Dönsku Vestur-Indíur

Dönsku Vestur-Indíur voru dönsk nýlenda í Karíbahafi sem náði yfir þrjár eyjar í Antillaeyjaklasanum: St. Thomas, St. Jan og St. Croix. Tvær fyrrnefndu eyjarnar voru óbyggðar og Danska Vestur-Indía- og Gíneufélagið lagði þær undir sig 1672 og 1718. Árið 1733 keypti félagið svo St. Croix af Franska Vestur-Indíafélaginu. Eyjarnar urðu krúnunýlenda þegar danska ríkið leysti verslunarfélagið upp 1754 og keypti öll hlutabréf þess.

Kort sem sýnir staðsetningu Dönsku Vestur-Indía

Í Dönsku Vestur-Indíum var einkum ræktaður sykur, og byggði framleiðslan á vinnuafli þræla, þar til þrælahald var formlega afnumið þar árið 1848. Dönsk stjórnvöld og fyrirtæki undir þeirra verndarvæng eru talin hafa flutt yfir 100.000 manns frá Afríku í þrældóm í Vesturálfu, þar af um 80.000 í þrældóm á þessum nýlendum Dana sjálfra.[1]

Danska ríkið reyndi svo nokkrum sinnum að selja eyjarnar á síðari hluta 19. aldar. Að lokum keyptu Bandaríkin þær fyrir 25 milljón dali árið 1917. Síðan þá hafa eyjarnar heitið Bandarísku Jómfrúaeyjar.

Danir hófu plantekrubúskap á eyjunum með þrælum frá Afríku og framleiddu þar bómull, sykur og tóbak.

Puzzle stub.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  1. Sjá t.d. „The History of The Danish Negro Slave Trade, 1733–1807“, eftir Svend Erik Green-Pedersen í tímaritinu Revue française d'histoire d'outre'mer, 1975, s. 196–220.