Günter Netzer (f. 14. september 1944 í Mönchengladbach) var þýskur atvinnumaður í knattspyrnu og lék lengst af með Borussia Mönchengladbach og Real Madrid. Með þýska landsliðinu varð hann bæði Evrópumeistari og heimsmeistari.

Leikferill

breyta

Félagslið

breyta

Günter Netzer fæddist í þýsku borginni Mönchengladbach. Strax níu ára gamall hóf hann að æfa með yngri flokkum hjá litlu félagi í borginni. Hann var mestmegnis miðherji og vakti sem slíkur mikla athygli fyrir leikgáfur. Þegar Netzer var 19 ára gamall bauð Borussia Mönchengladbach honum samning sem hann þáði. Félagið var þá í neðri deildum, en vann sig upp í Bundesliguna á tveimur árum. Næstu árin voru þau bestu í sögu félagsins. Liðið varð þýskur meistari 1970 og aftur 1971. Þetta var í fyrsta sinn sem lið í Bundesligunni náði að verja titilinn. 1972 og 1973 var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. 1973 fór Netzer til Real Madrid og lék þar í þrjú ár. 1975 varð hann spænskur meistari með liðinu og ári síðar bæði meistari og bikarmeistari. 1976 fór Netzer til Sviss og lék með Grasshoppers Zürich síðustu tvö árin sín sem atvinnumaður.

Landslið

breyta

Günter Netzer lék sinn fyrsta landsleik 1965 gegn Kýpur. Hann stóð hins vegar ætíð í skugga Wolfgang Overath, en báðir léku þeir í sömu stöðu. Overath var oftast valinn í landsliðið, meðan Netzer sat á bekknum eða varð eftir heima. Fyrsta stórmótið sem Netzer tók þátt í var EM 1970 í Englandi. Þar sigraði þýska landsliðið Englendinga, en þetta var fyrsti sigur Þjóðverja gegn Englendingum á Wembley. Þjóðverjar komust í úrslit og sigruðu þar Sovétmenn. Þar með varð Günter Netzer Evrópumeistari. Á næsta stórmóti, HM 1974 í Þýskalandi var Overath aftur tekinn fram yfir Netzer. Netzer fékk aðeins að leika einn leik, 0-1 tapleikinn gegn Austur-Þýskalandi, og kom ekki meira við sögu. Þjóðverjar urðu heimsmeistarar, en Netzer sagði sjálfur að sér liði ekki sem heimsmeistari, þar sem hann hafi komið svo lítið við sögu. Alls lék Netzer 37 landsleiki og skoraði í þeim 6 mörk. Síðasti landsleikur hans var gegn Grikkjum 1975, en honum lauk 1:1.

Önnur störf

breyta

1977 gerðist Netzer framkvæmdarstjóri hjá HSV í Hamborg. Þar var hann til 1986. Á þessum tíma varð HSV eitt besta félagslið Þýskalands og varð þrisvar þýskur meistari (1979, 1982 og 1983) og Evrópumeistari 1983. Eftir veru sína í Hamborg varð Netzer knattspyrnuráðgjafi í sjónvarpi, en auk þess stofnaði hann auglýsingafyrirtæki í Sviss. Það var einmitt Günter Netzer sem gagnrýndi Rudi Völler þjálfara eftir jafnteflisleik þýska landsliðsins gegn Íslandi á Laugardalsvelli 6. september 2003. Við það tækifæri fékk Völler reiðiskast og skammaði Netzer og aðra í beinni útsendingu eftir leikinn.

Tölfræði

breyta
Félag/lið Ár Leikir Mörk Titlar
Borussia Mönchengladbach 1963-1973 297 108 Þýskur meistari (2x), bikarmeistari, Evrópumeistari
Real Madrid 1973-1976 85 9 Spænskur meistari (2x), bikarmeistari
Grasshoppers Zürich 1976-1978 - -
Þýska landsliðið 1965-1975 37 6 Evrópumeistari, heimsmeistari

Annað markvert

breyta
  • Günter Netzer var þekktur í Þýskalandi fyrir frjálslegan lífstíl sinn, en hann hafði ætíð mikinn áhuga fyrir langt hár, fagrar konur og hraðskreiða bíla. Slíkt var áður óþekkt hjá leikmanni í Þýskalandi.
  • 1971-1973 rak Netzer eigið diskótek í Mönchengladbach sem hét Lovers Lane.
  • Netzer kvæntist fyrirsætunni Elvira Lang 1987. Þau eiga eina dóttur.

Heimild

breyta