Skánn (sænska og danska: Skåne) er syðsta hérað Svíþjóðar með landamæri í norðri að Hallandi, Smálöndum og Blekinge. Íbúafjöldi er tæpar 1,4 milljónir (2019).

Söguágrip breyta

Rómverjar kölluðu svæðið Scania og töldu það vera eyju. Einnig gæti nafnið verið tengt germönskum tungumálum. Nafnið finnst í enskum bókmenntum á 9. öld, á rúnasteinum á 11. öld (Skanö) og í Íslendingasögum sem Skáney. Frá tíma Haralds blátannar var svæðið hluti af Danmörku og til ársins 1658 (Hróarskeldusáttmálinn) en Skánn var mikilvægur hluti danska ríkisins á 15. og 16. öld. Lundur var mikilvægur kirkjustaður á fyrstu öldum frá um 1000. Danir náðu yfirráðum í stuttan tíma (1676–1679 (Skánska stríðið) og 1711) en héraðið varð formlega hluti af Svíþjóð árið 1720. Frá 1658 til 1996 var Skáni skipt í tvær sýslur eða lén (län), þ.e. Kristianstad og Malmöhus (Landskrona län og Helsingborgs län sameinuðust Malmö á 17. öld) þar sem landshöfðingjar (landshövding) voru skipaðir af stjórnvöldum.

Samfélag breyta

 
Sveitarfélög.

Á Skáni eru 33 sveitarfélög. Höfuðstaður Skánar og stærsta borgin er Malmö við Eyrarsund. Hún er þriðja stærsta borg landsins og er tengd Danmörku í gegnum Eyrarsundsbrúnna. Aðrar stærri borgir eru Lundur og Helsingjaborg. Skánska er mállýska héraðsins.

Stærstu þéttbýlisstaðir breyta

Landslag og náttúra breyta

 
Kopparhatten við Söderåsen.

Skánn er flatlent land fyrir utan hæðir í norðri. Laufskógabelti fylgir Linderödsåsen-hæðarásnum í stefnu norðaustur-suðvestur. Barrskógar eru nálægt mörkum héraðsins við Smálönd í norðaustri. Vötn eru sæmilega mörg en ná ekki mikilli stærð miðað við annars staðar í landinu. Ivösjön, 55 km2, er stærsta vatnið. Hæsti punkturinn er við Söderåsen, 212 metrar. Sléttur eru í suðri; Söderslätt í suðvestri og Österlen í suðaustri eru frjósöm landbúnaðarsvæði en landbúnaður er stundaður á um 70% svæðis Skánar sem er það mesta í Svíþjóð. Sykurrófur og repja eru mikilvægar nytjategundir og einnig eru ræktaðir ávextir eins og epli og jarðarber.

Ársmeðalhiti er 8,4 °C sem er það hæsta í Svíþjóð. Meðalhiti í febrúar eru um frostmark en í júlí er meðalhiti 17,1 °C.

Þjóðgarðar breyta

   Þessi Svíþjóðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.