Giuseppe Garibaldi
Giuseppe Garibaldi, fæddur undir nafninu Joseph Marie Garibaldi þann 4. júlí 1807 í Nice og látinn þann 2. júní 1882 í Caprera, var ítalskur herforingi, stjórnmálamaður og þjóðernissinni. Ásamt Camillo Cavour, Viktor Emmanúel 2. og Giuseppe Mazzini er hann talinn einn stofnfeðra Ítalíu sem nútímaríkis.
Giuseppe Garibaldi | |
---|---|
Fæddur | 4. júlí 1807 |
Dáinn | 2. júní 1882 (74 ára) |
Störf | Hermaður, byltingarmaður, stjórnmálamaður |
Maki | Anita Garibaldi Francesca Armosino |
Börn | 8 |
Undirskrift | |
Garibaldi er ein mikilvægasta persónan sem kom að sameiningu Ítalíu og leiddi persónulega fjölmargar herferðir sem gerðu kleift að sameina Ítalíu sem eitt ríki. Hann reyndi oftast að fara fram í umboði viðurkennds stjórnmálaafls til þess að vera ekki útmálaður sem byltingarmaður. Hann var útnefndur hershöfðingi bráðabirgðastjórnar Mílanó árið 1848, hershöfðingi rómverska lýðveldisins stuttlífa árið 1849 og vann í nafni Viktors Emmanúels 2. þegar hann leiddi her til að leggja undir sig Konungsríki Sikileyjanna tveggja.
Garibaldi var þekktur sem „hetja heimanna tveggja“ vegna hernaðaraðgerða sinna bæði í Evrópu og í Suður-Ameríku sem færðu honum mikla frægð bæði í Ítalíu og erlendis. Hann átti frægð sína að þakka afar jákvæðri umfjöllun sem hann fékk meðal fjölmiðla og rómantískra rithöfunda. Frægustu rithöfundar tímabilsins, sérstaklega í Frakklandi, þar á meðal Victor Hugo, Alexandre Dumas og George Sand, vottuðu honum aðdáun sína. Bretland og Bandaríkin komu Garibaldi oft til aðstoðar og veittu honum bæði fjár- og hernaðaraðstoð á erfiðustu köflum sjálfstæðisbaráttunnar.
Garibaldi var harður lýðveldissinni en þó fær um að miðla málum og viðurkenndi því konungsvald Viktors Emmanúels í því skyni að Ítalía gæti sameinast. Þúsundmannaleiðangurinn svokallaði var hápunktur baráttu Garibaldi, en þá hernam hann suðurhluta Appenínaskaga í nafni Viktors Emmanúels og gerði hann að konungi Ítalíu. Um þetta var Garibaldi ólíkur Mazzini, læriföður sínum, sem neitaði að selja tryggð sína konungsfjölskyldunni. Garibaldi lét í lægri hlut í síðustu orrustum ítölsku sameiningarstríðanna sem hann tók þátt í og því eftirlét ítalska konungsvaldið öðrum að hertaka Róm.
Garibaldi er og var goðsagnakennd persóna sem átti þó einnig sína gagnrýnendur; sérstalega úr klerkastéttinni og meðal andstæðinga lýðveldishyggju og sósíalisma.
- Í Bresku Kólumbíu í Kanada er Mount Garibaldi nefnt eftir honum.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Giuseppe Garibaldi“ á frönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. júní 2017.