Hamborg

borg og eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands

Hamborg (hágþýska: Hamburg, lágþýska: Hamborg) er borg og næstminnsta sambandslandið í Þýskalandi með 755 km². Aðeins Bremen er minna. Hún er hins vegar næststærsta borg Þýskalands með tæpa 1,90 milljón íbúa (2021) og jafnframt stærsta hafnarborg landsins, auk þess að vera stærsta borg Evrópusambandsins sem er ekki höfuðborg. Hamborg var stofnborg og einn ötullasti meðlimur Hansasambandsins áður fyrr. Sérstakt við Hamborg eru hinar óteljandi brýr. Þær eru um 2500, fleiri en í nokkurri annarri borg í Evrópu og reyndar fleiri en í Feneyjum, Amsterdam og London samanlagt.

Hamborg
Hamburg (þýska)
Fáni Hamborgar
Skjaldarmerki Hamborgar
Hamborg er staðsett í Þýskalandi
Hamborg
Hamborg
Hnit: 53°33′N 10°00′A / 53.550°N 10.000°A / 53.550; 10.000
Land Þýskaland
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriPeter Tschentscher (SPD)
Flatarmál
 • Borg755,22 km2
Mannfjöldi
 (2022)
 • Borg1.945.532
 • Þéttleiki2.600/km2
TímabeltiUTC+01:00 (CET)
 • SumartímiUTC+02:00 (CEST)
Póstnúmer
20001–21149, 22001–22769
Vefsíðahamburg.com
Ráðhús Hamborgar

Hamborg er norðarlega í Þýskalandi og liggur við ána Saxelfi, nokkurn veginn á þeim stað þar sem fljótið breikkar og rennur til Norðursjávar. Aðeins tvö önnur sambandslönd liggja að Hamborg: Slésvík-Holtsetaland fyrir norðan og Neðra-Saxland fyrir sunnan. Næstu borgir eru Lübeck til norðausturs (60 km), Bremen til suðvesturs (70 km) og Hannover til suðurs (90 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Hamborgar er hvítt kastalavirki á rauðum grunni. Merki þetta var fyrst notað fyrir skipaflota borgarinnar 1270 en hefur síðan verið notað fyrir borgina alla. Litirnir eru upprunnir úr Hansasambandinu. Fáninn er nákvæmlega eins, nema hvað formið er aðeins öðruvísi.

Orðsifjar

breyta

Hamborg var upphaflega saxneskt þorp að nafni Hamm (eða Hamma). Hamm merkir árbugt. Þegar Karlamagnús eyddi þorpinu, lét hann reisa virki á staðnum sem kallað var Hammaburg eftir þorpinu. Seinna styttist heitið í Hamburg.[1]

Saga Hamborgar

breyta

Upphaf

breyta

Hamborg á upphaf sitt í saxnesku þorpi sem hét Hamm. Árið 810 sigraði Karlamagnús saxa og tók til sín stór landsvæði þeirra. Þá lét hann reisa kirkju milli ánna Bille og Alster (sem renna í Saxelfi við Hamborg nútímans), en presturinn þar átti að stjórna kristniboði í norðrinu. Við hlið kirkjunnar lét Karlamagnús reisa flóttavirki sem hlaut nafnið Hammaburg (seinna Hamburg). Þegar árið 832 varð Hamborg að biskupssetri og kristniboðinn Ansgar frá Bremen varð fyrsti biskupinn þar. Ansgar þessi tók hlutverk sitt alvarlega og átti mikinn þátt í kristnun landsvæða í norður af Hamborg. Hann hóf meðal annars kristniboð í Danmörku og var gjarnan kallaður „postuli norðursins“. Eftir lát Karlamagnúsar veiktist frankaríkið mikið. Víkingar gerðu víða strandhögg og 845 réðust þeir á Hamborg. Þeir rændu staðinn og brenndu niður kirkjuna. Hammavirkið gjöreyðilögðu þeir. Ansgar flúði og fyrir vikið varð Bremen aftur aðsetur biskupanna. Eftir að Hamborg var byggð upp á ný skall á næsta eyðingaralda, en 915 réðust slavar á bæinn og brenndu hann niður. Þetta endurtók sig árið 983.

Uppgangur

breyta
 
Hamborg um 1150. Til hægri er Saxelfur, til vinstri er áin Alster.

Hamborg var byggð upp aftur. Ýmsar byggingar, svo sem Maríukirkjan, biskupahöllin og klaustrið voru gerð úr grjóti en slíkt var óþekkt í héraðinu fram að þessu. Á seinni hluta 11. aldar hófst fyrsta blómaskeið bæjarins, en hún var stjórnuð af biskupum. 1065 lést biskupinn og sáu þá slavar borð á leik og réðust á Hamborg. Hún var rænd nokkrum sinnum en Krútó, höfðingi slavanna, bjó í Lübeck (sem þá var slavnesk) og stjórnaði héraðinu þaðan. Slavaógninni létti ekki fyrr en með kristnitöku héraðsins 1093. Árið 1189 gerði Friðrik Barbarossa Hamborg að fríborg í ríkinu. Samfara því hlaut Hamborg ýmis fríðindi og réttindi. Til dæmis tollfríðindi og borgarar þurftu ekki að gegna herskyldu fyrir keisara. Þetta gerði Friðrik í þakklætisskyni fyrir borgina, þar sem hún aðstoðaði hann í undirbúningi sínum fyrir krossferð til landsins helga. Reyndar lést Friðrik í þeirri ferð, en fríborgarstatus Hamborgar hélst allt til loka þýska ríkisins. Aðrir vilja meina að borgarráðið hafi falsað fríborgarvottorðið þegar fréttin barst til ríkisins að Friðrik Barbarossa hafi drukknað í Austurlöndum. 1214 varð Hamborg, og héraðið norðan Saxelfar, hluti af danska ríkinu og stjórnað af dönskum fógeta. Þetta ástand varaði til 1227 en þá sigruðu norðurþýskir furstar Dani í orrustunni við Bornhøved og endurheimtu lönd sín. 1284 skemmist borgin töluvert í stórbruna. Íbúar borgarinnar voru þá um 5 þúsund.

Hansaborgin

breyta

Um miðja 13. öld voru viðskiptasambönd Hamborgar orðin mjög víðtæk. Þau teygðu sig til Englands, Noregs, Niðurlanda og um allt norðanvert þýska ríkisins. Verslunarmenn frá Hamborg og Lübeck stofnuðu með sér viðskiptabandalag sem kallaðist Hansasambandið. Bandalag þetta stækkaði ört eftir því sem leið á 13. öldina og gengu hafnarborgir eins og Wismar, Stralsund, Rostock í sambandið, en einnig aðrar borgir sem ekki lágu að sjó, eins og Lüneburg. Hansakaupmenn sigldu jafnvel til Íslands. En Hamborg var þó leiðandi aðili í sambandinu, ásamt Lübeck, og var borginni gríðarleg lyftistöng. Á fyrri hluta 14. aldar keypti borgin æ meira landsvæði í kring og við það stækkaði Hamborg. Flestar stærri kirkjurnar voru reistar á þessum árum. Á 15. öld tóku umsvif sambandsins að dvína og þau stöðnuðu nær alveg þegar leið á 16. öld. Hansasambandið lifði þó áfram í litlum mæli fram á 17. öld. 1669 var síðasti Hansadagurinn (Hansaþing) haldinn.

Siðaskipti

breyta
 
Hamborg í kringum aldamótin 1600

1528 ritaði borgarstjórinn í Hamborg Marteini Lúther bréf og bað hann um að senda til sín predikara. Lúther sjálfur komst ekki, en hann sendi þangað samstarfsmann sinn Johannes Bugenhagen. Hann hóf þegar við að predika og mynda nýja kirkjuskipan. Siðaskiptin fóru síðan formlega fram ári síðar. Hamborg var mikið vígi siðaskiptamanna. Borgin tók við flóttamönnum frá Niðurlöndum þegar Spánverjar herjuðu þar á miðri 16. öld, en einnig fengu gyðingar að setjast þar að, en þeir voru reknir burt frá Spáni og Portúgal. Portúgölsku gyðingar mynduðu stærsta minnihlutahóp Hamborgar á 16. öld. 1616 var byrjað á að endurgera og bæta alla múra borgarinnar. Þetta varð til þess að Hamborg var hvorki hernumin né beið nokkurn skaða af 30 ára stríðinu á 17. öld. Hamborg var auk þess að öllu leyti hlutlaus og var stærsta borg þýska ríkisins sem ekki kom við sögu í stríðinu, fyrir utan Vínarborg. Hamborg tók hins vegar við mörgum flóttamönnum og hagnaðist af því. Eftir stríðslok var hvalaútgerð stofnuð í borginni og var Hamborg aðalhvalveiðiborg þýska ríkisins meðan hvalveiða naut.

19. öldin

breyta
 
Höfnin í Hamborg 1895

Eftir frönsku byltinguna, og sérstaklega í Napoleonsstríðunum, óx Hamborg gríðarlega hratt. Hún var frjálsleg borg og þar var trúfrelsi í gildi. Napoleon lét hertaka borgina 1806 en allir Frakkar þurftu að hverfa þaðan 1813. Vínarfundurinn staðfesti síðan fríborgarstatus Hamborgar. Þegar iðnbyltingin hófst óx Hamborg enn frekar. Íbúar voru 130 þús árið 1806, en þeir voru orðnir 300 þús 1860. Flestir bjuggu þó við bág kjör. Þegar Prússland varð að keisararíki 1871, eignaðist það öll landsvæði í kringum Hamborg. Borgin gekk í Norðurþýska sambandið, en hélst að öðru leyti hlutlaust borgríki. 1842 var þýðingarmikið ár fyrir Hamborg. Þá var fyrsta járnbrautarlínan tekin í notkun og þá átti sér stað borgarbruninn mikli. Brunninn eyddi fjórðungi miðborgarinnar. 4000 hús brunnu niður og 10% íbúanna urðu heimilislausir. Í endurreisninni voru vatnslagnir og klóök lögð. Á árunum þar á eftir varð Hamborg aðalhafnarborg þýska ríkisins fyrir útflytjendur til Ameríku. Af þeim 50 milljónum manna sem fluttu frá Evrópu til Ameríku, fóru um 5 milljónir þeirra um Hamborg. Fyrir upphaf heimstyrjaldarinnar fyrri náði íbúatala Hamborgar 1 milljón.

20. öldin

breyta
 
Hamborg undir vatni eftir stormflóðið 1962
 
3 mark 1911, Hamborg, silfur

1914 settu bandamenn hafnbann á Hamborg. Hagkerfið þar staðnaði að miklu leyti og olli gífurlegu tjóni. Alls létust rúmlega 34 þús hermenn frá Hamborg í heimstyrjöldinni fyrri. 1919 urðu fyrstu frjálsu kosningar í borginni. Flokkurinn SPD hlaut rúmlega helming allra atkvæða og varð Werner von Melle fyrsti lýðræðislegi borgarstjórinn. Sama ár var háskólinn í borginni stofnaður. En strax við valdatöku nasista 1933 varð nasistinn Carl Vincent Krogmann borgarstjóri og var lýðræðið þá tekið úr gildi. Strax var hafist handa við að gera gyðingum og öðrum minnihlutahópum erfitt fyrir. 1933 bjuggu 19 þúsund gyðingar í Hamborg. Langflestir þeirra voru fluttir í fangabúðir. Aðeins 647 voru eftir á lífi í borginni þegar heimstyrjöldinni síðari lauk. Við suðausturjaðar Hamborgar voru fangabúðirnar Neuengamme opnaðar. Talið er að um 55 þúsund manns hafi látið þar lífið. Fyrstu loftárásir bandamanna á borgina hófust 1943. Í allt varð Hamborg fyrir 213 árásum. Í þeim eyðilagðist stór hluti hennar og biðu 50 þúsund manns bana. 900 þúsund manns urðu heimilislausir. Alls tóku 17 þúsund flugvélar þátt í árásunum, sem vörpuðu rúmlega 1,6 milljónum sprengjum yfir borgina. 3. maí 1945 hertóku Bretar borgina bardagalaust. Hún var á breska hernámssvæðinu. Bretar settu þar sérlög og leyfðu Hamborg að halda sérstöðu sinni í Þýskalandi. 1949 varð Hamborg að sambandslandi innan Þýskalands og var þá enn eigið borgríki. 1962 átti sér stað gríðarmikið stormflóð er mikil lægð gekk yfir landið á háflóði. Sjávarbylgja gekk upp eftir Saxelfi og flæddi hún og þverár hennar þá yfir bakka sína. 300 manns biðu bana. Í dag er Hamborg mikil viðskipta- og menningarborg. Stærstu fyrirtækin þar eru Airbus Operations og Lufthansa, hvor um sig með rúmlega 10 þúsund starfsmenn.

Viðburðir

breyta
 
Schlagermove er stærsta hátíð alþýðutónlistar í Þýskalandi
  • Stærsta hátíð Hamborgar heitir Hamburger Hafengeburtstag, sem er nokkurs konar hafnarhátíð þar á bæ. Hátíðin stendur yfir í þrjá daga og hefst yfirleitt með skipasýningu. Seglbátar, seglskip og önnur skip sigla á Saxelfi og keppt er í kappróðri á drekabátum. Ýmislegt annað er gert sér til dundurs. Um milljón manns sækja þessa hátíð heim.
  • Mótorhjólaguðsþjónustan í Hamborg er sú stærsta sinnar tegundar í heimi, en þá hlýða allt að 40 þúsund mótorhjólakappar á útimessu.
  • Schlagermove er heiti á stærstu hátíð alþýðutónlistar í Þýskalandi. Hún fer fram í skrúðgönguformi í júlí í borgarhverfinu St. Pauli, um höfnina og gleðigötuna Reeperbahn. 44 stórir trukkar keyra þá um götur borgarinnar, en á hverjum þeirra er hljómsveit sem syngur og spilar. Allt að 600 þúsund manns sækja hátíðina heim en margir þeirra klæðast skrúðfötum í stíl við 8. áratuginn.
  • Af öðrum hátíðum má nefna Christopher Street Day (gleðiganga samkynhneigðra), fjölskyldugarðinn Hamburger Dom (sem er opinn þrisvar á ári) og Hamburger Fischmarkt í hverfinu Altona.

Íþróttir

breyta

Í Hamborg var keppt í HM í knattspyrnu 1974 og 1990. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Hamburger Sportverein (Hamburger SV). Liðið hefur 6 sinnum orðið þýskur meistari (síðast 1983) og þrisvar bikarmeistari. Auk þess varð liðið Evrópumeistari bikarhafa 1977 (sigraði þá Anderlecht) og sigraði Evrópukeppni meistaraliða 1983 (sigraði þá Juventus). Af fyrrum þekktum leikmönnum liðsins má nefna Uwe Seeler, Kevin Keegan, Felix Magath, Rafael van der Vaart, Tony Yeboah og Ruud van Nistelrooy. Félagið FC St. Pauli komst í 1. Bundesliguna vorið 2010.

Í Hamborg er árlega haldið Maraþonhlaup. Hlaupið hefur verið haldið síðan 1986 og er yfirleitt hlaupið í apríl. Árið 2010 voru þátttakendur rúmlega 14 þús. Beinir áhorfendur eru um milljón manns, sem gerir Maraþonhlaupið í Hamborg það vinsælasta í heimi. Samfara Maraþonhlaupinu fara fram hjólastólahlaup og línuskautahlaup.

Vattenfall Cyclassics er heiti á hjólreiðakeppni sem fer fram í heilan dag á götum Hamborgar. Keppnin hefur verið haldin síðan 1996 og er vegalengdin um 250 km.

Helsta handboltaliðið er HSV Hamburg, sem varð þýskur meistari 2011 og bikarmeistari 2006 og 2010. Liðið varð auk þess Evrópumeistari bikarhafa 2007 (sigraði þá Ademar León frá Spáni).

Vinabæir

breyta

Hamborg viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Auk ofangreindra borga er höfnin í Hamborg í vinatengslum við nokkrar hafnarborgir. Sama gildir fyrir einstaka borgarhluta í Hamborg.

Frægustu börn borgarinnar

breyta
 
Tískufrömuðurinn Karl Lagerfeld er einn þekktasti Hamborgarinn

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Mikjálskirkjan er einkennisbygging Hamborgar
  • Mikjálskirkjan (oftast kölluð Michel) er þekktasta kirkjubygging Hamborgar eitt þekktasta kennileitið í miðborginni. Fyrsta byggingin var reist 1647-1669 og helguð Míkael erkiengli. 1750 laust eldingu í turninn og hrundi hann á kirkjuþakið. Við það kveiknaði eldur og gjöreyðilagðist kirkjan. Næsta kirkja var reist strax í kjölfarið og vígð 1786. Sú kirkja brann til kaldra kola 1906. Núverandi kirkja var reist 1906-07 og er í dag stærsta kirkja Hamborgar. Í henni rúmast 2.500 manns í sæti. Turninn er 132 metra hár og er með hærri kirkjuturnum heims. Í 82 metra hæð er útsýnispallur opinn almenningi. Kirkjan skemmdist nokkuð í loftárásum seinna stríðsins. Viðgerðum lauk 1952. Klukkan í turninum er 8 metra í þvermál og er stærsta sinnar tegundar í Þýskalandi.
  • Nikulásarkirkjan eru rústir einar, en er samt fimmta hæsta kirkja heims. Hún var reist 1846-63 á stað þar sem áður hafði staðið kirkja, en sú brann í brunanum mikla 1842. Við vígsluna var kirkjan á sínum tíma hæsta bygging heims með turn upp á 147 metra og er í dag önnur hæsta bygging Hamborgar (eftir sjónvarpsturninum). Hún var vígð heilögum Nikulási, verndardýrlingi sæfara. Í heimstyrjöldinni síðari varð kirkjan fyrir allmörgum sprengjum og brann allt kirkjuskipið. Aðeins turninn stóð heill eftir. Ákveðið var að fjarlægja rústirnar en leyfa turninum að standa sem minnisvarða um stríðið. Árið 2005 var lyfta sett í turninn sem fer upp í 75 metra hæð. Þar er útsýnispallur opinn almenningi.
  • Ráðhúsið í Hamborg er ekki aðeins ráðhús borgarinnar heldur einnig þinghús sambandslandsins. Það var reist 1884-97 eftir að gamla húsið brann í brunanum mikla 1842. Húsið er 111 metra langt og miðturninn 112 metra hár. Húsið er hið allra glæsilegasta. Fyrir framan það er torgið Rathausplatz.
  • Speicherstadt er lítið hverfi við Saxelfi í Hamborg. Hér er um gömul lagerhús að ræða, en samanlagt mynda þau stærstu samhangandi gömul iðnaðarhús heims. Þau voru reist 1883 á hólmanum Kehrwieder í Saxelfi og voru 1,5 km löng alls. Helstu vörurnar sem geymdar voru í húsunum voru kaffi, te og krydd. 1991 voru húsin öll friðuð. Þau eru í dag notuð í æ meiri mæli sem sýningarhús og söfn.
  • Sjónvarpsturninn í Hamborg heitir Heinrich-Hertz-Turm og er hann ein af einkennisbyggingum borgarinnar. Hann var reistur 1965-68 og er 279 metra hár. Þar með er hann hæsta mannvirki Hamborgar. Á honum miðjum eru útsýnispallur og veitingahús en þar fyrir ofan tæknideildin og fjarskiptatæki.

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 124.

Heimildir

breyta