Grænland

Eyja í Norður Ameríku og sjálfsstjórnarsvæði innan Konungsríkis Danmerkur
(Endurbeint frá Kalaallit Nunaat)

Grænland (grænlenska: Kalaallit Nunaat; danska: Grønland) er stærsta eyja jarðar sem ekki telst heimsálfa út af fyrir sig, 2,2 milljónir km² að stærð. Grænland liggur milli Norður-Íshafsins og Atlantshafsins, austan við kanadíska eyjaklasann. Landfræðilega tilheyrir Grænland heimsálfunni Norður-Ameríku. Höfuðborgin er Nuuk (Godthåb á dönsku). Grænland er sjálfsstjórnarsvæði innan dönsku ríkisheildarinnar. Um 81 prósent landsins er þakið jökli. Nánast allir Grænlendingar búa í byggðum við firði á suðvesturhluta eyjunnar þar sem veður er talsvert mildara en annars staðar. Grænland hlaut heimastjórn frá Dönum árið 1979 og í nóvember árið 2008 var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að landið fengi aukna sjálfstjórn.[1]

Grænland
Kalaallit Nunaat (grænlenska)
Grønland (danska)
Fáni Grænlands Skjaldarmerki Grænlands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Nunarput utoqqarsuanngoravit
Staðsetning Grænlands
Höfuðborg Nuuk
Opinbert tungumál grænlenska, danska
Stjórnarfar Heimastjórn

Konungur Friðrik 10.
Landstjóri Julie Præst Wilche
Forsætisráðherra Múte Bourup Egede
Dönsk hjálenda
 • Heimastjórn 1. maí 1979 
 • Aukið sjálfræði 21. júní 2009 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

2.166.086 km²
83,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
2010. sæti
56.466
0,028/km²
VLF (KMJ) áætl. 2011
 • Samtals 1,8 millj. dala
 • Á mann 37.000 dalir
VÞL (2010) 0.786 (61. sæti)
Gjaldmiðill Dönsk króna (kr) (DKK)
Tímabelti UTC+0 til -4
Þjóðarlén .gl
Landsnúmer +299

Margir Grænlendingar eru af blönduðum uppruna Inúíta og Evrópumanna og tala grænlensku (kalaallisut) sem móðurmál. Um 50 þúsund manns tala grænlensku en það eru fleiri en mælendur allra annarra eskimó-aleutískra mála samanlagt. Um 20% íbúa Grænlands eru af dönskum uppruna og hafa dönsku að móðurmáli. Bæði þessi mál eru opinberar tungur. Hin formlega gerð grænlensku sem er kennd í skólum og notuð sem ritmál er aðallega mótuð úr vesturgrænlenskum mállýskum.

Grænland var ein af norsku krúnunýlendunum allt fram til 1814 þegar það varð formlega dönsk nýlenda, þó svo að Noregur og Danmörk hafi verið sameiginlegt konungdæmi um aldir, allt frá 1536. Þann 5. júní 1953 varð Grænland hluti af Danmörku sem danskt amt. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1978 fékk Grænland heimastjórn sem tók við völdum 1. maí 1979. Þjóðhöfðingi Grænlands er Friðrik 10. Danakonungur. Þann 25. nóvember 2008 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Grænlandi um aukna sjálfstjórn landsins þar sem 76% voru fylgjandi.[2] Þann 21. júní 2009 lýstu Grænlendingar yfir fullum sjálfsákvörðunarrétti í málum er tengjast réttarfari, stefnumótun og náttúruauðlindum. Þá voru Grænlendingar viðurkenndir sem sérstök þjóð samkvæmt alþjóðalögum. Danska ríkið heldur enn eftir stjórn utanríkis- og varnarmála.

Á grænlensku heitir landið Kalaallit Nunaat „land Kalaallíta (Grænlendinga)“. Kalaallit (eintala: Kalaaleq) er það orð sem grænlenskir Inúítar nota um sig sjálfa. Samkvæmt danska trúboðanum Poul Egede sem skrifaði fyrstu grænlensku orðabókina, töldu þeir það komið af því orði sem norrænir menn notuðu um þá. Sú tilgáta hefur verið sett fram að orðið sé dregið af orðinu „skrælingi“ sem kemur fyrir í Eiríks sögu rauða sem heiti á Inúítum og í Grænlendinga sögu mögulega sem heiti á Indíánum.[3] Nafn landsins (Kalaallit Nunaat) og tungumálsins (kalallisut) er dregið af Kalaallit.

Í Eiríks sögu segir frá því að Eiríkur rauði hafi ákveðið að nefna landið Grænland „því að hann kvað menn það mjög mundu fýsa þangað ef landið héti vel“.[4] Þar er líka minnst á landnámsmanninn Gunnbjörn Úlfsson sem sagðist hafa komið í sker norðvestur af Íslandi sem hann nefndi „Gunnbjarnarsker“.[5] Í langflestum tungumálum heims dregur landið nafn sitt af norræna heitinu Grænlandi fremur en því grænlenska Kalaallit Nunaat. Samanburður á nöfnum Grænlands og Íslands hefur oft verið tilefni vangaveltna um hvort nöfnin séu rangnefni.[6]

Elstu menningarsamfélög

breyta

Landnám á Grænlandi tók þúsundir ára. Fámennir hópar komu norðan frá, einkum frá Asíu yfir hafísinn og einnig frá Alaska og norðurhluta Kanada. Á tímaskeiðinu 2400 f.Kr. fram að 2000 f.Kr. bjó þar fólk af svonefndri Independence I-menningu (nefnt eftir Independence-firði). Flestallar mannvistarleifar tengdar þessu skeiði hafa fundist lengst í norðri, á Pearylandi. Einkum virðist sauðnautaveiði hafa verið mikilvæg. Fólk af Independence II-menningunni bjó þar frá 8. öld f.Kr. til 1. aldar f.Kr.

Á öldunum 1400 f.Kr. fram til 500 f.Kr. fluttu nýir hópar frá Kanada til Grænlands. Þetta menningarskeið er nefnt Saqqaq-menningin og íbúarnir tóku sér búsetu allt frá Upernavik í norðri til núverandi Nuuk í suðri. Þetta fólk bjó til steinkolur, boga og skutla. Það virðist einnig hafa haft með sér hunda.[7] Enn má víða finna fornleifar frá þessu menningarskeiði.

Um 500 f.Kr. fluttist svonefnt Dorset-fólk (hugsanlega kallað Tuniit af Inúítum) að nýju úr norðri inn á sama svæði og talað var um hér að ofan. Af fornminjafundum frá þessum menningarheimi má nefna stóra steina sem virðast hafa verið notaðir sem vörður til að vísa veg, fígúrur tálgaðar i stein og nálar úr rostungstönnum.

Landnám Inúíta

breyta

Um árið 900 náðu nýir hópar fólks til Norður-Grænlands alla leið frá Alaska. Vitað er að þetta fólk var Inúítar og því forfeður núverandi Grænlendinga, en það á ekki við um eldri menningarskeið. Þeir höfðu með sér háþróaða veiðimannamenningu, smíðuðu og notuðu kajaka og svonefnda „konubáta“ (umiak), auk hundasleða.[8] Þeir byggðu hús úr torfi og grjóti og notuðu hvalbein í sperrur.

Þetta menningartímabil er kennt við Thule á vesturströnd Grænlands og kallað Thule-menningin, því þar fundust fyrstu fornleifarnar. Hluti fólksins fór suður með austurströndinni og einangraðist frá hinum íbúunum. Stærsti hlutinn settist að á vesturströndinni og flutti sig smám saman sunnar og náðu þeir fyrstu til suðurodda Grænlands, Hvarfi (Kap Farvel), um árið 1500. Í kringum 1200 tók menningin umtalsverðum breytingum og er eftir það kölluð Inugsuk-menningin.[9] Þetta er það menningarskeið sem ríkt hefur allt fram á okkar daga.

Landnám norænna manna

breyta

Um árið 900Gunnbjörn Úlfsson til lands á Grænlandi og nefndi það Gunnbjarnarsker. Þegar norrænir menn fóru að nema land á suðvesturströnd landsins í lok 10. aldar komu þeir að óbyggðu landi. Hins vegar fundu þeir húsarústir og leifar af bátum og veiðarfærum. Á sama tíma og norrænir menn fóru að nema land í suðri fluttu nýir hópar Inúíta inn í norðurhlutann. Árið 982 fór Eiríkur rauði í útlegð til Grænlands og valdi að setjast að í Brattahlíð og nefndi hann landið Grænland. Árið 985 eða 986 sigldu 25 skip frá Íslandi með 500 - 700 manns um borð, en einungis 14 af þeim náðu landi í Eystribyggð.

Um 1000 sneri Leifur Eiríksson, sonur Eiríks rauða, aftur til Grænlands frá Noregi og hafði hann þá tekið kristni. Hann boðaði norrænum mönnum á Grænlandi kristni og byggði Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð (sem á grænlensku heitir nú Qassiarsuk). Þar stendur enn mjög heilleg rúst af kirkjunni. Árið 1126 var biskupsstóll stofnaður í Görðum. Fyrsti biskupinn var Arnaldur. Um 1150 hittust norrænir menn og Inúítar í fyrsta sinn í Norðursetu. Árið 1261 gengu Grænlendingar Noregskonungi á hönd.

Fyrir miðja 14. öld fór Vestribyggð í eyði. Er talið að tvennt hafi komið til: kólnandi loftslag og ágangur Inúíta að norðan. Upp úr þessu lögðust Norðursetuferðir af. Siglingum frá Noregi fækkaði mjög um sama leyti vegna áhrifa svartadauða þar í landi. Um 1369 fórst Grænlandsknörrinn og lögðust þá af reglulegar siglingar frá Noregi.[10] Árið 1377Álfur biskup og var Grænland biskupslaust eftir það. Árið 1385 hrakti Björn Jórsalafara til Grænlands og dvaldi hann þar í tvo vetur með liði sínu. Árið 1406 hrakti skip til Grænlands með fjölda stórættaðra Íslendinga um borð. Sigldu þeir á brott árið 1410 og spurðist ekki til norrænna manna á Grænlandi eftir það, svo öruggt sé. Óljósar sagnir frá miðri 15. öld herma að baskneskir hvalveiðimenn hafi rænt Eystribyggð. Árið 1540 kom íslenskt skip til Grænlands og fundu þá skipverjar enga norræna menn á lífi. Er allt á huldu um hvernig stóð á því að norrænir menn hurfu frá Grænlandi. Kólnandi loftslag og sjúkdómar geta verið mikilvæg ástæða. Einnig eru ágiskanir um að barátta við Inúíta hafi átt sinn hlut í hvarfinu. Fridtjof Nansen hélt því fram í ritinu Eskimo Life frá 1893 að blöndun milli Inúíta og norrænna manna kynni að hafa átt þátt í hvarfi þeirra síðarnefndu. Þessi kenning naut þó nokkurra vinsælda, meðal annars hjá Vilhjálmi Stefánssyni og Jóni Dúasyni, sem taldi að Grænland heyrði með réttu undir Ísland.[11]

Landkönnun á 16. og 17. öld

breyta
 
Frásögn af þriðja leiðangri Martin Frobisher á þýsku frá 1578.

Árið 1500 sendi Manúel 1. Portúgalskonungur skip undir stjórn Gaspar Corte-Real til Grænlands í leit að norðvesturleiðinni til Asíu. Samkvæmt Tordesillas-sáttmálanum heyrði Grænland undir yfirráð Portúgals. Árið eftir hélt Corte-Real aftur þangað ásamt bróður sínum, Miguel Corte-Real. Þeir komu að frosnu hafi og sneru því í suðurátt og komu að Labrador og Nýfundnalandi. Í Labrador er sagt að þeir hafi tekið innfædda höndum og selt í þrældóm þegar heim var komið upp í kostnað við ferðina.[12] Mælingar þeirra á suðvesturströnd Grænlands urðu hluti af Cantino-heimskortinu í Módena.[13] Næstu ár komu ýmsir leiðangrar til Grænlands í leit að norðvesturleiðinni. Einn þekktasti könnuðurinn frá síðari hluta 16. aldar, Martin Frobisher, taldi suðurodda Grænlands vera sagnalandið Frísland.[14]

Árin 1605 til 1607 sendi Kristján 4. Danakonungur þrjá leiðangra til Grænlands til að leita að Eystribyggð, sem hann áleit ranglega að væri á austurströndinni rétt norðan við Hvarf, en þar er ströndin illfær vegna íss. Meðal annars þess vegna mistókust þessir leiðangrar þegar skipin komu að hafíslögðum sjó og lentu í erfiðum veðurskilyrðum í Grænlandssundi. Leiðsögumaður í öllum þremur ferðum var enski landkönnuðurinn James Hall. Í fyrsta leiðangrinum rændi eitt skipanna tveimur grænlenskum veiðimönnum ásamt kajökum þeirra og fluttu með sér til Kaupmannahafnar. Þar léku þeir listir sínar á bátunum fyrir konunginn, sem var fyrsta sýnikennslan í kajakróðri og kajakveltum í Evrópu. Í næsta leiðangri var fimm Grænlendingum rænt.[15] Þessi mannrán danskra Grænlandsfara á 17. öld gerðu að verkum að íbúar landsins sýndu aðkomumönnum fjandskap og forðuðust þá. Árið 1636 fékk skipafélag í Kaupmannahöfn einkaleyfi á verslun og hvalveiðum við Grænland. Félagið sendi tvö skip til Grænlands sem keyptu náhvalstennur af innfæddum. Síðasta mannránið á þessum tíma voru þrír leiðangrar á vegum danska embættismannsins Henrik Müller sem hafði fengið einkaleyfi á siglingum til Grænlands og Vestur-Indía. Skipin sigldu norður eftir vesturströndinni 1654 og tóku þar fjóra Grænlendinga. Málverk var gert af þeim í Bergen í Noregi sem er varðveitt í Þjóðminjasafni Danmerkur.[16] Thomas Bartholin, sem skrifaði grænlenskt orðasafn eftir þeim, segir frá því að loftslagið í Danmörku hafi reynst þeim erfitt og þau hafi öll látist fljótlega eftir komuna þangað.

Trúboð og einokunarverslun

breyta

Árið 1721 sendi Friðrik 4. Danakonungur prestinn Hans Egede til Grænlands til að leita þar norrænna manna og breiða út lútherstrú meðal þeirra. Þá var hvergi að finna en Egede hitti hins vegar fyrir Inúíta og hóf trúboð meðal þeirra. Fyrsta bækistöðin sem hann reisti var á eyjunni Kangeq. Landnemarnir sem fylgdu Egede reistu hvalstöð á eyjunni Nipisat, en hollenskir hvalveiðimenn brenndu hana til grunna. Auk þess þjáðust landnemarnir af skyrbjúg. Félagið sem Egede leiddi varð gjaldþrota árið 1727. Friðrik konungur sendi þá herskip með hermönnum og föngum undir stjórn Claus Parss til að reisa þar virki, en sá leiðangur misfórst vegna skyrbjúgs og uppreisnar.[17] Parss flutti nýlenduna á meginlandið á stað sem var nefndur Godt-håb („Góðravon“) og varð síðar Nuuk. Árið 1733 kom þangað skip með Herrnhúta sem höfðu fengið leyfi konungs til trúboðs á Grænlandi. Skipið bar líka með sér bólusótt sem næstu árin herjaði á landnema og innfædda. Gertrud, eiginkona Hans Egede, lést úr sjúkdómnum. Hann sneri aftur til Danmerkur með lík hennar og lét syni sínum, Poul Egede, eftir stjórn trúboðsins.

Árið 1734 fékk Íslandskaupmaðurinn Jacob Severin leyfi til verslunar á Grænlandi. Næstu ár stofnaði hann verslunarstaðina Christianshåb (1734), Jacobshavn (1741) og Frederikshåb (1742). Danir lentu oft í átökum við hollenska hvalveiðimenn sem veiddu hvali í Davissundi, versluðu við innfædda þrátt fyrir bann og brenndu bækistöðvar sem Danir höfðu byggt. Árið 1747 fékk Almenna verslunarfélagið einkaleyfi á verslun í nýlendum Dana í Norður-Atlantshafi og næstu ár voru stofnaðir verslunarstaðir víða meðfram strönd Grænlands, eins og Holsteinsborg (1759), Upernarvik (1771) og Julianehåb (1775). Árið 1774 tók Konunglega Grænlandsverslunin við stjórn verslunar á Grænlandi og hafði einkaleyfi á henni fram á miðja 20. öld, en 1908 tók danska ríkisstjórnin við stjórn félagsins. Félaginu var bannað að hvetja til frekari þéttbýlismyndunar á Grænlandi og háir tollar voru lagðir á „lúxusvörur“ eins og sykur, til að koma í veg fyrir að Grænlendingar legðu af hefðbundna lífshætti.

Samfélagsþróun og landkönnun á 19. öld

breyta
 
Trúboði í vetrarhúsi á mynd eftir Aron frá Kangeq.

Með Kílarsamningnum 1814 fékk Noregur sjálfstæði en Grænland, Færeyjar og Ísland heyrðu áfram undir dönsku krúnuna. Um miðja 19. öld var farið að þróa ritmál fyrir grænlensku. Árið 1851 kom út grænlensk málfræði eftir herrnhútann Samuel Kleinschmidt. Árið 1859 gaf landfræðingurinn Hinrich Rink út safn grænlenskra sagna eftir Aron frá Kangeq með myndum eftir hann og 1861 stofnaði Rink fyrsta dagblaðið á grænlensku, Atuagagdliutit.

Um miðja 19. öld höfðu Danir á Grænlandi áhyggjur af hnignun grænlensku byggðanna í kringum verslunarstaðina. Veturinn 1855 til 1856 var hungursneyð í kringum Godthåb og brjóstveikifaraldur fylgdi á eftir. Rink, Kleinschmidt og fleiri báðu um leyfi fyrir því að sett yrðu upp þorpsráð (forstand) með þátttöku Grænlendinga, til að fást við ýmis sameiginleg hagsmunamál byggðanna. Árið 1862 var landinu skipt í tólf svæði með hvert sitt forstand. Í ráðunum sátu prestur staðarins, verslunarstjórinn, assistentinn, læknirinn og aðrir danskir og grænlenskir meðlimir kosnir af íbúum.[18] Ráðin fengu til umráða 20% af þeirri upphæð sem ætluð var til kaupa á vörum Grænlendinga á hverjum stað. Að auki voru stofnaðir tveir sjóðir, einn fyrir Norður-Grænland og einn fyrir Suður-Grænland, að hluta fyrir uppihald nauðstaddra og að hluta til að styrkja kaup á búnaði veiðimanna, gerð húsnæðis og þess háttar.

Árið 1862 hófst iðnaðarvinnsla á krýólíti í Ivittuut.

Á 19. öld óx mannfjöldinn á Vestur-Grænlandi nokkuð ört. Nýir landnemar fluttu til norðurhlutans frá Kanada allt til 1864. Ekkert er vitað um mannfjölda á Austur-Grænlandi á sama tíma, en talið er að þar hafi fólki fækkað og byggðir lagst af vegna erfiðra skilyrða. Austur-Grænland var illfært skipum vegna hafíss og siglingar þangað þóttu lengi hættuspil. Franski landkönnuðurinn Jules de Blosseville er talinn hafa farist þar á skipinu La Lilloise árið 1833.[19]

Áhugi landkönnuða á Norðurslóðum fór vaxandi þegar leið á 19. öldina. William Scoresby gaf árið 1828 út bók um leiðangra sína til Austur-Grænlands árin á undan með fyrstu nákvæmu landmælingunum af ströndinni.[20] Douglas Clavering bætti við þessar mælingar í leiðangri sínum 1823. Árið 1883 kom finnski landkönnuðurinn Adolf Erik Nordenskiöld til Austur-Grænlands og árið 1888 tókst Fridtjof Nansen að komast á skíðum yfir Grænlandsjökulinn, frá Umivik til Godthåb. Bandaríski landkönnuðurinn Robert Peary kannaði norður- og norðvesturströnd Grænlands í nokkrum leiðöngrum milli 1883 og 1909. Um aldamótin 1900 var búið að kortleggja megnið af Grænlandi nema nyrsta hluta norðausturstrandarinnar.

Hernám og styrjaldir

breyta

Árið 1908 tók ríkisstjórn Danmerkur við stjórn Grænlands af Konunglegu Grænlandsversluninni með lögum um stjórn Grænlands. Með lögunum voru stofnuð tvö landsráð Grænlands (Norður- og Suður-) sem tóku til starfa árið 1911. Landsráðin voru sameinuð í eitt landsráð árið 1950 og störfuðu fram að stofnun heimastjórnar 1979. Meðlimir landsráðanna voru kosnir til sex ára í senn í einmenningskjördæmum sem samsvöruðu þorpsráðunum frá 19. öld. Konur fengu ekki kosningarétt fyrr en 1948 og aðeins ein kona varð landsráðsmeðlimur.[21]

Í heimsstyrjöldinni fyrri voru Danmörk og þar með einnig Grænland hlutlaus. Árið 1925 komu 89 Grænlendingar til Ísafjarðar með danska skipinu Gustav Holm, en þeir voru fluttir frá Ammassalik til Scoresby-sunds til að stofna þar bæinn Ittoqqortoormiit að undirlagi danskra yfirvalda til að styrkja tilkall Danmerkur gegn ágangi Norðmanna á Norðaustur-Grænlandi.[22] Danski landkönnuðurinn Ejnar Mikkelsen hafði þá lengi barist fyrir því að stofna byggðir norður eftir austurströnd Grænlands.

Þegar styrjöldin hófst hélt Einar Benediktsson skáld fyrstur manna fram þeirri hugmynd að Grænland gæti hugsanlega tilheyrt Íslandi.[23] Einkum amaðist hann við siglingabanni því sem Danir höfðu lagt á í Grænlandi á 17. öld og kom í veg fyrir siglingar íslenskra og færeyskra fiskiskipa þangað. Árið 1926 fengu Færeyingar leyfi til að sigla á eina höfn á Suður-Grænlandi (nú Takisup Qeqertarsua) og næstu ár fjölgaði höfnum um leið og umsvif Færeyinga þar jukust.[24] Árið 1928 varði Jón Dúason ritgerð í réttarsögu við Óslóarháskóla þar sem hann færði rök fyrir því að á Íslandi og Grænlandi hefðu gilt ein lög á þjóðveldisöld og því hefðu löndin tvö verið eitt ríki. Margir urðu til að gagnrýna þennan málflutning, meðal annars Finnur Jónsson, norrænufræðingur,[25] og Ólafur Lárusson, lögfræðingur.[26]

Árið 1922 reistu Norðmenn þráðlausa veðurstöð við Myggbukta á Austur-Grænlandi og 1931 hertóku norskir selveiðimenn landið þar í kring og nefndu það Eirik Raudes Land, eftir deilur við danska sýslumanninn. Frá 12. júlí 1932 til 5. apríl 1933 var landsvæðið hersetið af norskum hermönnum og embættismönnum. Vidkun Quisling, sem þá var norskur varnarmálaráðherra, hafði skipað fyrir um hersetuna. Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði hins vegar að þetta landsvæði tilheyrði Danmörku og voru þá norsku hermennirnir kallaðir heim. Dómstóllinn vísaði sérstaklega til Kílarsamningsins þar sem tekið var fram að Færeyjar, Grænland og Ísland heyrðu áfram undir Danmörku.

 
Þýskir starfsmenn veðurstöðvarinnar Edelweiss II á Norðaustur-Grænlandi teknir höndum af bandarískum hermönnum.

Í seinni heimsstyrjöldinni ákváðu sýslumenn á Grænlandi að starfa óháð stjórninni í Kaupmannahöfn og hunsa fyrirskipanir þaðan, að undirlagi sendiherra Danmerkur í Bandaríkjunum, Henrik Kauffman.[27] Hann óttaðist að annars myndu Bandaríkin eða Kanada hertaka Grænland. Bandaríkjamenn reistu nokkra flugvelli á Grænlandi. Þeir helstu voru Bluie West One við Narsarsuaq og Bluie East Two við Ikateq. Grænland gegndi mikilvægu hlutverki fyrir fraktflug bandamanna milli Bandaríkjanna og Englands og einnig í eftirliti með þýskum kafbátum. Þjóðverjar gerðu tilraunir að setja upp veðurathugunarstöðvar á Norðaustur-Grænlandi en voru hraktir þaðan af Síríussveitinni með stuðningi Bandaríkjahers. Árið 1945 hófu Bandaríkin byggingu flugstöðvar á Norður-Grænlandi þar sem þau höfðu áður byggt flugvöllinn Bluie West 6. Árið 1951 gerðu Bandaríkin og Danmörk samning um sameiginlegar varnir Grænlands. Öll kaldastríðsárin var Grænland mikilvægur hlekkur í varnarmálum Bandaríkjanna.

Amt og heimastjórn

breyta
 
Steinsteypublokkir eins og þessi frá 8. áratugnum, voru reistar í bæjum sem ákveðið var að stækka.

Um miðja 20. öld stofnaði ríkisstjórn Hans Hedtoft Grænlandsnefndina til að fjalla um lífsskilyrði Grænlendinga og koma með tillögur að úrbótum. Ein af ástæðum þess voru fyrirætlanir Bandaríkjamanna um að taka yfir stjórn Grænlands. Árið 1951 hófst tilraun til að bæta stöðu grænlenskra barna með því að taka þau frá fjölskyldum sínum á Grænlandi og koma fyrir hjá fósturfjölskyldum í Danmörku. Til 1975 voru hundruð barna þannig flutt til Danmerkur, oft gegn vilja fjölskyldna þeirra. Árið 2020 bað danska ríkisstjórnin fyrstu börnin sem flutt voru þannig á brott formlega afsökunar.

Nýlendutíminn leið undir lok árið 1953 þegar stjórnarskrá Danmerkur var breytt á þann hátt að Grænland varð amt innan danska ríkisins. Um leið óskuðu Danir eftir því að Grænland yrði tekið af lista Sameinuðu þjóðanna yfir nýlendur. Málið kom þá aftur til umræðu á Alþingi á Íslandi og vildu sumir að Íslendingar greiddu atkvæði gegn tillögu Dana vegna þess tilkalls sem þeir vildu meina að Ísland ætti á Grænlandi. Niðurstaðan varð sú að fulltrúi Íslands sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Óánægja með framgöngu Alþingis í málinu varð til þess að Ragnar V. Sturluson stofnaði tímaritið Grænlandsvininn sem kom út í eitt ár og fjallaði vítt og breitt um málefni Grænlands, meðal annars um rök Jóns Dúasonar fyrir tilkalli Íslands.[28]

Einn liður í samfélagsumbótum á Grænlandi var að fækka byggðunum og stækka þær, en langflestir Grænlendingar bjuggu þá í 2-300 manna þorpum. Danska ríkið tók nú að sér að reisa mikinn fjölda íbúða, sjúkrahús og skóla, sem voru mönnuð með menntuðum Dönum. Þannig tókst að nær útrýma berklum á Grænlandi árið 1973. Þéttbýlisvæðingin olli miklu umróti i grænlenska veiðimannasamfélaginu og skapaði bil milli kynslóða. Um 1970 urðu fyrstu grænlensku stjórnmálaflokkarnir til.

Árið 1953 hóf Bandaríkjaher að reisa Thule-herstöðina samkvæmt varnarsamningi við dönsk yfirvöld og 1958 var Century-herstöðin reist undir ísnum 200 km austan við Thule. Grænlenskir íbúar í Thule voru neyddir til að flytja til Qaanaaq. Þeir fengu greiddar bætur vegna þess hálfri öld síðar. Árið 1968 fórst B-52-sprengjuflugvél við herstöðina þannig að geislavirkt efni dreifðist um stórt svæði.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1979 fékk Grænland heimastjórn með eigin þingi og ríkisstjórn. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 1982 var ákveðið að Grænland segði sig úr Evrópubandalaginu. Árið 1986 tók grænlenska heimastjórnin við Konunglegu Grænlandsversluninni sem breytti um nafn og heitir nú Kalaallit Niuerfiat. Árið 2008 kusu Grænlendingar um aukna sjálfsstjórn. Löggæsla, dómsvald, ýmis lög og fjármál heyra eftir það undir stjórn Grænlands. Danmörk fer með stjórn gjaldeyrismála og varnarmála, en utanríkisstefna Grænlands er samstarfsverkefni beggja.

Stjórnmálatengslum milli Íslands og Grænlands var formlega komið á árið 1985 með stofnun Vestnorræna ráðsins [29]. Ísland stofnaði ræðismannsskrifstofu í Nuuk árið 2013.

Landfræði

breyta
Sjá líka: Listi yfir þéttbýlissvæði á Grænlandi
 
Skriðjökull á Grænlandi
 
Kort af Grænlandi.

Að flatarmáli telst Grænland vera 2.099.988 km², og af því er 1.799.992 km² (85,7%) þakið jökli. Grænland er stærsta eyja heims sem ekki er heimsálfa[30] og þriðja stærsta land Norður-Ameríku, á eftir Kanada og Bandaríkjunum.[31] Fjarlægðin frá nyrsta odda, Kap Morris Jesup, að þeim syðsta, Hvarfi, eru 2.650 km. Strandlínan telst vera 39.330 km, og er það nánast sama vegalengd og ummál jarðar við miðbaug. Grænland nær sunnar, austar, vestar og norðar en Ísland.[32] Strönd Grænlands liggur að Norður-Íshafi í norðri, Grænlandssundi í austri, Norður-Atlantshafi í suðaustri, Davis-sundi í suðvestri, Baffinsflóa í vestri, og Naressundi og Lincoln-hafi í norðvestri.

Hæsta fjall á Grænlandi er Gunnbjarnarfjall (um 3700 m) á austurströndinni, mitt á milli Ammassalik og Scoresbysunds.

Milli Blosseville-strandar sunnan við Scoresbysund og Rits við Aðalvík vestast á Hornströndum eru einungis um 290 km.

Allar byggðir eru við strandlengjuna og flestar þeirra á suðvesturströndinni. Á Grænlandi eru fimm sveitarfélög: Kujalleq, Qeqertalik, Avannaata, Qeqqata og Sermersooq. Helstu þéttbýlissvæði á Vestur-Grænlandi eru Aasiaat, Ilulissat, Kangaatsiaq, Qasigiannguit, Qeqertarsuaq, Upernavik, Uummannaq, Maniitsoq, Nuuk, Paamiut, Sisimiut, Ivittuut, Nanortalik, Narsaq, Qaqortoq; á austurströndinni Ammassalik, Ittoqqortoormiit og einungis eitt á Norður-Grænlandi, Qaanaaq. Norðaustur-Grænland, hluti Norður-Grænlands og stór hluti Austur-Grænlands eru utan sveitarfélaga og er þar stærsti þjóðgarður í heimi, um það bil 972.000 km² að flatarmáli. Enginn jökull er á allra nyrsta hluta Grænlands, Peary-landi, þar er loftslagið of þurrt til þess að jökull geti myndast. Áætlað er að ef allur Grænlandsjökull bráðnaði myndi yfirborð úthafa hækka um meira en 7 metra.

Á árabilinu milli 1989 og 1993 boruðu vísindamenn ofan í Grænlandsjökul þar sem hann er hvað þykkastur og náðu þeir upp 3,2 km löngum borkjarna. Skoðun lagskiptingar og efnagreining á kjarnanum hafa kollvarpað mörgum kenningum um veðurfar og veðurþróun. Það hefur nefnilega komið í ljós að sú veðursaga sem hægt er að lesa úr kjarnanum nær um það bil 100.000 ár aftur í tímann og sýnir að loftslags- og hitabreytingar hafa verið mun meiri og gengið hraðar yfir en áður var talið.

Lífríki

breyta

Heimskautaloftslag einkennir lífríki Grænlands að fáeinum svæðum undanteknum, t.d. Narsarsuaq, syðst á landinu. Við suðvesturströndina er aðeins hlýrra vegna þess að þangað nær angi af Golfstraumnum. Hitastig inni á jökli er allt frá –70 °C á vetrum og upp að frostmarki á sumrin.

 
Túndrugróður við Scoresbysund.

Á þeim svæðum sem ekki eru þakin jökli er dæmigerður túndrugróður. Lítið er af blómjurtum en meira um grös og mosa. Ilmbjörk, grænlandsreynir, grænelri, einir og víðitegundir eru meðal trjáa og runna sem vaxa í inndölum, aðallega á Suður-Grænlandi. Um 500 tegundir háplantna hafa fundist á eyjunni og eru þá frátaldar þær tegundir sem sáð hefur verið eða plantað.

Átta tegundir spendýra lifa á landi þó að ísbirnir séu oftar á ís á hafi úti en á landi. Hreindýr eru algeng á Vestur-Grænlandi og sauðnaut og hreysikettir (Mustela erminea) á norðausturhluta Grænlands. Heimskautarefir, sem eru í tveimur litaafbrigðum, hvítir eða bláir, eru algengir um alla strandlengjuna. Úlfar lifa hér og þar á norður- og norðausturhluta Grænlands, allt suður að 70°. Pólhérar eru algengir víða um landið. Kragalæmingjar (Dicrostonyx torquatus) eru einu upprunalegu nagdýrin.

Fimm tegundir sela lifa í hafinu við Grænland. Þær eru hringanóri, landselur, vöðuselur, blöðruselur og kampselur. Þar að auki rostungar (Odobenus rosmarus) sem eru náskyldir selum.

Fimmtán tegundir hvala lifa við Grænland, þar á meðal langreyður, steypireyður, búrhvalur, hrefna, hnísa, náhvalur og hnúfubakur. Grænlandssléttbakur eða norðhvalur er kenndur við Grænland á mörgum málum, en hann er í útrýmingarhættu.

Um 230 tegundir fugla hafa sést á Grænlandi og eru þar af um 60 tegundir varpfugla. Nefna má hrafn, rjúpu, snæuglu, lunda, fálka, æðarfugl, haftyrðil og álku.

Veðurfar

breyta

Veðurfarslega má skipta Grænlandi í tvö svæði: strandsvæði og Grænlandsjökul. Jökullinn þekur um 80% landsins og er loftslag undir frostmarki þar allan ársins hring en meðalhæð hans er 2100 metrar. Strandsvæðin eru undir hafrænum áhrifum og er loftslag á Norður-Grænlandi í janúar aðeins mildara en í kanadíska eyjaklasanum sem er sunnar. Þar er þó meðalhitinn í janúar -25 til -30 gráður. Mildast er loftslagið á syðsta odda Grænlands og er hitametið þar tæp 25 stig. [33]

Í Nuuk sveiflast meðalhiti mánaða milli −8 til 7 °C.

Stjórnmál

breyta
 
Múte Bourup Egede er forsætisráðherra Grænlands.

Grænland er heimastjórnarsvæði innan konungsríkisins Danmerkur þar sem er þingbundin konungsstjórn og Friðrik 10. Danakonungur er þjóðhöfðingi. Heimastjórn Grænlands fer með framkvæmdavaldið í innri málefnum Grænlands. Forsætisráðherra Grænlands er stjórnarleiðtogi. Núverandi forsætisráðherra er Múte Bourup Egede. Grænlenska þingið, Inatsisartut, hefur 31 þingmann og kemur saman í einni deild.[34] Grænlendingar kjósa til sveitarstjórna, þingmenn á grænlenska þinginu og þingmenn á danska þinginu. Helstu stjórnmálaflokkar á Grænlandi eru sósíaldemókrataflokkurinn Siumut og sósíalistaflokkurinn Inuit Ataqatigiit. Báðir þessir flokkar hafa aukið sjálfræði Grænlands á stefnuskrá sinni. Aðrir minni flokkar eru Grænlenski demókrataflokkurinn sem er sambandssinnaður flokkur, og Inúítaflokkurinn sem vill fullan aðskilnað. Árið 2008 var haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem yfir 76% stuðningur var við aukið sjálfræði og heimastjórn.

Grænland er hluti af Danmörku. Danakonungur fer formlega með framkvæmdavaldið á Grænlandi og skipar umboðsmann sinn þar. Vald konungs er samt að mestu táknrænt í reynd þar sem í Danmörku ríkir þingræði. Núverandi umboðsmaður er Mikaela Engell. Grænland er kjördæmi innan danska ríkisins og kýs tvo fulltrúa á danska þinginu af 179. Árið 1985 kusu Grænlendingar að segja sig úr Evrópusambandinu þótt Danmörk væri áfram aðildarríki. Ástæðan var óánægja með sameiginlegu fiskveiðistefnuna. Flest Evrópulög gilda þannig ekki á Grænlandi nema þau sem snúa að viðskiptum. Grænland getur samt sótt um styrki í nokkrar af áætlunum sambandsins.[35][36]

Danmörk fer með landvarnir og strandgæslu á Grænlandi. Síríussveitin var stofnuð af grænlenskum sjálfboðaliðum árið 1941 til að tryggja yfirráð yfir Austur-Grænlandi og verjast tilraunum Þjóðverja til að koma þar upp veðurstöðvum í tengslum við kafbátahernað í Norðurhöfum. Sameinuð herstjórn norðurslóða var stofnuð innan danska hersins árið 2012 til að stýra landvörnum, eftirliti, björgunaraðgerðum og strandgæslu á Grænlandi og í Færeyjum.[37] Thule-herstöðin er í Thule-vík norðarlega á Vestur-Grænlandi og heyrir nú formlega undir Geimher Bandaríkjanna. Utanríkisstefna Grænlands er samstarfsverkefni heimastjórnarinnar og ríkisstjórnar Danmerkur. Aðeins tvö ríki reka ræðismannsskrifstofur í Nuuk, Ísland (frá 2013)[38] og Bandaríkin (frá 2020).[39][40][41]

Stjórnsýslueiningar

breyta

Með nýjum sveitarstjórnarlögum á Grænlandi 2009 (í kjölfar sveitarstjórnaumbótanna miklu í Danmörku 2007) var sveitarfélögum á Grænlandi fækkað úr 18 í 4. Einu þeirra, Qaasuitsup, var svo skipt í tvennt árið 2018. Norðausturhluti landsins er Þjóðgarður á Norðaustur-Grænlandi og heyrir ekki undir neitt sveitarfélag. Annað svæði utan sveitarfélaga er lítið land undir Thule-herstöðinni á Norðvestur-Grænlandi sem er umkringt sveitarfélaginu Avannaata.

Nafn Grænlenska Höfuðstaður Skjaldarmerki ISO[42] Íbúar Stærð (km2) Þéttleiki byggðar Kort
Avannaata Avannaata Kommunia Ilulissat   GL-AV 10.726[43] 522.700 0,02
 
Sveitarfélög Grænlands frá 2018.
Kujalleq Kommune Kujalleq Qaqortoq   GL-KU 6.439 32.000 0,2
Qeqertalik Kommune Qeqertalik Aasiaat   GL-QT 6.340[44] 62.400 0,11
Qeqqata Qeqqata Kommunia Sisimiut   GL-QE 9.378 115.500 0,08
Sermersooq Kommuneqarfik Sermersooq Nuuk   GL-SM 23.123 531.900 0,04

Efnahagslíf

breyta
 
Löndun á fiski í Ilulissat.

Grænland reiðir sig að meira og minna leyti á fiskveiðar sem eru yfir 90% af útflutningi landsins.[45] Rækju- og fiskvinnsla eru langsamlega tekjuhæstu atvinnugreinarnar.[46]

Á Grænlandi er mikið af verðmætum jarðefnum.[45] Vinnsla í rúbínnámum hófst árið 2007. Vinnsla á öðrum jarðefnum hefur smám saman orðið arðbærari eftir því sem verð hækka. Meðal jarðefna sem finnast á Grænlandi í vinnanlegu magni eru járn, úran, ál, nikkel, platína, tungsten og kopar. Grænlenska ríkið á olíufyrirtæki, Nunoil, sem vinnur að þróun olíuiðnaðar í landinu. Ríkisfyrirtækið Nunamineral var líka stofnað í kringum vinnslu á gulli 2007 og er skráð í kauphöllina í Kaupmannahöfn.

Rafmagn hefur venjulega verið framleitt með díselknúnum rafstöðvum, jafnvel þótt nóg sé til af vatnsafli. Fyrsta og stærsta vatnsaflsvirkjun Grænlands er Buksefjord-virkjun sem var sett í gang árið 1993. Hugmyndir um að reisa stórt álver sem knúið væri rafmagni frá vatnsaflsvirkjunum hafa verið í þróun. Áætlað er að mest af vinnuaflinu sem þarf til að reisa álverið og virkjunina yrði innflutt.[47]

Evrópusambandið hefur hvatt Grænland til að takmarka námavinnslu kínverskra fyrirtækja í landinu, en stjórn Grænlands tilkynnti árið 2013 að hún hygðist ekki setja neinar slíkar takmarkanir.[48]

Opinberi geirinn, þar á meðal opinber fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga, leikur stórt hlutverk í hagkerfi Grænlands. Um helmingur opinberra tekna eru styrkir frá Danmörku. Verg landsframleiðsla á mann er svipuð því sem gerist í Evrópu.

Grænland gekk í gegnum litla efnahagskreppu snemma á 10. áratug 20. aldar, en síðan þá hefur hagkerfið vaxið. Heimastjórnin á Grænlandi hefur rekið stranga skattastefnu sem hefur skapað umframtekjur hjá hinu opinbera og tryggt lága verðbólgu. Frá 1990 hefur verið viðskiptahalli á viðskiptum við útlönd, eftir að síðustu blý- og sinknámum landsins var lokað. Árið 2017 fundust nýjar rúbínnámur sem gætu orðið undirstaða fyrir frekari útflutning.[49] Árið 2017 var fyrirtækið AEX Gold stofnað af íslenskum, grænlenskum og dönskum fjárfestum til að stunda gullleit á Grænlandi.[50]

Íbúar

breyta

Íbúar Grænlands voru tæp 56.000 árið 2019 og langflestir Inúítar, upprunnir þaðan sem í dag er Kanada. Síðustu hópflutningarnir áttu sér stað um miðja 19. öld. Í höfuðstaðnum Nuuk á Vestur-Grænlandi býr margt fólk af evrópskum ættum.

Grænland er mjög strjálbýlt, en þar býr einn maður að meðaltali á hverja 0,14 ferkílómetra af íslausu landi. 91% íbúanna búa á Vestur-Grænlandi, 1,6% á Norður-Grænlandi og 6,3% á Austur-Grænlandi. Um 20% íbúanna eru fæddir utan Grænlands. 98% íbúanna eru Lútherstrúar og tilheyra dönsku þjóðkirkjunni.

Á Grænlandi bera margir þýsk ættarnöfn svo sem Fleischer, Kleist og Kreutzmann. Þau eru komin frá þýskum trúboðum sem störfuðu þar lengi og ýmist giftust innfæddum konum eða ættleiddu innfædd börn.

Menning

breyta
 
Grænlenskur veiðimaður á hefðbundnum kajak úr skinni árið 2006.
 
Grænlensk skólabörn í þjóðbúningum í Upernarvik árið 2007.

Menning Grænlendinga er blönduð menning frá Inúítum undir sterkum dönskum menningaráhrifum. Hefðbundin menning Inúíta er í grunninn hreinræktuð veiðimenning. Árið 2005 ritaði grænlenski menningarmálaráðherrann Henriette Rasmussen að Grænlendingar væru ekki einu sinni veiðimenn og safnarar, heldur aðeins veiðimenn.[51] Þrátt fyrir miklar takmarkanir á veiðinni síðustu áratugi vegna þrýstings frá náttúruverndarsamtökum og fækkunar í veiðistofnum, meðal annars vegna loftslagsbreytinga, er veiðin enn mjög mikilvægur hluti af menningu landsins. Eitt af mörgum einkennum veiðimenningar á Grænlandi eru veiðar með skutlum á litlum kajökum úr skinnum sem strengd eru á trégrind. Færni grænlenskra veiðimanna á þessum bátum hefur vakið athygli Evrópumanna frá fyrstu tíð og kajakróður barst þaðan til Evrópu sem íþrótt. Fyrsta sýningin á grænlenskum kajakróðri var haldin í Kaupmannahöfn árið 1605 af veiðimönnum sem dönsk hvalveiðiskip höfðu tekið höndum á Grænlandi.[52] Grænlenskir inúítar hafa notað hundasleða til ferða og flutninga, að minnsta kosti frá því Thule-fólkið fluttist þangað um árið 1000.[53] Anorak er hefðbundin grænlensk skinnflík sem varð vinsæl um allan heim á 20. öld í tengslum við útbreiðslu vetraríþrótta. Íslenska lopapeysan varð óbeint fyrir áhrifum frá grænlenskum þjóðbúningi kvenna með skrautlega perlukraga sem ná yfir axlirnar og voru innblástur að nýjum prjónamynstrum á fyrri hluta 20. aldar.[54]

Grænlendingar eiga sér langa sögu munnlegra hefða og sagnamennsku, auk myndlistar og handverks úr tré og beini, meðal annars túpilaka, lítil skrímsli skorin út úr beini sem sjamaninn gat sent óvinum til höfuðs. Þekktustu myndlistarmenn Grænlands frá 19. öld voru sagnamennirnir Aron frá Kangeq og Jens Kreutzmann sem gerðu myndir af sögulegum viðburðum og goðsögum Grænlendinga. Trommudans með skinntrommum er mikilvægur hluti af tónlistarhefð Grænlendinga, en önnur hljóðfæri eru líka notuð. Trommudansinn var aðferð til að leysa úr ágreiningsmálum og gat verið keppni milli tveggja dansara eða til að fara með gamanmál. Stundum voru stór snjóhús (Qaggi) reist sérstaklega fyrir trommudansinn. Þegar trúboð hófst á Grænlandi á 18. öld voru trommudansar bannaðir og íbúum kynntur fjölradda sálmasöngur. Á 20. öld hafa hljómsveitir á Grænlandi búið til sérstakar útgáfur af meðal annars polka, kántrítónlist og pönktónlist. Ein af fyrstu rokkhljómveitum Grænlands var Sumé sem var stofnuð árið 1972 af Malik Høegh sem líka stofnaði tónlistarútgáfuna ULO í Sisimiut. Aðrar þekktar hljómsveitir frá Grænlandi eru meðal annars Chilly Friday, Nuuk Posse, Nanook og Small Time Giants. Grænlenska ríkisútvarpið heitir Kalaallit Nunaata Radioa og er staðsett í Nuuk. Grænlenska tímaritið Atuagagdliutit hóf útgáfu árið 1861. Landsbókasafn Grænlands var stofnað 1956 og Þjóðminjasafn Grænlands var stofnað 1965. Bæði söfnin eru staðsett í Nuuk en urðu ekki opinber þjóðarsöfn fyrr en eftir að heimastjórn komst á 1979. Milli 1982 og 2001 áttu Þjóðminjasafn Grænlands og Þjóðminjasafn Danmerkur í samstarfi um skil á safngripum frá Danmörku til Grænlands.[55]

Tilvísanir

breyta
  1. „Sjálfstæði frá Dönum fyrir 2021“. 26. nóvember 2008.
  2. Folkeafstemningen om Selvstyre Geymt 20 janúar 2012 í Wayback Machine Nanoq, vefur heimastjórnarinar
  3. Store, P; Clarkson, Iain, ritstjórar (1992). Language Contact across the North Atlantic: Proceedings of the Working. Darmstadt: De Gruyter. bls. 135. ISBN 978-3-484-30359-1.
  4. „Eiríks saga rauða“. Snerpa.is. Sótt 12.10.2022.
  5. „Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru?“. Vísindavefurinn.
  6. Andrew Evans. „Is Iceland Really Green and Greenland Really Icy?“. National Geographic. Sótt 12.10.2022.
  7. A.B. Gotfredsen, T. Møbjerg (2004). „Nipisat - a Saqqaq Culture Site in Sisimiut, Central West Greenland“. Meddelelser om Grønland. 331. doi:10.26530/OAPEN_342365.
  8. Vitale, E., Rasmussen, J. A., Grønnow, B., Hansen, A. J., Meldgaard, M., & Feuerborn, T. R. (2023). „An ethnographic framework for identifying dog sledding in the archaeological record“. Journal of Archaeological Science. 159.
  9. Jordan, R. H. (1979). „Inugsuk revisited: An alternative view of Neo-Eskimo chronology and culture change in Greenland“. Thule Eskimo Culture: An Anthropological Retrospective. National Museum of Man Mercury Series. 88. árgangur. Archaeological Survey of Canada Paper. bls. 157.
  10. Guðmundur J. Guðmundsson (2004). „Grænland og umheimurinn: Norrænir menn á Grænlandi og samskipti þeirra við umheiminn fram til 1400“. Skírnir. 178: 59–82.
  11. Skúli Halldórsson (20.8.2019). „Þegar Íslendingar girntust Grænland“. mbl.is. Sótt 11.12.2022.
  12. McLeod, James. „N.L. indigenous leaders say Corte-Real statue is an insulting relic“. The Telegram. The Telegram. Sótt 14. júní 2020.
  13. Nebenzahl, Kenneth. Rand McNally Atlas of Columbus and The Great Discoveries (Rand McNally & Company: Genova; 1990); The Cantino Planisphere, Lisbon, 1502, pp. 34–37.
  14. David Beers Quinn (1997). „The Northwest Passage in Theory and Practice“. Í John Logan Allen (ritstjóri). North American Exploration. I. árgangur. U of Nebraska Press. bls. 311–312. ISBN 0-8032-1015-9.
  15. Jens Winther Johannesen. „Did a recently found bird spear belong to a kidnapped Greenlander?“. ScienceNordic. Sótt 2.12.2022.
  16. „Oliemaleri, 1654“. Nationalmuseets samlinger. Sótt 2.12.2022.
  17. Cranz, David & al. The History of Greenland: including an account of the mission carried on by the United Brethren in that country. Longman, 1820.
  18. Grete Rendal (Júlí 2014). „Forstanderskaberne i Grønland“. Dagens Grønland. Sótt 22.12.2022.
  19. Taagholt, J. (1991). „The early exploration of Greenland“. Earth Sciences History. 10 (2): 247–258.
  20. William Scoresby jr. (1828). Journal of a Voyage to the Northern Whale-fishery: Including Researches and Discoveries on the Eastern Coast of West Greenland, Made in the Summer of 1822, in the Ship Baffin of Liverpool. Edinburgh: Constable and Company.
  21. Axel Kjær Sørensen (20.12.2016). „Grønlands Landsråd“. Den store danske. Sótt 26.12.2022.
  22. Báru Grænlendinga á höndum sér Rúv, skoðað 17. janúar 2019.
  23. Skúli Halldórsson (20.8.2019). „Þegar Íslendingar girntust Grænland“. mbl.is. Sótt 26.12.2022.
  24. „Færingehavn“. emu - Danmarks læringsportal.
  25. Finnur Jónsson (1929). „Jón Dúason: Grønlands statsretslige stilling i middelalderen. Oslo 1928“. Nordisk Tidsskrift. 9 (6): 445–459.
  26. Ólafur Lárusson (1924). „Réttarstaða Grænlands að fornu“. Andvari. 1: 28–64.
  27. „The Sledge Patrol“. The Arctic Journal. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. mars 2017. Sótt 8. mars 2017.
  28. „Nokkrir stjórnarfarslegir atburðir úr sögu Grænlands“; grein úr Grænlandsvininum 1954
  29. Hvernig grannar erum við, tengsl Íslands og Grænlands Geymt 21 febrúar 2018 í Wayback Machine Fullveldi2018, skoðað 17. janúar 2019.
  30. „The Island of Greenland“. Hidden Journeys – explore the world from the air. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2014. Sótt 8. júlí 2014.
  31. „Demographic Yearbook – Table 3: Population by sex, rate of population increase, surface area, and density“ (PDF). United Nations Statistics Division. 2008. Afrit (PDF) af uppruna á 24. desember 2010. Sótt 24. september 2010.
  32. „Nær Grænland virkilega lengra til austurs en Ísland?“. Vísindavefurinn.
  33. [1] Rúv, skoðað 14. ágúst, 2017.
  34. „Inatsisartut“ (grænlenska). Inatsisartut.gl. Afrit af upprunalegu geymt þann 17 ágúst 2018. Sótt 29. desember 2020.
  35. „EU Relations with Greenland“. European Union. Afrit af uppruna á 9. júní 2011. Sótt 3. október 2020.
  36. „Overseas Countries and Territories (OCT)“. European Union. Afrit af uppruna á 13. ágúst 2011. Sótt 3. október 2020.
  37. „Denmark's military capacities in the Arctic Region, FOU Alm.del Bilag 138“ (PDF).
  38. „Um sendiskrifstofu“. Stjórnarráðið. Sótt 8.10.2022.
  39. Wingate, Sophie (11. júní 2020). „US opens a consulate in Greenland, a year after a bid to buy“. ArcticToday. Sótt 18. júlí 2020.
  40. McGwin, Kevin (10. janúar 2014). „Starting from scratch“. The Arctic Journal. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júlí 2014. Sótt 1. ágúst 2014.
  41. McGwin, Kevin (28. ágúst 2018). „Greenland names first representative to Iceland“. ArcticToday. Sótt 13. janúar 2020.
  42. ISO 3166-2:GL (ISO 3166-2-kóði)
  43. „Kommuni pillugu“. Avannaata Kommunia. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2021. Sótt 8. október 2022.
  44. „Kommuni pillugu“. Kommune Qeqertalik. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. febrúar 2021. Sótt 8. október 2022.
  45. 45,0 45,1 Walsh, Maurice (28. janúar 2017). 'You can't live in a museum': the battle for Greenland's uranium“. The Guardian. ISSN 0261-3077. Afrit af uppruna á 29. janúar 2017. Sótt 28. janúar 2017.
  46. „Greenland“. CIA World Factbook. Sótt 15. maí 2007.
  47. „Greenland's red hot labour market“. Nordic Labour Journal. 12. október 2011. Afrit af uppruna á 1. febrúar 2013. Sótt 10. febrúar 2013.
  48. Chinese Workers—in Greenland? Geymt 13 febrúar 2013 í Wayback Machine 10 February 2013 BusinessWeek.
  49. „Greenland Rubies: What We Know At This Point | National Jeweler“. www.nationaljeweler.com. Afrit af uppruna á 17. ágúst 2019. Sótt 17. ágúst 2019.
  50. „Gullleit á Grænlandi „langt umfram væntingar". Viðskiptablaðið. 4. apríl 2022. Sótt 4.10.2022.
  51. Henriette Rasmussen (2005). „Sustainable Greenland and Indigenous Ideals“ (PDF). The Earth Charter in Action: Towards a Sustainable World. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3. október 2022. Sótt 3. október 2022.
  52. Jens Winther Johannsen (16. júní 2012). „Jagtspyd sladrer om grønlandske massebortførsler“. Forskerzonen. Sótt 3.10.2022.
  53. Vitale, E.; og fleiri (2023). „An ethnographic framework for identifying dog sledding in the archaeological record“. Journal of Archaeological Science. 159. doi:10.1016/j.jas.2023.105856. ISSN 0305-4403.
  54. „Hvað er íslenska lopapeysan gömul og hver er uppruni hennar?“. Vísindavefurinn.
  55. Grønnow, B., & Jensen, E. L. (2008). „Utimut: repatriation and collaboration between Denmark and Greenland.“. Utimut: Past Heritage-Future Partnerships. Discussion on Repatriation in the 21st Century (PDF). bls. 180–191.

Tenglar

breyta

Greinar af Tímarit.is

breyta