Spánn

land í Suðvestur-Evrópu

Spánn (spænska: España; katalónska Espanya; baskneska Espainia) er konungsríki á Íberíuskaga í Suðvestur-Evrópu. Hið opinbera heiti landsins er Konungsríkið Spánn (Reino de España). Lönd sem liggja að Spáni eru Portúgal að vestan og Frakkland að norðan. Auk þess er örríkið Andorra í Pýreneafjöllum á landamærum Spánar og Frakklands. Syðst á Spáni er kletturinn Gíbraltar, sem er lítið landsvæði undir yfirráðum Breta. Að norðaustan liggur Biskajaflói að Spáni, Atlantshafið að suðvestan og að sunnan er Gíbraltarsund og svo Miðjarðarhafið að suðaustan og austan. Syðsti oddi Spánar er jafnframt syðsti oddi meginlands Evrópu. Spáni tilheyra Baleareyjar í Miðjarðarhafi (Majorka, Menorka og Íbísa), Kanaríeyjar í Atlantshafi og útlendurnar Ceuta og Melilla í Norður-Afríku.

Konungsríkið Spánn
Reino de España
Fáni Spánar Skjaldarmerki Spánar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Plus Ultra (latína)
Áfram lengra
Þjóðsöngur:
Marcha Real
Staðsetning Spánar
Höfuðborg Madríd
Opinbert tungumál spænska (kastillíska)
(katalónska, baskneska og galisíska eru einnig opinber tungumál í sumum héruðum.)
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Filippus 6.
Forsætisráðherra Pedro Sánchez
Stofnun
 • Sameining 1479 
 • í reynd 1516 
 • formleg 1715 
Evrópusambandsaðild 1. janúar 1986
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
51. sæti
505.990 km²
0,89
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
30. sæti
47.450.795
94/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 1.942 millj. dala (15. sæti)
 • Á mann 41.736 dalir (32. sæti)
VÞL (2019) 0.904 (25. sæti)
Gjaldmiðill evra (€) (EUR)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .es
Landsnúmer +34

Spánn er rúmlega 505 þúsund ferkílómetrarflatarmáli eða um það bil fimm sinnum stærra en Ísland. Á Spáni búa um 46 milljónir manna. Stærstu borgir Spánar eru höfuðborgin, Madrid og Barcelona. Í Madríd búa um 5,5 milljónir manna og tæpar fimm milljónir í Barselóna. Spánn er fornfrægt menningarríki. Arabar og Berbar lögðu hluta af Spáni undir sig á miðöldum og voru þar kallaðir Márar. Miklar minjar eru um dvöl þeirra á Spáni, meðal annars Alhambrahöllin. Barselóna þykir mjög athyglisverð fyrir nútímabyggingarlist og ber þar helst að nefna Antoni Gaudí en byggingar hans eru víða í borginni.

Spánn var einræðisríki undir stjórn Franciscos Franco einræðisherra frá 1939 til 1975. Jóhann Karl 1. var konungur Spánar frá 1975 til 2014. Núverandi konungur er Filippus 6.

Á Spáni hafa fundist elstu merki um menn frá forsögulegum tíma í Evrópu frá því fyrir meira en 1,2 milljónum ára síðan. Cro Magnon-menn komu inn á skagann fyrir 35 þúsund árum síðan. Þekktustu minjar um menn frá þessum tíma eru meðal annars hellamálverkin í Altamira í Kantabríu sem eru um 17 þúsund ára gamlar.

Helstu þjóðirnar á Spáni í fornöld voru Íberar, sem settust að við Miðjarðarhafsströndina í austri, og Keltar, sem settust að við Atlantshafsströndina í vestri. Að auki bjuggu þá Baskar í vesturhluta Pýreneafjalla. Aðrir þjóðflokkar byggðu svo suðurströndina þar sem nú er Andalúsía. Föníkar og Grikkir stofnuðu nýlendur á Miðjarðarhafsströndinni og verslun blómstraði með málma úr námum á Spáni.

Rómaveldi

breyta

Á 3. öld f.Kr., undir lok Annars púnverska stríðsins, lögðu Rómverjar undir sig nýlendur Karþagóbúa á Spáni og náðu brátt yfirráðum yfir öllum Íberíuskaganum. Rómversk yfirráð stóðu í hálft árþúsund og höfðu varanleg áhrif á tungumál, menningu og siði íbúanna. Meðal þess sem Rómverjar komu á voru stórjarðeignir undir yfirráðum lends aðals sem framleiddu landbúnaðarvörur fyrir heimsveldið. Hispanía var rómverskt skattland. Henni var upphaflega skipt í tvennt; Hispania Citerior (norðausturhluti skagans) og Hispania Ulterior (suðvesturhluti skagans). Síðar skipti Ágústus keisari skaganum í þrjú skattlönd: Hispania Baetica (höfuðborg Córdoba), Hispania Lusitania (höfuðborg Mérida) og Hispania Citerior (höfuðborg Tarragona).

Vesturgotar

breyta

Með hnignun Vestrómverska keisaradæmisins á 5. öld lögðu germanskir þjóðflokkar, Svefar, Vandalar og að lokum Vesturgotar, Íberíuskagann undir sig. Konungar Vesturgota voru að nafninu til undirkonungar (patrisíar) sem ríktu í nafni Rómarkeisara. Þeir gerðu Tóledó að höfuðborg. Á þeim tíma efldust menningarleg og trúarleg ítök kaþólsku kirkjunnar mikið þótt Vesturgotar væru arískt kristnir eða heiðnir fram til loka 6. aldar þegar konungur þeirra tók upp kaþólska trú.

al-Andalus

breyta

Múslimskir Márar og Arabar frá Norður-Afríku lögðu nánast allan Íberíuskagann undir sig á aðeins sjö árum 711 til 718 undir stjórn Úmajada. Veldi Vesturgota, sem þá var margklofið vegna deilna um ríkiserfðir, kom engum vörnum við og síðasti konungurinn Roderic lést í bardaga. Innrásarherinn stofnaði ríkið al-Andalus. Þegar Abbasídar tóku völdin af Úmajödum árið 750 stofnaði einn af prinsum Úmajada í útlegð, Abd-ar-Rahman 1., sjálfstætt emírat í Córdoba og neitaði að beygja sig undir yfirráð Abbasída. Undir yfirráðum Abd-al-Rahman 3. sem lýsti sig kalífa á 10. öld gengu Córdoba og al-Andalus í gegnum blómaskeið þar sem þau nutu menningarlegra og viðskiptalegra tengsla við Arabaheiminn, en héldu samt sem áður sjálfstæði gagnvart kalífatinu í Bagdad.

Reconquista

breyta
 
Ferdinand og Ísabella við fótskör Maríu meyjar.

Í upphafi 11. aldar klofnaði ríkið hins vegar í mörg sjálfstæð ríki eftir borgarastyrjöld. Kristnu smáríkin í norðaustri, León, Kastilía og Baskaland tóku að sækja í sig veðrið við endurheimt Spánar (Reconquista) einkum undir stjórn Alfons 6. sem varð konungur bæði Kastilíu og León árið 1072. Múslimsku konungarnir óskuðu þá eftir aðstoð frá Almoravídum sem ríktu yfir Marokkó. Þeir lögðu öll múslimsku ríkin á skaganum, nema Saragossa, undir sig 1094. Áður höfðu kristnu ríkin lagt Tóledó undir sig. Almóhadar tóku við völdum í Marokkó af Almóravídum á 12. öld en náðu ekki að standast framrás kristnu konunganna sem lögðu meirihluta skagans undir sig í röð átaka á 13. öld. Portúgal varð til þegar Alfonsó 1. lýsti sig konung Portúgals árið 1139. Eina ríkið sem eftir var undir stjórn Múslima var Granada á syðsta odda skagans. Marínídum tókst ekki að leggja al-Andalus undir sig með innrásum á 13. og 14. öld.

Árið 1469 gengu konungsríkin Aragón og Kastilía í konungssamband með hjónabandi Ísabellu af Kastilíu og Ferdinands af Aragón. Ferdinand og Ísabella lögðu Granada undir sig sama ár og Kristófer Kólumbus kom til Nýja heimsins í leiðangri sem þau fjármögnuðu. Þau hófu líka skipulegar ofsóknir á hendur Márum og Gyðingum á Spáni og stóðu fyrir stofnun Spænska rannsóknarréttarins.

Gullöld Spánar

breyta
 
Flotinn ósigrandi leggur upp frá Spáni.

Með sameiningu ríkjanna Aragón, León, Kastilíu og Navarra var grundvöllur lagður að nútímaríkinu Spáni og Spænska heimsveldinu sem náði hátindi sínum undir stjórn Karls 5. sem var samtímis konungur Spánar og keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1519 til 1556. Með honum komust Habsborgarar til valda á Spáni. Árið 1580 varð Filippus 2. Spánarkonungur einnig konungur Portúgals sem sameinaði þessi tvö heimsveldi í eitt konungssamband til ársins 1640. Spánn og Portúgal lögðu á þessum tíma undir sig Rómönsku Ameríku, meirihluta Karíbahafsins og einokuðu auk þess verslun við Afríku og Austur-Indíur. Gullöld Spánar er venjulega talin frá 1492 til 1659.

Þegar á 16. öld tók þessu mikla heimsveldi að hnigna. Englendingar og Frakkar sóttu gegn nýlendum Spánar í Nýja heiminum, bæði með sjóránum gegn skipum sem fluttu góðmálma til Spánar og eins með launverslun við nýlendurnar sem Spánn reyndist ófær um að sjá fyrir nauðsynjum. Mikið flæði gulls og silfurs frá Nýja heiminum olli síðan óðaverðbólgu á Íberíuskaganum sem skaðaði efnahag Spánar enn frekar. Tilraun Filippusar 2. til að sýna Englandi í tvo heimana með Flotanum ósigrandi 1588 mistókst herfilega og Hollendingar sögðu sig úr lögum við Spán 1585 og rændu hverri höfninni af annarri frá Portúgölum í Austur-Indíum.

 
Dos de mayo eftir Francisco de Goya.

Þrjátíu ára stríðið 1618 til 1648, þar sem Spánverjar reyndu að leggja Holland aftur undir sig, hafði slæm áhrif á efnahag landsins. Portúgal sagði sig úr konungssambandinu 1640 og Spánn varð að gefa Frakklandi eftir landsvæði með Pýreneasáttmálanum 1659 eftir tíu ára styrjöld milli ríkjanna. Eftir Spænska erfðastríðið 17011714 missti Spánn svo öll landsvæði sín í Evrópu utan Íberíuskagans til annarra ríkja og frönsk konungsætt, Búrbónar, tók við völdum.

19. öldin

breyta

Spánn réðist inn í Frakkland í kjölfar Frönsku byltingarinnar en beið ósigur og varð að lokum leppríki Napoléons 1795. Sama ár lýsti Spánn yfir stríði á hendur Bretlandi og Portúgal (sem höfðu gert bandalag). Hörmulegt efnahagsástand leiddi til afsagnar Karls 4. 1808 og Jósep Bonaparte, bróðir Napoléons, tók við völdum. 2. maí sama ár hófst uppreisn gegn hinum erlenda konungi sem markar upphafið að Sjálfstæðisstríði Spánar. Frakkar voru hraktir frá völdum á Spáni 1814. Kreppa Spánar í upphafi 19. aldar leiddi líka til missis nær allra nýlendnanna í Ameríku. 1898 braust Spænsk-bandaríska stríðið út sem leiddi til missis Filippseyja, Gvam og Púertó Ríkó í hendur Bandaríkjanna og sjálfstæðis Kúbu.

 
Franco ásamt Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseta í Madríd 1959.

20. öldin

breyta

Í upphafi 20. aldar tók Spánn stuttlega þátt í kapphlaupinu um Afríku og lagði undir sig Miðbaugs-Gíneu, Vestur-Sahara og Spænsku Marokkó. Alræðisstjórn Miguel Primo de Rivera 1923-1931 leiddi til stofnunar Annars spænska lýðveldisins sem veitti Baskalandi, Galisíu og Katalóníu sjálfsstjórn að hluta og konum kosningarétt. 1936 braust Spænska borgarastyrjöldin út. Hún stóð til 1939 og lyktaði með sigri Falangista undir stjórn Francisco Franco hershöfðingja. Franco kom á flokksræði á Spáni sem byggðist á áherslu á hefðbundin þjóðleg gildi, andkommúnisma og kaþólska trú.

Spánn var hlutlaus í síðari heimsstyrjöldinni og eftir ósigur Öxulveldanna var landið einangrað í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Með tilkomu Kalda stríðsins varð landið mikilvægt sem bandamaður Bandaríkjamanna og efnahagslífið blómstraði á 7. áratugnum. Við lát Francos 1975 tók Jóhann Karl 1. við völdum sem konungur Spánar. Lýðræði var aftur komið á með nýrri stjórnarskrá 1978 þrátt fyrir andstöðu margra gamalla stuðningsmanna Francos sem meðal annars reyndu að gera herforingjabyltingu árið 1981.

2002 tók Spánn upp evru sem gjaldmiðil í stað peseta. Mikill efnahagsuppgangur einkenndi fyrstu ár 21. aldar á Spáni með tilheyrandi verðhækkunum neysluvara og hækkunum á húsnæðisverði.

Herskáu basknesku samtökin E.T.A. voru leyst upp árið 2018 en frá 1968 til 2010 drápu samtökin 829 manns, aðallega á Spáni.

Landafræði

breyta

Spánn er 504.782 km² að stærð, 51. stærsta land heims, álíka stórt og Frakkland og fimm sinnum stærra en Ísland. Í vestri á landið landamæri að Portúgal og í suðri að breska yfirráðasvæðinu Gíbraltar og Marokkó við spænsku borgirnar Ceuta og Melilla á norðurströnd Afríku. Í norðaustri liggja landamæri Spánar og Frakklands eftir Pýreneafjöllunum þar sem einnig er smáríkið Andorra. Spáni tilheyra eyjaklasarnir Kanaríeyjar í Atlantshafi undan vesturströnd Norður-Afríku og Baleareyjar í Miðjarðarhafinu austan við Spán. Að auki ná yfirráð Spánar yfir nokkrar óbyggðar eyjar Miðjarðarhafsmegin við Gíbraltarsund. Lítil útlenda, Llívia, er innan Frakklands í Pýreneafjöllunum.

Stærstur hluti meginlands Spánar er háslétta og fjallgarðar á borð við Sierra Nevada. Þaðan renna helstu árnar, Tagus, Ebró, Duero, Guadiana og Guadalquivir. Flóðsléttur er að finna meðfram ströndinni, þá stærstu við Guadalquivir í Andalúsíu.

Veðurfar á Spáni er mjög mismunandi eftir landsvæðum. Gróflega má skipta því í þrennt: Milt meginlandsloftslag ríkir inni á skaganum, Miðjarðarhafsloftslag við austurströndina og úthafsloftslag í Galisíu og við Biskajaflóa í norðvestri.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta
 
sjálfstjórnarsvæði og sjálfstjórnarborgir

Spánn skiptist í sautján sjálfstjórnarsvæði (comunidades autónomas) og tvær sjálfstjórnarborgir (ciudades autónomas) - Ceuta og Melilla á norðurströnd Afríku.

Sjálfsstjórnarsvæðin hafa allmikinn rétt til að ráða sínum hag sjálf, en sum svæði hafa mun meiri sjálfsstjórnarrétt en önnur og svipar sambandi þeirra við Spán meira til ríkjasambands. Það eru svæðin Andalúsía, Katalónía, Galisía, Navarra, og Baskaland.

Að auki skiptist Spánn í fimmtíu héruð. Sjö sjálfstjórnarsvæði eru aðeins eitt hérað: Astúrías, Baleareyjar, Kantabría, La Rioja, Madríd, Múrsía og Navarra (Sjá: Héruð Spánar). Lægsta stjórnsýslustigið eru sveitarfélögin (municipios).

Sjálfsstjórnarsvæðin eru:

Fáni Nafn Nafn á spænsku Höfuðstaður
  Andalúsía Andalucía Sevilla
  Aragón Aragón Saragossa
  Astúrías Principado de Asturias Oviedo
  Baleareyjar Islas Baleares Palma
  Baskaland País Vasco Vitoria
  Extremadúra Extremadura Mérida
  Galisía Galicia Santiago de Compostela
  Kanaríeyjar Islas Canarias Santa Cruz de Tenerife/Las Palmas
  Kantabría Cantabria Santander
  Kastilía-La Mancha Castilla-La Mancha Toledo
  Kastilía og León Castilla y León Valladolid
  Katalónía Cataluña Barcelona
  Madríd Comunidad de Madrid Madríd
  Múrsía Región de Murcia Múrsía
  Navarra Comunidad Foral de Navarra Pamplóna
  La Rioja La Rioja Logroño
  Valensía Comunidad Valenciana Valensía

Efnahagslíf

breyta
 
Fjármálahverfið AZCA í Madríd.

Samkvæmt gögnum Alþjóðabankans er hagkerfi Spánar það níunda stærsta í heimi og það fimmta stærsta í Evrópu. Verg landsframleiðsla var áætluð 1.362 milljarðar bandaríkjadala árið 2007 og VLF á mann miðað við kaupmáttarjöfnuð var áætluð 33.700 bandaríkjadalir sama ár sem er hærra en Ítalía og svipað og Japan og Frakkland. Spænska hagkerfið hefur verið í stöðugum vexti síðustu ár, öfugt við hagkerfi hinna stóru Vestur-Evrópuríkjanna sem hafa nánast staðið í stað.

Hagkerfi Spánar er dæmigert þjónustuhagkerfi þar sem nær 65% vinnuafls vinnur við þjónustu, 30% við iðnað og rúm 5% við landbúnað. Ferðamannaiðnaðurinn er landinu afar mikilvægur. Á Norður-Spáni er þungaiðnaður og þar eru unnin kol og járn úr jörðu.

Spáni tókst, undir hægri-ríkisstjórn José María Aznar að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins fyrir upptöku evrunnar sem kom í stað pesetans í almennum viðskiptum árið 2002. Atvinnuleysi var 7,6% árið 2006 sem telst framför miðað við um 20% atvinnuleysi snemma á 10. áratugnum. Helstu vandamál eru stórt neðanjarðarhagkerfi og mikil verðbólga. Spænska hagkerfið óx mikið vegna alþjóðlegra hækkana á húsnæðisverði í byrjun 21. aldar og hlutur byggingariðnaðar af vergri landsframleiðslu var 16%. Um leið hefur skuldastaða heimilanna versnað.

Ferðamannaiðnaður

breyta

Á undanförnum fjórum áratugum hefur ferðamannaiðnaðurinn á Spáni vaxið og orðið sá næststærsti í heimi og veltir árlega 40 milljörðum evra en það jafngilti 5% af vergri landsframleiðslu Spánar árið 2006. Í dag gera veðurfar á Spáni, sögulegar minjar og menningarverðmæti og landfræðileg lega landsins að verkum að ferðamannaiðnaðurinn er meðal helstu atvinnugreina á Spáni. Stjörnugjöf spánskra hótela er kröfuharðari en annarra Evrópulanda.[1]

Íbúar

breyta
 
Landfræðileg dreifing þéttbýlis á Spáni árið 2008.

Árið 2008 var íbúafjöldi Spánar orðinn 46 milljónir. Landið er strjálbýlla en flest önnur lönd í Vestur-Evrópu, með 91 íbúa á hver ferkílómetra. Einnig er dreifing byggðar um landið nokkuð ójöfn. Þéttbýlasta svæði landsins er umhverfis höfuðborgina Madríd, sem er inni í miðju landi, en annars eru helstu þéttbýlissvæðin úti við ströndina. Íbúafjöldi Spánar hefur meira en tvöfaldast frá árinu 1900 en þá bjuggu 18,6 milljónir manna í landinu.

Árið 2008 veitti Spánn 84.170 einstaklingum spánskan ríkisborgararétt. Flestir þeirra komu frá Suður-Ameríkulöndunum Ekvador og Kólumbíu eða frá Marokkó.[2] Þó nokkur hluti aðfluttra kemur frá öðrum Vestur-Evrópuríkjum, svo sem Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi og Noregi.

Innflytjendur

breyta

Samkvæmt upplýsingum frá spænskum yfirvöldum voru 4,5 milljónir erlendra ríkisborgara búsettar í landinu árið 2007. Óháðar kannanir benda til þess að talan sé eilítið hærri eða 4,8 milljónir manna eða um 11% heildaríbúafjölda landsins.[3] Samkvæmt upplýsingum um veitt landvistarleyfi árið 2005 var um hálf milljón Marokkóbúa á Spáni, önnur hálf milljón frá Ekvador, rúmlega 200 þúsund Rúmenar og um 260 þúsund frá Kólumbíu. Af öðrum erlendum ríkisborgurum voru Bretar (8%), Frakkar (8%), Argentínumenn (6%), Þjóðverjar (6%) og Bólivíumenn (3%). Á Spáni eru rúmlega 200 þúsund innflytjendur frá Vestur- og Mið-Afríku.

Af Evrópusambandslöndum er hlutfall innflytjenda næsthæst á Spáni á eftir Kýpur en fjöldi þeirra er langmestur á Spáni. Ástæðurnar eru margar, meðal annars menningarbönd Spánar og Suður-Ameríkuríkja, landfræðileg lega Spánar og öflugur landbúnaður, sem krefst meira af ódýru vinnuafli en vinnumarkaðurinn getur veitt. Einnig setjast margir borgarar annarra Evrópusambandslanda að á Spáni á eftirlaunaárunum.

Menntun

breyta

Á Spáni er menntun á vegum hins opinbera ókeypis. Skólaskylda er frá sex ára aldri til sextán ára aldurs. Þá tekur við tveggja ára langt valfrjálst nám. Núgildandi lög um menntakerfi landsins voru sett árið 2006.[4]

Háskólanám er venjulega fjögurra ára langt nám, nema í læknisfræði og þar sem nemendur taka tvöfalt aðalfag en þá er námið sex ára langt. Háskólar landsins nota evrópska ECTS-einingakerfið og fullt nám telst vera 60 ECTS-einingar á ári. Venjulegt háskólanám er þá 240 ECTS-einingar. Í framhaldsnámi eru í boði meistaragráður (Máster) og doktorsgráður (Doctorado) en hverjum háskóla er í sjálfvald sett að bjóða upp á annars konar gráður í framhaldsnámi.

Á Spáni eru fjölmargir alþjóðlega þekktir háskólar. Meðal þeirra eru:

Tungumál

breyta
 
Tungumál á Spáni. Spænska er langútbreiddasta tungumálið.

Spænska er opinbert tungumál Spánar. Líkt og öll önnur tungumál á Íberíuskaganum (að utanskildri baskneskunni) á það rætur sínar að rekja til þeirrar Latínu sem Rómverjarnir töluðu þegar þeir tóku yfir skagann í 2. púnverska stríðinu árið 210 f.Kr. Eftir það þróaðist tungumálið í mismunandi áttir eftir svæðum. Á miðöldum fór konungsríkið Kastilía með mikil völd og spilaði konungsríkið stóran þátt í endurheimt Spánar (reconquista) frá hinum múslímsku Márum kringum 14. öld. Með því breiddist tungumál Kastilíu út og varð að lokum opinbert tungumál Spánar. Því kallast spænska kastillíska innan Spánar til að aðgreina það frá öðrum málum þeirra.

Á 20. öldinni lagði einræðisherrann Frankó mikið upp úr því að kastillíska (spænska) yrði eina tungumál ríkisins. Notkun annarra tungumála á opinberum vettvangi var ýmist bönnuð eða lítilsvirt.[5] Eftir fráfall Frankós hafa svæðisbundin tungumál Spánar náð ágætri stöðu á ný þó að ríkismálið skyggi oft á þau.

Menning

breyta
 
Áhrif spænska heimsveldisins: Lönd þar sem spænska er opinbert tungumál.

Menning Spánar á rætur að rekja til þeirra margvíslegu þjóða sem hafa byggt Íberíuskagann frá örófi alda, frá Keltum og Íberum til Rómverja, Vesturgota, Berba og Araba. Fyrir utan basknesku eru þau tungumál og mállýskur sem töluð eru á Spáni rómönsk mál, afleiðing af 500 ára yfirráðum Rómverja. Opinbert tungumál alls staðar á spáni er kastillíska en önnur tungumál, s.s. katalónska, baskneska og galisíska hafa opinbera stöðu.

Um 60% Spánverja eru rómversk-kaþólskir en 37% telja sig trúlausa.[6]

Á heimsveldistíma Spánar varð spænsk tunga og spænsk menning, þar með talið kaþólsk trú, ríkjandi menning í nýlendum Spánar um allan heim. Þessa sér enn stað í Rómönsku Ameríku, Filippseyjum í Kyrrahafinu og Miðbaugs-Gíneu í Afríku.

Spánn er í þriðja sæti (á eftir Ítalíu og Kína) yfir þau lönd sem hafa flestar færslur á Heimsminjaskrá UNESCO; 44 færslur.

 
Don Kíkóti eftir Miguel de Cervantes er oft talin fyrsta nútímaskáldsagan.

Spænskar bókmenntir

breyta

Hugtakið spænskar bókmenntir vísar til bókmennta á spænsku, þar á meðal — en ekki einvörðungu — bókmennta eftir höfunda frá Spáni. Stundum eru aðrar bókmenntir á spænsku aðgreindar og nefndar suður-amerískar bókmenntir. Frá Spáni eru einnig til katalónskar bókmenntir, baskneskar bókmenntir og galisískar bókmenntir. Vegna sögulegs og landfræðilegs margbreytileika hafa spænskar bókmenntir orðið fyrir áhrifum víða og eru afar fjölbreyttar.

Miguel de Cervantes er að öllum líkindum frægasti rithöfundur Spánar, víðfrægur fyrir bók sína Don Kíkóti frá 1605.

Tilvísanir

breyta
 1. Trend, Nick (2. júní 2009). „European hotel star ratings explained“. The Daily Telegraph. London. Sótt 4. september 2010.
 2. „EU27 Member States granted citizenship to 696 000 persons in 2008“ Geymt 6 september 2014 í Wayback Machine (PDF). Eurostat. 6. júlí 2010.
 3. „World Disasters Report 2006“. Red Cross. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júní 2009. Sótt 14. ágúst 2008.
 4. La Ley Orgánica 2/2006. Skoðað 23. september 2009.
 5. The use Catalan was banned for the on-duty functionaries of the province of Barcelona in 1940. Cf. Mariño Paz, Ramón (1998). Historia da lingua galega (2.. útgáfa). Santiago de Compostela: Sotelo Blanco. bls. 353. ISBN 84-7824-333-X.
 6. Spánverjar ganga af trúnni Vísir, sótt 16/4 2022

Tenglar

breyta

Ítarefni

breyta
 • Beevor, Antony. The Battle for Spain: The Spanish Civil War 1936-1939. Penguin Books, 2006.
 • Carr, Raymond. Spain: A History. Oxford University Press, 2001.
 • Gies, David T. (ritstj.). The Cambridge Companion to Modern Spanish Culture. Cambridge University Press, 1999.
 • Gies, David T. (ritstj.). The Cambridge History of Spanish Literature. Cambridge University Press, 2009.
 • Graham, Helen. The Spanish Civil War: A Very Short Introduction. Oxford University Press, 2005.
 • Labanyi, Jo. Spanish Literature: A Very Short Introduction. Oxford University Press, 2010.
 • Payne, Stanley G. Spain: A Unique History. University of Wisconsin Press, 2011.
 • Phillips Jr., William D. og Carla Rahn Phillips. A Concise History of Spain. Cambridge University Press, 2010.
 • Turner, Harriet og Adelaida López de Martínez (ritstj.). The Cambridge Companion to the Spanish Novel: From 1600 to the Present. Cambridge University Press, 2003.
 • Walters, D. Gareth. The Cambridge Introduction to Spanish Poetry: Spain and Spanish America. Cambridge University Press, 2003.