Líbanon (arabíska: لبنان‎ Libnān eða Lubnān; líbönsk arabíska: [lɪbˈneːn]; arameíska: לבנאנ) er land fyrir botni Miðjarðarhafs í Mið-Austurlöndum með landamæri að Sýrlandi í austri og norðri og Ísrael í suðri.

الجمهوريّة اللبنانيّة
Al Jumhuriyah al Lubnaniyah
Fáni Líbanons Skjaldarmerki Líbanons
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
ekkert
Þjóðsöngur:
Koullouna Lilouataan Lil Oula Lil Alam
Staðsetning Líbanons
Höfuðborg Beirút
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Michel Aoun
Forsætisráðherra Hassan Diab
Sjálfstæði undan Frakklandi
 - Yfirlýst 26. nóvember 1941 
 - Viðurkennt 22. nóvember 1943 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
161. sæti
10.452 km²
1,8
Mannfjöldi
 - Samtals (2014)
 - Þéttleiki byggðar
112. sæti
6.859.408
560/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 - Samtals 91 millj. dala (90. sæti)
 - Á mann 15.049 dalir (66. sæti)
VÞL (2018) Decrease2.svg 0.730 (93. sæti)
Gjaldmiðill líbanskt pund (LBP)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .lb
Landsnúmer 961

Elstu merki um siðmenningu í Líbanon eru um sjö þúsund ára gömul. Í fornöld var landið norðurhluti Kananslands. Fönikumenn ríktu yfir Líbanon frá 1550 til 539 f.Kr. þegar Kýros mikli lagði landið undir Persaveldi. Alexander mikli lagði Týros undir sig, brenndi borgina og seldi íbúana í þrældóm 332 f.Kr. Pompeius vann Líbanon og Sýrland af Selevkídum 64 f.Kr. Kristnir munkar (maronítar) stofnuðu munklífi á Líbanonfjalli á 4. öld. Arabar lögðu Sýrland undir sig á 7. öld. Á 11. öld spratt hreyfing Drúsa upp úr sjía-grein íslam. Snemma á 14. öld féll Líbanon í hendur mamlúka frá Egyptalandi og síðar Tyrkjaveldi. Eftir fyrri heimsstyrjöld varð Líbanon hluti af Franska verndarsvæðinu í Sýrlandi og Líbanon sem Stór-Líbanon. Árið 1926 stofnuðu Frakkar Líbanska lýðveldið sem lýsti yfir sjálfstæði árið 1943 þegar Frakkland var hernumið af Þjóðverjum. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar gekk Líbanon í gegnum blómaskeið sem miðstöð fjármálaþjónustu í Mið-Austurlöndum. Landið var þá kallað „Sviss Mið-Austurlanda“.

Líbanon studdi hin arabaríkin í fyrsta stríði Araba og Ísraelsmanna 1948, en gerði ekki innrás í Ísrael. Um 100.000 palestínskir flóttamenn flúðu til Líbanon vegna stríðsins. Ósigur PLO í Jórdaníu varð til þess að fjölga enn flóttamönnum í Líbanon sem leiddi til borgarastyrjaldar árið 1975. Stríðinu lauk árið 1990 en Ísraelsher hvarf ekki frá suðurhéruðum landsins fyrr en árið 2000 og Sýrlandsher ekki fyrr en 2005. Árið 2006 réðist Ísraelsher á landið til að stöðva eldflaugaárásir Hezbollah á skotmörk í norðurhluta Ísraels. Aftur kom til átaka árið 2008 milli líbanskra stjórnvalda og Hezbollah-samtakanna. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi sem hófst árið 2012 hefur aftur leitt til átaka í Líbanon, en talið er að tæplega 700.000 sýrlenskir flóttamenn séu í landinu.

Íbúafjöldi Líbanon var áætlaður rúmlega fjórar milljónir árið 2010, en ekkert formlegt manntal hefur farið fram í landinu frá 1932 vegna væringa milli ólíkra trúarhópa. Talið er að tæp 60% íbúa séu múslimar (þar af helmingur sjíamúslimar og helmingur súnnítar) og tæp 40% kristin (þar af rúmlega 20% maronítar). Langflestir tala líbanska arabísku en um 40% tala líka frönsku sem nýtur sérstakrar stöðu. Efnahagur Líbanon hvílir á fjölbreyttum grunni en stór hluti útflutnings er gull, demantar og góðmálmar. Nýlega hefur jarðolía fundist í Líbanon og í hafinu milli Líbanon og Kýpur.

HeitiBreyta

Líbanon dregur nafn sitt af Líbanonfjalli en nafn þess kemur úr fönísku, lbn, sem merkir „hvítt“ og vísar til snævi þaktra tinda þess.

Heitið kemur fyrir í textum frá miðri bronsöld úr bókasafninu í Eblu og á þremur af tólf töflum Gilgameskviðu. Í fornegypskum heimildum kemur nafnið fyrir sem Rmnn (þar sem l verður r og b verður m). Heitið kemur margoft fyrir í hebresku biblíunni sem לְבָנוֹן.

Sem heiti á stjórnsýslueiningu, fremur en fjalli, kemur heitið fyrst fyrir eftir umbætur Ottómana 1861 sem Mútassarifat Líbanonfjalls (arabíska: متصرفية جبل لبنان‎; tyrkneska: Cebel-i Lübnan Mutasarrıflığı) og var áfram notað þegar Þjóðabandalagið stofnaði verndarríkið Stór-Líbanon árið 1920. Það fékk svo sjálfstæði sem Lýðveldið Líbanon (arabíska: الجمهورية اللبنانية‎ 'al-Jumhūrīyah al-Lubnānīyah') árið 1943.

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.