Hlutfallskosning eða hlutbundin kosning er sá eiginleiki á kosningakerfum að stefnt sé að því að hlutfallsleg skipting kjósendahópsins endurspeglist í hlutfallslegri skiptingu fulltrúa sem ná kjöri þannig að ef t.d. 30% kjósenda í þingkosningum velja tiltekinn stjórnmálaflokk, þá eigi sá flokkur að hafa sem næst 30% hlutdeild í fjölda þingsæta. Markmiðið er það að atkvæði sem flestra kjósenda hafi áhrif á úrslitin frekar en að þau falli niður dauð með því að nýtast engum frambjóðanda líkt og gerist í kosningakerfum sem byggja á því að einungis sá sem fær flest atkvæði eða meirihluta atkvæða í kjördæmi beri sigur úr býtum. Til að ná fram hlutfallslegum niðurstöðum er yfirleitt stuðst við stór kjördæmi fremur en einmenningskjördæmi þannig að fleiri framboð eigi möguleika á að vinna kjördæmasæti. Algengast er að notast sé við listakosningu til að velja frambjóðendur en einnig er mögulegt að nota röðunaraðferð sem byggist á einu færanlegu atkvæði. Það þekkist einnig að notast sé við blandaða aðferð, þ.e. einmenningskjördæmi þar sem flest atkvæði ráða í bland við listakosningu sem tryggir að stjórnmálaflokkar fái þingmenn í hlutfalli við fylgi á landsvísu.

Erfitt er að ná fram fullkomlega hlutbundnu kerfi og er það ekki endilega markmiðið. Ýmislegt skiptir þar máli, t.d. stærð kjördæma, hlutfallslegt vægi atkvæða og einnig skilyrði sem sett eru um lágmarksfylgi á landsvísu. Í sumum kosningakerfum er notast við jöfnunarsæti til þess að úthlutun þingsæta verði sem næst úrslitum á landsvísu.

Þar sem notast er við hlutfallskosningar er sjaldgæft að einn flokkur nái hreinum meirihluta þingsæta og geti stjórnað einn, oftast er því um að ræða samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka eða minnihlutastjórnir þar sem aðrir flokkar á þingi samþykkja að verja stjórn gegn vantrausti.