Gunnar Halldórsson
Gunnar Halldórsson (24. október 1894 – 2. júní 1962) var skrifstofustjóri og formaður Knattspyrnufélagsins Fram.
Ævi og störf
breytaGunnar fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í stórum systkinahópi, sonur Halldórs Jónssonar bæjarfulltrúa. Meðal systkina Gunnars var Pétur Halldórsson sem var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1935-40. Sjálfur starfaði Gunnar lengst af hjá Reykjavíkurbæ og sá um bókhald fyrir nýbyggingar bæjarins. Kona hans var Kristín Björnsdóttir.
Vorið 1908 var Gunnar í hópi stofnfélaga Knattspyrnufélagsins Fram. Hann var framherji í fyrsta kappliði félagsins gegn KR í vígsluleik Melavallar 1911 og tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1912. Gunnar lék síðast með Fram sumarið 1920.
Árið 1910 lá við að Fram gliðnaði í sundur vegna deilna félagsmanna, meðal annars um afnot af bolta félagsins. Til að miðla málum tók Gunnar Halldórsson tímabundið við formennsku í félaginu og gegndi henni í nokkrar vikur.
Gunnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og hóf þá störf hjá fyrirtækinu Th. Thorsteinsson sem starfrækti útgerð og rak verslunina Liverpool. Hann hóf síðar sjálfstæðan verslunarrekstur og var um tíma meðeigandi í versluninni Brynju, en seldi hlut sinn þegar hann réðst til starfa hjá Reykjavíkurbæ.[1]
Árið 1932 hóf Gunnar rekstur billjardstofu að Vesturgötu 5, þar sem meðal annars var að finna spilakassa eða happdrættisvél. Lögreglan skar upp herör gegn billjardstofum árið 1936 fyrir brot á reglum um aldur gesta. Gunnar var í hópi þeirra eigenda sem kærðir voru og munu spilakassarnir hafa verið teknir úr notkun að því tilefni.[2]