Körfuknattleiksdeild Fram

Körfuknattleiksdeild Fram var íþróttadeild sem stofnuð var innan í Knattspyrnufélagsins Fram árið 1969. Hún tók í síðasta sinn þátt í Íslandsmóti árið 1987. Árið 2011 snéru Framarar aftur í körfuknattleikinn og leika nú í 2. deild.

Saga breyta

Barnungir stofnendur breyta

Körfuknattleiksdeild Fram starfaði í tæp tuttugu ár og átti sér dramatíska sögu. Upphafið má rekja til ársins 1968, þegar ungur og ástríðufullur körfuboltaáhugamaður, Eiríkur Björgvinsson, hóf að leiðbeina hópi stráka úr Laugalækjarskóla í íþróttinni. Piltarnir, sem flestir voru tólf ára eða þaðan af yngri og, tóku íþróttinni opnum örmum og ákváðu fljótlega að stofna félag, Körfuknattleiksfélagið Kát.

Kátur var í alla staði formlegt félag, með stjórn, lög, fjárhag og eigin búning: hvítar buxur og hvíta skyrtu þar sem nafn félagsins var ritað með stórum, rauðum stöfum á brjóstið. Undir þessum merkjum skráðu drengirnir sig til leiks í Reykjavíkurmóti 4. flokks haustið 1969.

Svo fór að Kátur sigraði alla andstæðinga sína á mótinu: Ármenninga, KR-inga og ÍR-inga. Í mótslok fengu leikmennirnir hins vegar engin verðlaun, þar sem félagið var ekki aðili að Körfuknattleikssambandinu. Ekki var mikill vilji fyrir því hjá íþróttayfirvöldum að viðurkenna strákalið og ákvað hópurinn því að fá inni hjá starfandi íþróttafélagi og varð Fram fyrir valinu.

Körfudeild Fram, en svo nefndist deildin fyrstu árin, var samþykkt inn í félagið á aðalfundi vorið 1970. Að því tilefni færði hópur forráðamanna félagsins deildinni að gjöf bláa keppnisbúninga með Frammerkinu. Ákveðið var að setja aldurshámark á félagsmenn og var í fyrstu enginn tekinn inn sem fæddur var fyrir 1956 (sem síðar var breytt í 1955).

Fjöldi Íslands- og Reykjavíkurmeistaratitla í yngri flokkunum unnust á þessum fyrstu árum. Eftir því sem stofnendurnir eltust fór orkan hins vegar að beinast að rekstri meistaraflokks. Síðustu yngri flokka titlarnir voru í öðrum og þriðja flokki árið 1978.

Skammlíf kvennadeild (1971-1977) breyta

Eiríkur Björgvinsson, guðfaðir deildarinnar, lagði alla tíð ríka áherslu á að halda úti æfingum fyrir bæði kynin. Snemma árs 1971 var stofnuð sérstök kvennadeild innan körfuknattleiksdeildar Fram og var hún einkum skipuð stúlkum úr Laugarneshverfinu.

Framarar tefldu fram meistaraflokki kvenna í fyrsta og eina sinn veturinn 1976-77. Liðið hafnaði í neðsta sæti, en var talið nokkuð efnilegt. Ævintýrið varð þó skammlíft. Engir peningar voru til að borga þjálfaralaun og æfingatímarnir sem liðinu buðust voru bæði fáir og á vondum tímum. Haustið 1977 var kvennadeildin slegin af.

Sígandi lukka í karlaboltanum (1973-1981) breyta

Framarar hófu keppni í þriðju deild Íslandsmótsins haustið 1973. Andstæðingarnir í fyrstu viðureigninni voru Íþróttafélag Kópavogs og voru Framarar aðeins með sjö leikmenn á skýrslu – þá einu sem höfðu aldur til að leika með meistaraflokki. Allir deildarleikirnir unnust á þessu fyrsta keppnistímabili og árið eftir vannst sigur í annarri deild eftir úrslitaleik gegn Skallagrími. Strákaliðið sem stofnað hafði verið á grunnskólalóð fáeinum árum fyrr var komið í efstu deild.

Þrjú ár í röð (1976-78) höfnuðu Framarar í sjöunda og næstsíðasta sæti í fyrstu deild. Í síðasta skiptið dugði það ekki til, þar sem ákveðið var að stofna sex liða úrvalsdeild veturinn 1978-79. Það keppnistímabil var ráðist í djarfa tilraun í íslenskum körfubolta, þegar liðum var heimilað að fá til sín erlendan leikmann.

Erlendu leikmennirnir (sem flestir voru bandarískir) urðu mjög til að auka áhuga áhorfenda á körfuknattleiknum og lið sem ætluðu sér að ná árangri gátu ekki komist hjá því að fá sér útlending. Kostnaðurinn við þessa leikmenn gat á hinn bóginn reynst liðunum þungbær, auk þess sem þeir voru ærið misjafnir að gæðum. Þar talað um útlendingahappdrætti í því samhengi.

Framarar voru í hópi þeirra liða í næstefstu deild 1978-79 sem tefldu fram útlendum leikmanni. Bandaríkjamaðurinn John Johnson var í senn þjálfari og atkvæðamesti leikmaður liðsins, sem vann fyrstu deildina vandræðalítið. Árið eftir féll Framliðið beint aftur niður úr úrvalsdeild, en þann vetur bar það helst til tíðinda að Johnson skoraði 71 stig í leik gegn Íþróttafélagi Stúdenta og er það met í Úrvalsdeild karla.

Veturinn 1980-81 léku Framarar á ný í fyrstu deild, en sem fyrr reyndist dvölin þar stutt. Bandaríkjamaðurinn Val Bracey var fenginn til liðsins og reyndist í hópi öflugari útlendinga sem leikið hafa á Íslandi.

Eini stóri titillinn (1981-1982) breyta

Val Bracey var í stóru hlutverki hjá nýliðum Framara veturinn 1981-82, sem átti eftir að reynast sá besti í sögu körfuknattleiksdeildarinnar. Í herbúðum liðsins voru fjórir leikmenn sem keppt höfðu A-landsleik fyrir Íslands hönd: Símon Ólafsson, Þorvaldur Geirsson, Guðsteinn Ingimarsson og Viðar Þorkelsson.

Framarar urðu Reykjavíkurmeistarar um haustið og háðu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn við Njarðvíkinga. Silfurverðlaunin komu í hlut Safamýrarliðsins, en betur gekk í bikarkeppninni, þar sem sigur vannst á KR-ingum í úrslitaleik, 68:66.

Peningabasl og dauði (1982-1987) breyta

Ekki tókst að byggja á árangri þessa góða keppnistímabils. Árið eftir höfnuðu Framarar í neðsta sæti úrvalsdeildar og 1983-84 og 1984-85 mistókst liðinu naumlega að komast aftur í hóp hinna bestu. Í þriðju tilraun gekk betur. Framarar sigruðu með fáheyrðum yfirburðum, þar sem hin liðin fimm í fyrstu deild enduðu öll með neikvætt stigahlutfall, en Fram hafði 454 stig í plús.

Þessi góði árangur varð þó aðeins til að vekja falskar væntingar. Fram tapaði hverjum einasta deildarleik veturinn 1986-87. Fjárhagurinn var afar slæmur og nær vonlaust að fá nýja menn til starfa við deildina. Þegar samþykkt um vorið var að fjölga í úrvalsdeildinni, var Frömurum boðið að halda sæti sínu en það var afþakkað. Er hér var komið sögu, hafði allt yngri flokka starf deildarinnar lognast út af vegna skorts á fé, sjálfboðaliðum og aðstöðuleysis, en fjórar boltaíþróttadeildir Fram slógust um æfingatíma í íþróttahúsi Álftamýrarskóla.

Körfuknattleiksdeildin hætti keppni þetta sama vor og þótt nokkrum sinnum hafi verið rætt um að endurvekja hana, hefur slíkt ekki enn komið til framkvæmda. Veturinn 2010-11 mun Fram þó senda inn lið til keppni í 2. deild karla undir merkjum almenningsíþróttadeildar.

Titlar breyta

  • Reykjavíkurmeistaratitlar 1 :
    • 1981
  • Bikarmeistaratitlar 1 :
    • 1982