Stríð Prússlands og Austurríkis

Stríð Prússa og Austurríkismanna, einnig kallað sjö vikna stríðið, sameiningarstríðið, þýska bræðrastríðið eða þýska stríðið, var stríð milli Prússlands og austurríska keisaradæmisins og bandamanna þeirra innan þýska ríkjasambandsins sem háð var árið 1866. Prússar voru einnig í bandalagi við Ítalíu og því var stríðið háð samhliða þriðja sjálfstæðisstríðinu í sameiningu Ítalíu.

Stríð Prússa og Austurríkismanna
Hluti af þýsku og ítölsku sameiningarstríðunum

Orrustan um Königgrätz, eftir Georg Bleibtreu, málað 1869.
Dagsetning14. júní26. júlí 1866 (1 mánuður og 12 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða Prússneskur sigur
Stríðsaðilar

Þýsk ríki undir forystu Prússlands

Ítalía

Þýsk ríki undir forystu Austurríkis

Leiðtogar
Vilhjálmur 1.
Otto von Bismarck
Helmuth von Moltke
Viktor Emmanúel 2.
Alfonso Ferrero La Marmora
Giuseppe Garibaldi
Frans Jósef 1.
Albrecht von Österreich-Teschen
Ludwig von Benedek
Lúðvík 2.
Karl von Bayern
Albert prins
Fjöldi hermanna
637.262 517.123
Mannfall og tjón
39.990 132.414

Stríðið endaði með afgerandi ósigri Austurríkismanna og bandamanna þeirra. Afleiðing stríðsins var sú að Austurríkismenn glötuðu áhrifastöðu sinni meðal þýsku þjóðanna og ljóst varð að Prússar yrðu forystuþjóðin í stofnun nýs ríkis fyrir þýsku þjóðina. Þýska ríkjasambandið, sem hafði lotið forystu Austurríkismanna, var leyst upp í kjölfar stríðsins og þess í stað stofnað norður-þýskt ríkjasamband undir stjórn Prússa, þar sem Austurríkismenn og bandamann þeirra fengu ekki aðild. Einnig neyddust Austurríkismenn til að láta af hendi héraðið Veneto til Ítala.

Bakgrunnur

breyta

Orsakir stríðsins voru langvarandi deilur Austurríkis og Prússlands um forystu innan þýska ríkjasambandsins. Tylliástæðan fyrir stríðinu var deila um stjórn hertogadæmanna Slésvíkur og Holtsetalands, sem Prússar og Austurríkismenn höfðu í sameiningu haft af Dönum í síðara Slésvíkurstríðinu.

 
Vilhjálmur 1. Prússakonungur

Árið 1866 voru aðstæðurnar ákjósanlegar fyrir Prússa þar sem efnahagsástandið í Austurríki var slæmt og Frakkland hafði lýst yfir að þeir myndu viðhalda hlutleysi sínu ef til stríðs kæmi milli þýsku ríkjanna. Otto von Bismarck, kanslari Prússlands, stofnaði til bandalags við Ítali með því að lofa því að Ítalir fengju að innlima héraðið Veneto frá Austurríki ef sigur ynnist á Austurríkismönnum.

Til þess að reyna að kæfa deilurnar í fæðingu kölluðu Austurríkismenn saman ríkisþing þýska sambandsins þann 1. júní og síðan landsþingið í Holtsetalandi. Formlega séð var Holtsetaland yfirráðasvæði Austurríkis en Austurríki studdi þar stjórn hertogans Friðriks 8., sem fór mjög í taugarnar á Prússum.

Prússar töldu framgang Austurríkismanna vera brot á Gastein-samningnum frá árinu 1865, þar sem Prússar og Austurríkismenn höfðu fallist á að skipta Slésvík og Holtsetalandi í áhrifasvæði og stofna þar ekki sjálfstæð þýsk ríki. Þann 9. júní réðust prússneskir hermenn inn í Holtsetaland og Austurríkismenn og bandamenn þeirra í þýska ríkjasambandinu lýstu yfir stríði gegn Prússlandi. Prússar lýstu því yfir að stríðsyfirlýsingin væri brot á sambandssáttmálanum og að þar með væri þýska ríkjasambandið leyst upp. Sambandið var formlega leyst upp þann 23. ágúst í Augsburg.

Bandalög

breyta

Með Prússlandi börðust konungsríkið Ítalía, hertogadæmið Aldinborg, hertogadæmið Mecklenburg, hertogadæmið Brúnsvík og nokkur smáríki í Þýringalandi.

Með Austurríki – eða formlega séð með þýska ríkjasambandinu – börðust konungsríkið Saxland, konungsríkið Bæjaraland, stórhertogadæmið Baden, konungsríkið Württemberg, konungsríkið Hannover, stórhertogadæmið Hessen, Kurhessen, hertogadæmið Nassá og nokkur þýsk smáríki.

Framgangur stríðsins

breyta

Þann 23. júlí hélt fyrsti prússneski herinn inn í Bæheim í gegnum Seidenburg og Zittau. Þann 26. júní kom til átaka við Hühnerwasser, Sichrow og Turnau. Orrustan við Podol var háð milli fyrsta prússneska hersins undir stjórn Friðriks Karls Prússaprins og hermarskálksins Eberhards Herwarth von Bittenfeld annars vegar og hins vegar austurríska og saxnesku herjanna. Þann 27. júní braust annar prússneski herinn undir forystu Friðriks krónprins inn í Riesengebirge og háði orrustur við Nachod og Trautenau. Orrustan síðastnefnda var sú eina í öllu stríðinu sem Austurríkismenn unnu. Daginn eftir kom til orrusta í Skalitz, Soor og Münchengrätz. Austurríkismenn voru gersigraðir í þeim öllum.

 
Friðrik Karl Prússaprins í orrustunni við Königgrätz.

Prússneskir hermenn frá Minden og Hamborg báðu ósigur gegn Hanover-mönnum í orrustu við Langensalza þann 27. júní. Hanover-menn neyddust engu að síður til þess að gefast upp aðeins tveimur dögum síðar vegna mikils manndals, birgðaskorts og miklu smærri hers síns. Enn stendur minnismerki um þennan sigur í miðbæ Minden. Bandamenn Prússa réðust á Kassel og borgríkið Frankfurt am Main á meðan hægri vængur prússneska hersins gerði óvænta árás á Nürnberg í Bæjaralandi.

Á suðurvígstöðvunum tókst Austurríkismönnum þann 24. júní að sigra ítalska herinn undir stjórn hershöfðingjans La Marmora í orrustu við Custozza. Austurríska flotanum á Adríahafi tókst einnig að vinna bug á ítalska flotanum í orrustunni við Lissa. Ein af ástæðunum fyrir endanlegum ósigri Austurríkismanna var að þurfa að berjast á tveimur vígstöðvum.

 
Ludwig von Benedek

Prússar unnu úrslitaorrustuna gegn Austurríki þann 3. júlí við Königgrätz í Bæheimi. Fyrir her Prússa í orrustunni fór Vilhjálmur 1. Prússakonungur sjálfur ásamt hershöfðingjanum Helmuth von Moltke. Austurríkismenn höfðu vonast eftir því að besti herforingi þeirra, Ludwig von Benedek, gæti sigrað Prússana. Þetta var borin von þar sem Prússar voru orðnir miklu fleiri – um 250.000 gegn 160.000 – og bjuggu yfir miklu betri vopnum. Í orrustunni féllu um sjö Austurríkismenn fyrir hvern Prússa. Benedek hafði reynd að forðast orrustuna þar sem hann hafði enga reynslu af bardögum í Bæheimi og þar sem norðurarmur Austurríkishersins var í mjög lélegu standi. Eftir orrustuna var hann sviptur embætti og dreginn fyrir herrétt en hætt var við réttarhöldin að ósk Frans Jósefs keisara. Benedek var skipað að minnast aldrei framar á orrustuna.

Síðasta orrusta stríðsins hófst í Uettingen þann 26. júní á milli Prússa og Bæjara. Prússar unnu sigur en í átökum við Blumenau tókst Austurríkismönnum á síðasta degi stríðsins að koma í veg fyrir að Prússar hertækju Pressburg.

Mannfall stríðandi fylkinga var eftirfarandi:

  • Austurríki: 1313 herforingjar, þar af 330 drepnir; 41.499 almennir hermenn, þar af 5328 drepnir.
  • Saxland: 55 herforingjar, þar af 15 drepnir; 1446 almennir hermenn, þar af 120 drepnir.
  • Prússland: 359 herforingjar, deraf 99 drepnir; 8794 almennir hermenn, þar af 1830 drepnir.

Eftirmálar

breyta

Til þess að forðast að Frakkar eða Rússar skiptu sér að stríðinu ráðlagði Otto von Bismarck Vilhjálmi konungi að draga stríðið ekki á langinn heldur sækjast fljótt eftir friðarsáttmála. Sama ár skrifaði Bismarck:

Við urðum að forðast að skaða Austurríki verulega. Við urðum að forðast að kveikja í þeim langvarandi biturð eða hefndarþorsta. Hyggilegra var að vingast aftur við andstæðinga okkar og líta á austurríska keisaradæmið sem leikmann á evrópska skákborðinu. Ef Austurríki hefði hlotið verulegan miska af stríðinu hefðu þeir gengið í lið með Frökkum og öðrum andstæðingum okkar. Þeir hefðu jafnvel verið vísir til að láta af andstöðu sinni við Rússa til þess að ná fram hefndum gegn Prússlandi... markmið okkar var að skapa einingu þýska ríkja undir forystu Prússlandskonungs.
 
Otto von Bismarck

Friðarsáttmálinn var undirritaður þann 26. júlí í Nikolsburg með milligöngu Napóleons 3. Frakkakeisara. Austurríkismenn gáfu Prússum það sem þeir vildu og drógu sig að mestu úr þýskum stjórnmálum. Friðarsamningurinn var síðar staðfestur með Pragfriðinum (milli Austurríkis og Prússlands) og Vínarfriðinum (milli Austurríkis og Ítalíu).

Ítalir innlimuðu Veneto og Prússar öll óvinaríki sín austan við Main-fljót fyrir utan Saxland og Hessen-Darmstadt. Prússar tengdu þar með loks landsvæði sín við Rín og innra landsvæði þeirra í Brandenborg.

Þýska ríkjasambandið var leyst upp og norður-þýska ríkjasambandið stofnað þess í stað undir stjórn Prússa. Þegar Frakkar gerðu kröfur um landsvæði við samningaborðið gengu þýsku ríkin í bandalag til að hafna kröfunni og varð þetta grunnurinn að bandalagi þeirra í fransk-prússneska stríðinu fáeinum árum síðar.

Otto von Bismarck vann mikinn sigur í innanríkisstjórnmálum Prússlands þegar fallist var á fjárlög hans um útgjöld til prússneska hersins á þýska ríkisþinginu.

Samskipti Prússa við Frakkland versnuðu til muna eftir sigur Prússlands. Napóleon 3. hafði vonast til þess að hljóta yfirráðasvæði í vesturhluta Rínarlandsins að launum fyrir milligöngu sína í friðarumræðunum en hann mat gang stríðsins ekki rétt og var of seinn að leggja fram kröfur sínar.

Tenglar

breyta

Heimild

breyta