Spænska erfðastríðið
Spænska erfðastríðið var styrjöld í Evrópu sem stóð frá 1701 til 1714. Orsök styrjaldarinnar var möguleg sameining Spánar og Frakklands undir einum konungi af ætt Búrbóna sem hefði raskað valdajafnvægi Evrópu. Þetta varð til þess að hið Heilaga rómverska ríki, Bretland og Holland auk Savoja, Prússlands og Portúgals gerðu með sér bandalag gegn Spáni og Frakklandi.
Spænsku ríkiserfðirnar
breytaÞað hafði lengi verið ljóst að Karl 2. Spánarkonungur myndi ekki ríkja lengi og myndi ekki eignast afkomendur vegna veikinda hans. Það voru einkum hin austurríska grein Habsborgara og franska konungsættin, Búrbónar, sem tókust á um ríkiserfðir á Spáni að Karli látnum. Loðvík erfðaprins (1661-1711) var sá sem átti mest tilkall til spænsku krúnunnar þar sem hann var eini lögmæti sonur Loðvíks 14. og spænsku prinsessunnar Maríu Teresu sem var eldri hálfsystir Karls. Auk þess var föðuramma hans Anna frá Austurríki systir Filippusar 4. föður Karls. Bæði María og Anna höfðu samt gefið eftir allt tilkall til ríkiserfða þegar þær giftust og auk þess var Loðvík ríkisarfi í Frakklandi sem hefði þýtt konungssamband milli heimsveldanna tveggja.
Hinn möguleikinn var Leópold 1. keisari hins Heilaga rómverska ríkis af ætt Habsborgara. Þeir Karl voru systkinabörn þar sem móðir hans var líka systir Filippusar 4. Að auki hafði Filippus í erfðaskrá sinni látið ríkiserfðirnar ganga til austurrísku Habsborgaranna. Þessi leið var líka vandkvæðum háð þar sem hún hefði endurreist hið gríðarmikla veldi Habsborgara sem síðast var undir einni stjórn á 16. öld á tímum Karls 5..
Þriðji möguleikinn var Jósef Ferdinand af Bæjaralandi sem var barnabarn Leópolds í kvenlegg þannig að hann tilheyrði ekki Habsborgurum heldur Wittelsbach-ættinni. Hann var því mun vænlegri kandídat þar sem valdataka hans fól í sér litla hættu á sameiningu við Frakkland eða keisaradæmið.
Aðdragandi stríðs
breytaVið lok Níu ára stríðsins 1697 komust Bretar og Frakkar að samkomulagi um að Jósef yrði ríkisarfi á Spáni en að hlutum spænska ríkisins í Evrópu yrði skipt. Spænska stjórnin mótmælti þessu og Karl 2. gerði erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Jósef Ferdinand að öllum löndum Spánar, ekki bara þeim sem Frakkar og Bretar vildu að hann fengi. Furstinn dó hins vegar úr bólusótt árið 1699 og vandamálið kom því aftur upp. England og Frakkland gerðu því nýtt samkomulag þar sem Karl erkihertogi var útnefndur ríkisarfi en lönd Spánar á Ítalíu gengu til Frakklands. Austurríkismenn voru ósáttir við þetta fyrirkomulag því þeir ásældust Ítalíu fremur en Spán. Andstaðan var jafnvel enn meiri á Spáni og að lokum samþykkti Karl 2. að útnefna Filippus, næstelsta son Loðvíks ríkisarfa, erfingja sinn.
Frakkar, að áeggjan utanríkisráðherrans Jean-Baptiste Colbert af Torcy, féllust á þennan ráðahag þótt það myndi óhjákvæmilega kosta stríð við Austurríkismenn. Karl 2. lést 1. nóvember 1700 og 24. nóvember lýsti Loðvík 14. Filippus af Anjou konung spænska heimsveldisins. Vilhjálmur 3. Englandskonungur gat ekki farið í stríð við Frakka þar sem hann skorti stuðning innanlands og féllst því treglega á þennan ráðahag árið 1701. Loðvík gekk hins vegar of langt í því að tryggja yfirráð Frakka þegar hann bannaði verslun milli Spánar og Englands og Hollands. Bretar gerðu þá samkomulag við Hollendinga og Austurríkismenn þar sem þeir sættust á að Filippus yrði Spánarkonungur, en að spænsku héruðin á Ítalíu skyldu ganga til Austurríkis auk Spænsku Niðurlanda. Nokkrum dögum síðar lést Jakob 2. Englandskonungur í útlegð í Frakklandi og Loðvík lýsti því yfir að sonur hans Jakob Frans Stúart væri réttmætur konungur Englands. Þetta hafði þau áhrif á almenningsálitið í Englandi að Vilhjálmur fékk þann stuðning sem hann þurfti til að undirbúa stríð við Frakka. Hollendingar höfðu þá þegar tekið til við að koma sér upp her.
Stríðið
breytaStríðið hófst á því að Austurríkismenn undir stjórn Evgeníusar af Savoja gerðu innrás á Ítalíu 1702. Þrátt fyrir stærri her tókst Frökkum ekki að hrekja þá þaðan. Anna Englandsdrottning sem tók við völdum eftir lát Vilhjálms 1702 hélt stríðsundirbúningi áfram og það ár leiddi John Churchill hertogi af Marlborough sameinaðan her Breta, Hollendinga og Þjóðverja gegnum Niðurlönd.
1704 ákváðu Frakkar að halda með fransk-bæverskan her til Vínarborgar. Marlborough hélt þá með sína heri gegnum Þýskaland um leið og Evgeníus hélt sínum her í norðurátt. Herirnir mættust í orrustunni við Blenheim þar sem Englendingar, Hollendingar og Austurríkismenn unnu afgerandi sigur. Afleiðingin var sú að Bæjaraland dró sig út úr styrjöldinni. Brátt voru Frakkar hraktir frá Ítalíu, Spænsku Niðurlöndum og Þýskalandi og þungamiðja styrjaldarinnar fluttist til Spánar.
Ósigrar Frakka í styrjöldinni gerðu það að verkum að landið var á barmi hruns og Loðvík neyddist til að semja um frið. Hann samþykkti að láta bandamönnunum Spán eftir ef hann fengi að halda Napólí. Bandamennirnir vildu hins vegar að hann sendi sjálfur her til að varpa eigin barnabarni, Filippusi 5., af stóli á Spáni. Loðvík féllst ekki á þetta og ákvað því að berjast til síðustu stundar. Herir bandalagsins voru þá komnir í ógöngur; þeir náðu ekki afgerandi árangri á Spáni og í Frakklandi sjálfu. Stuðningur við styrjöldina fór minnkandi í Bretlandi og 1710 komust íhaldsmenn til valda í ríkisstjórninni en þeir studdu friðarumleitanir.
Friðarsamningar
breytaMeð Utrecht-samningunum 1713 hættu Bretar og Hollendingar þátttöku í stríðinu, viðurkenndu Filippus sem Spánarkonung gegn því að hann afsalaði sér öllu tilkalli til frönsku krúnunnar. Savoja fékk Sikiley og hluta af hertogadæminu Mílanó en Karl 4. keisari fékk Spænsku Niðurlönd, konungsríkið Napólí, Sardiníu og stærstan hluta hertogadæmisins Mílanó. Spánn viðurkenndi yfirráð Portúgals yfir Brasilíu. Bretar fengu Gíbraltar og Menorka og Frakkar gáfu eftir tilkall sitt til landsvæða Hudsonflóafélagsins í Norður-Ameríku.
Árið eftir gerðu Frakkar og Austurríkismenn með sér friðarsamninga í Rastatt og Baden 1714 en Barselóna, sem hafði stutt Karl keisara sem ríkisarfa, gafst ekki upp fyrir her Búrbóna fyrr en 11. september 1714 eftir langt umsátur.