Stríðið í Afganistan (2001–2021)

Stríðið í Afganistan er stríð sem hófst þegar Bandaríkjamenn og aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins réðust inn í Afganistan árið 2001. Stríðið entist í tæplega tuttugu ár og var lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna.

Stríðið í Afganistan
Hluti af stríðinu gegn hryðjuverkum

Bandarískir hermenn stíga um borð í herþyrlu í Afganistan árið 2003.
Dagsetning7. október 200130. ágúst 2021 (19 ár, 10 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur Talíbana

  • Bandaríkin hertaka Afganistan og steypa af stóli stjórn Talíbana árið 2001.
  • Talíbanar halda áfram skæruhernaði gegn nýrri stjórn Afganistans.
  • Bandaríkin draga her sinn frá Afganistan árið 2021 og landið fellur í hendur Talíbana stuttu síðar.
Stríðsaðilar
Fáni Bandaríkjana Bandaríkin
ISAF
Afganistan Íslamska lýðveldið Afganistan
Afganistan Talíbanar
Leiðtogar

Fjöldi hermanna

  • Afganski herinn: 352.000

  • Talíbanar: Um 60.000
Mannfall og tjón
Alls um 69.698+ drepnir Alls um 69.400+ drepnir
Almennir borgarar drepnir: 38.480+[1][2]

Á fyrsta kafla stríðsins sigruðu Bandaríkin og bandamenn þeirra stjórn Talíbana í Afganistan og komu á fót nýrri ríkisstjórn. Talíbanar háðu skæruhernað gegn nýju stjórninni og alþjóðlegum öryggissveitum í landinu í um tuttugu ár og náðu smám saman aftur töluverðu landsvæði.

Árið 2020 ákváðu Bandaríkjamenn að draga herlið sín frá landinu en þegar hafið var að flytja hermenn burt frá Afganistan næsta ár hófu Talíbanar leiftursókn gegn afgönskum stjórnvöldum og sigruðu stjórnarherinn á stuttum tíma. Talíbanar endurheimtu afgönsku höfuðborgina Kabúl þann 15. ágúst 2021 og höfðu aftur náð yfirráðum í Afganistan þegar Bandaríkjamenn hurfu endanlega frá landinu þann 30. ágúst.

Söguágrip

breyta

Eftir árásina á tvíburaturnana í New York þann 11. september árið 2001 lýsti George W. Bush Bandaríkjaforseti yfir stríði gegn hryðjuverkum. Þegar kom á daginn að hryðjuverkasamtökin Al-Kaída og foringi þeirra, Osama bin Laden, hefðu staðið að baki árásinni beindust sjónir Bandaríkjamanna til Afganistan. Bin Laden og aðrir foringjar samtakanna dvöldust þar í skjóli ríkisstjórnar Talíbana, sem höfðu komist til valda í landinu árið 1996.

Bandaríkjamenn sendu Talíbönum úrslitakosti og heimtuðu að bin Laden yrði framseldur í varðhald Bandaríkjahers, en Talíbanar höfnuðu þessum kröfum.[3] Bandaríkjamenn hófu í kjölfarið sprengjuárásir á Afganistan þann 7. október 2001 með stuðningi Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Bandaríska innrásarhernum tókst að hertaka Kabúl í desember árið 2001 og binda þannig enda á stjórn Talíbana í landinu. Osama bin Laden og öðrum höfuðpaurum Al-Kaída tókst hins vegar að flýja yfir landamærin til Pakistan.[4]

Eftir að hafa hertekið Afganistan settu Bandaríkin á fót nýja ríkisstjórn í landinu. Árið 2004 voru haldnar frjálsar kosningar þar sem Hamid Karzai var kjörinn forseti Afganistans.[5] Um leið var kjörið nýtt þing og ný stjórnarskrá sett fyrir landið.

Þrátt fyrir að Talíbönum hefði verið komið frá völdum var stríðinu þó langt því frá að vera lokið. Frá árinu 2002 söfnuðu Talíbanar liði við landamæri Pakistans og hófu skæruhernað gegn nýju ríkisstjórninni og erlendum stuðningsmönnum hennar árið 2005. Á árunum 2007 til 2008 tókst Talíbönum að ná völdum á ný í suður- og austurhluta Afganistans. Til þess að stemma stigu við þessari þróun ákvað Barack Obama Bandaríkjaforseti á árunum 2009 til 2010 að fjölga verulega bandarískum hermönnum í Afganistan og styrkja uppbyggingu afganska ríkishersins.[6]

Árið 2011 var Osama bin Laden drepinn í árás sérsveita Bandaríkjahers á fylgsni hans í Pakistan. Í kjölfarið var bandarískum hermönnum í Afganistan fækkað nokkuð og voru þeir orðnir um 10.000 árið 2011. Árið 2014 tilkynntu Bandaríkin, Bretland og NATÓ að formlegum hernaðaraðgerðum þeirra í Afganistan væri lokið en að fámennur hópur hermanna yrði áfram í landinu til að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi.[7]

Tugþúsundir fólks hafa látið lífið í stríðinu. Árið 2017 voru enn um 13.000 erlendir hermenn staðsettir í Afganistan til að berjast gegn Talíbönum.[8]

Endalok stríðsins

breyta

Þann 29. febrúar árið 2020 undirrituðu samningamenn Bandaríkjamanna og Talíbana samkomulag í viðleitni til að binda enda á stríðið. Samkomulagið gerði ráð fyrir því að Bandaríkjamenn og bandalagsríki þeirra drægju á næstu fjórtán mánuðum allt herlið sitt frá Afganistan að því gefnu að Talíbanar stæðu á þeim tíma við tiltekin skilyrði, meðal annars að ráðast ekki gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra og leyfa ekki al-Kaída og öðrum öfgahreyfingum að starfa á yfirráðasvæði sínu.[9]

Joe Biden Bandaríkjaforseti ákvað í apríl 2021 að kalla alla hermenn heim fyrir september það ár.[10] Í kjölfarið ákvað NATÓ að draga herlið sitt burt fyrir sama tíma.[11] Eftir að Bandaríkjamenn hófu að draga herafla sinn burt frá Afganistan hófu Talíbanar leiftursókn um landið og hertóku fjölda héraðshöfuðborga á stuttum tíma.[12] Þann 15. ágúst höfðu Talíbanar umkringt Kabúl og viðræður voru hafnar um valdfærslu til þeirra frá stjórn Ashrafs Ghani forseta.[13] Stuttu síðar flúði Ghani frá Afganistan og Talíbanar hertóku Kabúl án verulegrar mótspyrnu.[14]

Síðustu bandarísku hermennirnir yfirgáfu Afganistan þann 30. ágúst 2021.[15]

Tilvísanir

breyta
  1. Daniel Brown (9. nóvember 2018). „The wars in Iraq and Afghanistan have killed at least 500,000 people, according to a new report that breaks down the toll“. Business Insider. Sótt 10. maí 2019.
  2. Neta Crawford (2016). „Update on the Human Costs of War for Afghanistan and Pakistan, 2001 to mid-2016“ (PDF). brown.edu. Sótt 10. maí 2019.
  3. Björn Malmquist (26. febrúar 2017). „Þrátefli í Afganistan“. Kjarninn. Sótt 10. maí 2019.
  4. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 299. ISBN 978-9979-3-3683-9.
  5. Davíð Logi Sigurðsson (18. september 2005). „Brothætt staða í Afganistan“. mbl.is. Sótt 10. maí 2019.
  6. „Afganistan“. Globalis. Sótt 10. maí 2019.
  7. Kristinn Haukur Guðnason (22. ágúst 2021). „Hið óvinnanlega stríð“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. apríl 2022. Sótt 22. ágúst 2021.
  8. Eric Walsh (9. febrúar 2017). „Trump speaks with Afghan leader, U.S. commander calls for more troops“. Reuters. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2017. Sótt 10. maí 2019.
  9. Ólöf Ragnarsdóttir (29. febrúar 2020). „Bandaríkin og Talíbanar undirrituðu friðarsamkomulag“. RÚV. Sótt 29. febrúar 2020.
  10. Samúel Karl Ólason (13. apríl 2021). „Ætla að kalla hermenn heim fyrir fyrsta september“. Vísir. Sótt 13. apríl 2021.
  11. Ævar Örn Jósepsson (15. apríl 2021). „Nató hættir aðgerðum í Afganistan“. RÚV. Sótt 15. apríl 2021.
  12. Samúel Karl Ólason (12. ágúst 2021). „Valta yfir stjórnarherinn: Ríkisstjórnin býðst til að deila völdum með Talibönum“. Vísir. Sótt 13. ágúst 2021.
  13. „Yfirvöld í Kabúl gefast upp“. mbl.is. 15. ágúst 2021. Sótt 15. ágúst 2021.
  14. Þorvarður Pálsson (15. ágúst 2021). „Af­ganski for­setinn hefur yfir­gefið landið“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2021. Sótt 15. ágúst 2021.
  15. Ari Brynjólfsson; Ingunn Lára Kristjánsdóttir (30. ágúst 2021). „Síðasti Kaninn yfirgefur Kabúl“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. apríl 2022. Sótt 30. ágúst 2021.
   Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.