Meistaraflokkur Fram í knattspyrnu kvenna

Meistaraflokkur Fram í knattspyrnu kvenna er fulltrúi Knattspyrnufélagsins Fram í knattspyrnumótum kvenna á vegum KSÍ. Framarar voru meðal fyrstu liða til að leggja stund á íþróttina í kvennaflokki á árunum í kringum 1970 og tóku þátt í Íslandsmótinu flest fyrstu árin. Um langt árabil stóð starfsemi kvennaflokksins tæpt og um nokkurra ára skeið sendi félagið ekki lið til keppni. Nú um stundir (2021) er Framliðið í 2. deild.

Upphaf nútímakvennaknattspyrnu á Íslandi hefur verið rakið til þess þegar handboltakonur nokkurra félaga á höfuðborgarsvæðinu tóku að grípa í fótbolta á æfingum yfir sumarmánuðina á ofanverðum sjöunda áratugnum. Þannig mættust handboltakomur úr Fram og KR í vináttuleik þegar árið 1968. Um svipað leyti fór Knattspyrnusamband Íslands að hvetja aðildarfélög sín til þess að hefja æfingar í kvennaflokki og var Íslandsmeistararmót innanhúss haldið árið 1971 og fyrsta Íslandsmótið utandyra árið eftir. Fram sendi lið til keppni í bæði skiptin, var það að mestu skipað stúlkum sem fyrst og fremst æfðu handknattleik.

Árið 1974 urðu Framkonur Reykjavíkur- og Íslandsmeistarar innanhúss. Er það enn í dag eini stóri titill félagsins í kvennaflokki. Þjálfari þessa fyrsta meistaraliðs var Sigmundur Ó. Steinarsson íþróttafréttamaður. Í liðinu voru m.a. stúlkur sem áttu eftir að vinna ótal titla fyrir handknattleikslið félagsins, s.s. Oddný Sigsteinsdóttir, Kolbrún Jóhannsdóttir, Jóhanna Halldórsdóttir og Guðný Guðmundsdóttir. Árin 1975 og 1976 hafnaði Fram í 2. sæti á Íslandsmótinu utanhúss.

Fyrir sumarið 1980 ákvað stjórn knattspyrnudeildar Fram að leggja niður kvennaflokkinn í óþökk liðsmanna sem margar hverjar gengu til liðs við önnur félög og náðu þar góðum árangri. Þótt flokkurinn væri fljótlega endurvakinn náði hann aldrei sama styrk. Framstúlkur unnu sigur í 2. deild sumarið 1987 en liðið beið afhroð í flestum leikjum árið eftir og var lagt niður á nýjan leik. Eftir misheppnaða tilraun til að blása nýju lífi í glæður meistaraflokks sumarið 1993 liðu sautján ár uns Fram sendi á ný meistaraflokk til keppni á Íslandsmóti.

Sumrið 2017 og 2018 tefldu Fram og Afturelding fram sameiginlegu kappliði. Samstarfið byrjaði vel og varð hið sameinaða lið strax á sínu fyrra ári meistari í þriðju efstu deild. Að loknu seinna árinu var samstarfinu slitið. Fram sendi á ný lið til keppni í á Íslandsmóti sumarið 2020.

Haustið 2022 hafnaði Fram í efsta sæti C-deildar eftir að hafa trónt á toppnum nánast frá fyrstu mínútu.

Leiktíðir meistaraflokks Fram

breyta
Keppnistímabil
Leiktíð Deild Sæti Fjöldi liða Bikarkeppni KSÍ
1972 1. deild 3.- 4. sæti 8 lið
1973 Tók ekki þátt
1974 1. deild 3.- 4. sæti 11 lið
1975 1. deild 2. sæti 8 lið
1976 1. deild 3. sæti 5 lið
1977 1. deild 2. sæti 6 lið
1978 1. deild 4. sæti 4 lið
1979 1. deild 4. sæti 5 lið
1980-81 Tók ekki þátt
1982 2. deild 7.- 8. sæti 9 lið Tapaði fyrsta leik
1983 2. deild 7.- 8. sæti 11 lið Tapaði fyrsta leik
1984 2. deild 7.- 8. sæti 12 lið Tapaði fyrsta leik
1985 2. deild 7.- 8. sæti 11 lið Tapaði fyrsta leik
1986 2. deild 3.- 4. sæti 12 lið Tapaði fyrsta leik
1987 2. deild 1. sæti 9 lið Tapaði fyrsta leik
1988 1. deild 8. sæti 8 lið Tapaði fyrsta leik
1989-92 Tók ekki þátt
1993 2. deild 5.- 6. sæti 11 lið Tók ekki þátt
1994-2009 Tók ekki þátt
2010 1. deild 11.- 12. sæti 15 lið Tók ekki þátt
2011 1. deild 9.- 10. sæti 14 lið Tapaði fyrsta leik
2012 1. deild Undanúrslit 16 lið 2. umferð
2013 1. deild 5.- 6. sæti 17 lið Tapaði fyrsta leik
2014 1. deild 7.- 8. sæti 18 lið 2. umferð
2015 1. deild 8-liða úrslit 20 lið Tapaði fyrsta leik
2016 1. deild 13.- 15. sæti 22 lið Tapaði fyrsta leik
2017 (sem Afturelding / Fram) 2. deild 1. sæti 9 lið Tapaði fyrsta leik
2018 (sem Afturelding / Fram) 1. deild 7. sæti 10 lið 3. umferð, 16-liða úrslit
2019 Tók ekki þátt
2020 2. deild 7. sæti 9 lið Tapaði fyrsta leik
2021 2. deild 4. sæti 13 lið Tapaði fyrsta leik
2022 2. deild 1. sæti 12 lið Tapaði fyrsta leik
2023 1. deild 7. sæti 10 lið 3. umferð, 16-liða úrslit
2024 1. deild 2. sæti 10 lið 3. umferð, 16-liða úrslit
2025 Úrvalsdeild 10 lið