Klagenfurt am Wörthersee

(Endurbeint frá Klagenfurt)

Klagenfurt am Wörthersee er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Kärnten. Borgin er miðstöð ferðamennsku í suðurhluta Austurríkis. Íbúar eru tæp 100 þúsund.

Klagenfurt am Wörthersee
Staðsetning
Klagenfurt am Wörthersee er staðsett í Austurríki
Klagenfurt am Wörthersee
Grundvallarupplýsingar
Sambandsland: Kärnten
Stærð: 120 km²
Íbúafjöldi: 99.000 (2016)
Þéttleiki: 785/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 446 m
Vefsíða: http://www.klagenfurt.at

Lega og lýsing

breyta

Klagenfurt liggur við austurenda stöðuvatnsins Wörthersee syðst í Austurríki. Borgin liggur í fjalladal í 450 m hæð. Næstu borgir eru Villach til vesturs (20 km), Ljubljana í Slóveníu til suðurs (85 km) og Graz til norðausturs (130 km). Árnar Glan og Gurk renna í gegnum Klagenfurt.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítan varðturn á rauðum grunni. Fyrir framan er grænn dreki. Turninn er merki borgarinnar, en drekinn stendur fyrir þjóðsöguna um uppruna borgarinnar. Drekinn kom fyrst fyrir á 16. öld, en síðustu breytingar á merkinu voru gerðar á 20. öld.

Orðsifjar

breyta

Mjög merkileg saga liggur að baki heitisins Klagenfurt, en það er upphaflega rómanskt.

  • Upphaflega hét bærinn la quiliu, sem merkir staðurinn við vatnið. Hér er átt við ána Glan, ekki stöðuvatnið Wörthersee.
  • Þegar slavar stofnuðu ríki á svæðinu á miðöldum, þýddu þeir heitið. Hét bærinn þá Cviljovec, sem merkir það sama og la quiliu. Hins vegar merkir fyrri hlutinn, cvilja, einnig harmur eða að harma.
  • Þegar bærinn var þýskumælandi á ný síðla á miðöldum var slavneska heitið þýtt á þýsku. Hins vegar var það síðari merkingin sem var þýdd og bærinn nefndur Klagenfurt. Það merkir harmavað (Klagen = harma, furt = vað).

3. júlí 2007 ákvað borgarráð að lengja heiti borgarinnar í Klagenfurt am Wörthersee. Breytingin var samþykkt í sambandsþingi Kärnten og tók gildi 1. febrúar 2008.

Saga Klagenfurts

breyta

Þjóðsaga

breyta
 
Lindwurm-brunnurinn minnir á þjóðsöguna um uppruna borgarinnar

Til er þjóðsaga um uppruna borgarinnar. Í mýri við austurenda Wörthersee bjó dreki nokkur sem gerði sér far um að éta þær manneskjur sem voguðu sér að nálgast mýrina. Til að ráða niðurlögum drekans var reistur turn. Við hann var fest keðja með króki, en á krókinn var settur dauður uxi. Þegar drekinn nældi sér í uxann, festist hann við krókinn. Eftir það var hann barinn til bana af íbúunum í kring. Turninn varð síðan að miðborg Klagenfurt.

Upphaf

breyta

Á 13. öld ríkti Spanheimer-ættin yfir svæðinu og hvatti fólk til að setjast að við austurbakka Wörthersee. Hertoganir Hermann og Bernhard af Spanheim gilda sem stofnendur Klagenfurt. Hermann reisti bæinn á mýrinni við Wörthersee, en þar flæddi gjarnan inn í bæinn. Bernhard færði því bæinn aðeins austar árið 1246, þar sem miðborgin stendur í dag. 1252 fékk Klagenfurt almenn borgarréttindi. Brátt fékk nýja borgin virki og borgarmúra. Hins vegar var íbúatalan nokkuð lág næstu aldir.

Blómatími

breyta
 
Maximilian keisari veitir gildum borgarinnar frístatus. Veggmynd eftir Josef Ferdinand Fromiller.

1514 eyddi stórbruni nær gjörvallri borginni. Til að auðvelda uppbyggingu borgarinnar á ný veitti Maximilian keisari gildum borgarinnar gjafabréf, þ.e. þeim var veitt uppgjöf allra skatta og skyldna. Auk þess var myntsláttan færð frá St. Veit til Klagenfurt 1529, en hún reyndist borginni mikil lyftistöng. 1527 var lokið við að búa til lítinn skipaskurð frá borginni til bakka Wörthersee, Lendkanal. Með honum stórjókst verslun og varð Klagenfurt að mikilvægum áfangastað á verslunarleið til vesturs. Til austurs lágu árnar Glan og Gurk. Í kjölfarið óx Klagenfurt mikið og varð brátt að fjölmennasta bæ í Kärnten.

Siðaskipti og gagnsiðaskipti

breyta
 
Klagenfurt 1735

Siðaskiptin gengu í garð í Klagenfurt á fyrri hluta 16. aldar. Um miðja öldina var nánast öll borgin lútersk. Habsborgararnir voru hins vegar enn kaþólskir og rétt fyrir aldamótin 1600 var hafist handa við að umbreyta trúnni á ný. Gagnsiðaskiptin fóru fram með miklu valdi. Íbúar Klagenfurt voru gefnir þeir kostir að snúa til kaþólskrar trúar á ný eða yfirgefa landið. Lúterskar bækur voru brenndar og lúterskum kirkjum lokað (eða breytt í kaþólskar kirkjur). Harðast gengu Jesúítar fram. Snemma á 17. öld var öll borgin orðin rammkaþólsk á ný.

19. öldin

breyta

1797 hertóku Frakkar Klagenfurt og aftur 1805-1809. Ekki kom til átaka í borginni, en Frakkar rifu niður borgarmúrana. Fyrir vikið myndaðist rýmra byggingapláss. Fátækt ríkti þó næstu áratugina. 1848 varð Kärnten myndað og varð Klagenfurt höfuðborg þess. Héraðsþing var sett í borginni. 1863 fékk Klagenfurt járnbrautartengingu, en við það óx borgin mjög. Iðnvæðingin fór þó rólega af stað. Þess í stað var landbúnaður nærsveita styrktur með áveitum. Iðnaður hélst takmarkaður. Til dæmis hafnaði borgarráð rafmagnsvæðingu borgarinnar árið 1896. Rafmagn komst ekki á í Klagenfurt fyrr en 1903 eftir miklar kappræður og samningsþóf.

20. öldin

breyta

Í fyrri heimstyrjöldinni lá Klagenfurt ekki langt frá bardagasvæðum við ítölsku landamærin. Þúsundir austurrískra hermanna fóru um borgina. Í stríðslok hertóku júgóslavneskar hersveitir borgina, en rétt áður hafði héraðsþingið í Klagenfurt flutt sig um set til bæjarins Spittal og síðar til St. Veit. Í júní 1919 urðu Júgóslavar að hverfa frá borginni á ný. Í almennri atkvæðagreiðslu 10. október 1920 kusu íbúar borgarinnar áframhaldandi tilveru í Austurríki, frekar en að sameinast Júgóslavíu. Við innlimun Austurríkis í Þýskaland 1938 urðu miklar breytingar í borginni. Austur-Tíról var sett undir stjórn Klagenfurts, sem og hlutar Slóveníu. Öll dagblöð voru bönnuð. Torgið Neuer Platz fékk heitið Adolf Hitler Platz og önnur torg hlutu heiti annarra háttsettra nasista. Nærliggjandi bæir voru sameinaðir Klagenfurt, sem þar með óx talsvert. Íbúar fóru úr 30 þús í 50 þús. Nær allir gyðingar borgarinnar voru fluttir brott þótt fáir væru (1934 voru þeir 269). Þeir voru aðeins 9 árið 1951. Frá 1945 til 1955 var Klagenfurt á breska hernámssvæðinu. Það var ekki fyrr en með brotthvarf breskra hermanna að borgin tók að dafna á ný. 1955 var fyrsta háhýsið reist. 1961 myndaðist fyrsta göngugatan í miðborginni, sú fyrsta í Austurríki. Skólar voru reistir. Í Klagenfurt er framhaldsskóli fyrir slóvenska minnihlutann. Háskóli var stofnaður í borginni 1970.

Íþróttir

breyta
  • Kärnten Ironman Austria er næstfjölmennasta þríþrauterkeppni Evrópu. Þátttakendur eru um 2.500.
  • Strandblakkeppnin Grand-Slam er haldin árlega í Klagenfurt, en þar leiða bestu strandblakkeppendur heims saman hesta sína.
  • Íshokkíliðið EC KAC í Klagenfurt er eitt sigursælasta íshokkílið Austurríkis. Það hefur 29 sinnum orðið austurrískur meistari.
  • Helsta knattspyrnulið borgarinnar er SK Austria Kärnten, sem lék í efstu deild 2007-2010. Knattspyrnuliðið SAK Klagenfurt er eingöngu skipað Slóvenum. Liðið leikur í 3. deild.

Vinabæir

breyta

Klagenfurt viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Dómkirkjan í Klagenfurt stendur við torgið Neuer Platz
  • Dómkirkjan í Klagenfurt er höfuðkirkja kaþólsku kirkjunnar í borginni. Hún var reist 1581-91 af siðaskiptamönnum. En aðeins nokkrum árum síðar hófust gagnsiðaskipti kaþólsku kirkjunnar og var kirkjunni lokað árið 1600. Fjórum árum síðar var hún eftirlátin Jesúítum, sem helguðu hana postulunum Pétri og Páli og bættu klausturbyggingu við. 1787 varð Klagenfurt biskupssetur og varð kirkjan þá að dómkirkju, sem hún er enn. 1960 var klausturbyggingin í kringum kirkjuna rifin niður og við það kom kirkjan betur í ljós. Dómkirkjan er ákaflega fögur að innan. Þar eru nokkur stór altari, sem og hásæti biskupsins.
  • Landhúsið í Klagenfurt er nokkurs konar gamalt samkomuhús gildanna. Húsið var reist 1574-94 og var meðal annars notað af formönnum verslunar. Tveir turnar skörtuðu húsið. 1723 brann húsið, en var lagfært í síðbarokkstíl. Þegar Frakkar hernámu Klagenfurt á tímum Napoleons, notuðu þeir húsið sem vopnabúr og herspítala. 1883 var húsinu breytt í safn, en aðalsalir voru notaðir fyrir viðhafnir. Á jarðhæð voru skrifstofur. Á tímum heimstyrjaldarinnar síðari notuðu nasistar húsið sem skrifstofur og bækistöðvar. Það slapp algjörlega við eyðileggingu í loftárásum. 1945 var nýrri héraðsstjórn komið á laggirnar í húsinu, enda var Klagenfurt höfuðborg. Þar voru einnig aðalstöðvar breska hernámsstjórnarinnar. Eftir miklar umbætur 1964-76 varð húsið að þinghúsi sambandsþingsins í Kärnten. Miklar deilur spunnust um nýjar umbætur á aðalsal hússins, Grosser Wappensaal, á árunum fyrir 2000.
  • Maria-Loretto-kastalinn var reistur 1652 á nesi við Wörthersee. Kastalinn var mikið hús með mörgum turnum og bogahliðum. 1708 eyðilagðist nær öll samstæðan í bruna, en eftir stóð núverandi hús. Árið 2002 keypti borgin húsið og er það nú opið almenningi.
  • Minimundus er skemmtigarður við Klagenfurt. Þar eru módel af 150 heimsþekktum byggingum í mælikvarðanum 1:25. Garðurinn var opnaður 1958. Ágóðinn af miðasölunni rennur til bjarnahjálparinnar Rettet das Kind.

Heimildir

breyta