Danmörk
Danmörk (danska: Danmark; ⓘ) er land í Norður-Evrópu sem ásamt Grænlandi og Færeyjum myndar Konungsríkið Danmörk. Danmörk er langfjölmennasti hluti konungsríkisins sem er einingarríki, en Grænland og Færeyjar hafa heimastjórn. Algengt er að undanskilja þau lönd þegar rætt er um Danmörku (til dæmis stærð og íbúafjölda). Danmörk er syðst Norðurlandanna og er suðvestan við Svíþjóð, sunnan við Noreg og norðan við Þýskaland þar sem einu landamæri Danmerkur eru.
Konungsríkið Danmörk | |
Kongeriget Danmark | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Forbundne, forpligtet, for Kongeriget Danmark (kjörorð konungsins) | |
Þjóðsöngur: Der er et yndigt land | |
Höfuðborg | Kaupmannahöfn |
Opinbert tungumál | Danska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn
|
Konungur | Friðrik 10. |
Forsætisráðherra | Mette Frederiksen |
Stofnun | forsöguleg |
• Sameining | 10. öld |
• Stjórnarskrá | 5. júní 1849 |
• Konungsríkið Danmörk | 24. mars 1948 |
Evrópusambandsaðild | 1. janúar 1973 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
134. sæti 42.915,7 km² 1,6 |
Mannfjöldi • Samtals (2023) • Þéttleiki byggðar |
114. sæti 5.935.619 131/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2022 |
• Samtals | 416,568 millj. dala (53. sæti) |
• Á mann | 70.924 dalir (11. sæti) |
VÞL (2021) | 0.948 (6. sæti) |
Gjaldmiðill | Dönsk króna (kr) (DKK) |
Tímabelti | UTC+1 (+2 á sumrin) |
Ekið er | hægri megin |
Þjóðarlén | .dk |
Landsnúmer | +45 |
Árið 2013 náði Danmörk, að Grænlandi og Færeyjum meðtöldum, yfir 1419 eyjar sem eru stærri en 100 m². 443 af þeim hafa nöfn og 78 eru byggðar.[1] Danmörk sjálf samanstendur af Jótlandsskaga, sem gengur til norðurs út úr meginlandi Evrópu, og 406 eyjum. Stærsta eyjan er Sjáland þar sem höfuðborgin, Kaupmannahöfn, er. Á eftir koma Fjón, Vendsyssel-Thy og Amager. Landslag í Danmörku einkennist af tiltölulega flötu ræktarlandi, sandströndum og tempruðu loftslagi. Landið liggur að sjó að vestan, norðan og austan. Vestan megin eru Norðursjór og Vaðhafið, norðan megin er Skagerrak, en austan megin eru Kattegat, Eyrarsund og Eystrasalt. Sunnan megin á Danmörk 68 km löng landamæri að Þýskalandi við suðurenda Jótlands. Íbúar Danmerkur eru tæplega 6 milljónir, og af þeim búa 800.000 í höfuðborginni, Kaupmannahöfn (um 2 milljónir á höfuðborgarsvæðinu). Aðrar stórar borgir í Danmörku eru Óðinsvé á Fjóni, Árósar, Álaborg, Esbjerg, Randers, Kolding, Horsens og Vejle á Jótlandi.
Danmörk var áður mun víðáttumeira ríki en það er í dag. Konungsríkið er talið stofnað á 8. öld og varð brátt öflugt sjóveldi sem tókst á um yfirráð yfir Eystrasalti við nágrannaríki. Árið 1397 mynduðu konungsríkin Noregur, Danmörk og Svíþjóð Kalmarsambandið sem stóð þar til Svíþjóð klauf sig úr því árið 1523. Eftir það var talað um Dansk-norska ríkið eða Danaveldi, sem náði líka yfir Ísland, Noreg, Dönsku Vestur-Indíur og Dönsku Austur-Indíur. Danaveldi átti miklar lendur austan Eyrarsunds (Skán, Halland og Blekinge) og bæði héruðin Slésvík og Holtsetaland, auk þess sem landamærin náðu suður fyrir Hamborg þegar veldið var sem mest. Eftir röð ósigra á 17. öld gengu löndin austan Eyrarsunds til Svíþjóðar. Á nítjándu öld gekk Noregur úr konungssambandi við Danmörku og var þá um tíma undir sænska konunginum, og við uppgang Þýskalands á 19. öld missti Danmörk Holtsetaland og hluta Slésvíkur. Árið 1849 var einveldið lagt niður og þingbundin konungsstjórn tók við. Útflutningur á landbúnaðarafurðum efldist á síðari hluta 19. aldar. Árið 1933 lagði Kanslergade-samþykktin grunninn að því að gera Danmörk að velferðarríki með blandað hagkerfi. Danmörk var hlutlaus í fyrri heimsstyrjöld en Þjóðverjar hernámu landið í síðari heimsstyrjöld. Árið 1944 sagði Ísland sig úr konungssambandi við Danmörku sem hafði verið í gildi frá 1918. Árið 1973 varð Danmörk hluti af því sem í dag er Evrópusambandið. Færeyjar kusu hins vegar að standa utan þess og Grænland kaus að segja sig úr sambandinu árið 1982. Danmörk er með tvær undanþágur frá Evrópulögum, meðal annars hvað varðar gjaldmiðilinn, dönsku krónuna.
Danmörk er þróað ríki þar sem lífskjör eru með því besta sem gerist í heiminum. Landið er stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu, Norðurlandaráði, Efnahags- og framfarastofnuninni, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Sameinuðu þjóðunum. Danmörk er hluti af Schengen-svæðinu. Danmörk á í nánu samstarfi við hin Norðurlöndin.
Heiti
breytaMikið er deilt um orðsifjar „Danmerkur“, sambandið milli Dana og Danmerkur og sameiningu Danmerkur í eina þjóð. Deilurnar snúast um forskeytið „Dan“ og hvort það eigi við ættflokkinn Danir eða konunginn Dan, og merkingu viðskeytisins „-mörk“. Oftast er forskeytið talið eiga rætur að rekja til orðs sem þýðir „flatt land“, tengt þýska orðinu Tenne „þreskigólf“, enska den „ hellir“ og sanskrít dhánuṣ- (धनुस्; „ eyðimörk“). Viðskeytið „-mörk“ er talið eiga við skóga í Suður-Slésvík, kannski svipað nöfnunum Finnmörk, Heiðmörk, Þelamörk og Þéttmerski. Í fornnorrænu var nafnið stafað Danmǫrk.
Fyrsta þekkta notkun orðins „Danmörk“ í Danmörku sjálfri er á Jalangurssteininum, sem eru rúnasteinar taldir hafa verið settir upp af Gormi gamla (um árið 955) og Haraldi blátönn (um árið 965). Orðið „Danmörk“ er notað á báðum steinunum, í þolfalli „tanmaurk“ ([danmɒrk]) á stóra steininum og í eignarfalli „tanmarkar“ ([danmarkaɽ]) á litla steininum. Íbúar Danmerkur eru kallaðir „tani“ ([danɪ]) eða „Danir“ á steinunum. Vegna þessa eru steinarnir stundum kallaðir „skírnarvottorð Danmerkur“.[2]
Saga
breytaFornsaga
breytaÍ Danmörku hafa fundist steinar sem menn hafa getið sér til um að menn hafi mótað, frá Eem-hlýskeiðinu fyrir allt að 120.000 árum síðan, en það er mjög umdeilt.[3] Elstu fornleifar sem öruggt er að tilheyri mannabyggð eru um 15.000 ára gamlar. Með mannerfðarannsóknum hafa vísindamenn getið sér til um þrjár „bylgjur“ fólksflutninga til Danmerkur: Fyrir 10-8.000 árum, á fornsteinöld, komu veiðimenn sem voru smávaxnir, dökkir á hörund og með blá eða grá augu; Fyrir 6.000 árum kom svo fólk sem hóf landbúnað við upphaf nýsteinaldar; Síðustu stóru fólksflutningarnir voru hirðingjar sem komu fyrir um 5.000 árum (Jamna-menningin) frá Austur-Evrópu með það indóevrópska mál sem danska þróaðist frá.[4]
Bronsöldin í Danmörku hófst um 1700 f.Kr. Frá þeim tíma er Sólvagninn sem fannst í Trundholm-mýri. Um 500 f.Kr. hófst járnöld með verslun við Kelta, Rómverja og síðast Germana. Gundestrup-ketillinn ber vitni um menningaráhrif frá Keltum í Danmörku. Frá þeim tíma eru líka Gullhornin. Sagnaritarinn Jordanes nefnir ættbálkinn Dani í Gotasögu sinni, sem er talið vísa til elstu Dana. Jótar frá Jótlandi ferðuðust til Bretlandseyja þegar Engilsaxar lögðu England undir sig undir forystu Vortigerns á 5. öld. Stór mannvirki, eins og Kanalhave-skurðurinn og Danavirki vitna um sterkt konungsvald í Danmörku frá þessum tíma. Styrking og stækkun virkisins árið 737 hefur verið tengd við stofnun konungsríkis í Danmörku. Gormur gamli sem er nefndur á Jalangurssteinunum frá 10. öld er venjulega talinn fyrsti sögulegi konungur Danmerkur og rakning Danakonunga hefst með honum. Á þeim tíma hófst sögulegur tími í Danmörku með víkingaöld.
Víkingaöld og miðaldir
breytaFrá 8. öld til 11. aldar voru Danir meðal þeirra norrænu þjóða sem voru þekktar sem víkingar, og versluðu og herjuðu um alla Evrópu. Í mörgum heimildum eru allir víkingar nefndir „Danir“, þótt gera megi ráð fyrir að þeir hafi líka komið frá núverandi Noregi og Svíþjóð, og jafnvel Norðaustur-Þýskalandi. Víkingar stofnuðu Danalög á Englandi og stofnuðu smákóngadæmi eða lénsveldi á Írlandi, Skotlandi og Frakklandi (Normandí). Undirstaða þessarar velgengni voru flotar hraðskreiðra og sjófærra víkingaskipa sem gerðu þeim kleyft að sigla alla leið til Grænlands og Norður-Ameríku.
Allt frá 8. öld tala frankverskar heimildir um konunga í Danmörku, þótt óljóst sé hverjir þeir voru eða yfir hvaða löndum þeir ríktu. Um 965 innleiddi Haraldur blátönn kristni í Danmörku. Hugsanlega gerði hann það til að forða innrás frá Heilaga rómverska ríkinu sem efldist á sama tíma. Hann reisti Jalangurssteinana tvo yfir foreldra sína, Gorm gamla og Þyri Danabót. Hann lét líka reisa minnst fimm hringborgir víðs vegar um Danmörku.[5] Danakonungar lögðu allt England undir sig tvisvar, 1013 og 1016, en eftir lát Knúts mikla leystist Norðursjávarveldi þeirra upp.[6][7] Þegar Sveinn Ástríðarson varð konungur árið 1047 lauk víkingaöld í Danmörku.
Á þessum tíma náði Danmörk yfir Jótland og eyjarnar, auk Hallands, Blekinge og Skánar, austan Eyrarsunds. Auk þess voru Danakonungar jafnframt hertogar af Slésvík og Holtsetalandi. Danmörk var því mun stærri en hún er í dag. Danir ríktu líka yfir Eistlandi um tíma og lögðu oft undir sig Víkina í Noregi. Á hámiðöldum áttu Danakonungar iðulega í átökum við Hansasambandið og keisara Heilaga rómverska ríkisins. Árið 1397 gekk Danmörk í konungssamband við Noreg og Svíþjóð undir stjórn Margrétar miklu. Kalmarsambandið stóð til ársins 1523 þegar Svíar sögðu sig frá því og kusu sér eigin konung. Siðaskiptin voru innleidd í Danmörku 1536 eftir sigur Kristjáns 3. í Greifastríðinu.
Endurreisn og einveldi
breytaEftir siðaskiptin gengu eigur kirkjunnar í öllu Danaveldi (þar á meðal á Íslandi, Færeyjum og Noregi) til konungs. Konungsvaldið efldist í kjölfarið og varð sjálfstæðara gagnvart landeigendaaðlinum. Auk þess gaf Eyrarsundstollurinn konungi sjálfstæðar tekjur sem hann gat nýtt til hallarbygginga og stríðsreksturs. Þegar þrjátíu ára stríðið braust út í Evrópu 1618 ákvað Kristján 4. að veita mótmælendum í Þýskalandi lið. Það fór illa og konungur samdi frið við keisarann. Í stað Dana urðu Svíar áhrifamiklir í stríðinu og í nokkur skipti herjuðu þeir á Danmörku. Afleiðingin var að Danir misstu lönd sín austan Eystrasalts til Svía.
Þrátt fyrir þessa ósigra er litið á valdatíð Kristjáns 4. sem stórveldistíma. Hann reisti hallir í endurreisnarstíl á borð við Rósenborgarhöll, Friðriksborgarhöll og Krónborgarhöll, stofnaði danskar nýlendur á Indlandi (Tranquebar) og þar sem nú er Gana (Kristjánsborgarvirki). Danir tóku virkan þátt í Atlantshafsversluninni með þræla frá Afríku til Nýja heimsins og í tíð Friðriks 3. stofnuðu Danir nýlendu í Vestur-Indíum (Dönsku Vestur-Indíur). Ósigrarnir gegn Svíum leiddu til átaka milli borgarastéttarinnar og aðalsins sem Friðrik nýtti til að koma á einveldi árið 1660. Með einveldinu varð til nútímalegt ríkisvald með ráðuneytum og ráðherrum skipuðum úr borgarastétt.
Við dönsku hirðina varð til embættisaðall, undir menningarlegum áhrifum frá Frakklandi og Þýskalandi. Mikill bruni varð í Kaupmannahöfn árið 1728. Vistarband var innleitt 1730 til að hjálpa aðlinum að halda í bændur og bændasyni. Það var afnumið 1788 til 1800. Á síðari hluta 18. aldar blómstraði landbúnaður í Danmörku með verslun við bæði Frakkland og Bretland sem áttu oft í stríði. Í Napóleonsstyrjöldunum 1807 gerðu Bretar stórskotaliðsárás á Kaupmannahöfn sem olli mikilli eyðileggingu. Í friðarsamningunum í kjölfarið misstu Danir yfirráð yfir Noregi, sem gekk í konungssamband við Svíþjóð. Færeyjar, Ísland og Grænland heyrðu þó áfram undir Danaveldi.
Gullöldin og endalok einveldis
breytaEftir þessi áföll hófst blómaskeið í listum og vísindum sem er kallað danska gullöldin.[8] Arkitektinn C.F. Hansen tókst á við endurreisn Kaupmannahafnar með byggingum í klassískum stíl, í anda lærimeistara síns, C.F. Harsdorff. Listmálararnir Christen Købke, Constantin Hansen og Wilhelm Marstrand fengust við stór málverk byggð á sögulegum og goðsögulegum viðfangsefnum. Myndhöggvarinn Bertel Thorvaldsen hélt sig lengst af í Róm, en hafði mikil áhrif á danska myndlistarmenn sem fóru þangað í námsferðir, eins og C.W. Eckersberg. Tónskáldin C.E.F. Weyse og J.P.E. Hartmann sömdu sálmalög og ættjarðarlög. Á þessum tíma voru uppi eðlisfræðingurinn H.C. Ørsted, heimspekingurinn Søren Kierkegaard og kirkjuumbótamaðurinn N.F.S. Grundtvig. J.M. Thiele safnaði dönskum þjóðsögum í anda Grimmbræðra og H.C. Andersen samdi ævintýri byggð á þeim.
Í kjölfar styrjaldanna var Þýska ríkjasambandið stofnað. Danakonungar voru lénsherrar í þýskumælandi ríkjunum Slésvík, Holtsetalandi og Lauenburg. Þegar kom að samningu stjórnarskrár fyrir Danmörku, líkt og gerð var krafa um í flestum ríkjum Evrópu, var spurning um stöðu þessara svæða. Frjálslyndir vildu halda Slésvík, en aðskilja Holtsetaland, sem yrði hluti af þýska sambandinu (Egðustefnan).[9] Í kjölfarið gerðu íbúar Slésvíkur og Holtsetalands uppreisn og Fyrra Slésvíkurstríðið braust út. Danir unnu sigur, þrátt fyrir að Prússland sendi uppreisnarmönnum liðsauka, og niðurstaðan varð óbreytt landamæri, með Slésvík og Holtsetaland sem hertogadæmi innan Danmerkur. Einveldið var formlega afnumið með fyrstu stjórnarskrá Danmerkur 1849, en staða hertogadæmanna og hjálendanna í Atlantshafi var óviss. Þegar stjórnvöld hugðust gera Ísland að amti innan Danmerkur 1851 mótmæltu fulltrúar Íslendinga á Alþingi.[10]
Iðnvæðing og missir greifadæmanna
breytaEftir miðja 19. öld iðnvæddist Danmörk hratt. Undirstaða iðnvæðingar voru meðal annars járnbrautarkerfið sem komið var á og útflutningur landbúnaðarafurða til Bretlands, auk breytinga á búsetulögum sem juku frjálsræði. Þessu fylgdi hröð þéttbýlisvæðing þar sem eldri kaupstaðir uxu og nýir bæir urðu til í kringum járnbrautarstöðvar (járnbrautarbæir). Í bæjunum þróuðust iðnfyrirtæki eins og málmsteypur, tígulsteinsverksmiðjur, vélsmiðjur, sögunarmyllur, bakarí og brugghús. Tekið var að rífa gömlu borgarmúrana í Kaupmannahöfn eftir 1850 þannig að borgin gat vaxið að umfangi. Íbúafjöldi borgarinnar fimmfaldaðist á milli 1850 og 1900, fór úr um 100.000 íbúum í um 500.000.
Með nýju stjórnarskránni varð danska þingið til með tveimur deildum: fulltrúadeild (Folketinget) og öldungadeild (Landstinget). Í byrjun fór embættismannastéttin í Kaupmannahöfn, sem var höll undir frjálslynda þjóðernisstefnu, með völdin í öldungadeildinni, en átti í átökum við íhaldssama stórjarðeigendur sem oft nutu stuðnings konungsins. Konungur fór með mikil völd samkvæmt stjórnarskránni og ríkisstjórnin bar ábyrgð gagnvart honum, fremur en þinginu. Ríkisstjórn frjálslyndra reyndi að leysa Slésvíkurmálið með því að koma á sambandsþingi með Nóvemberstjórnarskránni. Þegar Kristján 9. tók við völdum eftir óvænt andlát frænda hans, Friðriks 7., var hans fyrsta verk að undirrita nýju stjórnarskrána. Það gaf Otto von Bismarck átyllu til að ráðast inn í Slésvík-Holtsetaland. Seinna Slésvíkurstríðið fór þannig að Danir biðu algjöran ósigur og bæði greifadæmin voru innlimuð í þýska ríkjasambandið.
Eftir ósigurinn var gerð breyting á stjórnarskránni þannig að íhaldsmenn (hægrimenn) náðu yfirhöndinni í efri deild þingsins. Þegar ýmsir vinstriflokkar (aðallega bændaflokkurinn Bondevennerne) sameinuðust um stofnun Venstre 1872 og náðu meirihluta í fulltrúadeildinni, ákvað íhaldsstjórn J.B.S. Estrup að stjórna með tilskipunum og bráðabirgðafjárlögum án stuðnings þingsins, en með stuðningi konungs. Tilskipanastjórnin stóð í nær 20 ár. Eftir að hægrimenn biðu afhroð í þingkosningum 1901 neyddist Kristján 9. til að samþykkja stjórn Venstre og Kerfisbreytinguna þar sem ríkisstjórnin varð í reynd að hafa meirihluta þings á bak við sig.[11]
Heimskreppa og heimsstyrjaldir
breytaEftir kerfisbreytinguna tók við þingræði í Danmörku. Árið 1906 missti Venstre meirihluta sinn og eftir það hefur enginn flokkur náð hreinum meirihluta á danska þinginu. Danmörk var hlutlaus í fyrri heimsstyrjöld. Árið 1915 var stjórnarskránni breytt þannig að almennur kosningaréttur náði í fyrsta sinn til kvenna og vinnuhjúa. Eftir ósigur Þjóðverja í styrjöldinni var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Slésvík og Holtsetalandi um sameiningu við Danmörku. Aðeins var meirihluti fyrir því í Norður-Slésvík. Mið- og Suður-Slésvík með Flensborg kusu að vera áfram hluti Þýskalands. Í heimskreppunni 1929 varð efnahagslíf Danmerkur fyrir áfalli og atvinnuleysi jókst. Sósíaldemókratar og Radikale Venstre komust til valda undir forsæti Thorvald Stauning 1929. Með Kanslergade-samþykktinni 1933 gerði stjórnin samkomulag við Venstre um röð félagslegra umbóta sem lögðu grunn að norrænu velferðarkerfi.
Þrátt fyrir samkomulag við Þriðja ríkið í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar gerðu Þjóðverjar innrás í Danmörku 9. apríl 1940. Danska þingið og ríkisstjórnin fengu þó áfram að stjórna landinu að mestu án afskipta. Þannig tókst að bjarga nær öllum dönskum gyðingum til Svíþjóðar haustið 1943. Þá tók hernámsstjórn Þjóðverja við völdum, en dönsk andspyrnuhreyfing barðist gegn henni. Kristján 10. varð mikilvægt tákn andstöðu Dana við hernámið þegar hann reið daglega á hesti um götur Kaupmannahafnar. Árið 1944 sagði Ísland upp konungssambandi við Danmörku og gerðist lýðveldi. Danmörk var frelsuð þegar Þjóðverjar undirrituðu uppgjöf fyrir bresku herliði undir stjórn Bernard Montgomery 5. maí 1945.
Eftirstríðsárin
breytaEftir stríðið var ákveðið að leggja af hlutleysisstefnu Danmerkur og taka þátt í stofnun Atlantshafsbandalagsins. Danmörk fékk Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum í kjölfarið. Staða Grænlands og Færeyja var óviss eftir stríð. Færeyingar höfðu samþykkt sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu 1946 með naumum meirihluta, en þegar Lögþingið lýsti yfir sjálfstæði leysti Kristján 10. þingið upp og boðaði kosningar þar sem flokkar andsnúnir sjálfstæði fengu meirihluta. Í kjölfarið fengu Færeyjar heimastjórn. Grænland, sem hafði sagt sig úr lögum við Danmörku í stríðinu til að forðast hernám Bandaríkjamanna, var gert að dönsku amti með stjórnarskrárbreytingu árið 1953. Við sama tækifæri var danska þingið sameinað í eina deild og kveðið á um formlegt þingræði. Grænland fékk heimastjórn, líkt og Færeyjar, árið 1979.
Á eftirstríðsárunum var nokkur uppgangur í dönsku efnahagslífi, sem fór saman við uppbyggingu velferðarkerfis. Jafnréttisbarátta setti svip sinn á 8. áratuginn og konur fóru í stórum stíl út á vinnumarkaðinn. Danmörk var stofnaðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu árið 1960. Árið 1973 gekk Danmörk í Evrópubandalagið. Færeyjar kusu hins vegar að standa utan þess. Það sama gerði Grænland árið 1985. Á 8. áratugnum hófst efnahagskreppa í kjölfar olíukreppunnar 1973. Danmörk var árum saman með neikvæðan viðskiptajöfnuð og atvinnuleysi var landlægt. Hinar ýmsu stjórnir íhaldsmannsins Poul Schlüter á 9. áratugnum beittu ströngu aðhaldi í efnahagsmálum sem var kallað „kartöflukúrinn“ og áratugurinn var nefndur „fattig-firserne“.[12]
Afleiðingin varð að á 10. áratugnum nutu Danir þess að vera með jákvæðan viðskiptajöfnuð og atvinnuleysið hvarf nánast alveg. Danskir kjósendur höfnuðu Maastricht-sáttmálanum 1992, en samþykktu hann með fjórum undanþágum árið eftir. Danir hafa ekki tekið upp evruna. Hrun Sovétríkjanna og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna gerði að verkum að Danir tóku að sér virkara hlutverk í utanríkismálum.[13] Danir voru meðal viljugra þjóða sem tóku þátt í innrás NATO í Afganistan 2001 og Íraksstríðinu 2003.[14] Hægristjórn Anders Fogh Rasmussen innleiddi „skattastopp“ sem kjarna í efnahagsstefnu þar sem bannað var að hækka skatta eða gjöld.[15] Lars Løkke Rasmussen tók við sem forsætisráðherra þegar alþjóðlega fjármálakreppan stóð sem hæst og atvinnuleysi fór vaxandi í Danmörku. Sósíaldemókratinn Helle Thorning-Schmidt leiddi vinstristjórn eftir kosningar 2011. Árið 2015 tók Rasmussen aftur við með hægristjórn, en 2019 komust sósíaldemókratar aftur til valda undir forystu Mette Frederiksen.
Landfræði
breytaFlatarmál Danmerkur (fyrir utan Grænland og Færeyjar) er 42.952 km2. Talan er breytileg vegna sjávarrofs og manngerðra landfyllinga. Landið er því eilítið minna en Eistland og eilítið stærra en Holland. Danmörk sjálf á ekki verulegt hafsvæði og bætast innan við þúsund ferkílómetrar við heildaryfirráðasvæði Danmerkur sé það tekið með í 43.094 km2. Stöðuvötn þekja 43 km2. Landið hækkar í norðri og austri um rétt undir 1 cm á ári sem stækkar ströndina út. Danmörk er í Skandinavíu í Norður-Evrópu og á aðeins 68 km landamæri að Þýskalandi í suðri. Landið er umlukið hafi á þrjá vegu. Í vestri er Norðursjór, í norðri er Skagerrak, og í austri eru Kattegat, Eyrarsund og Eystrasalt.[16] Milli hafsvæðanna eru mörg sund. Limafjörður liggur milli Kattegat og Norðursjávar í norðri, Litlabelti, Stórabelti og Eyrarsund tengja Kattegat við Eystrasalt í austri, auk fjölda minni farvatna milli dönsku eyjanna. Stærsti hluti Danmerkur, eða 23.872 km2, er á Jótlandsskaga. Afgangurinn deilist á 1419 eyjar, þar sem þær stærstu eru Sjáland, Vendsyssel-Thy og Fjón.[17] Í Danmörku eru fjórar borgir með yfir 100.000 íbúa: Kaupmannahöfn á Sjálandi, Árósar og Álaborg á Jótlandi, og Óðinsvé á Fjóni.
Vegna hins mikla fjölda eyja á Danmörk eina lengstu strandlengju allra Evrópulanda, eða 8.750 km.[18] Það eru 368 km frá nyrsta odda Danmerkur á Norðurströnd Skagen, að þeim syðsta, Gedser Odde; og 452 km frá austasta oddanum, Østerskær í Ertholmene, að þeim vestasta, Blåvands Huk. Alls eru 1008 stöðuvötn í Danmörku, þar af 16 sem eru yfir 500 hektarar að stærð. Stærsta stöðuvatn Danmerkur er Arresø, norðvestan við Kaupmannahöfn.[19] Danmörk er að mestu flatlendi með sléttum, klettum og sandöldum. Lægsti punktur Danmerkur er þurrkaði fjörðurinn Lammefjord á Sjálandi sem liggur 7,5 metra undir sjávarmáli.[20] Hæsti náttúrulegi punktur Danmerkur er Møllehøj við Skanderborg á Jótlandi (170,86 metrar á hæð). Næstur kemur Yding Skovhøj (170,77 m) og Ejer Bavnehøj (170,35). Allar þessar hæðir eru hluti af Ejer-fjöllum suðvestan við Skanderborg.[21]
Landslag er ólíkt í ólíkum landshlutum Danmerkur. Á Borgundarhólmi er að finna berggrunn. Vestur-Jótland einkennist af ökrum, plantekrum og litlum engjum. Á Norður-Jótlandi eru sandstrendur við stóra kletta, og votlendissléttur.
Stjórnmál
breytaÍ Danmörku er formlega þingbundin konungsstjórn. Konungur Danmerkur, Friðrik 10., er þjóðhöfðingi sem fer formlega með framkvæmdavald og er forseti ríkisráðs Danmerkur. Eftir upptöku þingræðis í Danmörku er hlutverk þjóðhöfðingjans aðallega táknrænt eins og formleg skipun og uppsögn forsætisráðherra Danmerkur og annarra ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur. Konungurinn ber ekki sjálfur ábyrgð á stjórnarathöfnum og persóna hans er friðhelg.
Danmörk er í fimmta sæti í lýðræðisvísitölu Economist og í fyrsta sæti spillingarvísitölu Transparency International.
Stjórnvöld
breytaStjórnskipan í Danmörku byggist á stjórnarskrá Danmerkur sem var samin árið 1849. Til að breyta stjórnarskránni þarf hreinan meirihluta á tveimur þingum og síðan einfaldan meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu með minnst 40% þátttöku. Henni hefur verið breytt fjórum sinnum, síðast árið 1953.
Þjóðþing Danmerkur (Folketinget) fer með löggjafarvald og situr í einni deild. Það er æðsti löggjafi landsins, getur sett lög um alla hluti og er óbundið af fyrri þingum. Til að lög öðlist gildi þarf að leggja þau fyrir ríkisráðið og þjóðhöfðingjann sem staðfestir þau með undirskrift sinni innan 30 daga.
Í Danmörku er þingbundin konungsstjórn og fulltrúalýðræði með almennum kosningarétti. Þingkosningar eru hlutfallskosningar milli stjórnmálaflokka þar sem flokkar þurfa minnst 2% atkvæða til að koma að manni. Á þinginu eru 175 þingmenn auk fjögurra frá Grænlandi og Færeyjum. Þingkosningar eru haldnar á fjögurra ára fresti hið minnsta en forsætisráðherra getur óskað eftir því að þjóðhöfðingi boði til kosninga áður en kjörtímabili lýkur. Þingið getur neytt forsætisráðherra til að segja af sér með því að samþykkja vantraust á hann.
Framkvæmdavaldið er formlega í höndum konungs, en forsætisráðherra og aðrir ráðherrar fara með það fyrir hennar hönd. Forsætisráðherra er skipaður sá sem getur aflað meirihluta í þinginu og er venjulega formaður stærsta stjórnmálaflokksins eða leiðtogi stærsta flokkabandalagsins. Oftast er ríkisstjórn Danmerkur samsteypustjórn og oft líka minnihlutastjórn sem reiðir sig á stuðning minni flokka utan ríkisstjórnar til að ná meirihluta í einstökum málum.
Frá þingkosningum 2022 hefur Mette Frederiksen verið forsætisráðherra í samsteypustjórn Jafnaðarmannaflokksins, Venstre og Moderaterne.
Dómsvald
breytaÍ Danmörku gildir rómverskur réttur sem skiptist milli dómstóla á sviði einkaréttar og stjórnsýsluréttar. Dómskerfi landanna sem mynda konungsríkið er aðskilið en hægt er að skjóta málum frá Færeyjum og Grænlandi til hæstaréttar Danmerkur sem er æðsta dómsvald í Danmörku.
Greinar 62 og 64 í stjórnarskránni kveða á um sjálfstæði dómstóla frá ríkisstjórn og þingi.
Alþjóðatengsl og her
breytaAlþjóðatengsl Danmerkur mótast að miklu leyti af aðild landsins að Evrópusambandinu sem Danmörk gekk í árið 1973. Danmörk hefur sjö sinnum farið með formennsku í Evrópuráðinu, síðast árið 2012. Danmörk batt enda á hlutleysi landsins sem hafði verið hornsteinn utanríkisstefnunnar í tvær aldir eftir Síðari heimsstyrjöld þegar landið var hernumið af Þjóðverjum. Danmörk varð þannig stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu 1949. Danmörk rekur virka utanríkisstefnu með áherslu á mannréttindi og lýðræði. Á síðari árum hafa Grænland og Færeyjar í auknum mæli tekið sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkismálum, meðal annars í tengslum við fiskveiðar, hvalveiðar og Evrópumál. Færeyjar og Grænland eru hvorki aðilar að Evrópusambandinu né Schengen-svæðinu.
Her Danmerkur (Forsvaret) hefur á að skipa um 33.000 manna liði á friðartímum sem skiptast milli landhers, flota og flughers. Konungurinn er yfirmaður heraflans.
Danska neyðarþjónustan hefur á að skipa um 2.000 manns og um 4.000 starfa í sérhæfðum deildum eins og dönsku landvarnasveitinni, rannsóknarþjónustunni og leyniþjónustunni. Að auki eru um 55.000 sjálfboðaliðar í danska heimavarnaliðinu. Danmörk hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegum friðargæslusveitum, þar á meðal í Kosóvó, Líbanon og Afganistan. Um 450 danskir hermenn voru í Írak frá 2003 til 2007. Danmörk hefur haft umsjón með aðstoð Atlantshafsbandalagsins við Eystrasaltslöndin.
Stjórnsýslueiningar
breytaDanmörk skiptist í fimm héruð. Héruðin skiptast enn fremur í tíu landshluta (kjördæmi) í þingkosningum. Norður-Jótland er eina héraðið sem er óskipt. Tölfræðistofnun Danmerkur skiptir landinu í ellefu landshluta. Höfuðborgarsvæðið, Hovedstaden, skiptist í fjóra landshluta og þar af er eyjan Borgundarhólmur einn en hinir þrír á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu.
Í Danmörku eru 98 sveitarfélög. Austasta land Danmerkur, eyjan Ertholmene, tilheyrir hvorki héraði né sveitarfélagi og heyrir undir danska varnarmálaráðuneytið.
Héruðin voru stofnuð við sveitarstjórnarumbæturnar árið 2007 og tóku við af sextán ömtum. Á sama tíma var sveitarfélögum fækkað úr 270. Nú er íbúafjöldi sveitarfélaga að jafnaði meiri en 20.000 með nokkrum undantekningum. Sveitarstjórnir og héraðsráð eru kosin í beinum kosningum á fjögurra ára fresti. Síðustu sveitarstjórnarkosningar í Danmörku voru haldnar árið 2013. Sveitarfélögin eru grunnstjórnsýslueining í héraði og jafngilda löggæsluumdæmum, héraðsdómsumdæmum og kjördæmum í sveitarstjórnarkosningum.
Í héraðsráðum sitja 41 fulltrúi kjörnir til fjögurra ára í senn. Yfir héraðsráðinu er héraðsráðsformaður sem ráðið kýs sér. Héraðsráðin fara með heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og atvinnuþróun, en ólíkt ömtunum innheimta þau ekki skatta. Heilsugæslan er að mestu fjármögnuð með sérstöku 8% heilbrigðisframlagi og fjármunum frá ríkinu og sveitarfélögum. Önnur mál sem ömtin báru ábyrgð á voru flutt til hinna stækkuðu sveitarfélaga.
Héruðin eru mjög misfjölmenn. Höfuðborgarsvæðið er þannig meira en þrisvar sinnum fjölmennara en Norður-Jótland. Meðan ömtin voru við lýði höfðu sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, eins og Kaupmannahöfn og Frederiksberg, fengið sömu stöðu og ömtin.
Danskt heiti | Íslenskt heiti | Stjórnarsetur | Fjölmennasta borg | Íbúar (janúar 2015) |
Flatarmál (km²) | |
---|---|---|---|---|---|---|
Hovedstaden | Höfuðborgarsvæði Danmerkur | Hillerød | Kaupmannahöfn | 1.768.125 | 2.568,29 | |
Midtjylland | Mið-Jótland | Viborg | Árósar | 1.282.750 | 13.095,80 | |
Nordjylland | Norður-Jótland | Álaborg | Álaborg | 582.632 | 7.907,09 | |
Sjælland | Sjáland | Sórey | Hróarskelda | 820.480 | 7.268,75 | |
Syddanmark | Suður-Danmörk | Vejle | Óðinsvé | 1.205.728 | 12.132,21 | |
Heimild: Lykiltölur |
Grænland og Færeyjar
breytaKonungsríkið Danmörk er eitt óskipt ríki sem nær yfir Færeyjar og Grænland, auk Danmerkur. Þetta eru tvö lönd í Norður-Atlantshafi með heimastjórn í eigin málum þótt danska ríkið fari að mestu leyti með utanríkis- og varnarmál. Þau hafa því eigin þing og ríkisstjórn, en auk þess tvo fulltrúa hvort á danska þinginu. Ríkisumboðsmenn eru fulltrúar danska ríkisins á lögþingi Færeyja og grænlenska þinginu. Grænlendingar eru auk þess skilgreindir sem sérstök frumbyggjaþjóð með aukinn sjálfsákvörðunarrétt.
Land | Íbúafjöldi (2013) | Flatarmál (km²) | Höfuðborg | Þing | Forsætisráðherra |
---|---|---|---|---|---|
Grænland (Kalaallit Nunaat) | 56.370 | 2.166.086 | Nuuk | Inatsisartut | Múte Bourup Egede |
Færeyjar (Føroyar) | 49.709 | 1.399 | Tórshavn | Løgting | Aksel V. Johannesen |
Efnahagslíf
breytaDanmörk býr við þróað blandað hagkerfi og telst vera hátekjuland samkvæmt Heimsbankanum.[22] Árið 2017 var Danmörk í 16. sæti á lista yfir lönd eftir þjóðartekjum á mann kaupmáttarjafnað og í 10. sæti að nafnvirði.[23] Danmörk er með hæstu löndum á vísitölu um viðskiptafrelsi.[24][25] Hagkerfi Danmerkur er það 10. samkeppnishæfasta í heimi og það 6. samkeppnishæfasta í Evrópu, samkvæmt World Economic Forum árið 2018.[26]
Danmörk er með fjórða hæsta hlutfall háskólamenntaðra í heimi.[27] Landið situr í efsta sæti hvað varðar réttindi verkafólks.[28] Landsframleiðsla á vinnustund var sú 13. hæsta í heimi árið 2009. Tekjuójöfnuður í Danmörku er nálægt meðaltali OECD-ríkja,[29][30] en eftir skatta og opinbera styrki er hann umtalsvert lægri. Samkvæmt Eurostat er Gini-stuðull Danmerkur sá 7. lægsti í Evrópu árið 2017.[31] Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru lágmarkslaun í Danmörku þau hæstu í heimi.[32] Í Danmörku eru engin lög um lágmarkslaun, þannig að þetta stafar af öflugum verkalýðsfélögum. Sem dæmi má nefna að vegna samninga verkalýðsfélagsins Fagligt Fælles Forbund og atvinnurekendasamtakanna Horesta, hefur starfsfólk hjá McDonald's og öðrum skyndibitakeðjum í Danmörku 20 dollara á tímann, yfir helmingi meira en starfsfélagar þeirra fá í Bandaríkjunum, auk þess að fá greidd sumarfrí, foreldraorlof og lífeyri.[33] Aðild að verkalýðsfélögum í Danmörku var 68% árið 2015.[34]
Danmörk á hlutfallslega mikið ræktanlegt land og efnahagur landsins byggðist áður fyrr aðallega á landbúnaði. Frá 1945 hafa iðnaður og þjónusta vaxið hratt. Árið 2017 stóð þjónustugeirinn undir 75% af vergri landsframleiðslu, framleiðsluiðnaður var um 15% og landbúnaður innan við 2%.[35] Helstu iðngreinar eru framleiðsla á vindhverflum, lyfjaframleiðsla, framleiðsla á lækningatækjum, vélar og flutningstæki, matvælavinnsla og byggingariðnaður.[36] Um 60% af útflutningsverðmæti er vegna útflutningsvara, en 40% er vegna þjónustuútflutnings, aðallega skipaflutninga. Helstu útflutningsvörur Danmerkur eru vindhverflar, lyf, vélar og tæki, kjöt og kjötvörur, mjólkurvörur, fiskur, húsgögn og aðrar hönnunarvörur.[36] Danmörk flytur meira út en inn af mat og orku og hefur í mörg ár búið við jákvæðan greiðslujöfnuð þannig að landið á meira útistandandi en það skuldar. Þann 1. júlí 2018 jafngilti staða erlendra eigna 64,6% af vergri landsframleiðslu.[37]
Danmörk er hluti af innri markaði Evrópusambandsins með 508 milljón neytendur. Viðskiptalöggjöfin er að hluta bundin samningum milli aðila sambandsins og löggjöf þess. Danskur almenningur styður almennt frjáls viðskipti; í könnun frá 2016 sögðust 57% svarenda telja að hnattvæðing væri tækifæri, meðan 18% litu á hana sem ógnun.[38] 70% af viðskiptum landsins eru innan Evrópusambandsins. Stærstu viðskiptalönd Danmerkur árið 2017 voru Þýskaland, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.[39]
Dönsk króna (DKK) er gjaldmiðill í Danmörku. Hún er fest við evru á genginu 7,46 krónur á evru, í gegnum gengissamstarf Evrópu. Þrátt fyrir að Danir hafi hafnað upptöku evrunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2000[40] fylgir Danmörk stefnu Efnahags- og myntbandalags Evrópu og uppfyllir kröfur fyrir upptöku evrunnar. Í maí 2018 sögðust 29% svarenda í Danmörku í könnun frá Eurobarometer vera hlynnt myntbandalaginu og evrunni, meðan 65% voru á móti því.[41]
Stærstu fyrirtæki Danmerkur miðað við veltu eru: A.P. Møller-Mærsk (skipaflutningar), Novo Nordisk (lyfjaframleiðandi), ISS A/S (eignaumsýsla), Vestas (vindmyllur), Arla Foods (mjólkurvörur), DSV (flutningar), Carlsberg Group (bjór), Salling Group (smásala), Ørsted A/S (orkufyrirtæki), Danske Bank (fjármálafyrirtæki).[42]
Íbúar
breytaSamkvæmt hagstofu Danmerkur (Danmarks Statistik) voru íbúar Danmerkur rúmar 5,9 milljónir 1. janúar 2023. Þar af voru íbúar af dönskum uppruna (þar sem annað foreldri er fætt í Danmörku, Færeyjum eða Grænlandi) 84,6%, en fólk af erlendum uppruna 11,8% og afkomendur þeirra 3,6%.[43] Af rúmlega 900.000 innflytjendum er um þriðjungur af vestrænum uppruna. Aðflutningur fólks veldur því að fólksfjölgun er um 0,5% á ári þrátt fyrir mjög lága fæðingartíðni.[44]: 15 Danmörk er ein elsta þjóð heims þar sem meðalaldur er yfir 40 ár og 27% landsmanna eru eldri en 60 ára.[44]: 9 Samkvæmt World Happiness Report eru Danir með hamingjusömustu þjóðum heims.[45]
Rúmlega 17.000 íbúa eru fædd á Grænlandi og tæplega 11.000 í Færeyjum.[46][47] Þar fyrir utan er ekki til tölfræði yfir fjölda Grænlendinga og Færeyinga sem búa í Danmörku. Samkvæmt könnun frá 2006 voru Færeyingar um 22.000[48] og samkvæmt könnun árið eftir var fjöldi Grænlendinga áætlaður 19.000.[49]
Dreifing íbúa í Danmörku er ójöfn milli landshluta. Í Austur-Danmörku búa um 250 manns á ferkílómetra, en vestan við Stórabelti eru aðeins um 100 íbúar á ferkílómetra á Jótlandi og 150 á Fjóni.[50] Rétt yfir milljón býr í höfuðborginni, Kaupmannahöfn, eða um fimmtungur íbúa landsins.[51] 85% íbúa Danmerkur búa í þéttbýli.[52] Á Suður-Jótlandi er minnihlutahópur sem er þýskumælandi.
Trúarbrögð
breytaYfir 72% íbúa Danmerkur eru skráðir í dönsku þjóðkirkjuna sem er lútersk-evangelísk þjóðkirkja. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda eru aðeins um 3% sem mæta reglulega í messur. Í stjórnarskrá Danmerkur er kveðið á um trúfrelsi en einn meðlimur dönsku konungsfjölskyldunnar verður að vera meðlimur þjóðkirkjunnar.
Árið 1682 fengu þrjú trúfélög leyfi til að starfa utan þjóðkirkjunnar: kaþólska kirkjan, danska fríkirkjan og gyðingar. Upphaflega var samt ólöglegt að snúast til þessara trúarbragða. Fram á 8. áratug 20. aldar fengu trúfélög opinbera viðurkenningu en síðan þá er engin þörf á slíku og hægt er að fá leyfi til að framkvæma giftingar og aðrar athafnir án formlegrar viðurkenningar.
Múslimar eru rétt um 3% íbúa Danmerkur og eru fjölmennasti minnihlutatrúarhópur landsins. Árið 2009 voru nítján trúfélög múslima skráð í Danmörku. Samkvæmt tölum danska utanríkisráðuneytisins eru íbúar sem hafa önnur trúarbrögð um 2% íbúa landsins.
Menning
breytaÍþróttir
breytaDanir hafa náð langt á alþjóðavísu í fjölda íþróttagreina. Knattspyrna er langvinsælasta íþróttin í Danmörku og er danska úrvalsdeildin efsta deildin.[53] Þekktustu knattspyrnumenn Danmerkur eru Allan Simonsen, Peter Schmeichel og Michael Laudrup. Handbolti hefur vaxið að vinsældum síðustu áratugi og danska karlalandsliðið í handknattleik hefur unnið flest verðlaun allra liða í Evrópumóti karla í handbolta. Danska kvennalandsliðið í handknattleik hefur sigrað Evrópumót kvenna í handbolta þrisvar og unnið alls til fimm verðlauna.
Vatnaíþróttir eins og kappsiglingar, kappróður, kanó- og kajakróður, sund og stangveiði eru vinsælar íþróttagreinar í Danmörku. Paul Elvstrøm vann gullverðlaun í siglingum á fjórum Ólympíuleikum í röð. Danmörk er mikið hjólreiðaland: Danski hjólreiðamaðurinn Bjarne Riis sigraði Tour de France árið 1996 og Jonas Vingegaard sigraði tvö ár í röð 2022 og 2023. Golf, tennis, badminton og íshokkí eru líka vinsælar greinar. Lene Køppen og Camilla Martin urðu heimsmeistarar í badminton 1977 og 1999. Danir hafa náð langt í speedway-mótorhjólakappakstri og unnið Speedway-heimsbikarinn nokkrum sinnum.
Á ólympíuleikunum í London 2012 unnu Danir til gullverðlauna í kappróðri og hjólreiðum karla og silfurverðlaun í siglingum, skotfimi karla, kappróðri kvenna og badminton karla.
Tilvísanir
breyta- ↑ About Denmark
- ↑ „Danmarks dåbsattest er farverig“. Nationalmuseet. 12.10.2020.
- ↑ „Var der neandertalere i Danmark? Nyt forskningsprojekt skal løse mysteriet“. Videnskab.dk. 20. október 2020.
- ↑ Rasmus Kragh Jakobsen (11. október 2016). „Overrasket topforsker: Det siger genetik om danskhed“. Videnskab.dk.
- ↑ Søren M. Sindbæk (19.7.2019). „Harald Blåtands ringborge skulle modstå vikingeangreb og sikre kongen en mobil hær“. Videnskab.dk.
- ↑ Heebøll-Holm, T. K. (2019). „Medieval Denmark as a Maritime Empire“. Empires of the Sea. Brill. bls. 194–218.
- ↑ „Cnut the Great and the North Sea Empire“. HistoryChronicles. 24.12.2024.
- ↑ Grand, K. L., Pennington, L., & Thomsen, A. M. (2013). „Introduktion til dansk guldalder/Introduction to the Danish Golden Age“. Guld: skatte fra den danske guldalder/Gold: treasures from the Danish Golden Age (PDF). Systime Academic. bls. 68–93.
- ↑ Carl Ploug. „Orla Lehmanns tale 'Danmark til Ejderen', 28. maj 1842“. danmarkshistorien.dk. Aarhus Universitet. Sótt 16.5.2024.
- ↑ Magnús Kjartan Hannesson. Konungsríkið Ísland. Aðdragandi þess og þjóðhöfðingi (PDF) (PhD thesis). Háskóli Íslands. bls. 12–14.
- ↑ Jens Wendel-Hansen (25.8.2011). „Systemskiftet 1901“. Danmarkshistorien.dk. Aarhus Universitet.
- ↑ Anne Anthon Andersen (2019). „1980'erne“. faktalink.
- ↑ „1990'erne - Det lange seje træk: miljø, erhvervssamarbejde og demokrati“. Udenrigsministeriet. Sótt 16.5.2024.
- ↑ Bo Lidegaard (7.2.2018). „Danmark i krig 1991-2011“. danmarkshistorien.dk. Aarhus Universitet.
- ↑ Jesper Vestermark Køber (10.8.2022). „Statsminister Anders Fogh Rasmussen og den ideologiske værdikamp i 2000'erne“. danmarkshistorien.dk. Aarhus Universitet.
- ↑ „Danmark“. Den Store Danske. 24. október 2023. Sótt 9. desember 2023.
- ↑ „Hvilke øer er de 10 største i Danmark efter areal og befolkning?“. politiken.dk. Politikens oplysning. 8. febrúar 2008.
- ↑ „Nature & Environment“. Ministry of Foreign Affairs of Denmark. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. apríl 2007. Sótt 3. febrúar 2007.
- ↑ Jensen, Lene (1999). „Current status and trends in inland fisheries in Denmark“. Í Lundqvist, Gunnar (ritstjóri). Current Status and Trends in Inland Fisheries. Copenhagen: Nordic Council of Ministers. bls. 10–18. ISBN 978-9-28930-402-3.
- ↑ Ramskov, Jens (28. febrúar 2013). „Eksperter strides: Er Lammefjorden eller stenbrud Danmarks laveste punkt?“. Ingeniøren (danska). Sótt 9. desember 2023.
- ↑ Kort þar sem hæstu fjöllin eru merkt
- ↑ Country and Lending Groups. Geymt 2 júlí 2014 í Wayback Machine Heimsbankinn. Skoðað 14. mars 2016.
- ↑ „Gross national income per capita 2017, Atlas method and PPP. World Development Indicators database, World Bank, 21 September 2018. Retrieved 6 December 2018“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 12. september 2014. Sótt 6. desember 2018.
- ↑ "Country Ratings" Geymt 16 september 2017 í Wayback Machine, 2012 Index of Economic Freedom. Sótt 12. janúar 2012.
- ↑ „Economic Freedom of the World: 2011 Annual Report Complete Publication (2.7 MB)“ (PDF). freetheworld.com. Fraser Institute. 2011. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. september 2011. Sótt 20. september 2011.
- ↑ „Global Competitiveness Report 2018“. World Economic Forum. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2018. Sótt 6. desember 2018.
- ↑ UNESCO 2009 Global Education Digest Geymt 28 nóvember 2011 í Wayback Machine, deilir 4. sæti með Finnlandi með hlutfallið 30,3%. Graf á s 28, tafla á s 194.
- ↑ Kevin Short (28 May 2014). The Worst Places On The Planet To Be A Worker Geymt 28 maí 2014 í Wayback Machine. The Huffington Post. Sótt 28. maí 2014.
- ↑ Joumard, Isabelle; Pisu, Mauro; Bloch, Debbie (2012). „Tackling income inequality. The role of taxes and transfers“ (PDF). OECD. Afrit (PDF) af uppruna á 28. desember 2014. Sótt 10. febrúar 2015.
- ↑ Neamtu, Ioana; Westergaard-Nielsen, Niels (mars 2013). „Sources and impact of rising inequality in Denmark“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 11. febrúar 2015. Sótt 10. febrúar 2015.
- ↑ „Gini coefficient of equivalised disposable income – EU-SILC survey. Eurostat, last data update 20 November 2018, retrieved 6 December 2018“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2014. Sótt 6. desember 2018.
- ↑ „World Economic Outlook Database, October 2010 Edition“. IMF. 6. október 2010. Afrit af uppruna á 22. febrúar 2011. Sótt 5. júlí 2012.
- ↑ Liz Alderman and Steven Greenhouse (27 October 2014). Living Wages, Rarity for U.S. Fast-Food Workers, Served Up in Denmark Geymt 28 október 2014 í Wayback Machine. The New York Times. Retrieved 28 October 2014.
- ↑ Sjá Anders Kjellberg og Christian Lyhne Ibsen "Attacks on union organizing: Reversible and irreversible changes to the Ghent-systems in Sweden and Denmark" Geymt 9 mars 2017 í Wayback Machine in Trine Pernille Larsen and Anna Ilsøe (eds.)(2016) Den Danske Model set udefra (The Danish Model Inside Out) – komparative perspektiver på dansk arbejdsmarkedsregulering, Copenhagen: Jurist- og Økonomforbundets Forlag (pp.292)
- ↑ „StatBank Denmark, Table NABP10: 1-2.1.1 Production and generation of income (10a3-grouping) by transaction, industry and price unit. Retrieved on December 6, 2018“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. nóvember 2018. Sótt 6. desember 2018.
- ↑ 36,0 36,1 „Denmark“. The World Factbook. CIA. 3. desember 2018. Sótt 18. desember 2018.
- ↑ „Eurostat: Net international investment position – quarterly data, % of GDP. Last update 24 October 2018, retrieved December 6 2018“. Afrit af uppruna á 26. nóvember 2018. Sótt 6. desember 2018.
- ↑ Danskerne og LO elsker globalisering. Newspaper article 17 November 2016 on finans.dk. Retrieved 6 December 2018. Geymt 6 desember 2018 í Wayback Machine
- ↑ „Denmark“. The World Factbook. CIA. 19. janúar 2012. Sótt 4. febrúar 2012.
- ↑ „Denmark and the euro“. Danmarks Nationalbank. 17. nóvember 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. nóvember 2006. Sótt 3. febrúar 2007.
- ↑ „Standard Eurobarometer 89, Spring 2018. The key indicators. Publication date June 2018. Retrieved 18 December 2018“. Afrit af uppruna á 26. desember 2018. Sótt 18. desember 2018.
- ↑ „The largest companies by turnover in Denmark“. largestcompanies.com. Nordic Netproducts AB. Afrit af uppruna á 6. nóvember 2018. Sótt 18. desember 2018.
- ↑ Statistikbanken, tabel FOLK2: Folketal 1. januar efter køn, alder, herkomst, oprindelsesland og statsborgerskab. Danmarks Statistik. Hentet 6. april 2023.
- ↑ 44,0 44,1 Befolkningens udvikling (Report). Danmarks Statistik. 9. október 2024.
- ↑ „Happiness of the younger, the older, and those in between“. World Happiness Report. Sótt 19.12.2024.
- ↑ BEF5G: Personer født i Grønland og bosat i Danmark 1. januar efter køn, alder og forældrenes fødested, Hentet 6. april 2023.
- ↑ „BEF5F: Personer født på Færøerne og bosat i Danmark 1. januar efter køn, alder og forældrenes fødested“. statbank.dk. Sótt 6. apríl 2023.
- ↑ Færøske unge flygter til Danmark. 30. august 2006.
- ↑ „Grønlændere bosiddende i Danmark“ (PDF).
- ↑ Statistikbanken BEF1A07 Sótt 2. febrúar 2010.
- ↑ Nyt fra Danmarks Statistik – tabel 2
- ↑ 1 Geografi og befolkning Geymt 6 febrúar 2010 í Wayback Machine. 1. februar 2010.
- ↑ Body, culture and sport Geymt 16 nóvember 2011 í Wayback Machine (2003) Utanríkisráðuneyti Danmerkur