Reykjavíkurmótið í knattspyrnu

Reykjavíkurmótið í knattspyrnu er knattspyrnukeppni í karla- og kvennaflokki milli félagsliðanna í Reykjavík á vegum Knattspyrnuráðs Reykjavíkur. Stofnað var til mótsins af Knattspyrnufélagi Reykjavíkur árið 1915. Vegur þess hefur minnkað mikið í gegnum tíðina og er það í dag fyrst og fremst æfingarmót sem leikið er í byrjun árs. KR-ingar hafa oftast farið með sigur af hólmi í karlaflokki (40 sinnum) en ríkjandi meistarar (2024) eru Víkingar í bæði karla- og kvennaflokki.

Knattspyrnufélagið Fram stofnaði til Fyrsta Íslandsmótsins í knattspyrnu árið 1912, keypti bikar og hirti ágóðann. Þetta mæltist illa fyrir hjá KR-ingum sem sniðgengu Íslandsmótið í mótmælaskyni árin 1913 og 1914 vegna deilna um þessi mál og fleiri. Sú málamiðlun náðist að KR-ingar efndu til eigin knattspyrnukeppni. Þeir létu útbúa verðlaunagripinn Reykjavíkurhornið og var keppt um hann í fyrsta sinn árið 1915. Lauk keppninni með sigri Fram.

Eftir nokkur ár tók Knattspyrnuráð Reykjavíkur yfir rekstur allra mótanna og urðu þau þá sameiginlegt verkefni reykvískra knattspyrnumanna í stað þess að vera í einkaeigu einstakra félaga. Þar sem landsbyggðarlið tóku sjaldnast þátt í Íslandsmótinu, voru yfirleitt sömu þátttökulið í báðum mótunum, fóru þau bæði fram á Íþróttavellinum á Melunum og síðar Melavellinum og var stutt á milli þeirra. Ekki er því að undra þótt mótin hafi verið í álíka miklum metum hjá knattspyrnuáhugamönnum og umföllun um þau í dagblöðum svipuð.

Með tímanum styrktist þó staða Íslandsmótsins gagnvart Reykjavíkurmótinu. Árið 1935 var t.a.m. felld niður keppni í mótinu vegna þess að knattspyrnumenn voru uppteknir við önnur verkefni. Tilkoma Skagamanna sem stórliðs í íslenskri knattspyrnu um og eftir 1950 varð enn frekar til að minnka veg Reykjavíkurmótsins. Tilkoma bikarkeppni KSÍ árið 1960 og vígsla Laugardalsvallar árið 1957 varð enn frekar til að skerpa skilin, þar sem leikir Íslandsmótsins fluttust á Laugardalsvöll en Reykjavíkurmótið hélt áfram á mölinni.

Með tilkomu gervigrasvallarins í Laugardal árið 1984 færðust leikir Reykjavíkurmótsins þangað af Melavellinum. Eftir að Egilshöll var tekin í notkun árið 2002 hafa leikir Reykjavíkurmótsins farið fram þar. Fyrir vikið hefur mótið færst enn framar á árið og fer nú að mestu fram í janúar og febrúar, áður en Deildarbikarkeppni KSÍ hefst.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Árið 2005 keppti Fimleikafélag Hafnarfjarðar sem gestalið á Reykjavíkurmótinu. Liðið sigraði Valsmenn í úrslitaleik mótsins, en Valsmenn voru þó krýndir meistarar í samræmi við reglur keppninnar. Eftir þetta var horfið frá því að bjóða gestaliðum að taka þátt.
  • Árið 1969 kepptu Valsmenn fyrstir íslenskra liða í Borgakeppni Evrópu, sem var undanfari Evrópukeppni félagsliða [1]. Framarar höfnuðu í öðru sæti Íslandsmótsins 1968 og hefðu því að öllu jöfnu átt að eiga keppnisréttinn. Knattspyrnusamband Íslands túlkaði hins vegar reglur keppninnar á þann hátt að sætið væri ætlað borgarmeisturunum, sem voru Valsarar. Árið eftir töldu KR-ingar sig eiga þátttökurétt í sömu keppni á grundvelli Reykjavíkurmeistaratitilsins. Skagamenn sættu sig ekki við að eitt Evrópusætið væri með þessu móti frátekið fyrir höfuðborgina, kærðu og hlutu sætið.
  • Í fyrstu var verðlaunagripurinn á mótinu Reykjavíkurhornið sem KR-ingar gáfu. Árið 1928 kom til Íslands skoskur knattspyrnuflokkur. Gestirnir færðu Knattspyrnuráði Reykjavíkur bikar að gjöf og var afráðið að keppt skyldi um hann annað hvort ár en Reykjavíkurhornið hitt árið. Hélst sú tilhögun til ársins 1944 þegar Reykjavíkurhornið var tekið úr umferð.

Titlar eftir félögum

breyta

Þessi lið hafa unnið Reykjavíkurmót karla í knattspyrnu frá 1915 til 2024.

Félag Titlar
  KR 40
  Fram 28
  Valur 25
  Víkingur 6
  Fylkir 4
  Þróttur 2
  Leiknir R. 2
  ÍR 1
  Fjölnir 1
Ekki keppt 1

Tilvísun

breyta
  1. http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=17605