Tónabær er félagsmiðstöð rekin af ÍTR í Safamýri í Reykjavík en var áður í Skaftahlíð 24. Félagsmiðstöðin tók til starfa 8. febrúar 1969. Músíktilraunir voru haldnar í Tónabæ frá upphafi árið 1982, en hafa frá 2003 verið í samstarfi við Hitt húsið.

Tónabær var lengst af í austurenda hússins að Skaftahlíð 24 þar sem áður var veitinga- og skemmtistaðurinn Lídó (sem húsið allt var oft nefnt eftir). Árið 2000 ákvað Reykjavíkurborg að selja sinn hlut í húsinu til Þyrpingar og Tónabær flutti þá í húsnæði á Fram-svæðinu í Safamýri. Þyrping réðist í miklar endurbætur á húsnæðinu við Skaftahlíð en gekk illa í fyrstu að fá leigjendur að því. Þar voru meðal annars kosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins og Lína.net um tíma. 2003 tók Fréttablaðið húsnæðið á leigu og síðar hófu 365 miðlar þar starfsemi. Í dag er Landspítalinn með skrifstofur sínar í húsnæðinu.