Vorarlberg er vestasta sambandsland Austurríkis, það næstminnsta. Aðeins Vín er minna. Sökum mikilla fjalla í landinu er Vorarlberg næstfámennasta sambandslandið. Aðeins Burgenland er fámennara. Vorarlberg sker sig um margt frá öðrum sambandslöndum Austurríkis. Þar er t.d. töluð öðruvísi mállýska. Höfuðborgin er Bregenz.

Fáni Vorarlbergs Skjaldarmerki Vorarlbergs
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Bregenz
Flatarmál: 2.601,48 km²
Mannfjöldi: 378.490
Þéttleiki byggðar: 145/km²
Vefsíða: www.vorarlberg.at
Lega

Lega og lýsing

breyta

Vorarlberg liggur við austurenda Bodenvatns og teygir sig inn í nokkra Alpadali. Eina eiginlega undirlendi er Rínardalurinn áður en Rín rennur í Bodenvatn, en fljótið myndar náttúruleg landamæri að Sviss. Að öðru leyti er héraðið mjög hálent. Hæsta fjallið er Piz Buin með 3.312 m. Lítið svæði, Kleinwalsertal í norðurhluta sambandslandsins, er eingöngu aðgengilegt frá Þýskalandi sökum hárra fjalla. Vorarlberg liggur aðeins að einu öðru sambandslandi Austurríkis, Tírol að austan. Fyrir norðan er Bæjaraland, fyrir vestan er St. Gallen í Sviss, fyrir suðvestan er Liechtenstein og fyrir sunnan er Graubünden í Sviss.

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni Vorarlbergs samanstendur af tveimur láréttum röndum, rauðri að ofan og hvítri að neðan (öfugt við pólska fánann). Fánar sambandslandanna Víns og Salzburg er nákvæmlega eins. Þar sem íbúar Vorarlbergs telja sig oft ekki vera ekta Austurríkismenn, nota þeir gjarnan þennan fána í stað austurríska fánann. Til aðgreiningar nota opinberar stofnanir oft þjónustufánann, sem er með lítið skjaldarmerki fyrir miðju. Skjaldarmerkið er nokkurs konar kirkjufáni, þ.e. rauður refill með þremur afleggjurum niður úr. Afleggjarinn í miðjunni nær lengra niður en hinir. Bakgrunnurinn er silfurgrár. Merki þetta er runnið undan rifjum greifanna af Montfort sem réðu ríkjum á svæðinu áður fyrr. Greifaættin dó út 1787 og var þá annað merki notað. Þegar Austurríki varð lýðveldi 1918 var merkið formlega tekið í notkun aftur.

Orðsifjar

breyta

Heitið er dregið af fjallaskarðinu Arlberg. Séð frá Sviss, sem var hluti af Habsborgarveldinu, lá svæðið fyrir framan Arlberg, en fyrir framan heitir vor á þýsku. Vorarlberg er því svæðið sem liggur fyrir framan skarðið. Heiti þetta er formlega notað fyrir fjallasvæðið síðan á miðri 18. öld.

Söguágrip

breyta

Upphaf

breyta
 
Schattenburg við Feldkirch var höfuðvígi Montfort-ættarinnar

Eftir fall Rómaveldis settust alemannar að á svæðinu, öfugt við afganginn af Austurríki þar sem Bæjarar settust að. Lengi vel stjórnuðu greifarnir af Montfort héraðinu, en síðan um miðja 14. öld var héraðið undir beinni stjórn Habsborgarættarinnar. Siðaskiptin gengu aldrei í garð í héraðinu, þar sem ströng lög gegn nýju trúnni voru í gildi. Ekki varð héraðið heldur fyrir miklum áhrifum 30 ára stríðsins, þó að Svíar hertækju Bregenz til skamms tíma.

Frakkar

breyta

1799 hertóku Frakkar Sviss og réðust austur inn í Vorarlberg. Þeir voru hins vegar sigraðir í orrustunni við Tosters við Feldkirch. Á næsta ári voru Frakkar aftur á ferð og náðu að hertaka Bregenz og Feldkirch. Þeir hurfu þó á braut við friðarsamningana í Campoformio í febrúar 1801. Þegar Napoleon sigraði í Þríkeisaraorrustunni 1805 varð Austurríki að láta mikil landsvæði af hendi. Vorarlberg og Tírol voru þá innlimuð Bæjaralandi. Það kom til framkvæmda í mars 1806. Við fall Napoleons varð Vorarlberg sett aftur til Austurríkis, án Allgäu sem enn er þýskt svæði í dag. Hins vegar var Vorarlberg hluti af Tírol.

Nýrri tímar

breyta
 
Dæmigerð snjóruðningslest fyrir fjallalestirnar

Á byltingarárinu 1848 kröfðust íbúar Vorarlbergs aukinna réttinda, s.s. prentfrelsis, kosninga og að slíta tengsl við Tírol. Þess í stað jók keisari Austurríkis völd sín og stjórnaði með alræði næstu ár. Það var ekki fyrr en 1861 sem Vorarlberg var formlega stofnað sem eigið hérað innan keisararíkisins. Höfuðborgin varð Bregenz. Iðnbyltingin komst ekki á fyrr en á 8. áratug 19. aldar, en þá upphófst víða mikill vefnaður. Járnbrautir voru lagðar til borga og 1872 keyrði fyrsta fjallalestin milli staða. Eftir tap Þýskalands og Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri hófst mikil umræða í Vorarlberg um framtíð héraðsins. 11. maí 1919 fór fram íbúakosning um sameingingu við Sviss. 80% manna kusu með sameiningunni og í framhaldi af því sótti Vorarlberg um inngöngu sem ný kantóna í Sviss. Jafnvel í Sviss var vel tekið í hugmyndinni. Til þess kom þó ekki og eru menn ekki á eitt sáttir um orsök þess. 1934 varð borgarastyrjöld í Austurríki og var Vorarlberg eina sambandslandið sem hélt friðinn. 12. mars 1938 tóku nasistar völdin í Vorarlberg við sameiningu Þýskalands og Austurríkis. Héraðið var sameinað Tírol og stjórnað frá Innsbruck. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði varð héraðið aðeins fyrir fáeinum loftárásum bandamanna. 1. maí réðust Frakkar inn í héraðið og viku síðar var héraðið allt undir stjórn þeirra.

Eftirstríðsárin

breyta

Í september 1945 var Vorarlberg stofnað á ný sem hérað. Þótt það væri í franska hernámssvæðinu, fengu íbúar að kjósa sér landstjórn og ráða sér sjálfir. Íbúarnir tóku franska hernum yfirleitt vel. Fjármagn var þó af skornum skammti, þannig að svissnesk fyrirtæki aðstoðuðu við uppbygginguna. Þetta varð til þess að uppbygging í héraðinu varð hraðari í Vorarlberg en annars staðar í Austurríki. Aðalatvinnuvegur var enn vefnaður, en 1951 störfuðu helmingur atvinnufærra manna í þeim geira. 1955 yfirgáfu Frakkar héraðið er Austurríki varð lýðveldi á ný. 1972 var í fyrsta sinn haldin Bodensee-ráðstefnan með þátttöku Vorarlbergs og allra héraða í Þýskalandi og Sviss sem að Bodensee liggja, um samvinnu á ýmsum sviðum. Á 9. áratugnum hrundi vefnaðurinn í Vorarlberg, en við tók málmiðnaður, rafeindaiðnaður og matvælaframleiðsla. Ferðamennska er einnig orðin mjög ríkur þáttur í atvinnulífi fólks, ekki síst í fjöllunum. Vorarlberg þykir meðal allra sterkustu efnahagskerfa Evrópu.

Borgir

breyta

Aðeins fimm bæir eru með almenn borgarréttindi í Vorarlberg:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Dornbirn 46 þús
2 Feldkirch 31 þús
3 Bregenz 28 þús Höfuðborg sambandslandsins
4 Hohenems 15 þús
5 Bludenz 13 þús

Heimildir

breyta