Bregenz
Bregenz er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Vorarlberg. Borgin er þekkt fyrir óperusýningar á sérsmíðuðu leiksviði á Bodenvatni.
Bregenz | |
---|---|
Staðsetning | |
Grundvallarupplýsingar | |
Sambandsland: | Vorarlberg |
Stærð: | 29,78 km² |
Íbúafjöldi: | ca 29.000 (2016) |
Þéttleiki: | 938/km² |
Hæð yfir sjávarmáli: | 427 m |
Vefsíða: | http://www.bregenz.at |
Lega og lýsing
breytaBregenz er hafnarborg við austasta enda Bodenvatns, nær vestast í Austurríki. Rínarfljót rennur í Bodensee aðeins 3 km fyrir vestan borgina. Svissnesku landamærin eru 5 km til vesturs, en þau þýsku 3 km til norðurs. Næstu stærri borgir eru Dornbirn til suðurs (10 km), Lindau í Þýskalandi til norðvesturs (10 km) og St. Gallen í Sviss til vesturs (30 km). Til Liechtenstein eru 20 km.
Skjaldarmerki
breytaSkjaldarmerki Bregenz er skinnklætt með hreysikattaskinni, en fyrir miðju eru þrjú hreysikattaskott. Merkið er eitt fárra skjaldarmerkja sem er að öllu leyti litlaust. Merkið var veitt borginni 1529 af Ferdinand konungi (síðar keisara) og var gamli ættarskjöldur greifanna af Bregenz. Hins vegar er álitið að gamli skjöldurinn hafi verið af íkorna, en ekki hreysiketti.
Orðsifjar
breytaBregenz hét upphaflega Brigantion á tímum kelta. Það heiti er annað hvort dregið af keltnesku gyðjunni Brigantia eða af orðinu briga, sem merkir þorpið við vatnið. Rómverjar breytti heitinu lítilsháttar í Brigantium, en eftir fall Rómaveldis afbakaðist heitið smátt og smátt í Bregenz.
Saga
breytaUpphaf
breytaÞað voru keltar sem fyrst reistu bæinn um 500 f.Kr. Þar með er Bregenz með elstu borgum Austurríkis. Rómverjar hertóku héraðið 15 f.Kr. og reistu stóra borg. Þar var einnig rómversk herdeild staðsett, sem og vatnafloti á Bodenvatni. Árið 233 og aftur 259/260 eyddu alemannar borginni. Rómverjar endurreistu hana þó og settu upp mikil varnarvirki umhverfis hana. Reist voru hafnarmannvirki fyrir flotann sem enn eru að hluta til staðar. Gratíanus keisari sótti borgina heim 377. Eftir fall Rómaveldis hófu alemannar að nema land í héraðinu og í borginni. Með öldunum grotnuðu rómversku byggingarnar niður og nýjar risu. Á 7. öld störfuðu írsku trúboðarnir Kolumban og Gallus í borginni.
Miðaldir
breytaBregenz var lengi vel hluti af Bæjaralandi, en greifarnir af Bregenz stjórnuðu borginni. Ekki er vitað hvenær borgin hlaut miðaldaborgarréttindi, en 1330 veitti keisarinn Lúðvík hinn bæverski borginni markaðsréttindi. Bregenz lenti óvart í Appenzell-stríðinu í Sviss. Íbúar Appenzell reyndu að losa við yfirráð biskupanna í St. Gallen og herjuðu á landsvæðin í kring. 1404 herjuðu þeir á Bregenz og lögðu allt í eyði utan borgarmúranna. Borgin sjálf hélt þó velli. Í september 1407 voru þeir aftur á ferðinni og settust um Bregenz í nokkra mánuði og herjuðu grimmt á borgina, sem enn hélt velli. Í janúar á næsta ári mætti her frá Habsborgurum á staðinn. Í orrustunni við Bregenz sigruðu Habsborgarar og björguðu þar með borginni. 1451 keyptu Habsborgarar helming af yfirráðum Bregenz í nærsveitum. Eftir að Montfort-ættin sem þar réði ríkjum dó út 1523 var Bregenz að öllu leyti eign Habsborgar, og þar með Austurríkis.
Frakkar
breyta1646 hertók sameinaður her frá Frakklandi og Svíþjóð borgina í 30 ára stríðinu. Hann hvarf þó á næsta ári, en Svíar sprengdu þó kastalavirkið Hohenbregenz áður. Frakkar voru aftur á ferð 1704 í spænska erfðastríðinu og sátu um borgina, en náðu ekki að vinna hana. Enn voru Frakkar á ferð í héraðinu 1799 og hertóku Bregenz. 1805 var borgin innlimuð Bæjaralandi. Íbúarnir voru mjög á móti Frökkum og gengu margir í landherinn. 29. maí 1809 börðust borgarbúar og aðrir íbúar Vorarlberg við Frakka við Hohenems og sigruðu þá glæsilega. Napoleon sjálfur stjórnaði sínum mönnum í síðari orrustum og náði taki á héraðinu á ný. Fyrir vikið var stór bæverskur her látinn gæta Bregenz. Á Vínarfundinum gerðu Bæjarar ekkert tilkall til Bregens, sem varð aftur austurrísk, ásamt Vorarlberg.
Nýrri tímar
breyta1861 var sambandslandið Vorarlberg formlega stofnað. Bregenz varð að höfuðborg þess og var þá kosinn landstjórn. Þó var æðsta dómskerfið enn í Innsbruck. Algjör aðskilnaður varð ekki fyrr en 1919, er Austurríki varð að lýðveldi. Á því ári kusu íbúar aðskilnað við Austurríki og sóttu um inngöngu í Sviss. Meðan 80% atkvæða féllu með aðskilnaðinum í Vorarlberg, þá kusu í Bregenz fleiri að halda við Austurríki. Ekkert varð þó af sameiningu við Sviss. Þegar Austurríki var innlimað Þýskalandi 1938, var sambandslandið leyst upp. Bregenz varð þá að venjulegri borg í ríkinu. 1. maí 1945 hertóku Frakkar borgina, en Vorarlberg var í franska hernámssvæðinu til 1955. Þrátt fyrir það var Vorarlberg stofnað sem sambandsríki á ný 1945 og varð Bregenz aftur að höfuðborg þess.
Viðburðir
breytaBregenzer Festspiele er heiti á menningarhátíð í júlí og ágúst. Um 80 atriði eru þá á dagskrá. Hápunktur hátíðarinnar er óperusýning á sviði sem reist er á Bodenvatni, en hið tröllaukna leiksvið er það stærsta í heimi. Árið 2008 var sviðið notað fyrir nokkrar upptökur á James Bond myndinni Quantum of Solace.
Íþróttir
breytaMaraþon hinna þriggja landa við Bodenvatn er árlegt Maraþonhlaup sem haldið er í október. Hlaupið er meðfram Bodenvatni í öllum þrem löndum sem að vatninu liggja: Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Lokamarkið er ávallt Bregenz. Einnig er hlaupið hálfmaraþon, boðmaraþon og léttganga (Nordic Walking).
Byggingar og kennileiti
breyta- Hohenbregenz er kastalavirki sem stendur á 598 metra háu fjalli í Bregenz. Það var reist síðla á 11. öld af greifunum af Bregenz og kom fyrst við skjöl 1209. Virkið varð síðar eign Montfort-ættarinnar sem réðu yfir Vorarlberg á 12. öld, en 1451 var efri hlutinn seldur Habsborgurum. 1523 var afgangurinn seldur þeim. Þar sat landfógeti þeirra í nokkrar aldir. Þegar Svíar tóku Bregenz í 30 ára stríðinu, sprengdu þeir virkið og hefur það verið meira eða minna rústir síðan. Eftir það var lítið klaustur innréttað í rústunum. Klausturkirkjan er pílagrímskirkja helguð heilögum Gebharði. Við hlið klaustursins er lítið veitingahús í rústunum.
- Marteinsturninn er einkennisbygging borgarinnar. Hér er um gamalt íbúðarhús og kapellu að ræða. Fyrstu tvær hæðir turnsins voru reistar á 12. öld sem lítil virki fyrir greifana. Á fyrri hluta 14. aldar var kapella innréttuð í húsinu og helguð heilögum Marteini. 1599-1601 fékk húsið turn. Þar uppi eru ítalskar svalir (loggia), en efst er laukþak með smáturni. Í dag er turninn opinn almenningi. Þar fara gjarnan fram hjónavígslur. Turninn er elsta barokkbygging við Bodenvatn og laukþakið er það stærsta í Miðevrópu.
- Kirkja hjarta Jesú (Herz Jesu Kirche) er kaþólsk kirkja í miðborginni. Hún var reist 1905-1906 í nýgotneskum stíl. Turnarnir eru 62 m háir. 1916 var koparinn og tvær klukkur fjarlægðar af kirkjunni, en málminn átti að nota í hergagnaiðnaðinn. Til kirkjunnar heyrir kapella heilags Nepomuk á kornmarkaðinum. Hér er um litla hringlótta kapellu að ræða sem reist var 1757. Að innan eru málverk í rókókóstíl og mannsstyttur í barokkstíl.
- Húsið við Kirchstrasse 29 er aðeins 57 cm breitt og er mjósta hús Evrópu.
-
Marteinsturninn
-
Kirkja hjarta Jesú
-
Nepomuk-kapellan
-
Mjósta hús Evrópu