Andrzej Michał Strejlau (19. febrúar 1940) er pólskur íþróttamaður, knattspyrnuþjálfari og fyrrverandi þjálfari Knattspyrnufélagsins Fram.

Andrzej Strejlau (2018)

Starfsferill

breyta

Strejlau var kunnur knattspyrnu- og handknattleiksmaður á yngri árum í heimalandi sínu og keppti í efstu deild í báðum greinum. Hann á að baki landsleiki í handbolta fyrir Pólland.

Hann sneri sér að þjálfun á sjöunda áratugnum með góðum árangri. Hann stjórnaði pólska ungmennalandsliðinu um árabil og var aðstoðarlandsliðsþjálfariá Ólympíuleikunum 1972 og 1976, sem og á HM 1974. Á þessum árum stýrði hann einnig Legia Varsjá, einu öflugasta félagsliði Póllands.

Árið 1989 varð hann aðalþjálfari pólska landsliðsins og gegndi því starfi til ársins 1993, en hætti eftir að honum mistókst að koma liði sínu á HM 1994. Hann hefur upp frá því gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir pólska knattspyrnusambandið.

Þjálfari Framara

breyta
 
Andrzej Strejlau (2012)

Knattspyrnufélagið Fram falaðist eftir erlendum þjálfara fyrir sumarið 1982, helst frá Sovétríkjunum eða Póllandi, en Pólverjar voru um þær mundir hátt skrifuð knattspyrnuþjóð. Fyrir milligöngu pólsku utanríkisþjónustunnar stóð Frömurum til boða að fá Strejlau til starfa í tvö ár. Kostnaður Framara var mun minni en búast mátti við, enda litu Pólverjarnir á þetta sem kynningar- og þróunarverkefni.

Strejlau gjörbreytti skipulagi knattspyrnuþjálfunar innan Fram. Hann minnkaði æfingahópinn til muna og úthýsti þeim sem ekki komu til greina í keppnisliðið. Hann lagði áherslu á stuttan samleik, sem lítið hafði farið fyrir í íslenska boltanum og breytti ýmsu í þjálfun yngri flokkanna.

Framarar máttu bíta í það súra epli að falla úr efstu deild haustið 1982, þrátt fyrir að hafa aðeins tveimur stigum minna en liðið í fimmta sæti. Engum kom þó til hugar að kenna þjálfaranum um ófarirnar, enda liðið kornungt. Strejlau þjálfaði Framara í 2. deildinni sumarið 1983 og leiddi liðið til sigurs í henni, auk þess sem Framarar urðu Reykjavíkurmeistarar. Segja má að þessi ár hafi mikilvægur grunnur verið lagður að hinu sigursæla tímabili Framliðsins 1985 til 1990.