Haraldur Steinþórsson

Haraldur Steinþórsson (1. desember 192516. ágúst 2005) var varaformaður og framkvæmdastjóri BSRB og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. [1]

Ævi og störf breyta

Haraldur fæddist á Akureyri, sonur Steinþórs Guðmundssonar skólastjóra og bæjarfulltrúa í Reykjavík og Ingibjargar Benediktsdóttur skáldkonu og kennara.

Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1944 og var þá þegar orðinn virkur þátttakandi í starfi Sósíalistaflokksins. Var hann forseti Æskulýðsfylkingarinnar í tvö ár.

Árið 1948 fluttist Haraldur til Ísafjarðar og gerðist kennari við gagnfræðaskólann þar. Flutningarnir voru að frumkvæði félaga hans í Sósíalistaflokknum, þar sem flokkinn vantaði bæjarfulltrúaefni fyrir vestan. Hann var bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður Sósíalistaflokksins á Ísafirði 1950 til 1954, en náði ekki endurkjöri. Á Ísafirði kvæntist hann Þóru Sigríði Þórðardóttur og eignuðust þau fjögur börn.

Eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur hélt Haraldur áfram kennslu, fyrst í Gagnfræðaskólanum við Vonarstræti og síðar Hagaskóla. Hann lét til sín taka innan samtaka kennara og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar sem hann var bæði varaformaður og framkvæmdastjóri um árabil.

Undir lok starfsævi sinnar starfaði Haraldur mjög að málefnum hjartasjúklinga og vann m.a. að stofnun HL-stöðvarinnar, endurhæfingar fyrir hjarta- og lungnasjúklinga.

Íþróttamál breyta

Haraldur ólst upp á svæðinu umhverfis Ljósvallagötu og Ásvallagötu, sem þá var mikil Fram-nýlenda. Hann lék knattspyrnu með Fram upp í þriðja flokk.

Á Ísafirði gerðist Haraldur formaður Knattspyrnufélagsins Vestra, en íþróttalífið á Ísafirði stóð þá í miklum blóma.

Við komuna til Reykjavíkur var hann fenginn til að taka við embætti formanns Fram, sem hann gegndi frá 1955 til 1960. Árið 1958 fagnaði Fram fimmtíu ára afmæli sínu. Á hátíðarsamkomu að þessu tilefni tilkynnti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri Reykjavíkur að félagið hefði fengið lóð í Kringlumýri fyrir framtíðarfélagssvæði sitt.

Haraldur var útnendur heiðursfélagi í Fram á áttatíu ára afmæli félagsins 1988.

Heimildir breyta

  1. „Morgunblaðið 26. ágúst 2005, bls. 40“.


Fyrirrennari:
Jörundur Þorsteinsson
Formaður Knattspyrnufélagsins Fram
(19551960)
Eftirmaður:
Jón Magnússon