Knattspyrnufélag Reykjavíkur

fjölíþróttafélag í Vesturbænum í Reykjavík
Fyrir nánari upplýsingar um knattspyrnudeild KR sjá greinina Knattspyrnudeild KR

Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, er íþróttafélag í Vesturbænum í Reykjavík. Félagið var stofnað 16. febrúar árið 1899 og er elsta félag sinnar tegundar á Íslandi. Það var stofnað fyrst sem knattspyrnufélag, en núna eru starfræktar margar deildir innan félagsins. KR hefur unnið úrvalsdeild karla í knattspyrnu 27 sinnum, oftast allra félaga og er KR eitt sigursælasta lið landsins í þremur vinsælustu íþróttagreinum landsins, handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu þar sem það hefur unnið 103 Íslands- og bikarmeistaratitla í karla- og kvennaflokki. KR er það lið sem á sér flesta stuðningsmenn á landinu.[1][2][3][4]

Merki Knattspyrnufélags Reykjavíkur
Virkar deildir Knattspyrnufélags Reykjavíkur

Knattspyrna

Körfubolti

Handbolti

Badminton

Borðtennis

Glíma

Keila

Skíði

Sund

Fyrstu árin (1899 - 1923)

breyta

Það var undir lok 19. aldar að erlendur prentari, James B. Ferguson að nafni, sem starfaði í Ísafoldarprentsmiðju, vakti áhuga ungra manna í Reykjavík á íþrótt sem kölluð var knattspyrna. Margir ungir menn, nemendur við lærða skólann m.a., tóku að iðka þessa íþrótt. Aðstaða til iðkunnar var þó ekki upp á marga fiska, oftar en ekki þurfti að hreinsa grjót af vellinum, melnum svokallaða, þar sem Melavöllurinn átti eftir að standa, til að getað spilað þar. Einn frægasti óperusöngvari Íslendinga, Pétur Á. Jónsson lýsti aðstæðum drengja sem að spiluðu knattspyrnu á melnum, um aldamótin 1900. Hann sagði meðal annars:

„Völlurinn var á melunum þar sem íþróttavöllurinn er nú - var ógirtur, ósléttur, grýttur og holóttur og illa strikaður. [...] Jafnvel stærð hans var með öllu óákveðin, því takmörk voru sett af handahófi, sín í hvert skiptið.“ [5]

Þrátt fyrir þessar slæmu aðstæður tóku nokkrir piltar sig saman og stofnuðu, hinn 16. febrúar 1899, Fótboltafélag Reykjavíkur í verslun Guðmundar Olsens í Aðalstræti. Þetta staðfestir Morgunblaðið, því að hinn 16. febrúar, 1924 skrifar Kristján L. Gestsson grein þess efnis að Knattspyrnufélag Reykjavíkur ætti 25 ára afmæli[6], um mánuði fyrr en áður hafði verið talið. Félagið var stofnað með það að leiðarljósi að búa til aðstöðu fyrir unga drengi til að iðka knattspyrnu. Stofnendur og félagsmenn Fótboltafélags Reykjavíkur voru fyrstu árin eftirtaldir[7],: Pétur Á. Jónsson, Þorsteinn Jónsson, bróðir hans, Jón Antonsson, Þorkell Guðmundsson, Kjartan Konráðsson, Geir Konráðsson, bróðir hans, Björn Pálsson Kalman, Davíð Ólafsson, Bjarni Ívarsson, Guðmundur Guðmundsson, Guðmundur Þorláksson, Guðmundur Þórðarson, Jón Björnsson, Bjarni Pétursson, Kristinn Pétursson, bróðir hans, Sigurður Guðjónsson, Guðmundur Stefánsson, glímukappi og Kristinn Jóhannesson. Síðar bættust við smám saman þeir Jón Halldórsson, Pétur Halldórsson, bróðir hans, Richard Thors, Skúli Jónsson, Símon Þórðarson, Jón Þorsteinsson, Árni Einarsson, Lúðvíg Einarsson, bróðir hans og Ben. G. Waage.

Starfsemi félagsins var ekki sérlega öflug fyrstu árin. Skipulögð stjórn félagsins var á undanhaldi og var enginn formlegur formaður félagsins fyrr en 1910. Einn maður bar þó höfuð og herðar yfir aðra menn í starfi KR fyrstu árin, hann Þorsteinn Jónsson. Þorsteinn sá um að boða til æfinga og panta bolta, en það gerði hann frá fyrirtæki í Liverpool en treyjur fyrir leikmenn voru ekki keyptar sökum þess hve dýr slíkur fatnaður var. Félagsgjöld voru borguð, en þau voru notuð til þess að kaupa knetti, en tveir slíkir voru yfirleitt keyptir á ári. Vakningarfundur var haldinn árið 1910 og var fyrsta formlega stjórn KR kosin. Þorsteinn Jónsson var kjörinn formaður, Árni Einarsson gjaldkeri, Guðmundur Þórðarson ritari og Jón Halldórsson varaformaður og umsjónamaður áhalda. [5]

Fleiri félög stofnuð

breyta

KR var fyrsta knattspyrnufélagið sem stofnað var á Íslandi, og var eina knattspyrnufélagið í fjögur ár. Fram að stofnun annarra félaga hafði KR ekkert lið til að keppa við, annað en sjálft sig. Það komu þó í tíma og ótíma skip, utan úr heimi með sjómönnum sem kunnu eitthvað fyrir sér í knattspyrnu og gátu keppt við knattspyrnulið drengjanna. Yfirleitt báru Reykjavíkurmenn sigur úr býtum og þóttu leikir þeirra og sjómannanna hin mesta skemmtun, einkum þegar danskir sjómenn voru sigraðir.[8] Þessi háttur var hafður á í níu ár, til ársins 1908 en þá voru knattspyrnufélögin Víkingur og Fram stofnuð, og Knattspyrnufélagið Valur þremur árum síðar, árið 1911. Með þessu eignaðist KR verðuga andstæðinga í Reykjavík, sem þeir hafa átt allar götur síðan.

Knattspyrnuleikir urðu sífellt vinsælli meðal þjóðarinnar og fengu íþróttir eins og glíma að víkja fyrir knattspyrnu sem keppnisgreinar á hátíðisdögum. Þann 11. júní 1911 var íþróttavöllurinn á Melunum vígður. Þá voru fluttar ræður í tilefni dagsins, íþróttafólk sýndi leikfimi og stuttur leikur á milli KR og Fram var spilaður. Fram sigraði leikinn með tveimur mörkum gegn engu og skoraði Friðþjófur Thorsteinsson bæði mörk Framara. Íþróttavellinum var lýst svo:

„Íþróttavöllurinn er 200 stikur að lengd og 100 að breidd. Allur er hann girtur rammgerðri girðingu, 3½ alinar hárri úr bárujárni.“. [5]

Fyrsta knattspyrnumótið

breyta
Sjá nánari umfjöllun á greininni Úrvalsdeild 1912
 
Sigurlið FR (í hvítum skyrtum) og lið Fram (dökkum treyjum) eftir fyrsta Íslandsmeistaramótið.

Nú stóð ekkert í vegi fyrir knattspyrnuiðkendum og gátu liðin hafið keppni sína á milli, því að nýr og flottur völlur stóð þeim til boða, og árið eftir var fyrsta knattspyrnumót Íslands haldið. Þrjú lið tóku þátt í mótinu, Fótboltafélag Reykjavíkur, Knattspyrnufélagið Fram og Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (síðar ÍBV). Mótinu lauk með sigri Fótboltafélags Reykjavíkur og hlaut það nafnbótina „Besta knattspyrnufélag Íslands“. Knattspyrnumót þetta hefur síðan verið haldið árlega.

Nýtt nafn og búningur

breyta

Erlendur Ó. Pétursson bar nýja og ferska strauma inn í félagið. Hann lagði það fram á aðalfundi félagsins árið 1915 að nafni félagsins yrði breytt úr Fótboltafélag Reykjavíkur í Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Hann notaði það máli sínu til stuðnings að honum þótti orðið fótbolti vera bjöguð danska og fannst knattspyrna vera góð íslenska. Tveimur vikum eftir að tillagan var lögð fyrir var hún samþykkt með 17 atkvæðum gegn 10. Birtist stutt grein um þetta í Morgunblaðinu 25. apríl árið 1915[9].

Búningur KR á sér einnig sögu. Lið Newcastle United þótti afar sterkt um aldamótin 1900. Mönnum þótti því eðlilegt að nota þann búning[10]. KR sendi Íþróttasambands Íslands bréf til staðfestingar á þeim búningi árið 1921. Þar stendur:

„Bolur með jafnbreiðum langröndum, hvítum og svörtum að lit. Brækur svartar, stuttar. Sokkar hnéháir, svartir með tveimur hvítum röndum.“ [5]

Aðrar greinar í KR

breyta

KR tók fljótlega að sér að bjóða uppá æfingar í öðrum íþróttum en knattspyrnu. Upphaf fimleikaæfinga má rekja til fimleikæfingar í leikfimissal Barnaskóla Reykjavíkur 8. nóvember 1923. Á annað hundrað manns mættu á þessar fyrstu æfingar og var ljóst að íþróttin átti eftir að verða gífurlega vinsæl.

Glímuæfingar hjá KR hófust af fullum krafti á árunum 1924-25, þó að KR-ingar hafi stundað glímu frá 1920, en Glímudeild KR starfar enn. Hnefaleikar voru líka stundaðir í KR og er talið að hnefaleikar hafi fyrst verið stundaðir meðal KR-inga í kringum 1920, þó að íþróttin næði ekki vinsældum fyrr en mörgum árum seinna.

Stækkandi félag (1923 - 1958)

breyta

Skipulega var unnið að uppbyggingu félagsins á sviði margra íþrótta, þar á meðal knattspyrnu, fimleikum, sundi og tennis. Keypt var félagsheimili fyrir KR-inga árið 1929 sem hét Báran og var byggt 1910, sem stóð þar sem Ráðhús Reykjavíkur stendur nú. KR-ingar unnu marga titla í knattspyrnu og fimleikum og frjálsum íþróttum. KR- blaðið kom fyrst út árið 1932 og átti blaðið að koma sjónarmiðum KR-inga á framfæri. [5]

Félagssvæði keypt

breyta
 
KR í leik gegn Fram á einu af fyrstu Íslandsmótunum í knattspyrnu

Félagssvæði KR í rúman áratug, frá 1929, var Báran, hús staðsett við Tjörnina þar sem Ráðhús Reykjavíkur stendur nú, sem þótti ekki stórt, og þáverandi formaður KR, Kristján L. Gestsson, hafði bent á það að KR þyrfti grasvöll, þjálfara og nýja félagsaðstöðu. Í seinni heimsstyrjöldinni tóku Bretar KR-húsið herskildi og þegar KR-ingar fengu það aftur kom í ljós að Bretar höfðu farið illa með það og ekki kom annað til greina en að rífa það niður. KR-ingar stóðu þó ekki með tómar hendur því að 1932 hafði verið stofnaður sjóður með það að markmiði að kaupa nýtt félagssvæði og grasvöll fyrir KR. Í mars árið 1939 var ráðist í kaup á svæði í Kaplaskjóli og færðu knattspyrnumenn félaginu það að gjöf á 40 ára afmæli félagsins. Aðstaða var þó ekki fullkomin strax á þessu svæði og þurftu íþróttamenn að æfa í fimleikasölum bæjarins en starf KR hélst þó alltaf jafn fjölbreytt þrátt fyrir þessa húsnæðis erfiðleika. Fyrstu æfingar fóru fram á KR-svæðinu árið 1943, þó svæðið væri ekki nálægt því að vera tilbúið þá. Byrjað var á framkvæmdum við KR-svæðið af fullri alvöru árið 1948 þegar undirbúinn var völlur með hlaupabraut og lögðu knattspyrnumenn og frjálsíþróttamenn á sig mikla sjálfboðavinnu til að klára framkvæmdir fljótt. Hafið var að byggja KR-heimilið, ásamt íþróttahúsi árið 1950 og var byggingu á því lokið 1951 og 18. júlí sama ár var grasvöllur KR í Kaplaskjóli vígður.

Lokað á hnefaleikana

breyta

Hnefaleikar höfðu verið nokkuð vinsælir innan raða KR-inga fyrr á öldum og var fjöldinn allur af drengjum sem að stunduðu þá með KR. Þann 19. desember 1956 samþykkti Alþingi bann á alla iðkun hnefaleika hér á landi. Miklar deilur risu um þetta mál og töldu sumir Alþingi fara yfir verksvið sitt. Hnefaleikadeildir voru stundaðir í flestum íþróttafélögum á þessum tíma og er bannið tók gildi gengu margir ÍR-ingar í KR, þegar hnefaleikadeild ÍR var lögð niður. Óhentug æfingaraðstaða olli því líka að vinsældir íþróttarinnar tóku að halla og dró mjög úr starfsemi hnefaleikadeildar KR 1954. Starfsemi hnefaleikadeildar KR fjaraði hægt út rétt áður en hnefaleikarnir fengu rothögg frá Alþingi, 1956. [5]

Gullöldin (1959-1970)

breyta

KR gekk afar vel á flestum sviðum íþrótta á árunum 1959-1970. Knattspyrnulið KR sigarði deildina 5 sinnum, eftir að almennilegu skipulagi hafði verið komið á í deildinni og bikarkeppnina sigruðu þeir sjö sinnum. KR-ingar stóðu sig vel í frjálsíþróttamótum innanlands og fékk frjálsíþróttadeild KR titilinn „Besta frjálsíþróttafélag Reykjavíkur“ árið 1959. KR sendi lið til keppni á Íslandsmót í flest öllum flokkum í körfuknattleik og settar voru upp löglegar körfur og aðrar nauðsynlegar aðstæður fyrir körfuknattleiksfólk og sigraði karlalið KR í annað skiptið sem Íslandsmót í körfuknattleik var haldið. Badmintondeild KR var stofnuð 23. september 1963, glímumenn KR voru sigursælir og lyftingadeild KR var stofnuð.

Misjafnt gengi (1971 - 1989)

breyta

Það fór að halla undan fæti í knattspyrnudeild KR á árunum 1971-77 en á sama tíma tókst körfuknattleiksfólki í KR vel til undir handleiðslu Einars Bollasonar og handknattleiksmönnum í KR gekk einnig allt í haginn með Alfreð Gíslason í fremstu víglínu meistaraflokks karla í handknattleik. Jón Páll Sigmarsson, íþróttamaður KR fer á kostum í kraftlyftingum og sigrar keppnina um sterkasta mann heims árin 1984, 1986, 1988 og 1990. Nýtt félagsheimili KR var tekið í notkun 1985, tveggja hæða hús, 2579 fermetrar alls.[5]

Kynslóðaskipti í knattspyrnunni

breyta

Það er ekki hægt að komast hjá því að kynslóðaskipti verða í knattspyrnunni, og þau urðu þegar að Ellert B. Schram og Bjarni Felixson lögðu skóna á hilluna. Leikirnir um vorið 1971 voru sveiflukenndir en ekkert gekk þó sérlega óvenjulega fyrir sig. Annað átti eftir að koma í ljós, og sat KR fljótt á botninum, með 2 stig. Nýkjörinn þingmaður Ellert B. Schram var fenginn til að spila með KR, eftir að hafa lagt skóna á hilluna, til þess að bjarga KR frá falli. Ellert lék með KR sex leiki og hlutu KR-ingar 8 af 12 stigum í þeim. Þetta ótrúlega einstaklingsframtak Ellerts er eitt það fræknasta í Íslenskri knattspyrnusögu, hann var valinn knattspyrnumaður ársins af Tímanum, með sex spilaða leiki það ár. [5]

Ekki gat Ellert þó komið KR-ingum endalaust til bjargar og átti liðið í miklu basli við að halda sér uppi næstu árin. Liðið féll árlega úr bikarkeppninni í fyrstu eða annarri umferð og nýja kynslóðin var lengi að taka við. Það kom að því að liðið féll, en það er í fyrsta og eina skiptið sem það hefur gerst og var það árið 1977. KR-ingar telja fallið stórslys sem hefði aldrei átt að gerast. Ef tímabilin fyrir fallið eru skoðuð sést það að liðið hafði verið að leika sér að eldinum og virtist það vera tímaspursmál hvenær liðið félli.

Körfuboltinn

breyta
 
Búningur KR notaður frá 2007 til 2009

Körfuknattleiksdeild KR gekk mjög vel á árunum 1971-89 og sigraði liðið deildina oft, í meistaraflokki karla og kvenna. Erlendir leikmenn færðust í aukana og var það einungis til að styrkja deildina. Einar Bollason kvaddi körfuknattleikinn sem leikmaður með pompi og prakt eftir sigur á Íslandsmeistaramótinu árið 1979.

Endurreisn í knattspyrnunni

breyta

Knattspyrnudeild KR var staðráðin í að endurheimta stað sinn á meðal efstu liða í íslensku deildinni í knattspyrnu. Ráðinn var Hólmbert Friðjónsson sem þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu. Undir hans stjórn lentu KR-ingar í 3. sæti á Íslandsmótinu 1982 og fengu ári síðar Evrópusæti, í fyrsta skipti í 15 ár. Góður árangur skildi eftir sig vonir um bikar en KR-ingar þurftu að bíða aðeins lengur eftir honum.

Skin og skúrir (1990 - 1998)

breyta

Silfuröld knattspyrnuliðsins

breyta
 
Búningur KR notaður frá 2007 til 2009 séður aftan frá

Knattspyrnulið KR hafði verið í tveggja áratuga lægð og ætluðu leikmennirnir að sanna það að liðið ætti heima meðal efstu félaga hér á landi. Liði KR mistókst þrívegis að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á þessu átta ára tímabili. Árið 1990 töpuðu þeir titilbaráttunni á síðasta degi mótsins á markamuninum einum. Þeir unnu þó bikarkeppnina árið 1994, fyrsti bikar knattspyrnudeildar KR í 26 ár. Ógæfan í deildinni hélt áfram og árið 1996 lutu þeir í lægri hlut fyrir Skagamönnum í síðustu umferð en jafntefli hefði tryggt KR Íslandsmeistaratitilinn. Árið 1998 töpuðu þeir á heimavelli fyrir ÍBV í lokaumferð Íslandsmótsins. Sérfræðingar voru farnir að efast um að eitthvað KR lið kæmi í bráð sem að myndi þola þessa pressu. Ekki þurftu þeir þó að bíða lengi.

Karfan aftur á toppinn

breyta

Árangur meistaraflokks karla í körfuknattleik hafði ekki verið uppá marga fiska síðustu árin og hafði liðið jafnvel verið í botnbaráttu. Liðið hafði ekki unnið deildina frá því árið 1979, þegar Einar Bollason spilaði með liðinu. KR lék vel í deildinni og sigraði 23 af 26 leikjum sínum tímabilið 1990. KR-ingar mættu Keflvíkingum í úrslitaleik deildarinnar og var búist við harðri keppni. KR-ingar sigruðu Keflvíkinga 3-0 og höfðu þá endurheimt sæti sitt meðal þeirra bestu í körfuknattleik á Íslandi. Það þurfti þó að bíða næstum því jafn lengi eftir næsta bikar. [5]

Handboltinn í góðum málum

breyta

KR-ingar náðu ekki Íslandsmeistaratitli í handknattleik 1990, þeir lentu í 4. sæti í deildinni en urðu þó Reykjavíkurmeistarar. Það sem að var þó eftirtektarverðast var árangur félagsins í unglingastarfi handboltans. Árið 1990 hlaut KR unglingabikar HSÍ, en um hann segir í reglugerð HSÍ: „Unglingabikar HSÍ skal veittur einu sinni á ári, því félagi sem stendur besta að unglingamálum í handknattleik á ári hverju.“. Það sem að var haft til hliðsjónar við veitingu verðlaunanna voru m.a. keppnisbúningar, framkoma leikmanna, félagsleg starfsemi, keppnis- og æfingarferðir, árangur í keppnum, menntun þjálfara og umsjón með mótshaldi. KR stóð einnig í fyrsta skipti fyrir stórmóti í handknattleik fyrir yngstu aldursflokkana og hlaut handknattleiksdeild KR mikið hrós fyrir þetta framtak.

Árið 1997 var samstarf KR og Gróttu kynnt í handknattleik karla og kvenna og komst sameiginlegt lið Gróttu/KR strax uppum deild í karlaflokki.

Siglt inní nýja öld (1999 - )

breyta

Allt gengur í haginn í knattspyrnunni

breyta
 
Leikmenn KR fagna eftir 2-0 sigur gegn Fjölni, 2008

Gengi knattspyrnuliðsins hafði verið misjafnt síðustu áratugina en síðustu ár höfðu verið full af vonbrigðum. Liðið var hársbreidd frá því að sigra deildina og spáðu menn því að langt yrði í næsta titil vegna meints skorts á sjálfstrausti. Önnur varð raunin því að sumarið 1999 byrjuðu KR-ingar af krafti. Þeir voru á toppi deildarinnar lengstan hluta tímabilsins og sigruðu deildina með 7 stiga mun. KR-ingar voru í sjöunda himni. Þeir höfðu loksins unnið deildina, eftir 31 árs bið. Ekki hefði liðið getað beðið um betri árangur á 100 ára afmæli félagsins því að bæði karla og kvennaflokkur í knattspyrnu unnu tvöfalt þetta ár. [11] Á afmælisárinu var KR-útvarpið einnig stofnað og lifir það enn þann dag í dag.

Ekki gáfu KR-ingar eftir á næsta ári, þegar þeir vörðu Íslandsmeistaratitilinn, eftir harða baráttu við Fylki, sem að mátti þola það sem KR-ingar gengu oft í gegn á árum áður, að tapa Íslandsmeistaratitlinum á síðasta degi. Andri Sigþórsson KR-ingur var markakóngur deildarinnar það ár og hlaut gullskóinn fyrir vikið. KR-ingar sigruðu deildina 2 ár í röð, en það gerðist síðast árin 1948-50, en þeir unnu þá tæknilega séð þrisvar í röð líka. Ekkert gekk upp hjá KR-ingum næsta sumar og lenti liðið í 7. sæti.

Leikmenn liðsins létu þetta ekki á sig fá og komu sterkir til baka sumarið 2002 og sigruðu deildina aftur, eftir að hafa verið í öðru sæti að loknum 17 umferðum, en Fylkir missteig sig í lokaumferðinni gegn ÍA og komst KR upp fyrir þá með sigri á Þór, sem að féll það ár. Fylkismenn þurftu aftur að sætta sig við það að missa af Íslandsmeistaratitlinum í síðustu umferð. Ekki lét knattspyrnudeild Knattspyrnufélags Reykjavíkur þetta nægja og sigraði liðið deildina í 24. skipti árið 2003. Á árunum sem fylgdu stóð meistaraflokkur karla ekki undir væntingum og lenti í 6. sæti 2004 og 2005. Liðið lenti þó í öðru sæti í bikar og deild árið 2006 og var tilefni til að vona það besta fyrir tímabilið 2007. En liðið lenti í 8. sæti eftir að hafa setið lengi vel í neðsta sæti deildarinnar. Tímabilið 2007 var mikil vonbrigði fyrir alla KR-inga. Teitur Þórðarson var rekinn á miðju tímabili og við tók Logi Ólafsson. Honum tókst að bjarga liðinu fyrir horn, en þó ekki fyrr en í lokaumferðinni. Miklar hrókeringar urðu í leikmannahópi KR fyrir tímabilið 2008, en 11 leikmenn fóru frá félaginu, margir hverjir á síðasta spretti ferilsins, og 6 nýir leikmenn fengnir.

Barátta um Evrópusæti

breyta

Á árunum sem fylgdu tóku KR-ingar mikið þátt í toppbaráttunni án þess að takast það að landa þeim stóra. Þeir unnu engu að síður bikarkeppni KSÍ árið 2008 þar sem þeir kepptu á móti Fjölni og unnu sinn fyrsta stóra bikar í 5 ár. Liðið var ávalt nálægt toppnum, en slæm byrjun ár eftir ár gerði titilbaráttuna erfiða og var einungis Evrópusæti oft raunin. Þegar uppi var staðið hafði lið KR fjórum sinnum á fimm árum tekist að komast í keppnina um Evrópubikarinn, 2006 og 2008-2010. Ein merkustu úrslit liðsins úr þeim leikjum var sigur liðsins gegn Gríska úrvalsdeildarliðinu Larissa, en KR vann viðureignina samanlagt með tveimur mörkum.

Árangur í körfuboltanum

breyta
 
KR leikmenn þakka Njarðvíkurmönnum fyrir úrslitaleikinn

Körfuknattleiksdeild KR hefur einnig gengið vel eftir 100 ára afmæli félagsins. Árið 2000 sigraði liðið deildina aftur, en þá höfðu 10 ár liðið frá síðasta Íslandsmeistaratitli liðsins. Liðið tók á móti Grindavík í úrslitarimmu og vann KR titilinn á heimavelli, þar sem Jón Arnór Stefánsson spilaði stórt hlutverk.

Enginn titill vannst aftur fyrr en sjö árum síðar, árið 2007. Liðið lenti í öðru sæti í deildinni, en Njarðvík sigraði deildina með 40 stig, KR fékk 34. Í úrslitakeppninni tóku KR-ingar á móti ÍR. ÍR-ingar komust yfir 1-0 en KR vann tvo næstu leiki og komst í undanúrslit gegn Snæfelli. Þar var dramatíkin ekki minni. Í lokaleik liðanna var Snæfell þremur stigum yfir þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum. KR-ingar knúðu leikinn í framlengingu og sigruðu í henni.

Úrslitarimman var einnig afar spennandi. Njarðvíkingar völtuðu yfir KR-inga í fyrsta leik liðanna sem haldinn var í Ljónagryfjunni í Njarðvík. En KR-ingar komu sterkir til baka og sigruðu þrjá næstu leiki, sem haldnir voru á víxl í DHL-höll KR-inga og Ljónagryfjunni. Í síðasta leik rimmunnar þurfti framlengingu til að knýja fram sigurvegara og voru KR-ingar sterkari[12]. Mikið var talað um áhorfendur KR sem mættu á lokaleikinn. Um það bil 50-60 KR-ingar mættu klukkutíma fyrir leik og tóku að kyrja söngva um leikmenn KR og héldu því áfram allt kvöldið, og héldu jafnvel áfram að syngja fram í rauða nóttina þegar titlinum var fagnað í miðborg Reykjavíkur.

Tímabilið þar á eftir var tímabil vonbrigða hjá KR. Því þó svo að liðið hafi lent í öðru sæti í deildinni, vantaði greinilega eitthvað í liðið og endaði það þannig að KR datt út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn ÍR, 1-2. Fyrir tímabilið hafði Helgi Már Magnússon komið aftur til KR frá Sviss, sem hann hafði verið að spila körfubolta áður. Ljóst var að miklar breytingar þurftu að eiga sér stað, ætti KR að halda áfram á sigurbraut. Sú varð síðar raunin. Rúmum mánuði fyrir tímabilið 2008-2009 var það tilkynnt að Jón Arnór Stefánsson og Jakob Örn Sigurðarson höfðu gengið til liðs við KR frá liðum sínum á Ítalíu og Ungverjalandi. Auk þess hafði nýr Bandaríkjamaður gengið til liðs við KR-inga.

Sigurhefð skapast
breyta

Eftir að hafa fengið þennan mikla liðsstyrk var ljóst að KR-ingar ættu eftir að verða í toppbaráttu allan veturinn. KR-ingar unnu 2 fyrstu bikara vetrarins þegar þeir urðu Poweradebikar- og Reykjavíkurmeistarar. Liðið gekk síðan í gegnum veturinn nær taplaust, en töpuðu þó bikarúrslitaleik gegn Stjörnunni. Eftir þetta áfall var það öllum ljóst að Íslandsmeistaratitillinn myndi ekkert endilega enda í Frostaskjólinu. KR-ingar urðu að lokum Deildarmeistarar, töpuðu einungis einum leik í allri deildinni. Þeir fóru einnig taplausir í gegnum fyrstu tvær umferðir úrslitakeppninnar og í úrslitarimmunni sjálfri mættu þeir Grindvíkingum. KR-ingar unnu fyrsta leikinn, sem var í DHL-höllinni, en töpuðu næstu tveimur, einum úti og öðrum heima. Þeir sýndu þó mikinn dugnað og unnu upp það forskot og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli fyrir framan yfir 2000 áhorfendur, mikið fleiri en voru á leiknum tveimur árum áður þegar þeir urðu Íslandsmeistarar.

 
Pavel Ermolinskij, lykilmaður í liði KR 2010-2011

Árið á eftir voru KR-ingar einnig taldir sigurstranglegastir og snéri Pavel Ermolinskij heim frá Spáni til að leika með Vesturbæingum. Þeir urðu deildarmeistarar eftir harða rimmu og tvísýna baráttu gegn Snæfelli. Þau lið mættust svo í undanúrslitum nokkrum vikum síðar. Rimman var sú undarlegasta og unnust allir leikirnir á útivelli, en það þýddi að KR-ingar þurftu að lúta í lægra haldi því þeir höfðu heimavallarréttinn. Snæfell fór síðan alla leið og vann Íslandsmeistaratitilinn 2010.

KR-ingar voru strax komnir með yfirlýst markmið fyrir næsta tímabil, liðið ætlaði sér að verða Íslands- og Bikarmeistari árið 2011 eitthvað sem þeim hafði ekki tekist frá árinu 1979. Miklu var tjaldað til og voru menn eins og Finnur Atli Magnússon og Marcus Walker kallaðir til verkefnisins, ekki eins og lítið hafi verið til af reyndum leikmönnum fyrir. KR-ingar fóru rólega af stað inn í tímabilið en fyrr en varir skiptu þeir í æ hærri gír. Þeim tókst að leggja Grindvíkinga í úrslitum Bikarkeppni KKÍ, en það var í fyrsta skipti í 20 ár sem bikarinn unni sumarlangt í Vesturbænum. Enn óx leikur liðsins og þegar í úrslitakeppnina var komið voru Njarðvík og Keflavík þeim ekki of mikil fyrirstaða. Í úrslitum léku þeir svo við Stjörnuna þar sem þeir fóru með sigur af hólmi 3-1 samanlagt og hafði þeim í fyrsta skipti í 32 ár tekist að vinna tvöfalt og gátu státað sig af því að hafa unnið titilinn í þriðja skipti á fjórum árum, eða frá 2007.

Íslandsmeistarar á ný

breyta

Á miðju tímabili 2010 fannst stjórnendum knattspyrnudeildar vera nóg komið, en liðið var undir stjórn Loga Ólafssonar 4. tímabilið í röð. Þetta ár tókst liðinu ekki upp sem skildi eftir að hafa lent í 2. sæti árið á undan og hafði meðal annars mislukkast að vinna Hauka í báðum leikjum liðsins og tapað heima gegn Selfossi, en bæði liðin voru nýliðar í deildinni. Þáverandi yfirmaður knattspynumála og náinn samstarfsaðili Loga, Rúnar Kristinsson, var fenginn til að stýra liðinu út tímabilið. Gengi liðsins snérist við eftir þetta og voru þeir í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en lutu í lægra haldi fyrir Breiðablik á lokaspretti mótsins.

Markið var sett hátt næsta tímabil og var það yfirlýstur vilji leikmanna að enda tímabilið með titli[13]. Tímabilið gekk eins og í sögu, liðið náði langt í Evrópukeppni og sló meðal annars út lið sem spilaði gegn Chelsea í meistaradeildinni árið áður, bikarkeppnin vannst með því að sigra 4 úrvalsdeildarlið og Íslandsmeistaratitillinn langþráði kom í hús eftir 7 vetra fjarveru, eftir að liðið hafði trónað á toppnum allt frá 3. umferð og aldrei látið efsta sætið af hendi eftir það[14]. KR varð því fyrsta liðið að vinna tvöfalt síðan einmitt KR gerði það síðast árið 1999.

Deildir innan KR

breyta

Það starfa núna tíu virkar deildir innan Knattspyrnufélags Reykjavíkur, en það eru knattspyrnu-, körfuknattleiks-, handknattleiks-, borðtennis-, badminton-, glímu-, keilu-, skíða-, skák- og sunddeild.

Stuðningsmenn

breyta
 
Meðaltal áhorfenda á leiki KR á KR-velli frá árinu 1991 miðað við meðaltal í deildinni sem heild. Feitletrun táknar meistaraár.

KR á stærsta hóp stuðningsmanna á Íslandi[1], samkvæmt könnun Gallup[2][3][4]. Ef skoðaðar eru aðsóknartölur á KR-leiki sést þetta greinilega. Á árunum 1997 - 2004 einokuðu KR-ingar listann yfir mestu aðsókn á leiki liða. FH-ingar náðu þeim árið 2005. Einnig má geta þess að aðsóknarmestu leikir annarra liða í deildinni eru yfirleitt leikir gegn KR og flestir áhorfendur mættu að meðaltali á útileiki KR árin 2007 - 2009[15]. KR komst þó aftur í efsta sæti yfir áhorfendatölur 2008, þegar 1.931 áhorfandi kom að meðaltali á hvern heimaleik KR, yfir 300 manneskjum fleiri að meðaltali en næsta lið fyrir neðan KR á listanum, og hafa haldið því sæti síðan þá.

Miðjan

breyta

Einn hópur stuðningsmanna KR kallar sig Miðjuna. Nafnið er komið frá því að kjarni stuðningsmanna stóðu beint fyrir miðju á KR-vellinum í kringum árið 1994. Fljótlega tók KR-klúbburinn á það ráð að úthluta meðlimum KR-klúbbsins sæti sem að þeir einir máttu setjast í, en það fyrirkomulag hélst til ársins 2006[16]. Miðjan mætir á alla leiki KR í deildinni í karlaknattspyrnunni og einnig á nokkra leiki í körfuknattleik karla. Miðjan stendur yfirleitt aftast í KR stúkunni og syngur KR-lög allan leikinn, ýmist um leikmenn liðsins eða félagið sjálft. Miðjan hefur fengið athygli út á nýstárlega leið í stuðningi og hafa nokkur önnur lið tekið uppá því sama.

Titlar félags

breyta

Karlaflokkur

breyta

Kvennaflokkur

breyta

Karlaflokkur

breyta
 
Leikmenn KR hampa bikarnum eftir sigur á Njarðvík í Iceland Express-deild karla 2007. Þeir hafa hampað titlinum þrisvar sinnum aftur síðan þá.
 • Íslandsmeistaratitlar 18:
  • 1965, 1966, 1967, 1968, 1974, 1978, 1979, 1990, 2000, 2007, 2009, 2011, 2014, 2015, 2016, 2017,2018,2019
 • Bikarmeistaratitlar: 14
  • 1966, 1967, 1970, 1971, 1972, 1973, 1974, 1977, 1979, 1984, 1991, 2011.2016, 2017.
 • Fyrirtækjabikar 1:
  • 2008

Kvennaflokkur

breyta
 • Íslandsmeistaratitlar 14:
  • 1961, 1977, 1979, 1980, 1981, 1982, 1983, 1985, 1986, 1987, 1999, 2001, 2002, 2010
 • Bikarmeistaratitlar 10:
  • 1976, 1977, 1982, 1983, 1986, 1987, 1999, 2001, 2002, 2009
 • Fyrirtækjabikar 1:
  • 2001

Karlaflokkur

breyta

Kvennaflokkur

breyta

Tilvísanir og heimildir

breyta
 1. 1,0 1,1 „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. desember 2004. Sótt 17. október 2007.
 2. 2,0 2,1 http://wayback.vefsafn.is/wayback/20050616061325/www.bi.is/verdbref/utbod/kr/kr6.htm
 3. 3,0 3,1 http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=603495
 4. 4,0 4,1 http://www.ruv.is/frett/kr-vinsaelasta-lidid
 5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 5,5 5,6 5,7 5,8 Ellert B. Schram (ábyrgðarmaður, margir höfundar). Fyrsta öldin - saga KR í 100 ár. Knattspyrnufélag Reykjavíkur, 1999. ISBN 9979-60-439-5
 6. Morgunblaðið, laugardaginn 16. febrúar 1924, bls. 2: http://www.timarit.is/?issueID=403137&pageSelected=0&lang=0
 7. =http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?issId=78113&pageId=1148474&lang=is&q=K.R.fjörtíu ára.Vísir 10. mars 1939, bls. 5.
 8. http://www.timarit.is/?issueID=403137&pageSelected=0&lang=0
 9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2007. Sótt 12. júní 2007.
 10. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20080725130736/www.kr.is/knattspyrna/upload/files/knattspyrnudeild/kr-hk-ka.pdf
 11. http://www.rsssf.com/tablesi/ijs99.html
 12. http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=1265097
 13. http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=105944
 14. http://en.wikipedia.org/wiki/2011_%C3%9Arvalsdeild#Positions_by_round
 15. http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=67480
 16. http://pdf.sport.is/KR2007_VEF.pdf Geymt 9 október 2007 í Wayback Machine - KR blaðið bls. 24
 • Ellert B. Schram (ábyrgðarmaður, margir höfundar) (1999). Fyrsta öldin - saga KR í 100 ár. Knattspyrnufélag Reykjavíkur. ISBN 9979-60-439-5.

Tenglar

breyta


   Þessi knattspyrnugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.