Mið-Evrópa er hluti Evrópu sem liggur á milli Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu. Hugtakið hefur verið skilgreint á ýmsan hátt í gegnum tíðina þar sem það er ekki skýrt landfræðilega afmarkað. Almennt telst þetta svæði telja löndin Pólland, Tékkland, Slóvakíu, Ungverjaland, Rúmeníu og Slóveníu. Eftir fall Járntjaldsins hefur færst í vöxt að telja Alpalöndin, Þýskaland, Sviss, Austurríki og Liechtenstein, til Mið-Evrópu, fremur en Vestur-Evrópu. Stundum eru Balkanlöndin Króatía, Bosnía-Hersegóvína, Svartfjallaland, Serbía , Búlgaría, Albanía og Norður-Makedónía talin til Mið-Evrópu en það er þó sjaldgæft.

Mið-Evrópa skilgreind sem Alpalöndin og Visegrád-löndin.
Mið-Evrópa

Hugmyndin um Mið-Evrópu byggir einkum á sameiginlegri sögu svæðisins, í andstöðu við austrið: Tyrkjaveldi og Rússneska keisaradæmið. Allt til Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru þessi lönd einnig í andstöðu við vestrið vegna íhaldssemi og andstöðu við frjálslyndishugmyndir í stjórnmálum. Fyrst eftir Seinni heimsstyrjöld náðu lýðræðishugmyndir yfirhöndinni í Þýskalandi og Austurríki, en á þeim sama tíma féll hugmyndin um Mið-Evrópu algerlega í skuggann af skiptingunni í Austur- og Vestur-Evrópu, eftir því hvort löndin voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna eða ekki.

Stundum er sagt að Mið-Evrópa sé það sem Austur-Evrópubúar líti á sem Vestur-Evrópu, og Vestur-Evrópubúar líti á sem Austur-Evrópu.