Friðþjófur Thorsteinsson

Friðþjófur Thorsteinsson (28. ágúst 189513. apríl 1967) var íslenskur knattspyrnumaður, þjálfari og formaður Knattspyrnufélagsins Fram.

Friðþjófur Thorsteinsson.

Ævi og störf

breyta

Friðþjófur var sonur athafnamannsins Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar Guðmundsdóttur. Hann ólst upp í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Á fyrrnefnda staðnum hóf hann að æfa knattspyrnu og náði þegar töluverðri færni. Meðal systkina Friðþjófs voru Gunnar sem gegndi um tíma formennsku í Fram og Samúel, einn fremsti knattspyrnumaður sem Ísland hefur alið. Þeir voru allir bræður listamannsins Guðmundar „Muggs“ Thorsteinssonar.

Í Reykjavík gekk hann til liðs við hið nýstofnaða knattspyrnufélag Fram og lét þegar til sín taka. Hann skoraði bæði mörk Framara í frægum sigri á Fótboltafélagi Reykjavíkur á landsmóti UMFÍ á Melavellinum, 17. júní 1911. Sú viðureign hefur oft verið talin fyrsti opinberi knattspyrnuleikurinn á Íslandi.

Friðþjófur hélt til verslunarnáms í Edinborg í Skotlandi árið 1914 og dvaldi ytra í fjögur ár. Á þeim tíma mun hann hafa leikið knattspyrnu með áhugamannaflokki skoska stórliðsins Hibernian FC.

Sumarið 1918 sneri Friðþjófur aftur í herbúðir Framara og lék andstæðinga sína grátt. Í leikjunum þremur skoraði hann tólf af fjórtán mörkum Fram, þar af sex á móti KR-ingum, sem er met í efstu deild Íslandsmóts karla. Árið eftir endurtók hann afrekið og skoraði sex mörk í leik gegn Val. Engu að síður var hann gagnrýndur í Vísi fyrir að hafa verið latur í leiknum.

Friðþjófur var lykilmaður í íslenska úrvalsliðinu sem atti kappi við danska stórliðið Akademisk boldklub í fyrstu heimsókn erlends knattspyrnuliðs til Íslands sumarið 1919. Hann skoraði tvö af fjórum mörkum Íslendinganna í frægum sigurleik (sem sumir hafa þó viljað skýra að hluta til sem afleiðingar af reiðtúr dönsku leikmannanna).

Ekki naut Friðþjófs þó lengi við að þessu sinni. Hann fluttist fljótlega til Kanada og bjó þar um árabil, þar sem hann mun m.a. hafa leikið og þjálfað knattspyrnu.

Árið 1934 voru Framarar í þjálfaravandræðum og kviknaði þá sú hugmynd að leita til Friðþjófs og kanna hvort hann væri til í að snúa aftur heim. Þetta varð að ráði og þjálfaði Friðþjófur Framliðið sumrin 1934-37 og aftur 1940. Þá sá hann um þjálfun íslenska úrvalsliðsins sem hélt í keppnisför til Þýskalands sumarið 1935. Framliðið tók miklum framförum undir stjórn Friðþjófs, enda kynnti hann Íslendingum ýmsar nýjungar í knattspyrnunni, s.s. stuttan samleik.

Friðþjófur Thorsteinsson gegndi formennsku í Fram 1919-20 og um nokkurt skeið árið 1935. Á þrjátíu ára afmæli félagsins var hann útnefndur heiðursfélagi.


Fyrirrennari:
Arreboe Clausen
Formaður Knattspyrnufélagsins Fram
(19191920)
Eftirmaður:
Tryggvi MagnússonFyrirrennari:
Ólafur Kalstað Þorvarðsson
Formaður Knattspyrnufélagsins Fram
(19351935)
Eftirmaður:
Lúðvík Þorgeirsson