Gríska
Gríska (gr. Ελληνικά, Ellinika) er indó-evrópskt tungumál sem talað er í Grikklandi og á Kýpur. Gríska er rituð með grísku letri.
Gríska Ελληνικά Ellinika | ||
---|---|---|
Málsvæði | Grikkland, Kýpur, Albanía, Ástralía, Norður-Makedónía, Tyrkland, Búlgaría, Rúmenía, Ítalía, Spánn, Armenía, Líbanon, Georgía, Egyptaland, Jórdanía, Bretland, Bandaríkin, Úkraína, Rússland, Suður-Afríka, Kasakstan, Frakkland ásamt öðrum löndum | |
Heimshluti | Austur-Evrópa, Vestur-Evrópa og Asía | |
Fjöldi málhafa | 17 milljónir | |
Sæti | 52 | |
Ætt | Indóevrópskt Forngríska | |
Skrifletur | Grískt stafróf | |
Opinber staða | ||
Opinbert tungumál |
Grikkland Kýpur Evrópusambandið minnihlutamál á: Albaníu Ítalíu | |
Stýrt af | engum | |
Tungumálakóðar | ||
ISO 639-1 | el
| |
ISO 639-2 | gre
| |
SIL | ELL
| |
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode. |
Grískir orðstofnar eru mikið notaðir í vísindaorðum í mörgum tungumálum. Dæmi um orð í íslensku sem eiga rætur að rekja til Grikklands: Atóm, biblía, biskup, pólitík, sófisti. Gríska hefur haft minni bein áhrif á íslensku en flest önnur evrópsk tungumál, til að mynda ensku.
Eins og gefur að skilja er grísku skipt upp í margar mállýskur og tímabil. Elstu textar eru frá 1500 f.Kr. Þessir elstu textar eru ritaðir með tveimur letrum, línuletri A og línuletri B, og hefur einungis tekist að ráða annað þeirra eða línuletur B. Óvíst er hvort línuletur A er gríska. Þessir elstu textar komu fyrst í leitirnar við fornleifauppgröft á Knossos á Krít um aldamótin 1900 en fundust síðar ennfremur í Pýlos, Tiryns og Mýkenu á Pelopsskaga og víðar.
Hvað varðar tímabil er grísku oft skipt í fimm skeið: mýkeníska grísku (1500 – 1100 f.Kr.), klassíska grísku (800 – 300 f.Kr.), helleníska grísku (300 f.Kr. – 300 e.Kr.), miðgrísku (300 – 1100) og nýgrísku (1600 – ).
Forngrískum mállýskum er oftast skipt í vestrænar og austrænar mállýskur.
Austurgrískar teljast attíska, jóníska, æólíska og kýpríska en til vestrænna mállýskna teljast meðal annars dórískan.
Forngríska hafði fimm föll nafnorða: nefnifall, ávarpsfall, eignarfall, þágufall og þolfall. Í dag er þágufallið að mestu horfið (nema í föstum orðasamböndum). Líkt og í germönskum málum hefur tvítalan lagst af. Gríska stafrófið er leitt af fönikísku stafrófi.