Noregur

land í Norður-Evrópu og eitt Norðurlandanna

Noregur (norska: Norge) er land sem nær yfir vestur- og norðurhluta Skandinavíu í Norður-Evrópu. Noregur fer líka með stjórn fjarlægu eyjanna Jan Mayen og Svalbarða. Auk þess er Bouvet-eyja í Suður-Atlantshafi norsk hjálenda. Noregur gerir tilkall til tveggja landsvæða á Suðurskautslandinu: Eyju Péturs 1. og Matthildarlands. Noregur á landamæri að Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi, og er eitt Norðurlandanna. Sunnan við Noreg skilur Skagerrak landið frá Danmörku. Noregur á mjög langa strandlengju að Atlantshafi og Barentshafi.

Konungsríkið Noregur
Kongeriket Norge (norskt bókmál)
Kongeriket Noreg (nýnorska)
Fáni Noregs Skjaldarmerki Noregs
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Ja, vi elsker dette landet
Staðsetning Noregs
Höfuðborg Osló
Opinbert tungumál norska, samíska í nokkrum sjálfstjórnarumdæmum
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Haraldur 5.
Forsætisráðherra Jonas Gahr Støre
Sjálfstæði
 • stofnun 872 
 • Kalmarsambandið 1397 
 • stjórnarskrá 17. maí 1814 
 • sambandsslit við Svíþjóð 7. júní 1905 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
67. sæti
385.207[1] km²
6
Mannfjöldi
 • Samtals (2024)
 • Þéttleiki byggðar
120. sæti
5.550.203[2]
14,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 350 millj. dala (49. sæti)
 • Á mann 64.856 dalir (6. sæti)
VÞL (2022) 0.966[3] (2. sæti)
Gjaldmiðill Norsk króna (kr) (NOK)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Ekið er hægri megin
Þjóðarlén .no
Landsnúmer +47

Í Noregi búa 5,5 milljónir (2024). Höfuðborg landsins er Ósló. Haraldur 5. af Lukkuborgarætt er konungur Noregs og Jonas Gahr Støre hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá 2021. Noregur er einingarríki með þingbundna konungsstjórn þar sem ríkisvaldið skiptist milli dómsvalds, norska stórþingsins og ríkisstjórnar Noregs, samkvæmt stjórnarskrá Noregs frá 1814. Norska konungsríkið var stofnað 872 þegar mörg smákonungsdæmi runnu saman. Frá 1537 til 1814 var Noregur hluti af Danaveldi og frá 1814 til 1905 var landið í konungssambandi við Svíþjóð. Noregur var hlutlaus í fyrri heimsstyrjöld, en í síðari heimsstyrjöld hernámu Þjóðverjar landið til stríðsloka.

Staðbundin stjórnvöld í Noregi eru á tveimur stjórnsýslustigum: fylki og sveitarfélög. Samar njóta sjálfsákvörðunarréttar og áhrifa á stjórn hefðbundinna landsvæða sinna í gegnum Samaþingið og Finnmerkurlögin. Noregur á í nánu samstarfi við Evrópusambandið og Bandaríkin og er hluti af Evrópska efnahagssvæðinu. Noregur er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, NATO, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og OECD. Noregur er hluti af Schengen-svæðinu. Norska er norrænt mál sem líkist dönsku og sænsku.

Noregur býr við norrænt velferðarkerfi sem byggist á jafnaðarhugsjónum. Norska ríkið á stóra eignarhluti í lykilgeirum eins og olíu- og gasvinnslu, námum, timburframleiðslu, útgerð og ferskvatnsframleiðslu. Um fjórðungur af vergri landsframleiðslu landsins kemur úr olíuiðnaðinum. Miðað við höfðatölu er Noregur stærsti framleiðandi olíu og jarðgass utan Mið-Austurlanda. Tekjur á mann eru þær fjórðu hæstu í heimi miðað við lista Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Heimsbankans. Norski olíusjóðurinn er stærsti þjóðarsjóður heims, metinn á 1,3 billjón dali.

Heiti breyta

Heitið Noregur kemur fyrir í heimildum frá miðöldum sem bæði „Noregur“ og „Norvegur“ og er talið merkja „norðurvegur“.[4] Í Frásögn Óttars háleygska frá um 880 kemur nafnið fyrir (á engilsaxnesku) sem Norðweg og „norðmanna land“ sem heiti á ströndinni frá Ögðum til Hálogalands. Norðmenn gætu þá hafa verið íbúar norðan fjallanna, „Austmenn“ austan þeirra og „Danir“ í Víkinni. Norðurvegur væri aftur í andstöðu við Austurveg (austan Eystrasalts), Vesturveg (til Bretlands) og „Suðurveg“ til Þýskalands. Aðrar orðmyndir frá miðöldum eru Nortuagia (Durham Liber Vitae), Nuruiak (Jalangurssteinarnir) og nuriki (rúnasteinn frá Noregi). Seinna var heitið túlkað sem samsetning úr Nor- og rige („ríki“, sbr. „Svíaríki“). Hugsanlega hefur þágufallsmyndin Norege haft þar áhrif. Núverandi ritháttur á norsku er frá 17. öld og gæti verið samdráttur á danska orðinu Norrige.[5]

Á nýnorsku heitir landið Noreg, en var áður Norig.[6] Á norðursamísku heitir það Vuodna („fjörður“), Nöörje á suðursamísku og Norja á kvensku.

Í fornsögunni „Hvernig Noregur byggðist“ í Flateyjarbók segir frá börnum Þorra sem eru sögð vera synirnir Nórr, Górr og dóttirin Gói. Þar segir að Nórr hafi lagt undir sig löndin vestan við Kjölinn og Noregur dregið nafn sitt af honum. Talið er að nafn sagnkonungsins sé dregið af landinu fremur en öfugt, en til er tilgáta um að nafnið sé dregið af norska orðinu nor, „sund“ eða „vík“.[7][4]

Saga breyta

 
Fornmyndir höggnar í grjót í Norður-Noregi

‍‍‍Fólk hefur búið í Noregi í yfir 12.000 ár. Fólkið fluttist frá Þýskalandi í suðri eða úr norðaustri, þ.e. frá Norður-Finnlandi og Rússlandi. Milli 5000 og 4000 fyrir Krist var landbúnaður fyrst hafinn í Oslóarfirði. Heimildir eru fyrir verslun við Rómverja.

Á 8. - 11. öld fóru margir norskir víkingar til Íslands, Færeyja og Grænlands og til Bretlandseyja. Þeir sem fóru til Íslands gerðu það meðal annars til að flýja ofríki Haralds hárfagra sem reyndi að leggja undir sig allan Noreg. Aðrir fóru vegna skorts á góðu landbúnaðarlandi í Vestur-Noregi og leituðu nýrra landsvæða. Ný siglingatækni, eins og langskipin, átti sinn þátt í útrásinni. Kristni breiddist út á 11. öld. Átök urðu í landinu vegna tilkomu kristninnar og Stiklastaðaorrusta var einn af atburðunum sem mörkuðu þau. Að lokum kristnaðist Noregur og varð Niðarós biskupsstóll landsins.

Árið 1349 gekk Svarti dauði og aðrar plágur yfir Noreg og urðu til þess að fólki fækkaði um helming. Á 14. öld varð Björgvin helsta verslunarhöfn Noregs en henni stjórnuðu Hansakaupmenn. Árið 1397 gekk Noregur í ríkjasamband með Svíþjóð og Danmörku í Kalmarsambandinu. Svíþjóð gekk úr sambandinu árið 1523 og úr varð ríkjasamband Danmerkur og Noregs.

Árið 1537 urðu siðaskiptin í Noregi. Konungsveldi var sett á laggirnar árið 1661 og danski konungurinn varð einvaldur. Námavinnsla hófst í stórum stíl á 17. öld og þar á meðal voru silfurnámur í Kongsberg og koparnámur í Røros. Árið 1814 gaf Danmörk Svíþjóð eftir yfirráð yfir Noregi. Noregur lýsti þó yfir sjálfstæði. Þann 17. maí 1814 fékk Noregur stjórnarskrá.

Iðnvæðing hófst upp úr 1840 en eftir 1860 fluttist fólk í stórum stíl til Norður-Ameríku.

Noregur varð sjálfstætt land 7. júní árið 1905 vegna sambandsslita Noregs og Svíþjóðar. Eftir það hefur 17. maí verið þjóðhátíðardagur Noregs.

Árið 1913 fengu norskar konur kosningarétt og urðu næstfyrstar í heiminum til að ná þeim áfanga. Frá því um 1880-1920 fóru norskir landkönnuðir að kanna heimskautasvæðin. Meðal þeirra mikilvirkustu voru Fridtjof Nansen, Roald Amundsen og Otto Sverdrup. Amundsen komst fyrstur manna á Suðurpólinn árið 1911.

Í byrjun 20. aldar urðu skipaflutningar og vatnsorka æ mikilvægari. Járnbrautir voru lagðar milli helstu þéttbýlisstaða. Efnahagurinn sveiflaðist og upp spruttu verkalýðshreyfingar. Þjóðverjar hernámu Noreg árið 1940 eftir bardaga við norskar og breskar hersveitir og stóð hernám þeirra til 1945. Ríkisstjórnin og konungsfjöldskyldan flúðu til London. Vidkun Quisling vann með nasistum og lýsti sig forsætisráðherra fyrst um sinn en síðar tók Þjóðverjinn Josef Terboven við taumunum.

Eftir síðari heimsstyrjöld varð Noregur stofnmeðlimur NATO árið 1949 en leyfði þó ekki erlendar herstöðvar eða kjarnavopn í landinu til að styggja ekki Sovétmenn. Landið gekk í fríverslunarbandalagið EFTA árið 1960.

Olía var uppgötvuð í Norðursjó árið 1969 og undir lok 20. aldar var Noregur einn af mestu olíuútflutningsaðilum heims. Equinor er stærsta olíufyrirtækið og á norska ríkið 2/3 hluta í því.

Ríkisstjórn Noregs er nú undir forystu Jonasar Gahr Støre.

Landfræði breyta

Strönd Noregs er mjög vogskorin og með ótal fjörðum sem ísaldarjökullinn mótaði. Sognfjörður er stærsti fjörðurinn og inn af honum ganga margir smáfirðir. Einnig eru margar eyjar undan ströndum Noregs. Eyjaklasinn Lófótur er rómaður fyrir náttúrufegurð. Jan Mayen og Svalbarði heyra undir Noreg. Skandinavíufjöll liggja frá norðri til suðurs í gegnum landið. Í fjalllendinu Jötunheimum eru jöklar; stærsti jökull fastalands Noregs, Jostedalsjökull, er þar og einnig hæsta fjallið, Galdhöpiggen (2469 m.). Mun stærri jöklar eru á Svalbarða (Austfonnajökull). Hornindalsvatnet er dýpsta vatn Evrópu.

Einstakir firðir, Geirangursfjörður og Nærøyfjörður, hafa verið settir á heimsminjalista UNESCO.

38% landins eru skógi vaxin. Af trjátegundum má helst nefna rauðgreni, skógarfuru, gráelri, ilmbjörk, hengibjörk, ilmreyni og eini. Sunnarlega má finna beyki og ask.

Heiðar í yfir 1000 metra hæð eru algengar í Noregi. Með þeim þekktari er Hardangervidda.

Dýralíf breyta

Dýralíf er fjölbreytt. Til dæmis finnast 90 tegundir spendýra, 250 tegundir staðfugla, 2800 tegundir háplantna, 45 tegundir ferskvatnsfiska, 150 tegundir sjávarfiska og 16.000 tegundir skordýra.

Í dag telja líffræðingar að aðeins 80-100 úlfar finnist í norsku óbyggðunum og er jarfastofninn litlu stærri. Uppi á heiðunum finnast læmingjar en þeir ganga í gegnum miklar stofnsveiflur með reglulegu millibili, þannig að stofninn nær hámarki reglulega á 11-12 ára fresti.

Á hálendisheiðinni Hardangervidda og í aðliggjandi fjöllum finnst síðasti villti stofn hreindýra í Evrópu. Hann telur nú um 15 þúsund dýr. Elg hefur fjölgað mjög í Noregi á undanförnum 50 árum og er stofninn geysistór þrátt fyrir að 40-50 þúsund dýr séu felld á ári. Bjórnum hefur einnig farnast vel í skjóli friðunar en eftir seinni heimsstyrjöld var heildarstofn hans í gjörvallri Evrópu aðeins rúmlega 500 dýr. Nú hefur hann, bæði í Noregi og víðar, numið gömul vatnasvæði að nýju.

Samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndasamtökunum teljast þrjár tegundir landspendýra vera í hættu á að hverfa úr norskri náttúru. Þetta eru skógarbjörn, úlfur og fjallarefur en þeim síðastnefnda hefur fækkað mjög í Noregi á síðustu öld, sennilega vegna hlýnunar. Við hlýnun sækir rauðrefurinn mun norðar og melrakkinn hefur ekki roð við honum í harðri samkeppni.

Flestar fuglategundir sem teljast til fuglafánu Noregs eru farfuglar. Harðgerðar tegundir eins og hrafn og rjúpa eru dæmi um tegundir sem þreyja þorrann í kaldri vetrartíðinni. Sumar fuglategundir fara langt suður á bóginn á veturna meðan aðrar leita aðeins niður á ströndina.

Fuglalífið í Noregi er afar fjölbreytt enda eru þar gjöful hafsvæði sem næra milljónir sjófugla, skógar sem hýsa milljónir fugla og heiðalönd sem eru heimkynni rjúpu og annarra tegunda. Í kjarrlendi eru akurhænur áberandi og í skógunum má sjá spætur, þiður og orra auk fjölda tegunda ugla og smærri ránfugla sem veiða þessa fugla auk urmuls smárra spendýra sem lifa í skógunum.

Í fuglafánu Noregs er fjöldi tegunda vatna- og votlendisfugla, svo sem andfuglar og rellur, auk þess sem svartfuglar eru algengir meðfram ströndinni. Haförninn er áberandi fugl sem lifir við hina löngu strandlengju Noregs. Langstærsti hluti heimsstofns hafarnarins lifir í Noregi eða á milli 3.500 og 4.000 fuglar en heimsstofninn er vel innan við 5.000 fuglar.[8]

Stjórnmál breyta

Stjórnsýslueiningar breyta

Fylki Noregs eru 15 og 357 sveitarfélög. Fylkin eru þessi:[9]

 
Fylki 2024[9]
# Fylki 2024 Höfuðstaður
3   Ósló - Oslo Ósló - Oslo
11   Ryggjafylki - Rogaland Stafangur - Stavanger
15   Mæri og Raumsdalur - Møre og Romsdal Molde - Molde
18   Norðurland - Nordland Boðøy eða Boðvin - Bodø
31   Østfold - Østfold Sarpsborg - Sarpsborg
32   Akershus - Akershus Ósló - Oslo
33   Buskerud - Buskerud Dröfn - Drammen
34   Innland - Innlandet Hamar - Hamar
39   Vestfold - Vestfold Tønsberg - Tønsberg
40   Þelamörk - Telemark Skiða - Skien
42   Agðir - Agder Kristiansand - Kristiansand
46   Vesturland - Vestland Björgvin - Bergen
50   |Þrændalög - Trøndelag Steinker - Steinkjer
55   Troms - Troms Tromsø - Tromsø
56   Finnmörk - Finnmark Vadsø - Vadsø



Landshlutar breyta

Noregi er skipt í fimm landshluta.

Efnahagslíf breyta

 
Hlutfallslegt virði útflutningsvara frá Noregi árið 2019.

Í Noregi er verg landsframleiðsla á mann sú önnur hæsta í Evrópu á eftir Lúxemborg og sú sjötta hæsta kaupmáttarjöfnuð. Noregur er í dag annað auðugasta land heims að nafnvirði og á stærsta varasjóð í heimi miðað við höfðatölu.[10] Samkvæmt CIA World Factbook lánar Noregur meira en landið skuldar.[11] Noregur var í efsta sæti vísitölu um þróun lífsgæða sex ár í röð (2001-2006) og náði því svo aftur árið 2009.[3] Lífskjör í Noregi eru með því besta sem gerist í heiminum. Tímaritið Foreign Policy setti Noreg í síðasta sæti lista yfir brostin ríki árin 2009 og 2023, þannig að landið var metið best virkandi og stöðugasta land heims. Í betra líf-vísitölu OECD var Noregur í 4. sæti og í þriðja sæti yfir teygni tekna milli kynslóða.[12][13]

 
Kort yfir landhelgi sem Noregur gerir tilkall til.

Norska hagkerfið er dæmigert blandað hagkerfi; auðugt kapítalískt velferðarríki með blöndu af frjálsum markaði og eignarhaldi ríkisins í lykilgeirum, undir áhrifum frá frjálslyndum stjórnum 19. aldar og stjórnum Verkamannaflokksins eftir síðari heimsstyrjöld. Aðgangur að heilbrigðiskerfi Noregs er gjaldfrjáls (fyrir utan 2000 króna árgjald fyrir alla yfir 16 ára aldri) og foreldrar fá 46 vikna foreldraorlof.[14] Ríkið hefur miklar tekjur af sölu náttúruauðlinda, þar á meðal frá olíuframleiðslu. Atvinnuleysi í Noregi er 4,8% og atvinnuþátttaka er 68%.[15] Fólk á vinnumarkaði er ýmist í vinnu eða í leit að vinnu.[16] 9,5% fólks á aldrinum 18-66 ára eru á örorkubótum[17] og 30% vinna hjá ríkinu, sem er hæsta hlutfall meðal OECD-ríkja.[18] Framleiðni á vinnustund er með því mesta sem gerist í heiminum.[19][20]

Jafnaðarhyggja einkennir norskt samfélag, þannig að launamunur á þeim hæst og lægst launuðu er miklu minni en í flestum öðrum vestrænum ríkjum.[21] Þetta endurspeglast í lágum Gini-stuðli Noregs.

Ríkið á stóra eignarhluti í lykilgeirum í iðnaði, eins og í olíuiðnaðinum (Equinor), vatnsaflsvirkjunum (Statkraft), álframleiðslu (Norsk Hydro), stærsta norska bankanum (DNB ASA) og fjarskiptafyritæki (Telenor). Í gegnum þessi stórfyrirtæki fer ríkið með um 30% af skráðum hlutabréfum í kauphöllinni í Osló. Ef óskráð fyrirtæki eru talin með er hlutur ríkisins jafnvel enn hærri (aðallega vegna eignarhalds á olíuleyfum). Noregur er áberandi í skipaflutningum og á sjötta stærsta kaupskipastól heims, með 1412 skip í norskri eigu.

 
Aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu (grænir) taka þátt í innri markaði Evrópusambandsins og eru innan Schengen-svæðisins.

Norðmenn höfnuðu ESB-aðild í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum 1972 og 1994. Noregur hefur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, ásamt Íslandi og Liechtenstein, í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn kveður á um innleiðingu Evrópusambandslöggjafar í norsk lög.[22] Samningurinn nær ekki að öllu leyti yfir suma geira, eins og landbúnað, olíu og fisk. Noregur á líka aðild að Schengen-samkomulaginu og fleiri samningum Evrópusambandsríkja.

Noregur á mikið af náttúruauðlindum, eins og olíu- og gaslindir, vatnsafl, fiskimið, skóga og jarðefni. Á 7. áratug 20. aldar uppgötvuðust stórar olíu- og jarðgaslindir undan ströndum Noregs sem leiddu til mikils vaxtar í efnahagslífinu. Að hluta hefur Noregur náð að skapa bestu lífskjör heims með því að nýta þessar ríkulegu auðlindir miðað við smæð þjóðarinnar. Árið 2011 komu 28% af tekjum norska ríkisins úr olíuiðnaðinum.[23] Eftirlaunasjóður norska ríkisins var stofnaður árið 1990 til að halda utan um tekjur ríkisins af olíuvinnslunni. Árið 2011 var þessi sjóður orðinn stærsti ríkisfjárfestingasjóður heims.[24]

Íbúar breyta

Tungumál breyta

Tungumál Norðmanna er norska (sem hefur tvenns konar opinbert ritmál, bókmál og nýnorsku), ásamt samískum tungumálum. Norskt talmál einkennist af miklum mállýskumun. Að nota mállýsku í venjulegu talmáli er jafn algengt hjá þeim sem rita bókmál eins og þeim sem nota nýnorsku sem ritmál.

Tilvísanir breyta

  1. „Arealstatistics for Norway 2019“. Kartverket, mapping directory for Norway. 2019. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júní 2019. Sótt 23. mars 2019.
  2. „Population, 2024-01-01“ (enska). Statistics Norway. 21. febrúar 2024. Sótt 25. febrúar 2024.
  3. 3,0 3,1 „2022 Human Development Index Ranking“ (enska). United Nations Development Programme. 13. mars 2023. Sótt 16. mars 2024.
  4. 4,0 4,1 Heide, Eldar (2017). „Noregr tyder nok vegen mot nord, likevel“. Namn og nemne. 33: 13–37.
  5. Sandøy, Helge, 1997: "Norvegr eller Noríki?". I Arnold Dalen (red.): Gransking av norsk mål i hundre år etter Ivar Aasen. Rapport frå faghistorisk seminar i Trondheim 3. og 4. oktober 1996. Skrifter. Det kongelige norske viderskabers selskab 3, 1997. Trondheim: Tapir. 91-104.
  6. „Noreg“. Språkrådet (norskt bókmál). Sótt 30. janúar 2021.
  7. „Nórr“. Málið.is. Sótt 2.9.2023.
  8. Getiði sagt mér eitthvað um dýralíf í Noregi? Vísindavefur. Skoðað 17. janúar 2016.
  9. 9,0 9,1 „Fylkesinndelingen fra 2024“ (norska). Regjeringen. 5. júlí 2022. Sótt 1. mars 2024.
  10. Baltais, Simon (2010). „Environment And Economy: Can They Co-Exist In The "Smart State"?“. Issues. 91: 21–24. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. apríl 2015. Sótt 20. mars 2015.
  11. Central Intelligence Agency. „Norway“. The World Factbook. Sótt 20. júní 2013.
  12. A Family Affair: Intergenerational Social Mobility across OECD Countries. OECD, 2010. Retrieved 27 August 2013.
  13. „OECD Better Life Index“. OECD. Sótt 27. ágúst 2013.
  14. „NAV – Foreldrepenger ved fødsel“. Nav.no. 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. febrúar 2010. Sótt 18. apríl 2011.
  15. „Labour force survey, seasonally-adjusted figures, September 2016“. Statistics Norway. september 2016. Sótt 17. desember 2016.
  16. „Labour force survey – About the statistics“. Ssb.no. 30. október 2013. Sótt 15. febrúar 2014.
  17. „Statistical Yearbook of Norway 2013, Table 144: National Insurance. Disability pension, by county. 31 December 2012“. Ssb.no. 31. desember 2012. Sótt 15. febrúar 2014.
  18. „Dette er Norge“ (norska). Statistics Norway. Sótt 2. janúar 2013.
  19. Bureau of Labor Statistics. „International Comparisons of GDP per Capita and per Hour, 1960–2010“ (PDF). Division of International Labor Comparisons. Sótt 16. mars 2016.
  20. "Hourly Compensation Costs, U.S. Dollars and U.S. = 100." United States Department of Labor: Bureau of Labor Statistics, 21 December 2011. Web. 18 September 2012.
  21. Central Intelligence Agency. „Country Comparison: Distribution of Family Income – GINI Index“. The World Factbook. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2011. Sótt 20. júní 2013.
  22. „EØS-loven – EØSl. Lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS) m.v. (EØS-loven)“. Lovdata.no. Sótt 14. febrúar 2009.
  23. "Norway," U.S. Department of State
  24. „Norski olíusjóðurinn stærstur“. RÚV. 11.6.2011. Sótt 2.9.2023.

Tengt efni breyta