William Scoresby
William Scoresby (5. október 1789 – 21. mars 1857) var enskur hvalveiðimaður, landkönnuður, vísindamaður og prestur sem er þekktastur fyrir að hafa fyrstur manna kortlagt Scoresby-sund á Austur-Grænlandi, sem síðan ber nafn hans. Faðir hans og alnafni, William Scoresby eldri (1760–1829), var þekktur hvalveiðimaður og er sagður hafa fundið upp varðtunnuna. Sonur hans fór í fyrstu ferðina með honum 11 ára gamall, en lauk svo skóla og hóf feril sem stýrimaður á skipi föður síns, Resolution, árið 1806 og tók við sem skipstjóri árið 1811. Hann stundaði ötullega vísindarannsóknir á hvalveiðiferðum sínum um Norðurslóðir og skrifaðist á við Joseph Banks. Hann uppgötvaði til dæmis að pólsjórinn væri mun hlýrri á miklu dýpi en á yfirborðinu. Árin 1820 til 1822 sigldi hann á skipinu Fame ásamt skipinu Baffin (undir stjórn George Manby) til Austur-Grænlands sem hann kortlagði með meiri nákvæmni en nokkur hafði áður gert. Mælingar hans komu út í ritinu Journal of a Voyage to the Northern Whale Fishery, including Researches and Discoveries on the Eastern Coast of Greenland árið 1823.
Árið 1834 lauk hann bakkalárgráðu í guðfræði frá Cambridge-háskóla og fékk stöðu sem prestur í Bradford í Yorkshire árið 1839. Hann var þrígiftur. Eftir þriðju giftinguna 1849 reisti hann sér stórhýsi í Torquay í Devon þar sem hann bjó til dauðadags.