Safamýri er gata í Háaleitis- og Bústaðahverfi í Reykjavík sem tengist Háaleitisbraut í báða enda, við gatnamót Ármúla í norðri en Fellsmúla í suðaustri. Útfrá Safamýri ganga sömuleiðis göturnar Starmýri og Álftamýri.

Ákvörðun um götuheitið var tekin á fundi byggingarnefndar Reykjavíkurbæjar snemma árs 1958.[1] Farið var að úthluta lóðum við Safamýri á árinu 1960 og byggðist hún hratt upp á næstu árum.

Safamýrarskóli starfaði við Safamýri 5 og dró nafn sitt af götunni. Hann var sérskóli á grunnskólastigi sem þjónaði öllu landinu.[2]

Knattspyrnufélagið Fram hefur höfuðstöðvar sínar í Safamýri 26. Þar er íþróttahús, félagsaðstaða, upphitaður gervigrasvöllur og grasæfingasvæði.

Tónabær, félagsmiðstöð ÍTR er starfrækt í Safamýri 28, í húsnæði sem upphaflega var reist sem félagsheimili Knattspyrnufélagsins Fram.

Rithöfundurinn og ljóðskáldið Gerður Kristný ólst upp í Safamýri.

Tilvísanir

breyta
  1. „Alþýðublaðið 20. mars 1958“.
  2. „Safamýrarskóli og Öskjuhlíðaskóli sameinast“. www.mbl.is. Sótt 23. maí 2020.