Bernard Montgomery
Bernard Law Montgomery (17. nóvember 1887 – 24. mars 1976) var breskur herforingi. Montgomery barðist í seinni heimsstyrjöldinni þar sem hann stjórnaði herjum í Norður-Afríku, Ítalíu, Frakklandi, Belgíu, Hollandi og Þýskalandi.
Montgomery er einna frægastur fyrir að hafa stjórnað breska áttunda hernum í seinni orrustunni um El-Alamein, í Egyptalandi, árið 1942. Þar sigraði breski herinn þýskan her, undir stjórn Erwins Rommels, og hóf sókn gegn Þjóðverjum sem endaði með því að Þjóðverjar gáfust upp í Norður-Afríku árið 1943. Eftir stríðið í Norður-Afríku tók Montgomery þátt í innrás bandamanna í Ítalíu, 1943, og innrásinni í Normandí, 1944. Þann 4. maí 1945 tók Montgomery við uppgjöf alls herafla Þjóðverja í norðvestur-Þýskalandi, Danmörku og Hollandi.
Montgomery hlaut fjölda viðurkenninga fyrir framgöngu sína í stríðinu, m.a. var hann útnefndur 1. vísigreifi Montgomery af Alamein og einnig hlaut hann bresku sokkabandsorðuna.