Knattspyrnufélagið Fram

fjölíþróttafélag í Reykjavík
(Endurbeint frá Íþróttafélagið Fram)

Knattspyrnufélagið Fram, Fram Reykjavík eða einfaldlega Fram er íslenskt íþróttafélag staðsett í Reykjavík. Félagið er eitt elsta íþróttafélag Íslands. Það var stofnað 1. maí 1908. Núverandi formaður félagsins er Sigríður Elín Guðlaugsdóttir. Fram heldur úti æfingum í knattspyrnu, handbolta, taekwondo og skíðagreinum. Þá er starfrækt innan félagsins almenningsíþróttadeild og sérstakur hópur Framkvenna. Innan Fram hafa einnig verið starfræktar körfuknattleiksdeild og blakdeild.

Merki Knattspyrnufélagsins Fram
Knattspyrnufélagið Fram
Fullt nafn Knattspyrnufélagið Fram
Gælunafn/nöfn Framarar
Stofnað 1. maí 1908
Leikvöllur Framvöllur, Úlfarsárdal
Stærð 1.650
Stjórnarformaður Sigríður Elín Guðlaugsdóttir
Knattspyrnustjóri Rúnar Kristinsson (karlalið); Óskar Smári Haraldsson (kvennalið)
Deild Úrvalsdeild karla
2024 9. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Upphafsárin (1908 - 1928)

breyta

Knattspyrnufélagið Fram varð til vorið 1908 í miðbæ Reykjavíkur. Stofnendurnir voru nokkrir piltar á fermingaraldri eða þar um bil, sem bjuggu á svæðinu umhverfis Tjarnargötu. Einn í hópnum, Pétur J.H. Magnússon, hafði fest kaup á knetti og var hann óspart notaður þá um sumarið. Fyrsta tæpa árið var knattspyrnufélag þetta afar óformlegur félagsskapur. Engin stjórn var skipuð, engin lög samin og félagið hafði ekki einu sinni fengið nafn.

Úr þessu var bætt á fyrsta formlega fundinum, þann 15. mars 1909. Þá komu piltarnir úr fótboltafélaginu í miðbænum saman á fundi, enda farið að styttast í vorið og áframhaldandi knattspyrnuæfingar. Nú var þörf á formlegri félagsskap til að safna fyrir boltakaupum, ákveða búning o.s.frv. Pétur J.H. Magnússon var kjörinn fyrsti formaður félagsins, laganefnd skipuð og samþykkt að nafn þess yrði Knattspyrnufélagið Kári, eftir Kára Sölmundarsyni úr Njálu.

Káranafnið var frá upphafi umdeilt og á félagsfundi nokkrum vikum síðar var því breytt í Knattspyrnufélagið Fram. Ýmsar skýringar eru mögulegar á þessu heiti. Ein er sú að nafnið standi einfaldlega fyrir atviksorðið "fram", en slík félaganöfn má t.d. finna í Danmörku (sbr. Frem og Fremad). Önnur skýring er sú að félagið heiti eftir Fram, skipi heimskautafarans Friðþjófs Nansens. Þá er ekki ólíklegt að Framarar hafi horft til nafns Heimastjórnarfélagsins Fram, sem var helsta bakland Hannesar Hafstein ráðherra.

Þegar á þessum fyrsta bókfærða fundi, miðuðu Framarar stofndag sinn við fyrsta maí 1908. Ekki er þó ljóst hvernig sú dagsetning var fengin. Um svipað leyti var Knattspyrnufélagið Víkingur stofnað á sömu slóðum. Víkingar miða stofndag sinn við 21. apríl 1908, þótt forsendur þeirrar dagsetningar séu ekki ljósar. Benda Framarar á að stofnendur Víkings hafi verið yngri en stofnendur Fram og líklega ekki fengið að vera með stóru strákunum. Gera bæði félögin því tilkall til að vera næstelsta knattspyrnufélag Reykjavíkur.

Fótboltafélag Reykjavíkur, sem síðar tók sér nafnið Knattspyrnufélag Reykjavíkur, stóð um þessar mundir fyrir fótboltaæfingum á velli sem ruddur hafði verið vestur á Melum. Piltarnir í Fram fengu stundum að nota völlinn, en ekki kom þó til greina að sinni að félögin tvö mættust í kappleik á jafnréttisgrundvelli. Til þess var aldursmunurinn of mikill.

Upphaf Íslandsmótsins

breyta

Reykvískir íþróttamenn ákváðu að koma sér upp íþróttavelli, sem vera skyldi tilbúinn fyrir landsmót UMFÍ sem haldið yrði í bænum sumarið 1911. Íþróttasamband Reykjavíkur var stofnað í þessu skyni árið 1910 og var Fram meðal stofnaðila, þótt meðlimir þess væru ekki nema 14 til 17 ára gamlir.

Melavöllurinn var vígður þann ellefta júní 1911. Að því tilefni var efnt til stutts sýningarleiks milli Fram og Fótboltafélags Reykjavíkur. Þótt Fótboltafélagið tefldi fram hálfgerðu varaliði, var búist við ójöfnum leik unglinga gegn fullorðnum mönnum og munu Framarar hafa fengið loforð um að ekki yrði tekið of hart á þeim. Viðureigninni lauk óvænt með markalausu jafntefli og varð því mikil spenna fyrir fyrstu alvöru viðureign félaganna sem fara skyldi fram viku síðar á landsmóti UMFÍ.

Landsmótið var margra daga íþróttahátíð sem setti Reykjavíkurbæ á annan endann. Flestir voru áhorfendurnir þó á knattspyrnuleik Fram og Fótboltafélagsins þann sautjánda júní. Framarar fóru með sigur af hólmi í þessum fyrsta opinbera knattpspyrnuleik tveggja íslenskra félaga, 2:1. Friðþjófur Thorsteinsson skoraði bæði mörk Fram, það seinna á lokamínútunni.

Sigur Framara á landsmótinu 1911 blés félagsmönnum kapp í kinn og ákváðu þeir að stofna til Íslandsmóts sumarið eftir. Skotið var saman fyrir verðlaunagrip og auglýst eftir þátttökuliðum. Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu var svo haldið árið 1912 með þátttöku Fram, Vestmanneyinga og Fótboltafélagsins. Lauk því með sigri þeirra síðastnefndu.

Löng sigurganga

breyta

Þar sem Framarar höfðu stofnað til Íslandsmótsins og keypt bikarinn, litu þeir svo á að mótið væri í þeirra einkaeigu. Fram lýsti eftir þátttökuliðum, sá um skipulagninguna og hirti allan ágóðann. Þetta leiddi til deilna um mótshaldið og árin 1913 og 1914 skráðu Framarar sig einir til leiks og unnu án keppni. Lausn fékkst í málið með því að mótunum var fjölgað. KR-ingar stóðu fyrir Reykjavíkurmóti og síðar stofnuðu Valsmenn og Víkingar sín eigin mót.

Engum blöðum var þó um að fletta hvert væri sterkasta knattspyrnulið höfuðstaðarins mestallan annan áratuginn. Leikmenn KR voru í það elsta, en Valsmenn og Víkingar enn of ungir að árum. Framarar voru hins vegar á besta aldri og höfðu yfir að búa fjölhæfum íþróttamönnum sem voru í fremstu röð í flestum keppnisgreinum.

Auk meistaratitlanna 1913 og 1914 urðu Framarar Íslandsmeistarar: 1915, 1916, 1917, 1918, 1921, 1922, 1923 og 1925. Félagið vann því tíu af fjórtán fyrstu Íslandsmótunum. Við þætta bættust sex Reykjavíkurmeistaratitlar, auk þess sem Fram vann keppnina um Íslandshornið þrjú ár í röð 1919-21 og þar með verðlaunagripinn til eignar, en Íslandshornið var keppni sem Valur stóð fyrir.

Framarar áttu einnig stóran þátt í komu fyrsta erlenda knattspyrnuliðsins til Íslands árið 1919 þegar Danmerkurmeistararnir í Akademisk Boldklub komu í keppnisferð. Með danska liðinu lék um þær mundir Framarinn Samúel Thorsteinsson.

Drottnunarstaða Fram meðal íslenskra knattspyrnuliða fékk þó skjótan endi. Leikmenn liðsins voru flestir á sama aldri og lögðu skóna á hilluna um svipað leyti. Lítil rækt hafði verið lögð við yngri flokka og því engir til að taka við. 1927 tapaði Fram öllum leikjum sínum á Íslandsmótinu og gat varla skrapað saman í lið. Alvarlega var rætt um að leggja félagið niður eða sameina það Víkingum. Árið 1928 sendi Fram svo ekki lið til keppni á Íslandsmótinu í fyrsta og eina skipti.

Endurreisnarárin (1928 - 1946)

breyta

Hvorki fyrr né síðar í sögu sinni hefur tilvera Knattspyrnufélagsins Fram staðið jafn tæp og vorið 1928. Félagið var í raun ekki starfandi, félagatalið týnt og sjóðurinn tómur. Ekki tókst að tefla fram liði á Íslandsmótinu og yngri flokkarnir voru daprir.

Við þessar óhrjálegu aðstæður kom hópur manna undir forystu Guðmundar Halldórssonar að félaginu og reif starfið upp á nýjan leik. Meðal annars létu stjórnin hanna merki félagsins, sem enn er við lýði. Eitt og annað var gert til að efla Fram félagslega, s.s. hafin útgáfa félagsblaðs og þjálfun yngri flokka tekin fastari tökum.

Á fjórða áratugnum færðist þungamiðjan í starfsemi Fram austur á bóginn. Upphaflega var Fram miðbæjarlið, en nú voru uppeldissvæði nýrra leikmanna í götunum ofan Laugavegar, einkum í kringum Njálsgötuna. Eftir sem áður voru öflugar Fram-nýlendur annars staðar í bænum, s.s. í Pólunum, kringum Ljósvallagötuna og á Grímsstaðaholti.

Árið 1937 föluðust Framarar eftir því að fá úthlutað landi undir eigið félagssvæði. Óskað var eftir svæðinu sunnan Sundhallarinnar. Var ætlunin meðal annars að reisa fjölnota íþróttahús til knattspyrnu- og skautaiðkunar.

Þessi áform gengu ekki eftir og kom þar einkum tvennt til. Annars vegar töldu ýmsir félagsmenn brýnna að stofna skíðadeild og reisa skíðaskála en að koma upp knattspyrnuvelli. Hins vegar var reiknað með því að íþróttafélögin í Reykjavík myndu koma sér upp sameiginlegu íþróttasvæði við Nauthólsvík og þörfin fyrir eigin knattspyrnuvöll yrði þá að mestu úr sögunni.

Ný verkefni

breyta

Þótt Fram styrktist jafnt og þétt félagslega allan fjórða áratuginn leið nokkur tími uns áhrifa þess tók að gæta á stigatöflunni. Frá 1929-38 hafnaði liðið aldrei ofar en í þriðja sæti á Íslandsmótinu, þar sem keppnisliðin voru yfirleitt fjögur eða fimm.

Í ljósi þessa hófstillta árangurs, kann að virðast skringilegt að Knattspyrnusamband Danmerkur skuli hafa boðið Frömurum í keppnisferð til Danmerkur í tilefni af fimmtíu ára afmæli sambandsins árið 1939. Sennilega má tengja þá ákvörðun við það hversu stóran þátt Fram átti í að taka á móti Akademisk boldklub tuttugu árum fyrr.

Hlutverk Framliðsins á afmælismóti Dananna var óljóst. Liðið var kynnt sem áheyrnarfulltrúi á óopinberu Norðurlandamóti í knattspyrnu og aldrei kallað annað en “íslenska liðið” og þannig gefið fastlega í skyn að um landslið Íslands væri að ræða. Fram keppti ekki á mótinu en lék nokkra vináttuleiki við úrvalslið danskra héraða með góðum árangri. Liðið mætti líka vel undirbúið til leiks undir stjórn þýsks þjálfara, Hermanns Lindemanns, leikmanns Eintracht Frankfurt. Stífar æfingar fyrir ferðina og meðan á henni stóð skiluðu sér óvænt í fyrsta meistaratitli Fram í fjórtán ár á Íslandsmótinu 1939.

Nokkrum mánuðum eftir að hafa unnið Íslandsmótið, tókust sumir leikmanna meistaraflokks á við nýtt hlutverk. Handknattleiksíþróttin hafði náð fótfestu í nokkrum skólum, s.s. í Menntaskólanum í Reykjavík, Flensborgarskólanum og Háskólanum. Knattspyrnumenn gripu stundum í þessa skringilegu íþróttagrein á inniæfingum yfir vetrarmánuðina, en lítil alvara hafði fylgt því fálmi.

Snemma árs 1940 var hins vegar efnt til fyrsta Íslandsmótsins í handknattleik. Framarar sendu lið til keppni, þótt hluti leikmanna kynni varla reglurnar. Jafnframt var sent inn lið í 2. flokki. Þótt árangurinn yrði rýr, markaði hann upphafið að reglulegri þátttöku Fram í handknattleiksmótum. Með tímanum komst meiri festa á handboltaiðkunina, hún hætti að vera aukageta knattspyrnumanna félagsins yfir vetrarmánuðina og öðlaðist sjálfstætt líf.

Handknattleikurinn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra flokkaíþrótta að bæði kynin hófu að iðka hann um svipað leyti. Þannig var keppt bæði í karla- og kvennaflokki á Íslandsmótinu 1940. Til samanburðar þótti tilhugsunin um keppni í kvennaknattspyrnu fráleit á þessum árum.

Þráinn Sigurðsson formaður Fram 1943-46, var áhugasamur um að útvíkka starfsemi félagsins og knúði það í gegn að Fram kæmi sér upp kvennaflokki í handknattleik. Hugmyndin fékk blendnar undirtektir, en náði þó fram að ganga og árið 1945 sendi Fram í fyrsta sinn lið til keppni á Íslandsmóti kvenna. Fljótlega varð liðið eitt af skrautfjöðrum félagsins og hafði mjög jákvæð áhrif á starfsemi þess.

Félagssvæði í Skipholti

breyta

Draumur reykvískra íþróttamanna um alhliða æfinga- og keppnissvæði í Fossvogi fauk út í buskann þegar Ísland var hernumið og alþjóðlegum flugvelli var komið fyrir í Vatnsmýrinni. Í kjölfarið varð ljóst að þörfin á félagssvæði Fram var orðin knýjandi.

Stjórnendur félagsins leituðu ýmissa lausna við vandanum, s.s. að falast eftir kaupum á Hálogalandi, íþróttahúsi hernámsliðsins. Þá var sótt um lóð á svokölluðum Mómýrarbletti, þar sem Ármann var síðar til húsa.

Vorið 1945 skipti Reykjavíkurbær skyndilega um skoðun varðandi Mómýrarblettinn. Vilyrðið sem fengist hafði var tekið til baka, en þess í stað bauð bærinn upp á lóð í gömlu grjótnámi fyrir neðan Stýrimannaskólann, við Skipholt. Tilboðinu var tekið og framkvæmdir hófust af kappi innan fáeinna daga.

Þann tuttugasta ágúst sama ár vígðu Framarar nýjan malarvöll sinn við Skipholt. Fram varð þar með fyrsta Reykjavíkurfélagið til að eignast eigin völl. Skömmu síðar var hafist handa við byggingu félagsheimilis Fram á svæðinu.

Árin við Stýrimannaskólann (1946 - 1972)

breyta

Það leið ekki á löngu uns Framarar fóru að njóta ávaxtanna af nýja vellinum. Sumrin 1946-48 lék liðið undir stjórn skosks þjálfara, James McCrae, sem stýrði Frömurum til Íslandsmeistaratitils tvö fyrri árin.

Sumarið 1946 var sérlega eftirminnilegt. Eftir Danmerkurferðina 1939 hafði staðið til að Framarar tækju á móti dönskum knattspyrnuflokki sumarið 1940. Allar slíkar heimsóknir lágu niðri á stríðsárunum, en að því loknu tóku Framarar upp þráðinn á ný. Nú höfðu forsendur hins vegar breyst. Ísland var orðið lýðveldi og danska knattspyrnusambandið bauð fram landslið sitt.

Ekki þótti við hæfi að félagslið sæi eitt um að skipuleggja fyrsta landsleik hins unga ríkis. Varð því úr að Fram og Knattspyrnuráð Reykjavíkur stóðu saman að komu Dananna og skiptu með sér kostnaði og tekjum. Danska liðið keppti þrjá leiki í ferðinni: gegn íslenska landsliðinu, Fram og Reykjavíkurúrvalinu.

Meistaratitlarnir 1946 og 1947 mörkuðu ekki upphafið að nýju stórveldistímabili. Framarar urðu næst Íslandsmeistarar í knattspyrnu árið 1962. Vaxtarbroddurinn var hins vegar í yngri flokkunum sem voru mjög sigursælir á sjötta áratugnum. Iðkendurnir voru líka geysimargir og nutu Framarar þar legu sinnar. Fjölmenn hverfi voru að byggjast upp í Reykjavík norðanverðri, s.s. í Laugarnesi og Vogunum. Sátu Framarar lengi vel einir að þeim krakkaskara.

Stórveldi í handbolta

breyta

Árið 1950 urðu Framarar Íslandmeistar í bæði karla- og kvennaflokki í handknattleik. Sigur karlaliðsins var óvæntur og sló ekki tóninn fyrir frekari afrek í bráð. Kvennaliðið hafði hins vegar verið í mikilli sókn árin á undan. Frá 1950 til 1954 urðu Framstúlkur Íslandsmeistarar í öll fimm skiptin. Við það bættust nokkrir meistaratitlar í utanhússhandbolta, en sú keppnisgrein var í talsverðum metum á þessum árum, þótt keppni í henni hafi lagst af í seinni tíð. Þessari fyrstu gullöld handknattleikskvenna í Fram lauk skyndilega um miðjan sjötta áratuginn, þegar öflugir leikmenn settu skóna á hilluna.

Um það leyti sem vegur kvennaliðsins fór að fara minnkandi, byrjuðu karlarnir að rétta úr kútnum fyrir alvöru. Frampiltum var spáð góðum árangri á Íslandsmótinu 1959, en enduðu í fallsæti. Sigur í annarri deild árið eftir var aldrei í hættu og við tók tímabil tveggja turna í íslenskum karlahandbolta.

Fram og FH deildu á milli sín öllum Íslandsmeistaratitlum frá 1959 til 1972. Þar af unnu Framarar sjö sinnum (1962, 1963, 1964, 1967, 1968, 1970 og 1972). Oftar en ekki voru viðureignir þessara liða hinir eiginlegu úrslitaleikir um meistaratitilinn. Landslið Íslands var sömuleiðis borið uppi af leikmönnum úr Fram og FH.

Árið 1962 varð Fram fyrsta íslenska félagið til að taka þátt í Evrópumóti í flokkaíþrótt. Þá kepptu Framarar við dönsku meistarana í Skovbakken frá Árósum og töpuðu 28:27 í framlengdri viðureign. Leikið var í Danmörku, enda var íþróttahús bandaríska hersins á Miðnesheiði eini löglegi handknattleiksvöllur á Íslandi.

Úr þessu var bætt í desember 1965, þegar Laugardalshöllin var tekin í notkun og aðalheimkynni handknattleiksmanna færðust úr Hálogalandi. Í trausti þess að húsið yrði tilbúið í tíma, höfðu Framarar samið um að taka á móti tékkneskum handboltaflokki, Baník Karviná. Þegar líða tók að komudegi vöknuðu menn upp við vondan draum, þar sem mikil smíðavinna var eftir. Sá Karl Benediktsson, þjálfari Framliðsins, þá um að skipuleggja vinnu Framara og handknattleiksmanna úr öðrum liðum. Unnið var nótt við nýtan dag og tókst að ljúka verkinu sama dag og Tékkarnir mættu. Var viðureign Reykjavíkurúrvalsins og Karviná vígsluleikur hallarinnar.

Landþrengsli í grjótnáminu

breyta

Þegar malarvöllur Framara var tekinn í notkun haustið 1945 var hann talinn sá besti í bænum. Vellinum hrakaði hins vegar mjög sumarið 1948 þegar hann var notaður sem geymslusvæði fyrir síld sem mokað var upp í Hvalfirðinum sama sumar. Það leið því ekki á löngu uns Framarar fóru að svipast um eftir nýju framtíðarfélagssvæði, þar sem unnt yrði að koma upp grasvöllum.

Fljótlega beindist athyglin að Kringlumýrinni og á fimmtíu ára afmæli Fram, vorið 1958, tilkynnti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri að Reykjavíkurbær hefði samþykkt að afhenda Frömurum landspildu við Safamýri. Þegar til átti að taka reyndist þó erfitt að innheimta loforðið. Það tók embættismenn bæjarins mörg ár að mæla út lóðamörkin og enn lengri tíma að ráðast í nauðsynlega jarðvegsvinnu.

Álftamýrarskóli tók til starfa árið 1964 og fór þá loks að þokast eitthvað áleiðis í málum Fram. Árið 1969 var lokið framkvæmdum við íþróttahús skólans ásamt búningsaðstöðu og um svipað leyti var útbúinn malarvöllur. Framarar hófu þegar að nýta húsið og völlinn. Í nokkur misseri var Fram í raun starfrækt á tveimur stöðum: í Safamýri og við Skipholt, en eftir að brotist var inn í félagsheimilið í Skipholti á árinu 1972 og innanstokksmunir lagðir í rúst, var ákveðið að skilja endanlega við gömlu grjótnámuna.

Framkvæmdatímar (1972 – 1994)

breyta

Árið 1972 var viðburðaríkt hjá Frömurum. Auk þess að flytja úr Skipholti í Safamýri, urðu karlalið félagsins Íslandsmeistarar í bæði handbolta og fótbolta. Tæpur aldarfjórðungur átti eftir að líða uns Framarar urðu næst Íslandsmeistarar karla í handbolta og þótt knattspyrnumennirnir þyrftu ekki að bíða jafn lengi, voru ekki síður blikur á lofti á þeim bænum.

Á sjötta áratugnum og í upphafi þess sjöunda voru Framarar stórveldi í yngri flokkunum í knattspyrnu. Iðkendur voru margir og til þess tekið hversu vel væri haldið utan um unglingastarfið. Með tímanum tók að fjara undan þessu. Nýbyggingarhverfin sem séð höfðu Fram fyrir stríðum straumi drengja urðu grónari og börnunum fækkaði. Á sama tíma fór unglingastarfið að eflast hjá öðrum félögum sem jafnframt eignuðust betri félagssvæði með grasvöllum og félagsaðstöðu. Frá 1968 til 1980 vannst aðeins einn Íslandsmeistaratitill í yngri flokkum, í þriðja flokki pilta 1972.

Þessi þróun olli forráðamönnum Fram áhyggjum. Niðurstaða þeirra var sú að forgangsmál væri að koma upp félagsheimili. Byrjað hafði verið að teikna slíkt mannvirki þegar árið 1965. Ráðist var í framkvæmdir við húsið árið 1973 og var lokið við fyrri áfanga þess tveimur árum síðar. Í húsinu voru búningsklefar og lágmarks skrifstofu- og félagsaðstaða, en ákveðið var að láta stækkun heimilisins bíða betri tíma. Um svipað leyti voru sett upp flóðljós á malarvellinum.

Bikarliðið Fram

breyta

Þótt yngri flokkarnir ættu erfitt uppdráttar á áttunda áratugnum, var karlaliðið í knattspyrnu á betra róli. Liðið var yfirleitt um miðja deild og hafnaði í öðru sæti árin 1975 og 1976. Fram tók nokkrum sinnum þátt í Evrópukeppnum, án þess þó að komast áfram úr fyrstu umferð. Minnisstæðastir voru leikirnir við Günter Netzer og félaga hans í spænska stórliðinu Real Madrid haustið 1974.

Í bikarkeppni KSÍ áttu Framarar velgengni að fagna. Félagið hafði fyrst orðið bikarmeistari árið 1970, en fyrstu árin var bikarkeppnin heldur lágt skrifað haustmót sem fram fór á Melavelli að Íslandsmótinu loknu. Fram varð bikarmeistari 1973, 1979 og 1980. Í tvö seinni skiptin eftir sigurmörk á lokamínútunum.

Óvelkominn kvennaflokkur

breyta

Sumarið 1968 var efnt til knattspyrnuleiks milli handknattleiksstúlkna úr Fram og KR, sem vakti nokkra athygli og ruddi brautina fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Fyrsti opinberi kvennaknattspyrnuleikurinn á Íslandi fór svo fram árið 1970. Það var stuttur sýningarleikur milli Reykjavíkur og Keflavíkur á undan karlalandsleik við Norðmenn á Laugardalsvelli.

Fyrsta Íslandsmót kvenna innanhúss var haldið 1971 og sumarið 1972 hófst Íslandsmót kvenna utandyra. Keppnisliðin voru flest skipuð stúlkum sem æfðu handknattleik á veturna. FH-ingar voru með öflugasta liðið á þessum fyrstu árum, en Fram veitti þeim einna harðasta keppni. Eftir dapurt gengi sumarið 1979, ákvað stjórn knattspyrnudeildar að senda ekki lið til keppni sumarið 1980. Sú ákvörðun var tekin í óþökk leikmanna liðsins. Ástæðan var fyrst og fremst sú að forráðamenn deildarinnar töldu að nógu mikið álag væri á æfingarvellina, þótt kvennaliðið bættist ekki við.

Þegar kvennaflokkurinn var lagður niður, gengu leikmennirnir til liðs við önnur félög, s.s. Breiðablik og KR. Í þeim hópi voru konur sem áttu eftir að vinna fjölda titla og leika fyrir Íslands hönd. Strax ári síðar skiptu Framarar um skoðun og reyndu að endurvekja kvennaflokkinn. Hann náði hins vegar aldrei fyrri styrk, uns hann lognaðist útaf árið 1993.

Nýir menn í brúnni

breyta

Í byrjun níunda áratugarins urðu mikil umskipti í rekstri knattspyrnudeildar Fram. Nýir menn settust í stjórn og mynduðu hóp sem átti eftir að bera deildina uppi næstu árin. Halldór B. Jónsson var formaður knattspyrnudeildarinnar frá 1981 til 1993 og átti hvað stærstan þátt í þessum breytingum.

Aðstaða knattspyrnumanna félagsins snarbatnaði á þessum árum. Sumarið 1983 fjölgaði grasvöllunum úr einum í tvo. Árið áður var ákveðið að ráðast í stækkun félagsheimilisins í stað þess að hefja byggingu íþróttahúss. Olli sú ákvörðun raunar talsverðum deilum og óánægju innanhússíþróttamanna.

Unglingastarfið var stóreflt. Knattspyrnuskóli var stofnaður fyrir yngstu iðkendurna árið 1980 og var það nýjung. Þá naut félagið góðs af nálegðinni við nýja miðbæinn sem var að byggjast upp í Kringlumýri. Strætisvagnasamgöngur voru prýðisgóðar og því gat Fram dregið til sín stóra hópa iðkenda úr fjarlægum hverfum, ekki hvað síst úr Breiðholti, þar sem ÍR og Leiknir áttu erfitt uppdráttar.

Í meistaraflokki urðu sömuleiðis breytingar. Árin 1982-83 var þjálfari Framliðsins Pólverjinn, Andrzej Strejlau. Þótt liðið félli niður um deild fyrra árið, héldu stjórnendur félagsins tryggð við Strejlau sem fór með það beint aftur upp úr annarri deildinni. Á þessum tveimur árum lagði sá pólski mikilvægar undirstöður að hinu sigursæla Framliði níunda áratugarins.

Gullöld Ásgeirs Elíassonar

breyta

Ásgeir Elíasson tók við Frömurum fyrir sumarið 1985 og þjálfaði í sjö ár samfleytt. Í allt var Ásgeir þjálfari Fram í tólf ár, lengst allra sem gegnt hafa starfinu. Framlið níunda áratugarins var eitt hið öflugasta í íslenskri knattspyrnusögu. Það sigraði í bikarkeppni KSÍ árin 1985, 1987 og 1989. Íslandmeistaratitillinn kom í hlut Framara 1986, 1988 og 1990.

Árangur Framara í Evrópukeppnum var sömuleiðis eftirtektarverður á köflum. Má þar nefna 3:0 heimasigur á sænsku bikarmeisturunum í Djurgårdens IF haustið 1990 og naumt 1:2 tap gegn spænska liðinu Barcelona sama ár. Árið eftir féllu Framarar svo úr leik í Evrópukeppni meistaraliða eftir tvö jafntefli gegn Panathinaikos.

Eftir leikina við gríska liðið sneri Ásgeir Elíasson sér að þjálfun íslenska landsliðsins. Við tók tímabil óstöðugleika og tíðra þjálfaraskipta. Um svipað leyti varð talsverð endurnýjun í stjórn knattspyrnudeildar. Halldór B. Jónsson lét af formennsku árið 1993 og við tóku mörg mögur ár.

Handboltakarlar á fallanda fæti

breyta

Íslandsmeistaralið Fram í karlaflokki í handbolta 1972 var firnasterkt. Hafði það t.a.m. á að skipa fjórum af burðarásum íslenska landsliðsins, þeim Axel Axelssyni, Björgvin Björgvinssyni, Sigurði Einarssyni og Sigurbergi Sigsteinssyni. Framtíðin virtist sömuleiðis björt, enda margir efnilegir leikmenn í herbúðum Framara og aðstöðumál félagsins búin að snarbatna með tilkomu íþróttahúss Álftamýrarskóla.

Yfirburðatímar Fram og FH reyndust hins vegar á enda runnir. Ný félög, Valur og Víkingur voru á uppleið. Hafnfirðingar héldu sínu en Framarar urðu að láta undan síga. Eftir því sem leið á áttunda áratuginn færðist Framliðið niður töfluna, uns árviss fallbarátta varð raunin. Vorið 1983 féllu Framarar loks niður í aðra deild, í annað sinn í sögunni.

Eftir tveggja ára dvöl í annarri deild lék Fram á ný meðal þeirra bestu veturinn 1985-86. Næstu árin einkenndust af fallbaráttu, skamma dvöl í annarri deild og svo enn meira fallströgl, uns Framarar féllu í fjórða sinn vorið 1993. Í það skipið var fjárhagur handknattleiksdeildarinnar orðinn afar bágur og aðstöðuleysið félaginu fjötur um fót, á sama tíma og önnur Reykjavíkurlið gátu státað af heimavöllum í eigin íþróttahúsum.

Sigursæll kvennaflokkur

breyta

Eftir Íslandsmeistaratitlana fimm í byrjun sjötta áratugarins leið nokkur tími uns handknattleiksstúlkurnar í Fram náðu að blanda sér í titilbaráttu. Árið 1970 tókst liðinu að rjúfa sigurgöngu Valskvenna og við tók langt tímabil í íslenskum kvennahandknattleik þar sem Fram og Valur höfðu algjöra yfirburði.

Af 21 Íslandsmeistaratitli sem í boði var frá 1970 til 1990 unnu Framstúlkur fjórtán. (1970, 1974, 1976, 1977, 1978, 1979, 1980, 1984, 1985, 1986, 1987, 1988, 1989 og 1990.) Stofnað var til bikarkeppni í kvennaflokki árið 1976 og urðu Framarar fljótt sigursælasta lið þeirrar keppni frá upphafi.

Handknattleikskonur Fram voru um árabil helsta skrautfjöður félagsins. Ekki taldi handknattleiksfólk félagsins þó nóg að gert í aðstöðumálum. Á árunum í kringum 1980 var hart deilt innan Fram um hvort setja skyldi í forgang stækkun félagsheimilisins eða hefja framkvæmdir við íþróttahús. Félagsheimilið varð ofan á og talsverður tími átti eftir að líða uns íþróttahússmálið varð til lykta leitt.

Þegar það loks gerðist hafði inniíþróttadeildum Fram raunar fækkað um tvær. Körfuknattleikur var tekinn upp í Fram árið 1970, en lognaðist út af 1987. Blakdeild starfaði frá 1978 til 1991. Þótt ýmsir samverkandi þættir skýri dauða þessara deilda, átti aðstöðuleysið þar ótvírætt stóran hlut að máli.

Framarar í Eldborgargili

breyta

Þegar á fjórða áratugnum var samþykkt á aðalfundi Fram að félagið reyndi að koma sér upp skíðaskála. Um árabil voru starfræktar nefndir til að vinna að þessu markmiði en lítið varð úr framkvæmdum. Árið 1972 var rykið dustað af þessum áformum. Skíðadeild Fram var stofnuð sama ár. Formaður hennar var Steinn Guðmundsson.

Hin unga skíðadeild kom sér fyrir í Eldborgargili í Bláfjöllum. Á næstu árum átti talsverð uppbygging sér stað á skíðasvæði félagsins, sem náði hámarki árið 1990 þegar nýr og glæsilegur skíðaskáli var tekinn í notkun.

Starfsemi skíðadeildar Fram hefur alla tíð staðið í tengslum við árferði. Deildin hefur fyrst og fremst snúist um barna- og unglingastarf, en minna verið um afreksfólk í fullorðinsflokki.

Óviss framtíð (1994 - )

breyta

Knattspyrnufélagið Fram stóð á krossgötum vorið 1994. Nýtt íþróttahús var tekið í notkun í Safamýrinni, það fyrsta sem félagið hafði haft til eigin umráða í sögu sinni. Húsið var reist í formannstíð Alfreðs Þorsteinssonar og var staðfesting þess að Fram teldi nánustu framtíð sína liggja í Háaleitis- og Bústaðahverfi, en miklar vangaveltur höfðu verið uppi um mögulega flutninga félagsins í austurbyggðir Reykjavíkur.

Með nýrri stjórn var horfið frá hugmyndum um mögulega flutninga eða sameingu Fram við önnur félög, þess í stað var leitast við að byggja upp félagið á Safamýrarsvæðinu. Tók sú hugmyndavinna á sig óvenjulegar myndir, t.d. var velt upp þeim kosti að selja mestallt félagssvæðið undir framlengingu á verslunarmiðstöðinni Kringlunni, en koma fyrir keppnisvelli á þaki hennar.

Um það leyti sem handknattleiksfólk í Fram fékk eigið hús til umráða, rýrnaði félagsaðstaða Framara þegar Íþrótta- og tómstundaráð tók félagsheimilið á leigu undir félagsmiðstöðina Tónabæ. Í kjölfarið komu Framarar sér upp nýrri félagsaðstöðu í tengslum við íþróttahúsið, sem og gervigrasvelli ásamt búningsklefum. Gervigrasvöllurinn var loks tekinn í notkun árið 2006 og mátti félagssvæði Fram í Safamýri þá teljast tilbúið.

Nokkur mögur ár

breyta

Frömurum var snögglega kippt niður á jörðina eftir brotthvarf Ásgeirs Elíassonar. Í stað þess að berjast um meistaratitla og vinna afrek í Evrópukeppni, hafnaði liðið næstu árin um eða fyrir neðan miðja deild. Sumarið 1995 máttu Framarar svo sætta sig við neðsta sætið og fall í fyrsta sinn í þrettán ár. Á sama tíma fóru skuldir knattspyrnudeildarinnar jafnt og þétt vaxandi.

Ásgeir Elíasson sneri aftur í Safamýrina og leiddi liðið á ný upp í efstu deild, þar sem hann stýrði því næstu þrjú árin. Á þeim tíma var ráðist í nýstárlega rekstrartilraun. Stofnað var félag um rekstur meistaraflokks og talsverðu hlutafé safnað, sem mynda skyldi höfuðstól til að standa vörð um fjárhaginn. Raunin varð sú að öllu fénu var brennt upp á mettíma og verulegum skuldum safnað til viðbótar, án þess að nokkur árangur næðist á vellinum.

Frá 1998 til 2004 áttu Framarar í harðri fallbaráttu á hverju einasta sumri, þar sem liðið bjargaði sér yfirleitt frá falli í síðustu umferð oft með ótrúlegum hætti. Tímabilið einkenndist af miklum óstöðugleika. Þjálfarar voru látnir fara nánast á hverju ári og miklar breytingar urðu á leikmannahópnum frá ári til árs. Haustið 2005 varð fallið ekki umflúið og næsta sumar lék fram í næst efstu deild í fjórða sinn í sögunni.

Þorvaldarárin og bikarmeistaratitill

breyta

Eftir skamma dvöl í næst efstu deild tóku Framarar upp fyrri iðju og voru nærri því að falla haustið 2007 og í kjölfarið lét þjálfarinn Ólafur Þórðarson af störfum. Í hans stað var ráðinn Þorvaldur Örlygsson, sem vakið hafði athygli fyrir árangur sinn með sterkt en varnarsinnað lið Fjarðabyggðar.

Á fyrstu tveimur árum Þorvaldar, sumrin 2008 og 2009 náðist besti árangur liðsins um árabil. Fyrst þriðja sæti úrvalsdeildarinnar og þar með þátttökuréttur í Evrópukeppni í fyrsta sinn í fjöldamörg ár og því næst fjórða sætið í deildinni auk þess sem liðið komst í úrlitaleik bikarkeppninnar en tapaði í vítaspyrnukeppni.

Eftir þessa góðu byrjun tók heldur að síga á ógæfuhliðina. sumarið 2010 lentu Framarar í fimmta sæti en næstu þrjú sumur þar á eftir varð niðurstaðan fallbarátta. Á miðju sumri 2013 sagði Þorvaldur starfi sínu lausu og Ríkharður Daðason tók við keflinu. Undir hans stjórn urðu Framarar bikarmeistarar eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik. Var það fyrsti stóri titill Framliðsins í meistaraflokki í knattspyrnu frá árinu 1990.

Sumarið 2010 urðu þau tímamót hjá félaginu að teflt var fram meistaraflokksliði kvenna í fyrsta sinn frá árinu 1993. Framstúlkur hófu keppni í næstefstu deild og komust skömmu síðar í umspilsleiki um sæti í úrvalsdeild. Ekki tókst að fylgja eftir góðri byrjun og fyrir sumarið 2017 virtist þátttaka Fram á Íslandsmótinu í uppnámi. Úr varð að tefla fram sameiginlegu liði með Aftureldingu og tryggði hið sameinaða líð sér sigur í þriðju efstu deild, þegar í fyrstu tilraun.

Viðspyrna í handknattleiknum

breyta

Handknattleiksdeild Fram gekk í gegnum erfið ár í byrjun tíunda áratugarins. Rekstur karlaliða meistaraflokka í íþróttinni varð stöðugt dýrari. Erlendir leikmenn urðu algengari og íslenskir leikmenn gerðu í auknum mæli kröfur um greiðslur. Ár frá ári reyndist Frömurum því erfiðara að standa í sterkustu liðunum.

Karlalið Fram lék í annarri deild í þrjú keppnistímabil, frá 1993 til 1996. Á árinu 1994 var nýtt íþróttahús félagsins í Safamýri tekið í notkun og þar með gjörbreyttust rekstrarforsendur deildarinnar. Haustið 1995 var Guðmundur Þ. Guðmundsson ráðinn þjálfari karlaliðsins og leiddi það upp í efstu deild í fyrstu tilraun, ekki hvað síst fyrir tilstyrk rússneska línumannsins Olegs Titovs.

Undir stjórn Guðmundar komst karlalið Fram í fremstu röð í íslenskum handbolta í fyrsta sinn í fjöldamörg ár. Liðið lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn 1998 en beið lægri hlut. Árið eftir unnu Framarar bikarmeistaratitil eftir sigur á Stjörnunni.

Næstu ár á eftir var Framliðið í hópi sterkari liða og komst undantekningarlítið í fyrstu eða aðra umferð úrslitakeppni Íslandsmótsins, án þess þó að gera verulegar atlögur að tiltlinum.

Óvæntir meistaratitlar

breyta

Frá aldamótum hefur karlalið Fram haldið stöðu sinni meðal bestu handknattleiksliða landsins, þó án þess að vera nokkru sinni taldir sigurstranglegastir. Tveir Íslandsmeistaratitlar unnust þó á tímabilinu, þeir fyrstu frá 1972.

Veturinn 2005-06 tók Guðmundur Þ. Guðmundsson við þjálfun Framliðsins á nýjan leik. Liði Hauka, sem sigrað hafði þrjú undanfarin ár, var spáð titilinum. Leikið var með nýju keppnisfyrirkomulagi. Úrslitakeppnin var aflögð en þess í stað keppt í einni fjórtán liða deild. Framarar náðu góðu forskoti með mikilli sigurgöngu fyrri hluta vetrar, sem andstæðingunum tókst ekki að vinna upp. Var meistaratitllinn tryggður með stórsigri á botnliði Víkings/Fjölnis í lokaumferðinni í Safamýri.

Tíundi Íslandsmeistaratitill Framara í karlaflokki vannst svo 2013. Sem fyrr voru Haukar taldir sigurstranglegir í mótsbyrjun, en því spáð að Framliðið þyrfti að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Eftir slaka byrjun sóttu Framarar í sig veðrið og náðu að lokum þriðja sæti í deildinni. Í úrslitakeppninni voru Hafnarfjarðarliðin lögð að velli og vannst meistaratitillinn í fjórða leik í einvígi við Hauka.

Löng bið í kvennaflokki

breyta

Árið 1990 unnu Framstúlkur tvöfalt í meistaraflokki í handknattleik. Það reyndist hins vegar síðasti Íslandsmeistaratitill flokksins í meira en tvo áratugi. Um nokkurra ára skeið áttu Framstúlkur í fullu tré við önnur sterkustu lið landsins. Bikarkeppni HSÍ vannst t.a.m. árin 1995 og 1999.

Eftir það var sem botninn dytti úr kvennaboltanum. Ár eftir ár tefldu Framarar fram ungum og reynslulitlum liðum sem oftast nær enduðu við botn deildarinnar. Yngri flokkar félagsins voru hins vegar sterkir allan tímann. Það skilaði sér að lokum í sterku meistaraflokksliði sem hafnaði í öðru sæti á Íslandsmótinu 2008 og lék til úrslita á árunum 2009 til 2012, auk þess að verða bikarmeistari í tvígang. Eftir að hafa mátt sætta sig við silfurverðlaun á Íslandsmótinu fimm ár í röð hlutu Framstúlkur sinn tuttugasta Íslandsmeistaratitil eftir sigur á Stjörnunni vorið 2013.

Nýjar félagsdeildir

breyta

Árið 2003 varð Fram fyrsta Reykjavíkurfélagið til að stofna sérstaka almenningsíþróttadeild. Deildin hafði þá raunar starfað óformlega í tengslum við félagið um langs árabil eða frá árinu 1995. Almenningsíþróttadeildin stendur fyrir ýmiskonar líkamsrækt og leikfimi fyrir íbúa á starfsvæði Fram, auk þess að skipuleggja íþróttaskóla fyrir börn.

Tækvondódeild Fram var stofnuð árið 2005 og hefur frá upphafi haft allnokkurn fjölda iðkenda.

Formenn Knattspyrnufélagsins Fram

breyta

Íþróttamaður Fram

breyta

Á hundrað ára afmæli Knattspyrnufélagsins Fram var stofnað til viðurkenningarinnar Íþróttamaður Fram sem veittur er í lok hvers árs þeim íþróttamanni félagsins sem telst hafa náð bestum árangri á árinu. Verðlaunahafar frá upphafi:

Titlar

breyta

Karlaflokkur

breyta

Kvennaflokkur

breyta
  • Íslandsmeistarar innanhúss: 1
    • 1974

Karlaflokkur

breyta

Kvennaflokkur

breyta

Karlaflokkur

breyta

Tengt efni

breyta
Titilhæsta lið í Úrvalsdeild karla í knattspyrnu
Fyrir:
KR
1914 - 1952 Eftir:
KR
  Besta deild karla • Lið í Bestu deildinni 2024  
  KR •   FH  •   Valur  •   Breiðablik  •   Stjarnan  •   Víkingur
  KA  •   Fram  •  ÍA  •   Vestri  •   Afturelding  •   ÍBV
Leiktímabil í efstu deild karla (1918-2024) 

19181919192019211922192319241925192619271928192919301931193219331934193519361937193819391940194119421943194419451946194719481949195019511952195319541955195619571958195919601961196219631964196519661967196819691970197119721973197419751976197719781979198019811982198319841985198619871988198919901991199219931994199519961997199819992000200120022003200420052006200720082009201020112012201320142015201620172018201920202021202220232024

MjólkurbikarinnLengjubikarinn
1. deild2. deild3. deild4. deild

------------------------------------------------­----------------------------------------------
Mjólkurbikar kvennaLengjubikar kvennaMeistarakeppni kvenna
Úrvalsdeild kvenna1. deild kvenna2. deild kvenna
DeildakerfiðKSÍÍslandshorniðReykjavíkurmótiðFótbolti.net mótið
   
  KR (27)  •   Valur (23)  •   Fram (18) •   ÍA (18)    FH (8)  •   Víkingur (7)
  Keflavík (4)  •   Breiðablik (3)  •   ÍBV (3)  •   KA (1)  •   Stjarnan (1)
  Olís deild karla • Lið í Olís deild karla 2015-2016.  

  Afturelding  •   Akureyri  •   FH  •   Fram  •   Haukar
  Grótta  •   ÍBV  •   ÍR  •   Víkingur  •   Valur

Tilvísanir og heimildir

breyta
  • Sigurður Á Friðþjófsson (1994). Íþróttir í Reykjavík. Íþróttabandalag Reykjavíkur. ISBN 9979-60-082-9.
  • Víðir Sigurðsson & Sigurður Á Friðþjófsson (1997). Knattspyrna í heila öld. Knattspyrnusamband Íslands. ISBN 9979-60-299-6.
  • Víðir Sigurðsson (1989). Fram í 80 ár. Knattspyrnufélagið Fram.
  • Stefán Pálsson (2009). Frambókin - Knattspyrnufélagið Fram í 100 ár. Knattspyrnufélagið Fram. ISBN 978-9979-70-579-6.

Tengill

breyta