Encyclopædia Britannica

Alfræðiorðabókin Britannica (enska: Encyclopædia Britannica ) er elsta alfræðiorðabókarútgáfan á ensku um almenn málefni. Greinar hennar eru almennt taldar áreiðanlegar, nákvæmar og vel skrifaðar.

Auglýsing frá árinu 1913 þar sem ellefta útgáfa Britannica er auglýst.

Saga breyta

Upphaflega var alfræðiorðabókin gefin út í Edinborg af prentaranum Colin Macfarquhar og leturgrafaranum Andrew Bell. Fyrsta útgáfan var í þremur bindum sem komu út, eitt á ári, 1768 til 1771. Ritið seldist vel og þegar komið var að fjórðu útgáfunni árið 1809 voru bindin orðin tuttugu. Á áttunda áratug nítjándu aldar flutti útgáfan frá Edinborg til London og varð hluti af samsteypu dagblaðsins The Times. Eftir elleftu útgáfu Britannicu, árið 1911, flutti hún á ný, nú til Chicago, þar sem hún komst í eigu Sears verslanafyrirtækisins. Hún er enn staðsett í Chicago, en síðan 1996 hefur eigandinn verið svissneski milljarðamæringurinn Jacqui Safra sem á líka Merriam-Webster orðabókina. Síðasta útgáfan kom út í 32 bindum árið 2010.

Í mars árið 2012 var tilkynnt að prentútgáfu ritsins yrði hætt en áfram yrði hugað að þróun Encyclopædia Britannica Online.

Samningur við Íslenska ríkið breyta

Þann 20. apríl 1999 gerði Björn Bjarnason fyrir hönd menntamálaráðuneytis Íslands samning við Encyclopedia Britannica International Ltd þess efnis að öll íslensk IP-net fengju aðgang að vefútgáfu alfræðiorðabókarinnar gegn ákveðnum skilyrðum, sem sett voru fram í samningnum. Gilti hann til 30. apríl 2000 og borgaði ráðuneytið 10,000 sterlingspund, eða rúmlega eina milljón íslenskra króna fyrir.

Þetta var í fyrsta skipti sem slíkur aðgangur hafði verið keyptur fyrir heilt land, en slíkir samningar eru oftast gerðir við einstaka skóla, þá oftast mennta- eða háskóla. Verðið sem einstaklingur þarf að borga fyrir ársaðgang að alfræðiorðabókinni á vefnum er 40 pund. Miðað við það fékk menntamálaráðuneytið um 99,9 prósenta afslátt ef borið er saman við að íbúar landsins hefðu allir keypt aðgang sjálfir.

Tenglar breyta