Grímsstaðaholt er hverfi í Reykjavík. Það er fyrir sunnan Melana og Hagana og vestan við Skerjafjörð og Reykjavíkurflugvöll. Fálkagata, Þrastargata, Smyrilsvegur og suðausturendi Hjarðarhaga teljast vera í Grímsstaðaholti, en á sjálfu holtinu er VR-III, hús verkfræði- og raunvísindanema í Háskóla Íslands.

Holtið nefndist áður Móholt og dró nafn sitt af því að þar þurrkuðu Reykvíkingar sinn. Árið 1842 var fyrsta býlið reist á þessum slóðum. Þá kom Grímur Egilsson sér upp bæ og nefndi Grímsstaði. Stóð hann þar sem vesturendi Fálkagötu er nú. Varð það til þess að farið var að kenna holtið við býlið.

Á seinni hluta nítjándu aldar og fram undir fyrri heimsstyrjöld fjölgaði tómthúsmannabýlum á holtinu og voru þau rétt á annan tuginn með tæplega hundrað manns. Stunduðu íbúarnir útræði úr vörum í Skerjafirði og lítilsháttar landbúnað á túnbleðlum sínum, auk þess sem stutt var að sækja vinnu og þjónustu til Reykjavíkur.

Á þriðja áratugnum skipulögðu yfirvöld Reykjavíkurbæjar byggð á Grímsstaðaholti með útmælingu þriggja gatna sem fengu heitin: Fálkagata, Arnargata og Lóugata. Íbúum á svæðinu fjölgaði ört og voru það einkum verkamenn sem störfuðu í bænum, þótt sumir íbúanna legðu jafnframt stund á nokkurn búskap til að drýgja tekjurnar. Á árunum 1925-29 voru reist nokkur bráðabirgðahús við Smyrilsveg og Þrastargötu sem fengu nafnið Grímsbýr og var þeim ætlað að bæta úr sárri neyð í húsnæðismálum. Húsin voru í notkun mun lengur en áætlað var og höfðu þau slæmt orðspor. Um tíma var Skildinganesskólinn, barnaskóli sem stofnaður hafði verið fyrir íbúa í Skildinganesi rekinn í Grímsbý-húsunum.

Heimildir

breyta