Föll í málfræði
Íslensk föll
Nefnifall
Þolfall
Þágufall
Eignarfall
Ávarpsfall
Tímaeignarfall
Föll í öðrum tungumálum

Áhrifsfall
Ávarpsfall
Deildarfall
Eignarfall
Eignartilvísunarfall
Fjarverufall
Forsetningarfall
Íferðarfall
Íverufall
Nefnifall
Nærverufall
Samanburðarfall
Samvistarfall
Staðarfall
Sviptifall
Tilgangsfall
Tækisfall
Úrferðarfall
Verufall
Virðingarfall
Þágufall
Þolfall
Þollsfallsleysingisfall

Eignarfall (skammstafað sem ef.) er fall sem fallorð geta staðið í. Ýmsar forsetningar stýra eignarfalli og í sumum málum stýra ýmsar sagnir eignarfalli. Einnig getur eignarfallið staðið með öðru fallorði og gefið til kynna ákveðin tengsl þess, sem orðið í eignarfalli stendur fyrir, og þess, sem stýrandi orð stendur fyrir.

Eignarfall getur m.a. gefið til kynna:

 • uppruna („menn Rómar“, þ.e. menn frá Róm)
 • einkenni („maður margra orða“)
 • stærð („tveggja metra langur“)
 • heild sem stýrandi orð er hluti af („helmingur þjóðarinnar“)
 • eign („bók Halldórs“)
 • geranda sagnarmerkingar stýrandi orðs („dómur Jóns“, þ.e. Jón dæmir)
 • andlag sagnarmerkingar stýrandi orðs („sýknun Guðmundar“, þ.e. Guðmundur var sýknaður)
 • tíma („kvölds og morgna“)

Mörg tungumál hafa eignarfall, þeirra á meðal: arabíska, enska, finnska, georgíska, gríska, hollenska, írska, íslenska, latína, litháíska, pólska, rússneska, sanskrít, og þýska.

Eignarfall í íslensku

breyta
Föll í íslensku
Nefnifall
Þolfall
Þágufall
Eignarfall

Eignarfall er eitt af fjórum föllum í íslensku. Auk þess að vera notað með forsetningum, eins og „til“, og með örfáum sögnum, eins og „sakna“, getur aukafallsliður í eignarfalli verið notaður á eftirfarandi hátt í íslensku:

 • Eiginlegt eignarfall: Gefur til kynna eiganda. Dæmi: „Þetta er bók Guðmundar“.
 • Eignarfall heildarinnar: Gefur til kynna heildina sem stýrandi orð er hluti af. Dæmi: „Margir þingmannanna“.
 • Leiðareignarfall: eignarfall án sérstakt fallvalds sem vísar til ferðarinnar eða leiðarinnar sem farin er, t.d. „fara leiðar sinnar“.
 • Tímaeignarfall: Gefur til kynna hvenær eitthvað gerist. Dæmi: „Drengurinn les ljóð kvölds og morgna“.
 • Útskýringar- eða skilgreiningareignarfall (genetivus definitivus): Er eignarfall sem skilgreinir eða útskýrir. Dæmi: Gjallarhorn. Eignarfallið Gjallar- er hér ekki fall eignarinnar. Þetta merkir ekki: hornin hennar Gjallar. Gjallarhorn er þá hornið sem er eða heitir Gjöll, hin háværa, enda Gjallarhorn lúður. Þetta sama skilgreinandi eignarfall er trúlega að finna í Fenrisúlfur (úlfurinn Fenrir) og í nútímamáli er það í nokkrum samsetningum, svo sem Ísafjarðarkaupstaður og Akureyrarbær.

Sjá einnig

breyta

Eignarfall í forngrísku

breyta

Eignarfall í forngrísku getur m.a. verið notað á eftirfarandi hátt:

 • Genitivus subiectivus: Eignarfall gerandans; gefur til kynna geranda sagnarmerkingar stýrandi orðs.
 • Genitivus obiectivus: Andlagseignarfall; gefur til kynna andlag sagnarmerkingar stýrandi orðs.
 • Genitivus possessivus: Eiginlegt eignarfall; gefur til kynna eiganda.
 • Genitivus partitivus: Eignarfall heildarinnar; gefur til kynna heildina sem stýrandi orð er hluti af.
 • Genitivus descriptivus: Eignarfall lýsingarinnar; lýsir nánar stýrandi orði.
 • Genitivus qualitatis: Eignarfall einkennis; gefur til kynna eiginleika sem stýrandi orð hefur.
 • Genitivus definitivus: Eignarfall skilgreiningarinnar; getur staðið með stýrandi orði til að skilgreina nánar.
 • Genitivus pretii: Eignarfall verðleikans; gefur til kynna hvers virði eitthvað er.
 • Genitivus temporis: Tímaeignarfall; gefur til kynna innan hvaða tíma eitthvað á sér stað.
 • Genitivus separativus: Eignarfall aðskilnaðarins; gefur til kynna aðskilnað einkum með sögnum sem merkja að hætta, sleppa, mistakast, skorta, þarfnast og vera fjarri.
 • Genitivus comparativus: Eingarfall samanburðarins. Gefur til kynna eitthvað sem eitthvað annað er borið saman við.
 • Genitivus causae: Eignarfall orsakarinnar; gefur til kynna orsök einhvers.
 • Genitivus absolutus: Sjálfstætt eignarfall; nafnorð og lýsingarorð eða lýsingarháttur geta staðið í eingarfalli, málfræðilega ótengt restinni af setningunni og gefið til kynna tíma, skilyrði, orsök, eða viðurkenningu.

Eignarfall í latínu

breyta
Föll í latínu
Nefnifall
Ávarpsfall
Þolfall
Eignarfall
Þágufall
Sviptifall
Staðarfall
 • Genitivus subiectivus: Eignarfall gerandans; gefur til kynna geranda sagnarmerkingar stýrandi orðs. Dæmi Amor dei („ást guðs“, þ.e. það er guð sem elskar).
 • Genitivus obiectivus: Andlagseignarfall; gefur til kynna andlag sagnarmerkingar stýrandi orðs. Dæmi: Amor dei (orðrétt: „ást guðs“, þ.e. „guðsást“; þ.e.a.s. það er guð sem er elskaður).
 • Genitivus possessivus: Eiginlegt eignarfall; gefur til kynna eiganda. Dæmi: Domus Caesaris („hús Caesars“).
 • Genitivus partitivus: Eignarfall heildarinnar; gefur til kynna heildina sem stýrandi orð er hluti af. Dæmi Multi Romanorum („margir Rómverjanna“).
 • Genitivus originis: Eignarfall upprunans; gefur til kynna uppruna einhvers. Dæmi: Marci filius („sonur Marcusar“).
 • Genitivus descriptivus: Eignarfall lýsingarinnar; lýsir nánar stýrandi orði. Dæmi: Femina magnae prudentiae („kona mikillar skynsemi“).
 • Genitivus qualitatis: Eignarfall einkennis; gefur til kynna eiginleika sem stýrandi orð hefur. Dæmi talentum auri („talenta úr gulli“).
 • Genitivus definitivus: Eignarfall skilgreiningarinnar; getur staðið með stýrandi orði til að skilgreina nánar. Dæmi: Ars scribendi („listin að skrifa“, eða bókstaflega „list þess að skrifa“).
 • Genitivus pretii: Eignarfall verðleikans; gefur til kynna hvers virði eitthvað er. Dæmi: Oratio nullius momenti („Ræða einskis virði“).