Þjóðfundurinn 1851

Þjóðfundurinn 1851 var afdrifaríkur atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Kallað hafði verið til fundarins í stað reglulegs Alþingis, sem hafði verið endurreist sex árum áður. Fundurinn var haldinn á sal Lærða skólans í Reykjavík þann 9. ágúst 1851, en kosið hafði verið til fundarins sumarið áður. Á fundinum átti að taka fyrir mál er vörðuðu stjórnskipun Íslands eftir afnám einveldis í Danmörku 1848. Til umræðu var lagafrumvarp dönsku stjórnarinnar sem fól í sér að Ísland yrði innlimað í Danmörku, landið hefði sömu lög og reglur og Danmörk, Alþingi yrði amtráð, en Íslendingar fengju sex fulltrúa á danska þinginu. Þetta var í andstöðu við ályktanir Þingvallafundar sumarið áður þar sem fundarmenn lýstu þeirri ósk að Ísland yrði sambandsland Danmerkur en ekki hluti hennar.[1]

Frumvarpið var áður tekið fyrir í stjórnlaganefnd sem ræddi það í tvær vikur. Þjóðkjörnu fulltrúarnir voru andvígir frumvarpinu þar sem réttindi Íslendinga væru nær engin og lítið tillit tekið til óska þeirra. Nefndin samdi því annað frumvarp að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Trampe sá fram á að þjóðkjörnu fulltrúarnir myndu fella stjórnarfrumvarpið og sleit því fundinum strax, áður en til atkvæðagreiðslu kæmi. Mótmælti Jón Sigurðsson þá í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem haft væri í frammi. Flestir íslensku fulltrúarnir risu þá úr sætum og sögðu hin fleygu orð, sem síðan eru oft kennd við Jón: „Vér mótmælum allir.“[2]

Í tengslum við Lýðveldishátíðina á Þingvöllum sumarið 1944 var ákveðið að fá Gunnlaug Blöndal til að gera stórt sögulegt málverk af þjóðfundinum. Fullklárað málverkið var hengt upp í anddyri Alþingishússins árið 1956.

Orðaskipti á fundinum

breyta

Þann 8. ágúst boðaði þingforseti, Páll Melsteð, til fundar um hádegi daginn eftir, en þá mundi stiftamtmaður bera fram erindi nokkurt við fundarmenn. Fundur þessi, sem varð einn hinn sögulegasti í þingsögu Íslendinga, hófst á tilsettum tíma. Tók Trampe þá til máls og var allþungorður í garð fundarmanna og þó einkum stjórnlaganefndarinnar. Kvað hann málum nú í óvænt efni komið, en tilgangslaust væri að halda slíku áfram og myndi hann því slíta fundinum þá þegar.

Trampe: „Og lýsi ég því yfir, í nafni konungs...“

Jón Sigurðsson greip þá fram í: „Má ég biðja mér hljóðs, til að forsvara aðgerðir nefndarinnar og þingsins?“

Páll Melsteð: „Nei.“

Trampe: „...að fundinum er slitið“.

Jón: „Þá mótmæli ég þessari aðferð...“

Um leið og Trampe og Páll Melsteð þingforseti viku frá sætum sínum, mælti Trampe: „Ég vona, að þingmenn hafi heyrt, að ég hef slitið fundinum í nafni konungs.“

Jón: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“

Þá risu þingmenn upp og mæltu nálega í einu hljóði: „Vér mótmælum allir.“

Þannig lauk þjóðfundinum. [3]

Þjóðfundarmenn

breyta

Konungkjörnir voru þeir sr. Halldór Jónsson prestur á Hofi í Vopnafirði, sr. Helgi Thordersen biskup (konungkjörinn 1845–65), sr. Pétur Pétursson forstöðumaður Prestaskólans í Reykjavík, síðar biskup (konungkjörinn 1849–87), Þórður Jónassen, dómari (konungkjörinn 1845–59 og 1869–75), og Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari (konungkjörinn 1845–56).

Tilvísanir

breyta
  1. „Þingvallafundurinn“. Undirbúningsblað undir Þjóðfundinn að sumri 1851. 1850.
  2. „Vér mótmælum allir: Mynd af lokasíðu fundargerðar þjóðfundarins“. Skjaladagur.is. 12. nóvember 2005.
  3. Þorkell Jóhannesson (1951). „Þjóðfundurinn 1851“. Lesbók Morgunblaðsins. 26 (28): 357–361.

Tenglar

breyta