Aðalvík
Aðalvík er um 7 km breið vík yst (vestast) á Hornstrandakjálkanum. Þar voru forðum sjávarþorpin Látrar (120 íbúar 1920) og Sæból (80 íbúar 1900) en byggðin fór í eyði um miðja 20. öld. Síðustu ábúendur fluttu frá Látrum og Sæbóli 1952. Yfirleit er talað um Sæból vestast, Miðvík og Látra austast. Á fjallinu Darra ofan við Aðalvík reistu Bretar herstöð sem enn má sjá leifar af, m.a. loftvarnarbyssu, byggingar og veg. Vestan við Látra á Straumnesfjalli ráku Bandaríkjamenn radarstöð í nokkur ár á sjötta áratugnum sem enn má sjá leifar af. Þá var líka byggður flugvöllur innan við þorpið. Þoka mun hafa hamlað því að hermenn kæmust að landi á Hornströndum. Jakobína Sigurðardóttir orti kvæðið Hugsað til Hornstranda gegn hernaðarbrölti þar:
- Víða liggja „Verndaranna“ brautir.
- Vart mun sagt um þá,
- að þeir hafi óttast mennskar þrautir,
- eða hvarflað frá,
- þótt þeim enga auðnu muni hyggja
- Íslandströllin forn,
- Mér er sagt þeir ætli að endurbyggja
- Aðalvík og Horn.
Seinna orti Jakobína annað ljóð „Hvort var þá hlegið í Hamri?“ þar sem hún lýsir þokunni sem gjörningaþoku vætta.[1] Mörgum húsanna í Aðalvík er haldið við af eigendum og þar er nokkur sumarbyggð.
Tilvísanir
breytaTenglar
breyta- Um Aðalvík á Vestfjarðavefnum
- Aðalvík; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1945
- Dansað við yzta haf; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1989
- Allt í lagi í Aðalvík; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1989
- Aðalvík og Slétta Geymt 28 ágúst 2017 í Wayback Machine
- Heimildarmynd um Aðalvík 1996 á Youtube, sótt 16. desember 2024