Fornsteinöld er tímabil í mannkynssögunni sem nær frá þeim tíma þegar tegundahópurinn Hominini greindist frá simpönsum fyrir um 2,6 milljónum ára til upphafs nýsteinaldar fyrir um 12.000 árum síðan við lok pleistósentímabilsins. Þetta tímabil nær því yfir meira en 99% af sögu mannsins í árum talið. Það einkennist af notkun einfaldra steinverkfæra. Á þessum tíma þróuðust nokkrar tegundir manna en aðeins ein þeirra, nútímamaður, lifði fram á nýsteinöld svo vitað sé. Á þessum tíma skiptust á ísaldir og hlýskeið.

Höfuðkúpa heidelbergmannsins sem var forveri neanderdalsmanna

Fyrir um 1,5 til 2 milljónum ára hóf maðurinn að setjast að utan Afríku. Um 500.000 ára gamlar menjar eru til um heidelbergmanninn í Evrópu, sem síðar varð neanderdalsmaðurinn. Nútímamenn urðu til í Austur-Afríku fyrir um 200.000 árum og fyrir um 50.000 árum fóru þeir að dreifa sér út um heiminn. Talið er að menn hafi komið til Ástralíu fyrir 40-50.000 árum og Japan fyrir um 30.000 árum. Fyrir um 29.000 árum voru menn í Síberíu norðan við norðurheimskautsbaug og undir lok síðfornsteinaldar höfðu menn farið yfir Beringssund á landbrú til Ameríku.

Fornsteinöld skiptist í árfornsteinöld (frá því fyrir 2,6 milljón árum þar til fyrir 300.000 árum), sem markast af notkun elstu steinverkfæra, miðfornsteinöld (frá því fyrir 300.000 þar til fyrir 30.000 árum), þegar flóknari steinverkfæri höggvin úr steinkjarna komu fram á sjónarsviðið, og síðfornsteinöld (frá því fyrir 50.000 árum þar til fyrir um 10.000 árum), sem einkennist af mikilli aukningu minja um enn flóknari steinverkfæri úr tinnusteini og fiskveiðar með skutlum og önglum gerðum úr beinum.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.