Sankt Pölten
Sankt Pölten (oft skammstafað St. Pölten) er borg í Austurríki og höfuðborg sambandslandsins Neðra-Austurríkis. Íbúar eru tæp 53 þús (1. janúar 2015). St. Pölten gerir tilkall til að vera elsta borgin í Austurríki, en það er ákaflega umdeilt.
St. Pölten | |
---|---|
Staðsetning | |
Grundvallarupplýsingar | |
Sambandsland: | Neðra-Austurríki |
Stærð: | 108,48 km² |
Íbúafjöldi: | 52.716 (1. jan 2015) |
Þéttleiki: | 478/km² |
Hæð yfir sjávarmáli: | 267 m |
Vefsíða: | http://www.st-poelten.gv.at |
Lega og lýsing
breytaSt. Pölten er mjög austarlega í Austurríki og rétt vestan við Vín. Borgin liggur við norðurjaðar Alpafjalla og steinsnar fyrir sunnan Dóná. Áin Traisen rennur í gegnum borgina, sem hefur risið meðfram rennsli hennar. Því er St. Pölten mjög ílöng í norður/suður stefnu. Mikið landbúnaðarsvæði er allt í kring. Næstu stærri borgir eru Krems an der Donau til norðurs (30 km), Vín til austurs (60 km), Wiener Neustadt til suðausturs (85 km) og Linz til vesturs (120 km).
Skjaldarmerki
breytaSkjaldarmerki St. Pölten er tvískiptur skjöldur. Til hægri er silfurlitaður úlfur á bláum fleti. Tungan er rauð og reðurinn gulur. Úlfurinn er tákn biskupsdæmisins í Passau, en hann hélt áður fyrr á bagli sem nú er horfinn úr merkinu. Til vinstri eru þrjár láréttar rendur: Hvít, rauð og hvít. Litirnir eru litir Habsborgarættarinnar og Austurríkis, nema hvað þeim hefur verið raðað öfugt upp. Skjaldarmerki þetta var veitt borginni 3. nóvember 1538 af Ferdinand III konungi (síðar keisara) og hefur lítið breyst síðan.
Orðsifjar
breytaSt. Pölten dregur nafn sitt af heilögum Hippolýtusi frá Róm sem lifði á 3. öld e.Kr. Þýskt nafn dýrlingsins varð St. Pilt, sem síðar breyttist í St. Pölten.
Söguágrip
breytaUpphaf
breytaÁ tímum Rómverja stóð borgin Cetium á núverandi borgarstæði St. Pölten. Á 5. öld missti borgin hins vegar vægi sökum samkeppni nágrannaborga og hvarf loks úr rituðum heimildum. St. Pölten kom fyrst við skjöl árið 799 en var bara smábær næstu aldir. 1081 var munkaklaustur stofnað þar, en biskuparnir í Passau réðu yfir landsvæðinu. 1159 hlaut St. Pölten borgarréttindi af Konráði biskupi frá Passau. Þar með er St. Pölten ein elsta borg Austurríkis ásamt Vín og Enns. Þetta er þó umdeilt. Íbúar á þessum árum voru ekki nema um 4.000 allt fram á miðja 19. öld. Biskuparnir í Passau réðu borginni allt til 15. aldar, er Mattías Corvinus konungur Ungverjalands hlaut borgina að léni. St. Pölten var að mikilvægri herstöð fyrir konung í baráttu sinni gegn Friðrik III keisara í Vín. Ungverjar voru hins vegar hraktir í burtu og krafðist Maximilian I keisari þá borgarinnar í herfang 1491. Síðan þá hefur St. Pölten verið austurrísk. Tyrkir réðust tvisvar inn í Austurríki, 1529 og 1683. Í bæði skiptin réðust þeir á St. Pölten, en borgin náði að verjast.
Nýrri tímar
breytaÁ 18. öld voru fleiri klaustur stofnuð í borginni og urðu þau 6 í allt. 1785 var biskupsstóllinn færður úr Wiener Neustadt til St. Pölten, sem við það varð að einu mesta vígi kaþólsku kirkjunnar í Austurríki. Á þeim tíma voru íbúar enn tæp 4.000. 11. nóvember 1805 sótti Napoleon St. Pölten heim. 1809 var hún hernumin af Frökkum, sem voru þar með herdeild. 1858 hlaut St. Pölten járnbrautartengingu. Í framhaldi af því hófst iðnvæðing borgarinnar, sem brátt varð að iðnaðarborg. Íbúum fjölgaði í fyrsta skipti að ráði síðan á 14. öld. 1869 voru þeir orðnir 14 þús. Þungaiðnaður festi einnig rætur. En í heimskreppunni á fjórða áratugnum varð gífurlegt atvinnuleysi í St. Pölten. Þetta leystist ekki að ráði fyrr en með innlimun Austurríkis í Þýskaland. Þá var mörgum verksmiðjum breytt fyrir hergagnaframleiðslu. Fyrir vikið varð St. Pölten fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari, þrátt fyrir smæðina. Tæp 40% borgarinnar eyðilögðust. Frá stríðslokum til 1955 var St. Pölten á sovéska hernámssvæðinu.
Höfuðborg
breyta1920 var sambandslandið Vín stofnað, er höfuðborgin skildi sig frá Neðra-Austurríki. Höfuðborg Neðra-Austurríkis var þó áfram Vín næstu áratugi, en 1986 var ákveðið að Neðra-Austurríki skyldi hljóta eigin höfuðborg. Íbúar fengu sjálfir að velja milli hinna ýmsu borga og hlaut St. Pölten flest atkvæði (45%). 10. júlí 1986 varð St. Pölten því að höfuðborg Neðra-Austurríkis og er hún yngsta sambandshöfuðborg landsins.
Viðburðir
breytaSt. Pölten er þekkt fyrir ýmsa tónlistarviðburði. Þrjár stærstu tónlistarhátíðirnar eru Nuke Musikfestival, Lovely Days og Frequency.
Vinabæir
breytaSt. Pölten viðheldur vinabæjartengslum við eftirfarandi borgir:
|
Frægustu börn borgarinnar
breytaByggingar og kennileiti
breyta- Maríukirkjan er dómkirkja borgarinnar. Hún var reist 1150 sem klausturkirkja, en brann að mestu um miðja 13. öld. Núverandi bygging var reist 1267-80 og helguð Maríu mey. 1512 brann borgin og kirkjan með. Þá var norðurturninn rifinn og ekki endurbyggður. Kirkjan er því eingöngu með turn á suðurhliðinni. 1785 varð St. Pölten biskupssetur og varð Maríukirkjan þá að dómkirkju, sem hún er enn.
- Klangturm er upplýsingamiðstöð borgarinnar. Turninn var reistur 1996-97 og er 77 metra hár (með loftneti). Þannig er hann hæsta borgarinnar. Í 47 metra hæð er útsýnispallur fyrir almenning.
- Ráðhúsið var reist á 15. öld. Borgin keypti húsið 1503 og umbreytti því í ráðhús. Framhliðin er í barokkstíl og var gerð á fyrri helming 18. aldar. Á turninum er fagurt laukþak.
-
Maríukirkjan
-
Klangturm
-
Ráðhúsið
-
Pottenbrunn-kastali
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „St. Pölten“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. mars 2012.