Eisenstadt (ungverska: Kismarton; króatíska: Željezno) er höfuðborg sambandslandsins Burgenland í Austurríki. Íbúar eru um 13 þúsund talsins.

Skjaldarmerki Lega
Upplýsingar
Sambandsland: Burgenland
Flatarmál: 42,84 km²
Mannfjöldi: 13.485 (1. jan 2014)
Þéttleiki byggðar: 302/km²
Vefsíða: www.eisenstadt.at

Lega og lýsing

breyta

Eisenstadt liggur mjög austarlega í Austurríki, rétt vestan við Neusiedler See og aðeins steinsnar frá ungversku landamærunum. Næstu borgir eru Sopron í Ungverjalandi til suðurs (20 km), Wiener Neustadt til vesturs (30 km), Vín til norðurs (50 km) og Bratislava í Slóvakíu til norðausturs (70 km). Eisenstadt liggur að öðru leyti við rætur Leithafjalla sem teygja sig frá Alpafjöllum til Slóvakíu.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerkið sýnir svartan örn sitjandi á hvítum borgarturni. Bakgrunnurinn er rauður. Mitt í erninum eru stafirnir FIII en þeir standa fyrir Ferdinand III, erkihertoga af Austurríki og keisari þýska ríkisins á 17. öld. Örninn er merki þýska ríkisins en borgarturninn vísar til Esterházy-kastalans, sem um aldir var aðsetur ríkjandi greifa í Eisenstadt, og er eitt þeirra borgarvirkja sem Burgenland er nefnt eftir.

Orðsifjar

breyta

Eisenstadt merkir Járnborgin. Hún hét upphaflega Castrum Ferrum, sem merkir það sama á latnesku. Járn stendur hérna í merkingunni óvinnanlegt virki (sterkt virki) og hefur ekkert með málminn að gera. Ungverjar kölluðu borgina Kismarton, sem merkir Litli Marteinn (Kis = lítill, Marton = Marteinn). Þannig heitir hún enn í dag á ungversku.

Söguágrip

breyta
 
Tónskáldið Joseph Haydn starfaði í þrjá áratugi í Eisenstadt

Árið 1264 kom Eisenstadt fyrst við skjöl og var þá ungversk. 1373 eignaðist Kanizsai-ættin frá Ungverjalandi borgina. Þá var reist mikill borgarmúr og vatnavirki. Eftir það flutti þýskumælandi fólk þangað og 1445 keypti hertoginn Albrecht VI borgina. Næstu 150 árin var borgin því í þýskum höndum. Tyrkir (osmanir) eyddu borginni 1529 og aftur 1532 á leið sinni til Vínar. Seinna á 16. öld eignaðist Esterházy-ættin frá Ungverjalandi borgina, sem þó var enn undir yfirstjórn keisarans í Vín. 1648, árið sem 30 ára stríðinu lauk, keyptu íbúar sig lausan undan öllum yfirráðum. Eisenstadt varð að fríborg. Verðið var 16 þúsund gyllini og 3.000 fötur af víni. Esterházy-ættin stjórnaði borginni með miklum glans. Borgarvirkinu var umbreytt í kastala, sem jafnvel María Teresía sótti heim. Um miðja 18. öldina starfaði tónskáldið Joseph Haydn sem hljómsveitarstjóri í kastalanum. 1897 hlaut Eisenstadt járnbrautartengingu við ungverska járnbrautarkerfið. Við tapið í heimstyrjöldinni fyrri 1918 leystist Esterházy-ættin upp og við tók nokkra ára þræta um eign á borginni, enda gerðu bæði Austurríki og Ungverjaland tilkall til hennar. Árið 1919 var samþykkt að borgin skyldi tilheyra Austurríki, enda nýbúið að stofna sambandslandið Burgenland, en það kom ekki til framkvæmda fyrr en 1921. Í fyrstu var Ödenburg höfuðborg Burgenlands, en hún þótti of lítil fyrir hlutverkið. 1925 var ákveðið að flytja þingið til Eisenstadt og hefur hún verið höfuðborg Burgenlands síðan, fyrir utan nasistatímann 1938-1945 er Hitler leysti Burgenland upp. 1945 hertóku Sovétmenn Eisenstadt og var hún í sovéska hernámshlutanum allt til 1955.

Viðburðir

breyta

Haydn-hátíðin er haldin árlega í Eisenstadt, enda starfaði tónskáldið Joseph Haydn þar í borg í um þrjá áratugi. Hátíðin fer fram á 90 stöðum í borginni en þungamiðjan er Esterházy-kastalinn, þar sem Haydn sjálfur starfaði. Samfara hátíðinni og tónleikunum fer einnig fram tónlistarkeppni í strengjum og píanó.

Hátíð hinna þúsund vína (Fest der 1000 Weine) er vínhátíð í borginni, það stærsta í Burgenland. Það hefur verið haldið síðan 1964 og er tíu daga að lengd. Á hátíðinni er aðallega borið fram vín frá Burgenland og samfara því eru ýmsir tónlistarviðburðir. Ávallt er það kona sem kynnir vínin hverju sinni og er hún kölluð víndrottningin (Weinköningin).

Vinabæir

breyta

Eisenstadt viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Esterházy-kastalinn
  • Esterházy-kastalinn er gamla aðsetur Esterházy-ættarinnar ungversku og er jafnframt einkennnisbygging Eisenstadt. 1364 keypti Kanizsay-ættin lítið virki og breytti því í kastala. Jafnframt reistu þeir múr umhverfis kastalann og borgina alla. Árið 1622 eignaðist Esterházy-ættin kastalann og var honum fljótlega breytt í barokkhöll. Á 19. öld starfaði tónskáldið Joseph Haydn í kastalanum, bæði sem tónskáld og sem hljómsveitarstjóri. Eftir heimstyrjöldina síðari flutti hluti af stjórnarskrifstofum Burgenlands í kastalann.
  • Dómkirkjan í Eisenstadt er biskupakirkja kaþólsku kirkjunnar í borginni. Hún var reist á 13. og 14. öld og helguð heilugum Marteini. 1460 var kirkjunni breytt í virkiskirkju, þar sem íbúarnir óttuðust innrás Tyrkja. 1522 brann kirkjan og var ekki lagfærð fyrr en 1610-29. Kirkjan var gerð að dómkirkju 1960 er biskupsstóll var stofnaður í Eisenstadt. Í henni fara fram tónleikar á tónverkum Josephs Haydn.
  • Haydn-Kirche (einnig kölluð Bergkirkjan) er ein einkennilegasta bygging borgarinnar. Hér er um kaþólska kirkju að ræða sem reist var á aflíðandi hæð á 18. öld. Þakið er margbrotið og nær næstum því niður á jafnsléttu. 1932 var lítið grafhýsi búið til í kirkjunni en þar hvílir tónskáldið Joseph Haydn í dag. Kirkjan er ákaflega vinsæl meðal ferðamanna.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Eisenstadt“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 1. desember 2011.