Samúel Thorsteinsson

Samúel Thorsteinsson (1. janúar 189325. nóvember 1956) var dansk/íslenskur læknir og fyrsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu.

Ævi og störf

breyta

Samúel var sonur athafnamannsins Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar Guðmundsdóttur. Hann ólst að mestu upp í Kaupmannahöfn, nam læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og starfaði sem læknir í Danmörku alla ævi.

Meðal systkina Samúels voru Friðþjófur og Gunnar sem báðir voru knattspyrnumenn og gegndu formennsku Knattspyrnufélagsins Fram, en Samúel æfði og keppti undir merkjum Framara í fríum sínum á Íslandi. Allir voru þeir bræður listamannsins Guðmundar „Muggs“ Thorsteinssonar.

Um það leyti sem Samúel innritaðist í læknadeildina hóf hann að æfa með Akademisk Boldklub, sem var knattspyrnulið Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1918 var hann í fyrsta sinn valinn í danska landsliðið, sem þá var talið eitt hið sterkasta í Evrópu. Alls urðu landsleikirnir sjö talsins, en lítið var um millilandakeppnir á þessum árum vegna heimsstyrjaldarinnar.

Veturinn 1912-13 dvaldist Samúel á Ítalíu og gekk þar til liðs við Naples FC. Hann lék með liðinu í keppninni um Ítalíumeistaratitilinn, þar sem Naples FC tapaði gegn Lazio í úrslitum Suður-Ítalíukeppninnar.

Árið 1919 tók Samúel þátt í Íslandsför Akademisk boldklub, sem þá voru nýkrýndir Danmerkurmeistarar.