bandaríkjamenn og Bretar brugðust við með því að veita Kínverjum lán og setja efnahagsþvinganir á Japani sem hefðu á endanum neytt landið til að draga sig úr Kína vegna skorts á eldsneyti. Japanir brugðust við með því að ráðast óvænt á Perluhöfn og draga Bandaríkjamenn þannig inn í stríðið. Markmið Japana með árásinni var að sigra Austur-Indíur og tryggja sér þannig olíu.

    Aðdragandi stríðsins

    breyta

    Innrásin í Eþíópíu

    breyta

    Stutt nýlendustríð braust út í október 1935 og lauk í maí 1936 þegar Ítalir gerðu innrás í Eþíópíu (eða Abyssiníu). Stríðinu lauk með hruni og hernámi Eþíópíu og innlimun landsins í hina nýstofnuðu nýlendu Ítölsku Austur-Afríku (Africa Orientale Italiana). Brestir urðu ljósir í Þjóðabandalaginu, sem var ófært um að tryggja frið. Bæði Ítalía og Eþíópía voru aðildarríki en Þjóðabandalagið gerði ekkert þegar Ítalir brutu bersýnilega gegn Tíundu grein sáttmála Þjóðabandalagsins.

    Spænska borgarastyrjöldin

    breyta
     
    Rústir Guernicu eftir loftárás.

    Þýskaland og Ítalía studdu fasíska þjóðernissinna undir stjórn Franciscos Franco á Spáni. Sovétríkin studdu vinstrisinnaða ríkisstjórnina. Báðar fylkingar nýttu sér stríðið til að prófa ný hertól og herkænsku. Loftárásin á Guernicu, borg með fimm til sjö þúsund íbúa, var álitin skelfilegur atburður á Vesturlöndum og hermt var að 1654 hefðu týnt lífinu; talað var um „ógnar-loftárás“.

    Innrás Japana í Kína

    breyta
     
    Kínverskt hríðskotahreiður í orrustunni um Sjanghaí árið 1937.

    Í júlí 1937 hertóku Japanir kínversku borgina Beiping í kjölfarið á Marco Polo-brúaratvikið, sem endaði með allsherjarinnrás Japana í Kína. Sovétmenn undirrituðu snögglega griðarsamning við Kína til að leggja Kínverjum lið og bundu þar með enda á þriggja áratuga langa samvinnu Kína og Þýskalands. Chiang Kai-shek herforingi beitti sínum bestu hersveitum í orrustunni um Sjanghæ en eftir þriggja mánaða löng átök féll borgin. Japanir héldu áfram að þjarma að kínverskum hersveitum, tóku höfuðborgina Nanjing í desember árið 1937 og frömdu fjöldamorðin í Nanking.

    Í júní árið 1938 náðu kínverskar hersveitir að tefja framrás Japana með því að láta Gula fljótið flæða yfir bakka sína en þótt þeir hefðu þar með áunnið sér tíma til að undirbúa varnir borgarinnar Wuhan féll hún engu að síður í orrustunni um Wuhan í október. Hersigrar Japana ollu þó ekki hruni kínverskrar andspyrnu eins og Japanir vonuðust eftir. Þess í stað færðu kínversk yfirvöld sig til Chongqing til að stýra áfram andspyrnunni þaðan.

    Innrás Japana í Sovétríkin og Mongólíu

    breyta

    Þann 29. júlí 1938 gerði japanski herinn innrás í Sovétríkin en framrás þeirra stöðvaðist í orrustunni um Khasanvatn. Lauk henni með sigri Sovétmanna en Japanir litu þó á hana sem niðurstöðulaust jafntefli og ákváðu 11. maí 1939 að færa út landamæri Japans og MongólíuKhalkin Gol-fljóti með hervaldi. Þeim varð í fyrstu nokkuð ágengt en Rauði herinn stöðvaði framrás þeirra og japanski herinn beið í fyrsta sinn afgerandi ósigur.

    Japönsk yfirvöld sannfærðust af þessum átökum um að reyna að ná sáttum við sovésk yfirvöld til að forðast að þau blönduðu sér í stríð Japana við Kína. Í staðinn var ákveðið að beina hernaðinum í suður, í átt að bandarískum og evrópskum lendum á Kyrrahafi.

    Evrópa: Ögrun og friðþæging

    breyta

    Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi varð ríkjandi hugmyndafræði um „Lebensraum“, lífsrými, en það var stefna sem fólst í því að skapa Þjóðverjum nýtt rými á kostnað Austur-Evrópubúa. Til þess að réttlæta þessa kröfu um aukið land í austri, kom Þýskaland á framfæri áhyggjum sínum af meðferð á Þjóðverjum sem bjuggu í Austur-Evrópu og voru þessar kröfur háværastar í tengslum við Pólland og Tékkóslavakíu.

     
    Þýskir skriðdrekar aka inn í borgina Komtau í október 1939.

    Ríkisstjórnir Bretlands og Frakklands reyndu að stilla til friðar fyrir stríðið til að reyna að koma í veg fyrir að nýtt stríð brytist út í Evrópu, enda efuðust báðar ríkisstjórnir um að landsmenn sínir væru tilbúnir í nýtt stríð eftir hið herfilega mannfall í fyrri heimsstyrjöldinni. Þessi friðþæging sást einna best á München-samkomulaginu sem gert var við Þjóðverja og gerði þeim það kleift að hernema og innlima Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu þar sem þýskumælandi fólk var í meirihluta. Forsætisráðherra Breta, Neville Chamberlain, lét falla fræg orð eftir undirritun samkomulagsins um að hann hefði tryggt „frið um vora daga“. Í mars 1939 réðust Þjóðverjar svo inn í restina af Tékkóslóvakíu og hernumdu hana. En hörð viðbrögð Breta og Frakka létu enn á sér standa. En brot Þjóðverja á München-samkomulaginu sýndu á hinn bóginn fram á með ótvíræðum hætti að ekki var hægt að treysta Hitler og í kjölfarið gerðu Frakkar og Pólverjar með sér samkomulag þann 19. mars um að koma hvor öðrum til aðstoðar yrði ráðist á aðra hvora þjóðina. Bretar höfðu þá þegar heitið Pólverjum að koma Póllandi til aðstoðar yrði ráðist á landið.

    Þann 23. ágúst 1939 gerðu Þjóðverjar og Sovétmenn með sér samkomulag, nefnt Molotov-Ribbentrop-samkomulagið (eftir utanríkisráðherrum beggja landa), þar sem þjóðirnar ákváðu að skipta með sér Póllandi. Í samkomulaginu var einnig kveðið á um sölu olíu og matar Sovétmanna til Þjóðverja. Markmið Þjóðverja var að koma í veg fyrir matarskort ef Bretar settu á þá hafnarbann, líkt og hafði gerst í fyrri heimsstyrjöldinni.

    Eftir að samkomulagið var gert gat Hitler óhræddur ráðist á Pólland. Tylliástæða hans var að Þýskaland ætti óleyst mál við Pólland tengd borginni Danzig auk landssvæðis við Visdula-ána. Markmið hans var hins vegar að hernema stóran hluta af Póllandi og innlima hann í Þýskaland. Undirritun sáttmála milli Bretlands og Póllands þann 25. ágúst 1939 breytti engu um þær fyrirætlanir.

    Gangur stríðsins

    breyta

    Þjóðverjar og Sovétmenn ráðast inn í Pólland

    breyta
     
    Sameiginleg sigurganga þýskra og sovéskra hermanna þann 23. september 1939 í Brest í austurhluta Póllands undir lok orrustunnar um Pólland. Á miðri myndinni eru þýski herforinginn Heinz Guderian (til vinstri) og rússneski herforinginn Semjon Krívoshejn (til hægri).

    Þann 1. september 1939 réðust Þjóðverjar og Slóvakía (sem var í raun leppríki Þjóðverja) inn í Pólland eftir að hafa sett á svið árás á þýska landamærastöð. Bretar og Frakkar kröfðust þess að Þjóðverjar drægju hersveitir sínar tafarlaust til baka. Það gerðu Þjóðverjar ekki og þann 3. september lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði á hendur þeim. Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland fylgdu svo fljótlega í kjölfarið. En stríðsyfirlýsingum þeirra fylgdu ekki umfangsmiklar hernaðaraðgerðir tafarlaust, þvert á móti gerðist nánast ekkert.[1] Franski herinn var hægur og gerði svo aðeins sýndarárás og dró sig í hlé. Bretar gátu hins vegar ekki aðstoðað Pólverja á þeim stutta tíma sem þeir höfðu. Pólski herinn var lítil fyrirstaða fyrir þann þýska sem náði þann 8. september til höfuðborgar Póllands, Varsjár. Þann 17. september, og í samræmi við samkomulag sitt við Þjóðverja, réðist sovéski herinn á Pólland úr austri og opnaði þannig nýjar vígstöðvar. Degi síðar flúði forseti Póllands til Rúmeníu. Þann 1. október, eftir tæpt mánaðar umsátur, þrammaði þýski herinn inn í Varsjá og sex dögum síðar lét pólski herinn af mótspyrnu sinni. Pólland lýsti aldrei opinberlega yfir uppgjöf en í raun var landinu nú skipt á milli Þjóðverja, Sovétmanna, Litháen og Slóvakíu.

    Á sama tíma og orrustan um Pólland var háð réðust Japanir á Changsha, hernaðarlega mikilvæga borg í Kína en þurftu að hörfa úr borginni aftur undir lok septembermánaðar.

    Í kjölfarið á innrásinni í Pólland og í samræmi við samkomulag Þjóðverja og Sovétmanna um Litháen neyddu Sovétmenn Eystrasaltslöndin til að leyfa sér að koma hersveitum Rauða hersins fyrir í löndum þeirra undir yfirskini samkomulags um gagnkvæmar varnir. Finnar höfnuðu beiðni Sovétmanna og Rauði herinn réðist í kjölfarið inn í Finnland í nóvember 1939. Vetrarstríðinu lauk í mars 1940 með uppgjöf Finna. Frakkar og Bretar álitu innrás Sovétmanna í Finnland jafngilda því að styðja stríðsrekstur Þjóðverja og brugðust við með því að styðja brottrekstur Sovétríkjanna úr Þjóðabandalaginu.

     
    Þýskar hersveitir við Sigurbogann í París eftir Innrásina í Frakkland 1940.

    Í Evrópu voru breskar hersveitir sendar til meginlandsins en Bretar nefndu það „gervistríðið“ (e. Phoney War) og Þjóðverjar „setustríðið“ (þ. Sitzkrieg) og hvorugur aðilinn tók af skarið eða undirbjó sókn þar til í apríl 1940. Þýskaland og Sovétríkin gerðu með sér verslunarsamkomulag í febrúar 1940 og fengu þá Sovétmenn hergögn og iðnaðarvélar í skiptum fyrir hráefni sem gerðu Þjóðverjum kleift að komast hjá hafnarbanni Breta.

    Í apríl 1940 réðust Þjóðverjar inn í Danmörku og Noreg til að tryggja sér aðgang að járngrýti frá Svíþjóð en Bandamenn höfðu áform um að hindra þann aðgang. Danmörk gafst upp fyrirvaralaust en Norðmenn voru sigraðir eftir tvo mánuði. Í maí 1940 hertóku Bretar Ísland. Óánægja Breta með þróun mála í Noregi varð til þess að Neville Chamberlain lét af störfum sem forsætisráðherra og Winston Churchill tók við þann 10. maí 1940,[2] sama dag og Bretar hernámu Ísland.[3]

    Baráttan um Atlantshafið

    breyta

    Veturinn 1939 – 1940 réðust þýskir kafbátar endurtekið á skip bandamanna. Á fyrstu fjórum mánuðum stríðsins náðu þeir að sökkva 110 skipum. Eftir 1943 dró verulega úr sigrum Þjóðverja á hafi þar sem bandamenn náðu að smíða skip hraðar en Þjóðverjar sökktu þeim auk þess sem skip tóku að sigla saman í skipalestum. Árangur bandamanna gegn þýskum kafbátum merkti að meðal líftími kafbátahermanna Þjóðverja á sjó var mældur í mánuðum. Undir lok styrjaldarinnar kynntu Þjóðverjar til sögunnar nýjan kafbát, af gerð 21, en það reyndist of seint til að hafa áhrif á stríðsrekstur þeirra.

    Í Suður-Atlantshafi náði þýska herskipið Graf Spee að sökkva níu breskum kaupskipum. Skipið var elt af bresku beitiskipunum HMS Ajax, HMS Exeter og HMNZS Achilles og leitaði það ásjár í höfninni Montevídeó. Í stað þess að snúa aftur í bardaga ákvað skipstjóri þess, Langsdorff, að sökkva því rétt utan við höfnina.

    Sókn Öxulveldanna

    breyta

    Þjóðverjar gerðu innrás í Frakkland, Belgíu, Holland og Lúxemborg þann 10. maí 1940. Sama dag sagði Neville Chamberlain af sér embætti forsætisráðherra Bretlands og við tók Winston Churchill. Holland og Belgía féllu eftir einungis nokkra daga og vikur í leifturstríði Þjóðverja. Frakkar miðuðu undirbúning sinn við reynslu sína úr fyrri heimsstyrjöldinni og vígbjuggu og styrktu Maginot-línuna en Þjóðverjar fóru kringum hana um skógi vaxin Ardennafjöll, sem franskir hernaðarfræðingar töldu ranglega að brynvarin ökutæki kæmust ekki um. Breskar hersveitir urðu að hörfa og komust naumlega undan til Dunkerque þaðan sem þær voru fluttar til Bretlands yfir Ermarsund. Skilja varð eftir alls kyns þung hergögn og vélar. Þann 10. júní gerðu Ítalir innrás í Frakkland og lýstu yfir stríði gegn bæði Frakklandi og Bretlandi. Tólf dögum síðar gafst Frakkland upp og var fljótlega skipt í hernámshluta Þjóðverja og hernámssvæði Ítala en að auki var í óhernumdum hluta landsins komið á leppstjórn; Vichy-stjórninni. Þann 3. júlí gerði breski herinn árás á franska flotann í Alsír til að koma í veg fyrir að hann kæmist í hendur Þjóðverja.

    Í júní, á síðustu dögum innrásarinnar í Frakkland settu Sovétmenn á svið kosningar í Eystrasaltslöndunum og innlimuðu löndin ólöglega með valdi. Skömmu seinna innlimuðu þeir Bessarabíu í Rúmeníu. Enda þótt Sovétríkin væru í raun bandamenn Þjóðverja vegna efnahagslegrar samvinnu, takmarkaðrar hernaðaraðstoðar, skiptum á fólki og landamærasamkomulags var Þjóðverjum þó í nöp við að Sovétmenn tækju yfir Eystrasaltslöndin, Bessarabíu og Norður-Bukovinu. Ljóst var af þessu að frekari samvinna yrði ómöguleg auk þess sem spenna milli ríkjanna var að aukast vegna árekstra áhrifasvæða þeirra. Bæði ríki bjuggust við að stríð brytist út milli þeirra.

    Eftir að Frakkland var hernumið hófu Þjóðverjar að keppa við Breta um yfirráð í lofti (orrustan um Bretland) til að undirbúa innrás á Bretland. Þeim varð ekki að ósk sinni því að Bretar gáfu ekki eftir yfirráð í lofti og því var fallið frá áætlunum um innrás í september. En þýski sjóherinn nýtti sér nýlega herteknar hafnir Frakka og naut um hríð árangurs í orrustunni um Atlantshafið. Þjóðverjar beittu kafbátahernaði gegn breskum skipum á Atlantshafi. Ítalía hóf aðgerðir á Miðjarðarhafi meðal annars umsátur um Möltu í júní. Þeir lögðu undir sig Somalíland í ágúst og réðust inn í Egyptaland í september 1940, sem þá var undir stjórn Breta.

    Japan herti hafnarbann sitt á Kína í september með því að taka nokkrar herstöðvar í norðurhluta frönsku Indókína, sem nú var býsna einangruð.

     
    Orrustan um Bretland stöðvaði sókn Þjóðverja í Vestur-Evrópu.

    Bandaríkin, sem voru hlutlaust land, hafði gert ýmislegt til að styðja Kína og bandamenn í Vestur-Evrópu. Í nóvember 1939 var Bandarísku hlutleysislögunum breytt svo að stríðandi fylkingum (bandamönnum) var leyft að versla við Bandaríkjamenn að því gefnu að þeir staðgreiddu varninginn og flyttu sjálfir. Árið 1940, í kjölfarið á hernámi Þjóðverja í París, stækkuðu Bandaríkjamenn sjóher sinn umtalsvert (eða 70%) með það í huga að geta beitt sjóhernum á tveimur ólíkum úthöfum samtímis. Eftir að Japanir réðust inn í Indókína beittu Bandaríkjamenn Japani viðskiptaþvingunum og bönnuðu sölu á járni, stáli og vélum til Japana. Í september féllust Bandaríkjamenn enn fremur á skipta á bandaríksum tundurspillum og breskum herstöðvum. Bretar fengu þá fimmtíu tundurspilla í skiptum fyrir herstöðvar á Nýfundnalandi, Bahamaeyjum, Jamaíka, Antígva, vesturströnd Trinidads og víðar. Mikill meirihluti bandarísku þjóðarinnar var eftir sem áður mótfallinn beinum hernaðarafskiptum allt fram til síðla árs 1941.

    Í septemberlok árið 1940 var formlega gengið frá bandalagi Þýskalands, Ítalíu og Japans. Sáttmálinn kvað á um að ef eitthvert ríki að Sovétríkjunum undanskildum, sem væri ekki þegar þátttakandi í stríðinu réðist á eitthvert Öxulveldanna, þá jafngilti það stríðsyfirlýsingu á öll ríkin þrjú. Bandaríkin héldu áfram stuðningi sínum við Bretland og Kína. Bandaríkjamenn friðlýstu hálft Atlantshafið og tók að sér að vernda breskar skipalestir sem fluttu hráefni og varning frá Norður-Ameríku til Evrópu. Bandaríkin og Þýskaland áttu því í sífelldum árekstrum og smáorrustum á miðju og norðanverðu Atlantshafi, jafnvel þótt Bandaríkin væru enn þá opinberlega hlutlaust land.

    Í nóvember 1940 stækkaði bandalag Öxulveldanna þegar Ungverjaland, Slóvakía og Rúmenía gengu til liðs við hin Öxulveldin. Þessi ríki tóku þátt í innrásinni í Sovétríkin en Rúmenar lögðu mest af mörkum því þeir vildu ná aftur þeim landsvæðum í Bessarabíu og Norður-Bukovinu, sem Sovétmenn höfðu innlimað. Leiðtogi Rúmena, Ion Antonescu, var auk þess ákafur andstæðingur kommúnista. Í október 1940 réðust Ítalir inn í Grikkland en voru hraktir burt innan fárra daga og hörfuðu til Albaníu. Í desember hófu breskar hersveitir gagnárár á ítalskar sveitir í Egyptalandi og Ítölsku Austur-Afríku. Snemma árs 1941 þegar ítalski herinn hafði verið rekinn aftur til Líbýu fyrirskipaði Churchill að hersveitir skyldu sendar frá Afríku til Grikklands til að efla varnir þar. Ítalski sjóherinn beið nokkrum sinnum ósigur og breski sjóherinn gerði óvíg þrjú herskip Ítala við Taranto og mörg önnur skip Matapanhöfða.

     
    Þýskar fallhlífarsveitir gera innrás á grísku eyjuna Krít í maí 1941.

    Þjóðverjar gripu fljótt í taumana til að hjálpa Ítölum. Hitler sendi þýskar hersveitir til Líbýu í febrúar og í lok marsmánaðar höfðu Þjóðverjar blásið til sóknar gegn þverrandi herafla Breta. Innan mánaðar höfðu breskar hersveitir hörfað aftur til Egyptalands að undanskilinni umsetnu hafnarborginni Tobruk. Bretar freistuðu þess að ýta við sveitum Öxulveldanna í maí og aftur í júní en til einskis í bæði skiptin. Snemma í apríl, eftir að Búlgaría hafði gengið til liðs við Öxulveldin, gerðu Þjóðverjar innrás á Balkanskaga, réðust inn í Grikkland og Júgóslavíu í kjölfar valdaráns þar. Þeim varð mjög ágengt og bandamenn urðu frá að hverfa eftir að Þjóðverjar náðu Krít á sitt vald í lok maímánaðar.

    Bandamenn náðu þó einhverjum árangri á þessum tíma stríðsins. Í Miðausturlöndum bældu Bretar niður valdaránstilraun í Írak, sem þýskar flugsveitir höfðu stutt frá herstöðvum innan landamæra Sýrlands, sem var á valdi Vichy-stjórnarinnar, svo réðust þeir ásamt frjálsum Frökkum inn í Sýrland Líbanon til að koma í veg fyrir annað eins. Á Atlantshafi náðu Bretar að sökkva þýska herskipinu Bismarck. Ef til vill munaði mestu um að breski flugherinn hafði staðið upp í hárinu á þýska flughernum og loftárásum Þjóðverja á Bretland lauk að mestu í maí 1941.

     
    Sveppaský kjarnorkusprengju liggur yfir Nagasaki þann 9. ágúst 1945.

    Í Asíu var komin upp pattstaða milli Japana og Kínverja árið 1940, þrátt fyrir ýmsar tilraunir beggja aðila. In Japanir tóku völdin í sunnanverðri Indókína til þess að auka þrýstinginn á Kína með því að loka verslunarleiðum þeirra og koma japönskum hersveitum betur fyrir ef átök brytust út við Vesturlönd. Í ágúst sama ár blésu kínverskir kommúnistar til sóknar í Mið-Kína. Japanir brugðust hart við á hernumdum svæðum. Ástandið í Evrópu og Asíu var tiltölulega stöðugt og Þjóðverjar, Japanir og Sovétmenn gerðu allir ráðstafanir. Sovétmenn voru þreyttir á aukinni spennu milli sín og Þjóðverja og í apríl 1941 gerðu þeir griðarsamning við Japani sem höfðu í hyggju að nýta sér stríðið í Evrópu og hertaka mikilvægar auðlindir Evrópuríkjanna í Suðaustur-Asíu. Þjóðverjar voru á hinn bóginn að undirbúa innrás í Sovétríkin og fjölguðu mjög hersveitum sínum við landamærin í austri.

    Stríðsárin á Íslandi

    breyta

    Aðalgrein: Stríðsárin á Íslandi

    Neðanmálsgreinar

    breyta
    1. Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum?“. Vísindavefurinn 14.2.2007. http://visindavefur.is/?id=6497. (Skoðað 10.2.2011).
    2. Reynolds (2006): 76.
    3. Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum?“. Vísindavefurinn 14.2.2007. http://visindavefur.is/?id=6497. (Skoðað 10.2.2011).

    Heimildir og ítarefni

    breyta
    • Adamthwaite, Anthony P. The Making of the Second World War. (New York: Routledge, 1992).
    • Ambrose, Stephen E. D Day: June 6, 1944: The Climactic Battle of World War II (Simon & Schuster, 1995).
    • Barr, Niall J.A. Pendulum of War: The Three Battles of El Alamein (Overlook TP, 2006).
    • Beevor, Antony. D-Day: The Battle for Normandy (2009).
    • Beevor, Antony. Stalingrad: The Fateful Siege: 1942-1943 (Penguin Books, 1999).
    • Bierman, John og Colin Smith. The Battle of Alamein: Turning Point, World War II (Viking, 2002).
    • Brody, J. Kenneth. The Avoidable War: Pierre Laval and the Politics of Reality, 1935–1936. (Transaction Publishers, 1999).
    • Bullock, A. Hitler: A Study in Tyranny. (Penguin Books, 1962).
    • Busky, Donald F. Communism in History and Theory: Asia, Africa, and the Americas. (Praeger Publishers, 2002).
    • Davies, Norman. No Simple Victory: World War II in Europe, 1939–1945. (Penguin Books, 2008).
    • Dear, I.C.B. og M.R.D. Foot (ritstj.) Oxford Companion to World War II (Oxford: Oxford University Press, 2002).
    • Ford, Ken og Howard Gerrard. El Alamein 1942: The Turning of the Tide (Osprey Publishing, 2005).
    • Graham, Helen. The Spanish Civil War: A Very Short Introduction. (Oxford: Oxford University Press, 2005).
    • Hsiung, James Chieh. China's Bitter Victory: The War with Japan, 1937–1945. (M.E. Sharpe, 1992).
    • Jowett, Philip S. og Stephen Andrew. The Japanese Army, 1931–45. (Osprey Publishing, 2002).
    • Kantowicz, Edward R. The Rage of Nations. (Wm. B. Eerdmans Publishing, 1999).
    • Kershaw, Ian. Hitler, 1936–1945: Nemesis. (W. W. Norton & Company, 2001).
    • Kitchen, Martin. Rommel's Desert War: Waging World War II in North Africa, 1941-1943 (Cambridge: Cambridge University Press, 2009).
    • Kitson, Alison. Germany 1858–1990: Hope, Terror, and Revival. (Oxford: Oxford University Press, 2001).
    • Mandelbaum, Michael. The Fate of Nations: The Search for National Security in the Nineteenth and Twentieth Centuries. (Cambridge: Cambridge University Press, 1988).
    • Mawdsley, Evan. World War II: A New History (Cambridge: Cambridge University Press, 2009).
    • McDonough, Frank. The Origins of the First and Second World Wars (Cambridge: Cambridge University Press, 1997).
    • Murray, Williamson og Allan Reed Millett. A War to Be Won: Fighting the Second World War. (Cambridge, MA.: Harvard University Press, 2001).
    • Myers, Ramonog Mark Peattie. The Japanese Colonial Empire, 1895–1945. (Princeton: Princeton University Press, 1987).
    • Passmore, Kevin. Fascisim: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2002).
    • Preston, Peter. Pacific Asia in the Global System: An Introduction. (Oxford: Blackwell, 1998).
    • Reynolds, David. From World War to Cold War: Churchill, Roosevelt, and the International History of the 1940s (Oxford: Oxford University Press, 2006).
    • Shaw, Anthony. World War II Day by Day. (MBI Publishing Company, 2000).
    • Smith, Winston og Ralph Steadman. All Riot on the Western Front, Volume 3. (Last Gasp, 2004).
    • Stahel, David. Operation Barbarossa and Germany's Defeat in the East (Cambridge: Cambridge University Press, 2009).
    • Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum?“. Vísindavefurinn 14.2.2007. http://visindavefur.is/?id=6497. (Skoðað 10.2.2011).
    • Stokesbury, James L. A Short History of World War II (Harper, 1980).
    • Toland, John og Carlo D'Este. Battle: The Story of the Bulge (New York: Random House, 1959).
    • Weinberg, Gerhard L. A World at Arms: A Global History of World War II. (Cambridge: Cambridge University Press, 1995).
    • Zalampas, Michael. Adolf Hitler and the Third Reich in American magazines, 1923–1939. (Bowling Green University Popular Press, 1989).
    • Zaloga, Steven og Michael Welply. Kasserine Pass 1943: Rommel's Last Victory (Osprey Publishing, 2005).
    • Zaloga, Steven og Peter Dennis. Anzio 1944: The Beleaguered Beachhead (Osprey Publishing, 2005).

    Tenglar

    breyta