Benito Mussolini

Ítalskur einræðisherra og fasistaleiðtogi (1883-1945)

Benito Amilcare Andrea Mussolini (29. júlí 1883 í Predappio nærri Forlì á Ítalíu28. apríl 1945 Giulino di Mezzegra nærri Como á Ítalíu) var ítalskur blaðamaður, rithöfundur, stjórnmálamaður og að lokum einræðisherra sem ríkti yfir Ítalíu á árunum 19221943. Hann var sjálfur helsti kenningasmiður ítalska fasismans. Undir hans stjórn varð Ítalía að fasistaríki þar sem ríkti flokksræði, ritskoðun og markviss útskúfun allrar stjórnarandstöðu. Þegar hann gerðist bandamaður Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni varð Ítalía eitt af skotmörkum bandamanna. Innrás bandamanna á Suður-Ítalíu varð að lokum til þess að hann missti völdin og var á endanum handtekinn nálægt Mílanó (þar sem hann var á flótta til Sviss) og tekinn af lífi af flokki ítalskra andspyrnumanna.

Benito Mussolini
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
31. október 1922 – 25. júlí 1943
ÞjóðhöfðingiViktor Emmanúel 3.
ForveriLuigi Facta
EftirmaðurPietro Badoglio
Leiðtogi Sósíal-fasíska lýðveldisins
Í embætti
23. september 1943 – 25. apríl 1945
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. júlí 1883
Predappio, Ítalíu
Látinn28. apríl 1945 (61 árs) Giulino di Mezzegra, Sósíal-fasíska lýðveldinu
DánarorsökTekinn af lífi
StjórnmálaflokkurÍtalski fasistaflokkurinn
MakiDonna Rachele Mussolini
BörnVittorio og Romano Mussolini, og dóttir hans Edda. Þriðji sonur hans, Bruno, dó í flugslysi 7. ágúst 1941
StarfStjórnmálamaður, fréttamaður, rithöfundur, kennari
Þekktur fyrirAð stjórna Ítalíu í seinni heimstyrjöldinni og að vera einn af upphafsmönnum fasisma
Undirskrift

Uppvaxtarárin

breyta

Benito Mussolini var fæddur 29. júlí árið 1883 í Predappio á Ítalíu. Fjölskylda hans voru smáborgarar, móðir hans var kennari og faðir hans járnsmiður. Faðir Mussolini, sem var sósíalisti, nefndi hann eftir mexíkóska forsetanum Benito Juárez.[1]

Hann lauk kennaraprófi en hvarf frá kennslu eftir skamma tíð og fluttist til Sviss. Hann varð gagntekinn af stjórnmálakenningu sem sprottin var af anarkisma. Sú kenning boðaði það að ofbeldi gæti í sjálfu sér orkað sem skírsla (hreinsun). Mussolini var margoft handtekinn fyrir pólítíska áróðurstarfsemi og slæpingshátt og var loks vísað úr landi. Þegar hann sneri aftur til Ítalíu varð hann rithöfundur og skrifaði pistla í dagblöð. Hann varð vel þekktur á meðal ítalskra jafnaðarmanna en fór fljótt að koma á framfæri skoðunum sínum um stríðið gegn Þýskalandi í fyrri heimstyrjöldinni, það er að segja hann vildi taka þátt. Það fór ekki vel í ítalska jafnræðismenn sem voru gegn þátttöku Ítalíu í stríðinu.

Þegar Ítalía slóst í hóp með bandamönnum til að berjast við Þýskaland árið 1915 gekk Mussolini í herinn. Mussolini fékk stöðu sem undirliðþjálfi, sem var sama staða og Adolf Hitler gegndi, en varð óvígur vegna sprengjubrota og sneri fljótt aftur til Ítalíu. Hann hóf aftur fjölmiðlaferill sinn og fór að þróa hugmyndir sínar sem urðu fljótt þekktar sem fasismi. Fasismi einkennist einkum af andsnúnu lýðræði, frjálslyndi, andkommúnisma, kapítalisma og nútímavæðingu, þjóðernishyggju og stundum kynþáttahyggju.[2][3][4]

Upphaf fasistaríkis

breyta

Haustið 1922 fóru um 25 þúsund fasistar í kröfugöngu frá Napolí til Rómar. Þessi mótmæli urðu þekkt sem „gangan til Rómar“ og varð nasistum til fyrirmyndar. Fasistar kröfðust þess að Mussolini tæki við stjórnarforystu.

Í umrótinu sem gangan til Rómar hafði í för með sér þorðu konungar og ríkisstjórn ekki að setja hart móti hörðu og Mussolini var skipaður forsetisráðherra af Viktori Emmanúel III konungi. En það var ekki aðeins harka og ofbeldi sem komu Mussolini til valda. Þjóðarheiður Ítala var særður vegna rýrðar útkomu við friðargerðina í Versölum. Mussolini notaði sér það og benti á hversu mikið stjórnvöldin hefðu brugðist hagsmunum lands og þjóðar á örlagastundu. Hann sagði að fasistum væru einum treystandi til að vernda hagsmuni og heiður ríkisins. Þetta róaði Ítala, þeir þurftu sterka stjórn og sterkan leiðtoga.[5][6]

 
Benito Mussolini í „göngunni til Rómar“ 1922.

Næstu þrjú árin notuðu fasistar til að ná fullum tökum á ítölsku þjóðarlífi. Mussolini fékk samþykkt ný kosningarlög sem ruddu einræðinu braut. Lögin kváðu svo um að flokkur sem fengi fjórðung atkvæða skyldi sjálfkrafa fá tvo þriðjunga þingsæta.

Við kosningar árið 1924 fékk Fasistaflokkurinn sextíu af hundrað atkvæðum með kosningarsvikum og ógnunum við stjórnmálaandstæðinga sína. Á árunum 1924 til 1925 hreiðruðu fasistar jafnt og þétt um sig í valdastólnum. Þinginu var ýtt til hliðar og ritskoðun komið á. Lagt var bann við starfsemi annarra stjórnmálaflokka, verkalýðsfélaga og verkfalla. Hreinsað var til í stjórnkerfinu þangað til það nærri einungis fasistar sátu í ráðherrasætum. Leynilögregla og sérdómstólar brutu alla stjórnmálaandstöðu á bak aftur. Brátt urðu skólar og æskulýðsfélög uppeldisstöðvar fasista og fasísk viðhorf gegnsýrðu fjölmiðla og menningarlíf. Alræði fasista mátti heita fullskapað árið 1925.[7][5]

Trúið! Hlýðið! Berjist! Samkvæmt stefnuskrá fasista var tryggð við þetta vígorð skylda hvers flokkmanns. Stríðið var dásamað, og í ræðum sínum æsti Mussolini fylgismenn sína til athafna. Eftirfarandi er útdráttur úr dæmigerðri Mussolini-ræðu :[8]
„Liðsforingjar, hermenn, svartstakkar!
Við verðum alltaf að vera sterkari.
Við verðum alltaf að vera hinn sterkari.
Við verðum að vera svo sterkir að við getum
horfst beint í augu við hvaða aðstæður sem vera skal.
Allt líf þjóðarinnar verður og mun verða
að aðlaga sig þessu æðsta sjónarmiði.“[8]

Árið 1929 gerðu Mussolini og Píus 11. páfi Lateran-sáttmálann, en með honum tókst Mussolini að fá kirkjuna til að leggja blessun sína yfir ríki fasista. Vatíkanið varð viðurkennt sem ríki undir stjórn páfa en á móti viðurkenndi hann ítalska ríkið.[9][6]

 
Adolf Hitler og Benito Mussolini í München, Þýskalandi árið 1937.

Ítalir réðust inn í Eþíópíu árið 1935 sem kom þeim í mikla einangrun á alþjóðavettvangi. Til að rjúfa einangrunina vingaðist Mussolini við Hitler.

Samband Ítalíu og Þýskalands styrktist og studdu báðar þjóðirnar málstað Franciscos Franco hershöfðingja í spænska borgarstríðinu árið 1936. Sama ár innsigluðu Mussolini og Hitler bandalag ríkja sinna og þar með var öxullinn að Berlín-Róm lagður. Árið 1939 samþykktu Hitler og Mussolini „Stálsamninginn“, bandalags-og vináttusamkomulag sem skilgreindi skilyrði fyrir sameiginlegu stríði þeirra í Evrópu. Árið 1938 var komið á kynþáttalöggjöf eftir þrýsting frá Þjóðverjum og flestir gyðingar misstu borgararéttindi sín á Ítalíu.[10][11][12]

Seinni heimstyrjöldin

breyta

Seinni heimstyrjöldin hófst 1. september 1939 með innrás Þýskalands inn í Pólland. Það leiddi af sér að Bretland og Frakkland lýstu yfir stríði gegn Þýskalandi þann 3. september.

Mussolini hafði neitað Hitler að ráðast inn í Júgóslavíu og var því ekki flæktur inn í átökin. En þegar Mussolini sá hversu sigursæll Hitler var tók hann stöðu með honum og í framhaldi af því lýsti hann stríði gegn Frökkum og Bretum árið 1940. Ítalir liðsinntu Þjóðverjum í baráttu við Frakka og sú barátta endaði með uppgjöf Frakka.

Ítalir réðust á Grikkland en töpuðu þeirri baráttu ásamt fjórðungi af Albaníu, sem Ítalir höfðu hertekið 1939. Um haustið 1940 skrifuðu Ítalía, Þýskaland og Japan undir Þríveldarsamninginn til að letja Bandaríkin frá stríðsþátttöku en það stoppaði ekki Bandaríkin. Haustið 1941 lýstu Ítalía og Þýskaland yfir stríði á hendur Bandaríkjamanna.

Markmið Mussolini var að ráða yfir miðjarðarhafssvæðinu og stofna nýtt „Rómaveldi“. Honum gekk þó erfiðlega að ná Norður-Afríkulöndunum svo að þýski herinn liðsinnti þeim ítalska.

Vorið 1943 gáfust sameinaður her Ítalíu og Þýskalands upp í Túnis. Þessar miklu ófarir Mussolini öfluðu honum óvinsælda á Ítalíu og fyrrum stuðningsmenn hans byrjuðu að snúast gegn honum.[11][13]

Endalok fasistaríkis

breyta
 
Benito Mussolini á hestbaki 1929.
 
Frá vinstri til hægri má sjá lík kommúnista stjórnmálamannsins Nicola Bombacci, hertogans Benito Mussolini, ástkonu hans Clara Petacci, ráðherrans Alessandro Pavolini og hins virta fasíska stjórnmálamanns Achille Starace, sýnd á Plaza Loreto í Mílanó árið 1945.

Í kjölfar landgöngu Bandamanna á Sikiley og loftárása á ítalska meginlandið snerist þingheimurinn gegn Mussolini og Viktor Emmanúel 3. konungur neyddi hann til að segja af sér 25. júli 1943 og lét taka hann fastan.

Þar með var veldi fasista á Ítalíu fallið. Á þessum tíma var Mussolini með veikur líkamlega og andlega. Sárar kvalir innvortis, er stöfuðu frá bólgum eða magasári, knúðu hann til tíðra hvílda og gerðu hann háðan morfíni. Þegar hann gerðist of veikburða til að vinna langan dag lét hann ljós lifa í skrifstofu sinni um nætur til að blekkja menn.[14][15]

Eftir handtökuna var farið með Mussolini á skíðahótel í Appenina-fjöllunum um 120 km norðvestan við Róm. Þýsk sérsveit leysti Mussolini úr haldi skömmu seinna. Flogið var með Mussolini í Úlfsbælið, bækistöðvar Hitlers í Rastenburg í Austur-Prússlandi. Hitler vildi strax fara að gera áform um endurkomu Mussolinis til stjórna Ítalíu en Mussolini var tregur til. Það olli Hitler vonbrigðum. En Hitler náði sínu fram og lét Mussolini fá fyrirmæli um hvað skyldi gera.

Nýtt fasistaríki, hið svokallaða Sósíal-fasíska lýðveldi (ítalska: Repubblica Sociale Italiana) skyldi stofnað á Norður-Ítalíu undir forystu Mussolini, þó að Þjóðverjar réðu utanríkisstefnu þess og ýmsum efnahagsþáttum og stjórna hluta landsins. Mussolini var í raun leppur Hitlers og var brátt kallaður „fanginn í Gargnano“.

Mussolini byrjaði að taka alla af lífi sem höfðu svikið hann. Einn af þeim var tengdasonur hans, Galeazzo Ciano greifi. Mussolini reyndi að efla herinn og afla nýjum flokki sér til fylgis en skreið hans var runnið á enda, þjóðin hafði snúið baki við honum.[16][17]

Dauði Mussolinis

breyta

Bandamenn sóttu lengra og lengra inn á ítalskt land og Mussolini hrakaði bæði á líkama og sál. Í apríl 1945 ætlaði Mussolini að flýja til Sviss en var handtekinn af ítölskum skæruliðum. Daginn eftir, þann 27. apríl 1945, var hann tekinn af lífi ásamt hjákonu sinni Clarettu Petacci og nokkrum fylgimönnum.[18]

Líkin voru sett á mitt Piazza Loreto, í Mílanó, þar sem allir gátu virt þau fyrir sér. Mannfjöldinn hæddi lík Mussolinis og hrækti á það svo klukkustundum skipti. Einnig var sparkað í það og það skotið. Síðan voru líkin hengd upp á kjötkróka og þau grýtt. Þar héngu líkin þangað til þau rotnuðu og duttu af krókunum. Seinna var lík Mussolinis, eða það sem eftir var af því, jarðsett í grafhvelfingu fjölskyldu Mussolinis í þorpinu Predappio.[19]

Tilvísanir

breyta
  1. Tonge, M.E.; Henry, Stephen; Collins, Gráinne (2004). „Chapter 2“. Living history 2: Italy under Fascism (New. útgáfa). Dublin: EDCO. ISBN 978-1-84536-028-3.
  2. Emblem (1995), bls. 448.
  3. Berndl (2008), bls. 447.
  4. Hrafnkell Tjörvi Stefánsson. „Hvað er fasismi?“. Vísindavefurinn 13.11.2003. http://visindavefur.is/?id=3856. (Skoðað 12.4.2010).
  5. 5,0 5,1 Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson (2008), bls. 229.
  6. 6,0 6,1 Berndl (2008), bls. 470.
  7. Emblem (1995), bls. 448-450.
  8. 8,0 8,1 Poulsen (1985), bls. 148.
  9. Emblem (1995), bls. 450-451.
  10. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson (2008), bls. 238.
  11. 11,0 11,1 Berndl (2008), bls.471.
  12. Emblem (1995), bls. 473, 450.
  13. Emblem (1995), bls. 473-474.
  14. Wallace (1981), bls. 192.
  15. Poulsen (1985), bls. 238.
  16. Wallace (1981), bls. 197.
  17. Poulsen (1985), bls. 237-238.
  18. Wallace (1981), bls. 237-238.
  19. Wallace (1981), bls. 202.

Heimildir

breyta
  • Berndl, Klaus, Markus Hattstein, Arthur Knebel, Hermann-Josef Udelhoven, Saga mannsins frá örófi fram á þennan dag. Ásdís Guðjónsdóttir o.fl. (þýð.), Illugi Jökulsson (ritstj.) (Reykjavík: Skuggi, 2008).
  • Emblem, Terje o.fl., Heimsbyggðin. Saga mannkyns frá öndverðu fram til 1850. Sigurður Ragnarsson (þýð.) (Reykjavík: Mál og menning, 1995).
  • Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, Nýir tímar. Saga Íslands og umheimsins frá lokum 18. aldar til árþúsundamóta (Reykjavík: Mál og menning, 2008).
  • Hrafnkell Tjörvi Stefánsson. „Hvað er fasismi?“. Vísindavefurinn 13.11.2003. http://visindavefur.is/?id=3856. (Skoðað 12.4.2010).
  • Poulsen, Henning, Saga mannkyns ritröð AB. 13. bindi. Stríð á stríð ofan. 1914-1945. Gunnar Stefánsson (þýð.) (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985).
  • Wallace, Robert, Ítalíustríðið. Björn Jónsson (þýð.) (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1981).


Fyrirrennari:
Luigi Facta
Forsætisráðherra Ítalíu
(1922 – 1943)
Eftirmaður:
Pietro Badoglio