Sauðnaut
Sauðnaut (moskusnaut eða desuxi) (fræðiheiti: Ovibos moschatus) eru heimskautadýr af ætt slíðurhyrninga. Þau einkennast af þykkum ullarfeldi. Sauðnaut er að finna á túndrusvæðum Grænlands, Kanada og Alaska. Þau hafa einnig verið flutt til Noregs, Svíþjóðar og til Wrangel-eyju í Síberíu. Á fyrri hluta 20. aldar voru gerðar tilraunir að flytja sauðnaut til Íslands en þær mistókust allar.
Sauðnaut | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Sauðnaut í varnarstöðu
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Ovibos moschatus Zimmermann (1780) |
Lýsing
breytaSauðnaut tilheyra undirættinni geitfé, Caprinae, og eru þess vegna skyldari geitum og sauðfé en nautgripum. Þau mynda þó eigin ættkvísl, Ovibos. Bæði kynin bera löng sveigð horn. Sauðnaut eru 2,5 m á lengd og um 1,4 m há á herðakamb. Fullorðnir tarfar eru sjaldan undir 200 kg á þyngd og iðulega yfir 400 kg. Feldurinn er mjög þykkur, úr svörtum, gráum og mórauðum hárum með yfirhárum sem dragast næstum með jörðu.
Að sumarlagi halda sauðnautin sig oftast á rökum svæðum, gjarna mýrarsvæðum í dalbotnum. Þau leita til fjalla að vetrarlagi þar sem er minni snjódýpt. Sauðnaut eru jórturdýr með fjóra maga. Þau eru jurtaætur og bíta grös, starir, lyng, birki, víði og blómplöntur. Þau krafsa í gegnum snjóinn á veturna í fæðuleit.
Sauðnaut eru mjög félagslynd og lifa í hjörðum oftast með um 10 til 20 dýrum en einstaka sinnum allt upp í 400. Í vetrarhjörðunum eru bæði kyn og dýrin á öllum aldri. Á fengitímanum, seinnipart sumars, berjast tarfarnir um kýrnar og sá sterkasti rekur hina á braut. Þeir mynda oft hjarðir með 3 til 10 törfum fram á haust. Á meðan á fengitímanum stendur eru tarfarnir mjög árásargjarnir.
Kýrnar ná kynþroska tvævetrar en tarfarnir fimm. Meðganga er átta til níu mánuðir. Kálfurinn er á spena í um það bil eitt ár þó svo að hann geti farið að narta í gras viku eftir burð.
Sauðnaut verjast á sérstakan hátt. Ef hjörðin verður fyrir áreitni safnast fullvaxnir tarfar og kýr í hring og hafa kálfana inni í hringnum. Þetta veitir góða vörn gegn rándýrum, t.d. úlfum, en gerir þau að auðveldri bráð fyrir veiðimenn.
Útbreiðsla
breytaSauðnaut eru eiginleg ísaldardýr og eiga upphaf að rekja til norðurhluta Asíu fyrir hátt í miljón árum síðan. Þau hurfu hins vegar frá meginlandi Asíu fyrir um það bil 4000 árum, síðasta búsvæði þeirra þar var á Tajmyr-skaga í Síberíu. Yngstu menjar um sauðnaut utan Norður-Ameríku eru frá Wrangel-eyju og eru þær um 2000 ára gamlar (nefna má að þar og frá sama tíma er einnig að finna yngstu ummerki eftir mammúta í heiminum). Sauðnaut fluttu sig yfir Beringssund til Norður-Ameríku fyrir 90.000 árum síðan (það er þó umdeilt, ágiskanir eru allt frá 500.000 til 30.000).
Á seinni öldum hafa sauðnaut lifað villt á nyrstu svæðum Kanada, Grænlands og Alaska. Sauðnautum var útrýmt í Alaska um aldamótin 1900 en þau hafa verið flutt þangað á ný eftir það. Á síðustu öld var sauðnautum sleppt á mörgum stöðum á norðurhvelinu og hafa hjarðirnar yfirleitt dafnað vel. Má þar nefna vesturhluta Grænlands (sauðnaut lifðu upphaflega einungis á norður- og norðausturhluta Grænlands), Rússland, Austur-Kanada og til Noregs og Svíþjóðar. Sauðnaut voru í mikilli útrýmingarhættu á fyrrihluta 20. aldar en hafa náð sér vel á strik síðan. Áætlað var 1999 að stofninn væri milli 65.000 og 85.000 dýr, þar af um það bil tveir þriðju hlutar á Banks-eyju í Kanada.
Sauðnaut á Íslandi
breytaReynt var að flytja sauðnaut til Íslands árið 1929 og aftur 1931. Raunar segir Ársæll Árnason í grein í Náttúrufræðingnum árið 1933 að norskir veiðimenn hafi áður þrívegis sett sauðnaut á land á Íslandi en aðeins um stundarsakir. En árið 1929 fór vélbáturinn Gotta til Grænlands, gagngert til að sækja sauðnaut, enda hafði Ársæll fengið til þess styrk frá Alþingi og kom með sjö kálfa. Sex þeirra drápust fljótlega en einn lifði til vors 1931 en drapst þá úr sullaveiki.
Árið 1931 voru fluttir hingað sjö kálfar í viðbót en þeir komu frá Noregi, þar sem sauðnaut höfðu þá verið um tíma. Þeir lifðu af veturinn en drápust flestir um vorið. Eitt dýrið lifði þó til hausts. Ekki er víst hvað varð flestum sauðnautunum að aldurtila en sumir töldu að einhæft fóður í Gunnarsholti, þar sem dýrin voru höfð, hefði átt þátt í dauða þeirra.
Þegar sauðnautakálfar voru sóttir til Grænlands árið 1929 voru mörg fullorðin sauðnaut drepin til að ná í kálfana. Var sauðnautadráp Íslendinga til umræðu í eldhúsdagsumræðum í danska þinginu og þar rætt um nauðsyn á friðun sauðnauta.[1]
Á síðari árum hafa oft komið upp hugmyndir um að flytja sauðnaut til Íslands en af því hefur þó aldrei orðið.
Heimildir
breyta- Caprinae Specialist Group (1996). Ovibos moschatus. Geymt 11 mars 2007 í Wayback Machine
- Wildlife Management Advisory Council (North Slope) fact sheet Geymt 1 nóvember 2004 í Wayback Machine
- Hinterland Who's Who ISBN 0-660-13637-6 Geymt 25 september 2004 í Wayback Machine
- Science Daily
- Cambridge Journals Abstract Geymt 2 nóvember 2007 í Wayback Machine
- Search for the Legendary White Musk-ox Geymt 25 september 2013 í Wayback Machine
- „Nýjustu landnemarnir. III. Sauðnaut. Náttúrufræðingurinn, 11.-12. tbl.1933“.
Tenglar
breyta- „Hafa sauðnaut verið flutt til Íslands?“. Vísindavefurinn.
- Á sauðnautaveiðum á Grænlandi; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1979
- Hægt að tyggja sauðnaut með augnlokunum; grein í Morgunblaðinu 1984
- Sauðnaut á Austurvelli árið 1929 (ljósmynd e. Jóhann Ingiberg Jóhannsson)
- Sauðnaut á Austurvelli 1929 (sarpur.is óþekktur ljósmyndari)
Erlendir tenglar
- Ellis, E. Ovibos moschatus.
- Robert G. White Large Animal Research Station Geymt 13 febrúar 2007 í Wayback Machine at the University of Alaska Fairbanks]
- Alaska Zoo Geymt 3 apríl 2007 í Wayback Machine
- Jork Meyer, "Sex ratio in muskox skulls (Ovibos moschatus) found at East Greenland" (Geschlechterverhältnis bei Schädeln des Moschusochsen (Ovibos moschatus) in Ostgrönland) Geymt 11 maí 2005 í Wayback Machine Beiträge zur Jagd- und Wildtierforschung 29 (2004): 187-192.