Skjaldarmerki Danmerkur
Skjaldarmerki Danmerkur eru þrjú stikandi blá ljón með kórónur á höfði ásamt níu hjörtum á gylltum feldi. Kórónur og klær ljónanna eru gyllt, en hjörtun rauð.
Elsta dæmið um notkun skjaldarmerkisins er innsigli Knúts 6. frá um 1194. Skjaldarmerkið kemur fyrir í skjaldarmerkjabók árið 1270. Upphaflega sneru ljónin höfðum sínum fram og fjöldi og útlit hjarta var breytilegur. Hjörtun eru líka oft kölluð blöðkur (sbr. horblaðka). Núverandi útgáfa skjaldarmerkisins er frá 1819 en þá var norska ljónið fjarlægt úr samsetta konungsskjaldarmerkinu. Skjaldarmerkinu var síðast breytt með konunglegri tilskipun árið 1972.
Til 1959 var Danmörk með tvö skjaldarmerki: stóra og litla skjaldarmerkið. Því var breytt þannig að stóra skjaldarmerkið varð skjaldarmerki dönsku konungsfjölskyldunnar en litla skjaldarmerkið skjaldarmerki ríkisins.
Konungsskjaldarmerki
breytaKonungsskjaldarmerki Danmerkur er mun flóknara. Það er fjórskipt með silfruðum krossi með rauðum jaðri. Í fyrsta og fjórða hluta eru skjaldarmerki Danmerkur. Í öðrum hluta er skjaldarmerki Suður-Jótlands og í þriðja hluta eru skjaldarmerki Grænlands og Færeyja á bláum grunni undir þremur kórónum sem eru merki Kalmarsambandsins (samanber skjaldarmerki Svíþjóðar). Til 1948 var skjaldarmerki Íslands (Fálkamerkið) þar líka. Í miðju skjaldarmerkinu er lítill skjöldur með merki Aldinborgarættar.
Skjaldberar eru tveir villimenn. Umhverfis skjaldarmerkið hanga keðjur Fílaorðunnar og Dannebrogsorðunnar. Yfir öllu saman er svo hermelínfóðruð konungsskikkja og efst situr kóróna Kristjáns 5.